Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Fimmtudagur, 26. apríl 2007
Kynþroskastopp í Súðavík - bæjarstjórnin fundar um málið.
Ég fékk ákaflega skemmtilega heimsókn sl. mánudag - Inga Lind hjá Stöð 2 og myndatökumaður komu Vestur til að fjalla um jákvæða hluti eins og þau orðuðu það - og báðu mig að koma í viðtal. Við skruppum yfir í Álftafjörð - Súðavík og hittum þar fyrir kallana sem þar starfa. Fremstur í flokki góðra manna fer Barði Ingibjartsson - einstakur maður. Þar eru líka Beggi og Eiríkur - menn sem handmoka nokkrum tonnum af þurrfóðri í kjaftinn á svöngum þorskum - á hverjum degi. Mér líður alltaf eins og skrifstofublók þegar ég hitti þessa kalla - hressir og skrafhreyfnir. Og að öðrum ólöstuðum þá er Eiríkur auðvitað kvennagullið í hópnum - það fer ekki á milli mála. Enda tók kallinn kipp þegar Inga Lind birtist brosandi á bryggjunni - og hjartað sló líklegast nokkur auka slög. En við Barði fórum bara tveir með tíví-tíminu út á kvíar - vorum kóngar um stund - horfðum glottandi í land.
En það sem var auðvitað skemmtilegast við þessa heimsókn var hve gaman þau höfðu af því að koma út í kvíar - sjá hvernig þetta er og vera í nálægð við náttúruna. Fjöllin eru nefnilega svo ótrúlega nálægt - gnæfa yfir manni þegar maður stendur um borð í bát á miðjum firðinum - ótrúleg fegurð - náttúrulega hrikaleg.
Og ég verð að segja að þeim tókst vel upp með þetta innslag í Ísland í dag - skemmtileg myndataka - í skemmtilegu umhverfi - meira að segja magavöðvarnir á mér sáust í gegnum gallann - komu út svona eins og smá ístra. Já myndavélin platar - og þorskarnir sem sáust á mynd og virtust vera kíló eða stærri - voru auðvitað bara 20 grömm - myndavélin stækkar allt svo mikið - eins og sást best á undirhökunni og ístrunni á mér - sem auðvitað eru ekki til staðar. Gríski guðinn er nefnilega helköttaður - klár í 20 ára stúdentspartíið.
En okkur hefur tekist að stöðva kynþroskann hjá þorskinum - með þessari nýju ljósatækni. Að vísu hafa Súðvíkingar áhyggjur af því að við bremsum kynþroskann hjá mannfólkinu líka - að engin fjölgun verði í samfélaginu fyrir Vestan. Tja við verðum að sjá til.....;) en auðvitað er það svo að ef við stoppum kynþroskann hjá unglingunum þá losnum við væntanlega við unglingavandamálin.....eða....?
Fimmtudagur, 26. apríl 2007
Pólítísk útfararstofa - Framsóknarflokkurinn. Með svo marga á spena að flokkurinn þarf hátækni "mjaltarþjón"
Og þetta korteri fyrir kosningar. Var ekki nóg að bóndasonurinn úr Eyjafjarðarsveitinni væri sendur heim aftur eftir að vera á spena í 12 ár og Kópavogspúkinn tæki við - Framsóknarflokkurinn er svo stórtækur að halda mætti að þeir væru með "mjaltarþjón".
Nefndarmenn hafi tekið fram að þeim hafi verið ókunnugt um tengsl Jónínu og umsækjandans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 25. apríl 2007
Hvalur og hvalur - Japan eða Ísland - gerir fólk greinarmun?
Í ljósi endalausrar umræðu um hvort við Íslendingar eigum að veiða hvali þá langar mig að fjalla um aðra sýn á málið - sýn sem skiptir í mínum huga mjög miklu - og það er sú sýn sem fólk hefur á hvalveiðum - hvort fólk almennt geri greinarmun á hvölum í útrýmingarhættu og þeim sem ekki eru í útrýmingarhættu - eða hverjir það eru sem veiða hvali.
Þetta er nefnilega svo flókið að fólk setur hvalveiðar, sama hvaða hvali er verið að veiða og veiðiþjóðirnar allar saman undir einn hatt. Og þar liggur rót vandans - vanda sem getur haft gríðarlega neikvæðar afleiðingar fyrir okkur Íslendinga - ef við veiðum hvali - nokkuð sem við eigum auðvitað fullan rétt á að gera.
