Færsluflokkur: Dægurmál

Ég og Björgólfur - við kunnum sko að halda upp á afmæli. Já maður minn. Að vísu í sitthvoru lagi - en hvað um það.

Afmælisveislur íslenskra athafnamanna verða flottari og flottari og er það vel. Verst er þó að ná ekki monnýpeningnum til landsins - veðrið spilar líklegast stóra rullu og svo myndu lúðarnir bara hanga á gægjum og gengi íslensku krónunnar svo óstöðugt að 50 Cent verða að engu áður en fyrsta lagið er hálfnað.

Ég er alinn upp í sömu götu og auðkýfingar þess tíma - þegar ég lék mér á snjóþotu fengu nágrannakrakkarnir vélsleða - svona míní. Þegar ég fék reiðhjól fengu þeir skellinöðru - og þegar ég fékk skellinöðru voru þeir komnir á torfæruhjól. Og hvernig haldið þið að mér hafi liðið? - mér leið bara allveg ágætlega takk fyrir. Auðvitað öfundaðist maður út í að þeir fengu súkkulaði á brauðið á meðan ég fékk gamla góða smjörið og ostinn. Og svo voru það afmælisveislurna - já maður minn - þá var nú glatt á hjalla hjá okkur strákunum í götunni - því auðvitað var okkur boðið. Og bræðurnir niðrá horni - sem ólust upp á frekar ströngu og íhaldssömu heimili en góðu samt - þeir gjörsamlega misstu sig og voru fluttir ælandi og hálf meðvitundarlausir heim sökum ofáts á pylsum með öllu - líka með rauðkáli. Minnir að sá eldri hafi blánað upp og ælt á 14 pylsu með öllu. Þetta voru sko alvöru afmælisveislur - já maður minn.

En ég hélt aldrei upp á afmælið - hætti þegar ég var 6 ára og hélt þeim kúrs þar til ég varð 40 ára í fyrra. En þá bauð ég til veislu - já maður minn. Og frúin borgaði. Ekki var það nú verra. Finnbogi vinur minn Bernódusar marineraði heilan lambskrokk - og lánaði mér svo heimatilbúið grill til að nota til að grilla gripinn. Veislan var nefnilega haldin úti í grasgrænni náttúrunni - þar sem hvorki 50 Cent eða aðrir slíkir hafa komið - ekki einu sinni 10 Cent. Í Grunnavík í Jökulfjörðum. En þar eigum við nefninlega allveg stórkostlega vini, Fiðrik og Sigurrós, sem lánuðu okkur aðstöðuna á Sútarabúð heila helgi. Og ekki nóg með það heldur sótti Kapteinn Friggi Jó afmælisliðið til Bolungarvíkur og sigldi því yfir djúpið - á fleyinu RAMÓNU - gullfallegu skipi sem stórfenglegt er að sigla með á fallegu sumarkvöldi. Tár.

Þetta var sko afmæli í lagi. Og ekki nokkur maður hefur fett fingur út það - enda ekki gefið upp hvað svona herlegheit kosta - uss - rosalegt dæmi. Stella á Hanhól lánaði mér veislutjald - en það er gripur sem allir þurfa að eiga - og sem Stella keypti í Köben og fór með heim - aldrei að vita hvenær þarf að slá upp veislu - eða fundi refaskytta og minkabana - og ég fékk verkfræðing frá Statoil í Noregi til að setja það upp - enda maðurinn sérfræðingur í borpöllum - dugar ekkert minna. Og svo til að lambið fengið sanngjarna meðferð þá fékk ég hreinræktaðann sauðfjárbónda til að sjá um grillið - Framsóknarmann í þokkabót. Frábært - kjötið meyrt líkt og afmælisbarnið.

Já - það er ekki á hvers manns færi að halda uppá afmæli svo vel sé. það veit ég - það eigum við Björgólfur sameiginlegt - að kunna að halda upp á afmæli.

kíkið endilega á http://www.grunnavik.is


Og allir saman nú.....gull...gulllll....guuuullllllll

Það er dálítið kómískt ástand fyrir Vestan - svona sorgleg-kómík. Það eru nefninlega allir að reyna að bjarga Vestfjörðum - menn að stinga saman nefjum hér og þar - jafnt kvölds og morgna. Allt er á fullu og allir taka þátt. Hálfgert gullgrafaraæði og allir, já allir ætla sér að ná sneið af kökunni. Og auðvitað er það vel - ja maður lifandi - allveg hreint stórfínt. En það er bara svo gaman að vita af þessum "grúpperingum". Ég sjálfur hef auðvitað "rætt við menn" og "spjallað við fólk".  Og auðvitað hef ég ýmsar lausnir. Líkt og allir aðrir.

En málið er náttúrlega það að allar lausnir KOSTA PENINGA - sumar mikla - aðrar minni. En ALLAR KOSTA ÞÆR PENINGA. Og því spyr maður: "eru þessir peningar til" og afhverju eru þeir til núna en ekki áður allt fór í steik?

Ég tel mikilvægt að ríkið komi til hjálpar - flytji strörf Vestur, störf sem hentar að flytja og geta hæglega unnist fyrir vestan. Ég vil líka að ríkið komi með stuðning við fyrirtækin á svæðinu - það er líklegast ekki vanþörf á.

Og þetta með vegina.....úffffff þetta með vegina. Ég nefninlega keyrði frá Ísafirði til Reykjavíkur í gær - ef keyra er rétta orðið - ég hálf þræddi þessa slóð sem þó eru verst á Ströndum. Meira að segja þokkalega stolt rolla af Ströndum léti ekki bjóða sér svona lagað - nei hún myndi líklegast feta sína leið. En við mannfólkið - þurfum að láta bjóða okkur þetta ár eftir ár - og nú með tvöfaldri áhættu þar sem umferð stórra fluttningabíla er margföld - MARGFÖLD. Sem sagt, holur-skítur og fluttningabílar = uppskrift að vel heppnuðu dauðaslysi. Maður hreinlega skilur ekki hvernig hægt er að komast lifandi suður.

Ekki það að ég vorkenni ekki aumingja borgarbúunum með gatnakerfið þar á bæ - sem þó hópur skipulagsfræðinga vinnur dag og nótt við að útfæra - og góðvinur minn er einn - fór meira að segja til könudu til að stúdera - lærði víst í rangri borg - eða eithvað hlýtur það að vera.....vinstri-græn gatnamót og hægri mislæg, eða hvað þessar útfærslur heita allar...ekki skil ég það - ég er bara aungra manna að norðan. Nei þá kýs ég nú frekar Bolungarvík með ein götuljós - eða götuljósalíki því þau eru alltaf steindauð. Líklegast enginn bíll til að stoppa fyrir gangandi vegfarendum, eða öfugt - en hvað veit ég.....aungra manna að norðan.

En ég er sem sagt búinn að keyra suður eftir drulluslóð með dauðagildrum - aka um borgina í einskonar skipulögðu kaósi og ætla svo keyrandi norður annaðkvöld. Tja, ætli Bjössi lögga bíði mín ekki við Blönduós - úfff...það er vandlifað - í það minnsta undir stýri. Og auðvitað legg ég þetta á mig til að kynnast landi og þjóð af eigin raun. Maður veit náttúrlega ekki nema að maður skelli sér í forsetaframboð - kominn tími til að raunvísindamaður taki við embættinu - aungra manna að norðan.

já ég held það bara - skelli mér í framboð! Búinn að kynnast svo mörgu og mörgum. Konan talar frönsku - ég sænsku og ensku - sem sagt