En vandamálið felst í því að fólki er allveg sama - hvalur er hvalur og hvalveiðiþjóðir eru morðingjar - eða því sem næst.
En hvað eru neikvæðar hvalveiðar - hvað er það sem fólk þolir ílla? Tja það er margt - og líklega eru höfrungaveiðar Japana ofarlega á listanum. Japanski veiðimenn veiða um 40.000 mismunandi tegundir höfrunga á ári (skv. WWF). Alþjóða hvalveiðiráðið, dýralæknar og dýragarðseigendur um allan heim hafa mótmælt veiðiaðferðum Japana - sem þeir segja vera vægast sagt ómannúðlega - en Japanir segja þá nota sömu aðferðir og þeir hafi ávalt notað - gamlar hefðir og sem eru hluti af þjóðareinkenni - kúltur - Japan. Ennfremur skipti þetta veiðisamfélög í Japan öllu máli - annars muni þau leggjast af - deyja út.
En hvað hefur þetta að segja í nútíma heimi - þar sem hægt er að setja allt á netið - satt og ósatt - stælt eða stolið - og nú er semsagt komin mynd á Youtube sem hefur leitt til þess að yfir milljón undirskriftir hafa safnast - stoppum slátrun höfrunganna í Japan - með öllum ráðum - segja mótmælendur (listann er að finna á http://www.petitiononline.com).
Umrædd mynd á Youtube sýnir hvernig hjálparlausir höfrungar eru reknir inná grunna vík og drepnir - stungnir til bana með spjótum. Þetta er gert í miklum hamagangi og sjórinn er blóðlitaður- sundraðar slagæðar og opin svöðusár - ekki falleg sjón - bönnuð yngri en sextán. Menn spyrja: "er þetta ekki slæm meðferð á dýrum" - og hvers vegna eru Japanir að drepa höfrunga yfir höfuð?
Ekki er það markmið mitt með þessum pistli að ræða réttmæti veiða þeirra Japana - en ég vil með þessu benda á við hvað við glímum - við þessi litla þjóð úti í ballarhafi sem erum svo mjög háð því að geta flutt út fiskinn okkar. Varla förum við aftur í sjálfsþurftarbúskaps formið - nje.
Við erum að glíma við almenningsálitið - sem er óvægið og beinskeitt - og gerir ekki greinarmun á sjálfbærri veiði og útrýmingarveiði. Það þekkjum við sjálf - enda hafa samtök líkt og Sæhirðirinn og Grænfriðúngar heimsótt okkur. Félagsskapur sem hefur lifibrauð sitt af því að fólk geri ekki greinarmun - með boðskapinn: "hvalur er hvalur - sama hvað hann heitir - og allir eru þeir að deyja út".
Þetta er málið - sjálfbærar veiðar eru aukaatriði - enda er sjálfbærni bara orð sem menn taka sér í munn á hátíðisdögum.
Við ættum því að hætta að hugsa um hvalveiðar - ekki af því að við megum ekki veiða hval - nei bara vegna þess að við höfum ekki fjárhagslegt bolmagn til að veiða hval.
Þriðjudagur, 24. apríl 2007
T-Rex er ekkert annað en ótýnd haughæna - og við erum 93% hlutar Apar!
Nú er þetta nánast klárt - vísindamenn við Harvard og Beth Israel læknaskólunum eru búnir að komast að því að T-Rex og hvað þessar risaeðlur hétu nú allar eru bara venjulegar haughænur. Að vísu er þetta náttúrlega miklu fræðilegra - en þetta er samt niðurstaðan. Þeir náðu sem sagt að sjúga smá próteinbút úr T-Rex beini og skoða hvernig það er samsett - og niðurstaðan er sláandi - Kjúlli !!
Ef ég væri bóndi og ætti svona skaðræðisskepnu eins og ég er sannfærður um að hænurnar eru þá myndi ég setja þær í búr - alveg um leið - enda kom það í ljós að þessi T-Rex er stórhættulegt kvikindi - drepur sér til stakrar ánægu - eða eins og þeir fjölluðu svo skemtilega um í heimildarmyndinni "júrasík park" en þar var bent á hættuna - sérstaklega þegar T-Rex á heima á eyju - og þar sem skrítnir vísindamenn starfa við gena rannsóknir....halló! - þetta hringir nú bjöllu.....díkód-ísland-Kári Stefáns... tja nú er maður fyrst smeykur. Í búrin með þessar svokölluðu lausagönguhænur - sem náttúrlega eru að plata okkur líkt og í bíómyndinni.
Og hafi þið ekki tekið eftir hvað kjúklingalærin eru alltaf að stækka - að vísu bringurnar líka en það er bara út af vatninu sem er sprautað í þær. Já það er ekki salmonellan sem drepur okkur - neibb það eru Chicken-Rex.....C-Rex. Og auðvitað koma hænurnar fyrst til mín - ég er búinn að predíka um að hætta þessari kjúklingarækt á íslandi - flytja þetta bara inn frosið - í það minnsta dautt.....dísús.
http://www.bidmc.harvard.edu/?node_id=1000&mainFrameSrc=/tools/newsnow/pr_out.asp?pr_id=1563
Og ef þetta er ekki nóg - þá er búið að raðgreina apa genómið - og við erum 93% alveg eins! Jæja, hvað segir Gunnar í Krossinum við þessu.... maður bara spyr?!
Þriðjudagur, 24. apríl 2007
Afsökunarbeiðni til bænda - sauðfjárbænda.
Ég fékk athugasemd frá Finni nokkrum Ólafssyni - sem ég get ekki líst frekar enda notar hann ekki mynd með kommentinu sínu.
En hvað um það. Mér þykir óskaplega vænt um íslenska bændur - dugnaðarfólk sem þrátt fyrir erfitt rekstrarumhverfi heldur sínu striki - og þar fara sauðfjárbændur í fararbroddi. Og ég þekki nokkra slíka - sem ég kalla vini mína. Sumir eiga dágóðan bústofn og nefni ég Jóa vin minn á Hanhól í því sambandi - svo eru aðrir sem líklegast verður að kalla stórbændur, og þar fer fremstur meðal jafningja vinur minn og nýútskrifaður doktor - Jóhannes Sveinbjörnsson. Reyndar skrifaði sauðfjárbóndinn Jóhannes doktorsritgerð um "beljuna" Karólínu.
Ég semsagt biðst afsökunar á móðgun þeirri er Strandamaðurinn Finnur les úr fyrri pistli mínum. Aðeins grunnhyggnir menn styggja ramm göldrótta Strandamenn - ég vona að ég sé ekki í þeim hópi.
Þriðjudagur, 24. apríl 2007
Olíuhreinsistöð - túristar á Hornströndum - vandamál með úrgang? Hvað segja umhverfisstjórnunarfræðingarnir um það?
Ég las grein Stefáns á Strandir.is - og vitnað er í þessa grein bæði á BB.is og mbl.is
Það sem vekur mann til umhugsunar er hvers vegna Stefán kýs að birta þessa grein á Strandir.is - var hann beðinn um það eða er þetta bara innlegg Stefáns í umræðuna? En hvað um það - mín skoðun hefur verið sú að skoða málið faglega en sleppa pólitíkinni - og fá til þess óháða aðila. Líklegast er Stefán það - nema náttúrlega að fyrirfram sé ákveðið að niðurstaðan á ekki að vera "stóriðja" og olíuhreinsun "hljóti" að vera stóriðja.
Það er ekkert mál að skrifa heimildaritgerð um hættur olíuhreinsistöðva - og reyndar um hættur á heimilum ef því er að skipta - enda er líklegt að slysin séu fleiri í eldhúsinu en fólk grunar! Það er meira að segja að hægt með venslagreiningu að komast að því að þeir sem aka um á fólksbíl af ákveðinni gerð séu líklegri til að fá sykursýki tvö!! Og það kom reyndar í ljós í fréttunum í gær að alþjóða heilbrigðisstofnunin segir að mesti vágesturinn séu umferðarslys - olían kom þar hvergi til umræðu.
EN - rétt er auðvitað að við erum að tala um bein og óbein áhrif á umhverfið en langsótt er að tengja við krabbamein og reyndar ákaflega ófaglegt af Stefáni - svona hræðsluáróðurstækni og því er auðvitað asnalegt að vitna í sænskan útvarpsþátt um olíuhreinsistöð í Lysekil - þeim fallega stað. Við munum jú eftir kvikmyndinni "Civil Action" - þar sem ílla tókst að sanna mengun á fyrirtæki sem þó hafði mengað drykkjarvatn nálægs bæjarfélags með þeim afleiðingum að fjöldi fékk hvítblæði - kannski er Lysekil í sömu sporum - ekki veit ég það og ekki veit Stefán það.
Málið er að framkvæma alvöru úttekt - og ekki sleppa nýjustu og "umhverfisvænustu" olíuhreinsistöðvunum úr - líkt og Stefán gerir því miður - og meina ég þá Mongstad í Noregi.
Náttúran á það skilið og við eigum það skilið - þ.e. ef áhugi er fyrir að byggja fallega og hreina Vestfirði um ókomna framtíð - því að það kemur "olíuhreinsistöð" eftir þessa - svo mikið er víst.
Ps. ég hefði áhuga á að fá Stefán til að segja mér frá hve mikil umhverfismengun er frá túristum á Hornströndum - þar eru jú engin klósett - hvert fer úrgangurinn? tja ég spyr!
Olíuhreinsistöð í Dýrafirði stangast á við stefnu Fjórðungsþings Vestfirðinga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 22. apríl 2007
Til hvers að vera að halda hátíðlegan "sumardaginn fyrsta" - ein þjóða í Evrópu!! BRANDARI segi ég.
Það er allveg ótrúlegt að lesa frétt af þessu tagi án þess að nota upphrópunarmerki til staðfestingar mikillar undrunar - því að auðvitað nær það engri átt að maður skuli ekki geta ferðast um sama landshlutann allt árið um kring. Ekki veit ég hvernig Lalli læknir ætlar til Patró í dag - líklegast á jeppa-vélsléða-trillu líkt og síðast - já það er eins gott að hún Birna kona hans er í framboði fyrir Sjálfstæðismenn og kippir þessu í "liðinn" - svo notað sé læknamál.
Nú er kominn tími til að tengja. Ég á von á vísindamönnum frá 3 Evrópulöndum í næstu viku og meiningin er hafa fund um Evrópuverkefni sem við vinnum að og er stýrt héðan - ræða mjög mikilvægar niðurstöður sem eiga eftir geta aukið möguleika á arðbæru þorskeldi. Ég ætlaði svo að keyra suður í Brjánslæk og taka ferjuna yfir til Stykkilshólms og aka þaðan til Reykjavíkur að fundi loknum - bara svona til að monta mig af Íslandi - hrikalegri fegurð lands og þjóðar - EN VERRA ER EF VIÐ SITJUM SVO FÖST UPPI Á HEIÐI - EKKI NEINNI ÁKVEÐINNI HEIÐI - HELDUR VIRÐIST MAÐUR GETA VALIÐ ÚR HÉR FYRIR VESTAN - FLESTAR HEIÐAR ERU NEFNILEGA ÓFÆRAR FLESTA MÁNUÐI ÁRSINS - JÁ Á ÞVÍ HERRANS ÁRI 2007.
Þetta er til skammar - ég finn því miður ekkert annað orð yfir þetta.
Og nú bíð ég auðvitað eftir öllum kommentunum frá "hinum flokkunum" sem ætla svo sannarlega að laga þetta....;)
Ófært um Dynjandisheiði og Hrafnseyrarheiði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 21. apríl 2007
Evrópusambandið - er það eitthvað ofan á brauð?
Ég sat opinn fund á Hótel Ísafirði í hádeginu í dag sem boðaður var af Evrópusamtökunum og Heimssýn - um Evrópumálefni. Tveir karlar héldu hvor um sig stuttar ræður - annar með inngöngu í EB og hét sá Þorvaldur Gylfason og hinn karlinn, Ragnar Arnalds, var á móti aðild. Karlarnir voru gamlar kempur - annar eldri en hinn og bar það með sér í föðurlegum umhyggjusömum tón - hafði miklar áhyggjur af því ef unga fólkið í dag færi nú að finna upp á þeirri vitleysu að ganga í Evrópusambandið - hafði setið í nefndum og ráðum - þekkti til í Brussel og vissi að þetta væri nú ekkert fyrir landann - nei við ættum heimi í liði með Norðmönnum - af því að við værum svo miklar þorskveiðiþjóðir. Sá yngri var vígreifur og vitnaði í afa sinn sem barðist fyrir byggingu sjúkrahúss á Ísafirði - lék þann gamla snilldarvel þegar hann las bút úr 70 ára gamalli ræðu karlsins þar sem hann þrumaði yfir Ísfirðingum af svölum gamla sjúkrahússins. Það gustaði af Þorvaldi - talaði af djúpri sannfæringu um ágæti sambandsins í Evrópu - og taldi Íslendingum hollast að taka þátt - svona líkt og ungu fólki sem lifði í synd - ætti að gifta sig hið snarasta - enda væri það ekki það sama og að missa sjálfstæði sitt - nei maður fengi bara partner sem taka þyrfti tillit til.
En um hvað snýst þetta allt saman - hvað er það sem við Íslendingar erum hræddir við? Ég held að svarið sé ákaflega einfalt - óvissuna. Við Íslendingar erum nefnilega bara lítil eyþjóð með lítið hjarta sem slær taktfast í heimahaganum og þolir illa ytri áreiti - svo sem óþarfa stress um að stóru þjóðirnar ætli að taka af okkur allt sem við eigum. Þetta þjóðareinkenni kemur svo vel fram í íþróttunum - erum svo fáir en baráttuglaðir en af einhverjum ástæðum Þurfum við alltaf að vera minni máttar og eiga á brattann að sækja. Það erum við - Íslendingarnir - ÍSLENDINGURINN - fáir í raun en margra manna maki miðað "við höfðatölu".
Og af þessu er umræðan lituð - djarfir vilja sumir taka þátt í að móta stefnu Evrópusambandsins en sjálfskipaðir "besservissar" segja neineinei seiseinei - og rökin eru ævinlega "viljið þið missa tögl og hagldir á Íslandi - bæði á landi og á miðum" - og maður spyr sig - hverjir eru þessir aðilar í raun - getur verið að hér sé um óþægilega hagsmuna árekstra að ræða - getur verið að það henti ákveðnum aðilum ekki að við tökum þátt í alvöru evrópsku samfélagi? tja ekki veit ég. En þetta þarf að koma fram í dagsljósið - nema að ástæðurnar séu "ljósfælnar".
Og ég tel óráðlegt að bíða - við erum búin að bíða nógu lengi. Ástæðan er nefnilega sú að við vitum ekkert hvað við missum og eina leiðin til þess er að sækja um inngöngu í Evrópusambandið - líkt og meirihluti þjóðarinnar vill samkvæmt skoðanakönnunum - bæði hægrisinnaðir og miðjumenn. Auðvitað eru Vinstir menn á móti - enda er það þeirra hlutverk að vera á móti - þó þeir hafi auðvitað ekki hugmynd um hvað það er sem þeir eru hræddir við - það er bara eitthvað svo "á mótilegt" við Evrópusambandið.
En samt erum við alltaf tilbúin til að sækja pening og styrki til Brussel og staðreyndin er sú að Evrópusambandið heldur gangandi fjölda rannsóknaverkefna á Íslandi - sem síðan skilar sér í þekkingu og framþróun lands og þjóðar.
Ég verð því að segja að mér er sama hvar í flokki menn standa - aðild að Evrópusambandinu hlýtur að vera nokkuð sem við Íslendingar þurfum að skoða mjög fljótlega - og þær upplýsingar sem við þurfum á að halda fáum við ekki nema að sækja um aðild - hefja viðræður og umræður - kanna hverju við þurfum að fórna og um hvað við getum samið. Að öðrum kosti er valdið ekki hjá okkur - valdið að taka ákvörðun um hvað hentar og passar íslensku þjóðinni - við getum ekki bara staðið í stað og horft á úr fjarska - Ísland er hluti af Evrópu og okkur ber skylda til að láta til okkar taka í sambýli við aðrar þjóðir - það gerum við ekki með því að Halldór Ásgrímsson eða aðrir álíka setjist í "ráð og nefndir".
það er mín skoðun.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.4.2007 kl. 12:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Laugardagur, 21. apríl 2007
NEITANDINN - VELTUM ÍSLENSKU ORMUNUM AF GULLINU.
Hér fyrir ofan eru myndir sem sýa verðþróun á plasmaskjám sl. ár í Svíðþjóð og 50" sjónvarp - báðar myndir teknar af vefnum http://www.prisjakt.nu/produkt.php?pu=93840 - og ég spyr: ER ÞETTA ÞRÓUNIN Á ÍSLANDI? Og plasmaskjárinn sem myndin til hægri er af 50" plasma sjónvarpi sem er til sölu á "ótrúlegu tilboðsverði" hjá ORMSSON (heilsíðu auglýsing í mogganum í gær) á aðeins krónur 299.900 (á íslensku: þrjúhundruð þúsund). Þetta sama tegund af skjá kostar í Svíþjóð 17.900 sænskar krónur (á íslensku: hundrað og sjötíuþúsund). En til að kóróna þetta þá tala þeir Ormssynir um að "LISTAVERÐ" sé 449.900 krónur íslenskar (á íslensku: fjögurhundruð og fimmtíuþúsund). Dýrasta verð sem ég fann í Svíþjóð á þessari tegund sjónvarps var sambærilegt "tilboðsverði" þeirra Ormssona.
Já það er verið að gera grín að okkur blessuðum - en Svíar þeir kvarta sáran yfir þessu verði sem þeim er boðið - sérstaklega vegna þess að verð í Bretlandi er allt að 20% lægra á þessum vörum en í Svíþjóð - kann því miður ekki að reikna öll hundruð prósentin sem munar þá væntanlega á vörunum þega þær eru komnar til Íslands.
En eigum við ekki bara að skrifa þetta á fluttningskostnað og norðankalda - Hvernig í ósköpunum á ég að fá að kaupa svona dót? Það er ekki konan mín sem ræður því - það eru Ormssynirnir allir á Íslandi - sama hvað þeir heita - og þess vegna ætla ég að hætta að nöldra í konunni.
Að vísu reyndi konan mín ansi sniðugt trix á mig hér um daginn - Við vorum að horfa á okkar gamla sjónvarp og í auglýsingahléi var verið að auglýsa flatskjái á tilboði - hún benti á einn og sagði: "hva.. sjáðu Tolli minn það er bara ekkert betri mynd í þessum skjá en fína sjónvarpinu okkar"..... það tók mig viku að fatta þetta. Nei, dagar einfeldni og auðtrúar eru liðnir - nú segi ég NEI TAKK!!
Lifi NEITENDUR.
Föstudagur, 20. apríl 2007
Buhuuuu heyrist úr Austfjarðarþokunni - setjum Hjörleif í umhverfismat - gefum svo olíuhreinsistöðvarumræðunni frí!
Flestir hafa skoðanir - reyndar sagði hinn mæti maður "dörtí Harrí: opinions are like assholes - everybody seems to have one..." - ekki orð um það meir. Auðvitað er ekkert að því að hafa skoðanir - en að þurfa að skrifa grein (visir.is í dag) sem fjallar um skýrslu Sólnes sem skrifuð var fyrir um 10 árum síðan og fjallar um mengun - og heimfæra það uppá staðreyndir dagsins í dag og vera svo hissa á því að ekki sé vitnað í þessa skýrslu í umræðunni um - já lesið nú: HUGSANLEGA - MÖGULEGA - PÆLINGAR UM OG KANNSKI - olíuhreinsistöð á Vestfjörðum er náttúrlega brandari. Ekki ósvipaður brandari og að tala um að endalausar ræður Hjörleifs á Alþingi hefðu þurft að fara í umhverfismat vegna óendanlegs magns af CO2 sem flæddu úr lungum þingmannsins.
Málið er nefnilega að Mongstad olíuhreinsistöðin við Björgvin í Noregi er með um 2,7 milljónir tonna af CO2 í útsleppi á ári miðað við 10 milljón tonna ársframleiðslu. Og megnið er vegna þess að túrbínur stöðvarinnar eru drifnar af gasi - gasi sem ekki yrði raunin í rafmagnslandinu Íslandi. Og þar fyrir utan eru áform um - og sem þegar eru komin af stað - að dæla CO2 niður í borholurnar aftur. Svo einfalt er það - og ekkert mál fyrir þann er áhuga hefur að kynna sér málið - sem náttúrlega kann að nota tölvu og internetið.
En auðvitað er ánægjulegt að sjá að vinstrigræni frændi minn sem ávallt er eins og klipptur út úr ítölsku tískublaði skuli vera vinur Sólnes - að Sólnesar skuli vera teknir í sátt - ekki gekk nú lítið á hér um árið þegar papa-Sólnes byggði Kröflu - þá heyrðist baulað frá vinstri og líklegast hefur Hjörleifur tekið þátt í því.
Ég er sammála Ólínu vinkonu minni - ljúkum þessari umræðu á málefnalegan hátt - leyfum sérfræðingum og næstu ríkisstjórn að taka ákvörðun - og sem byggir á vísindlegum rökum.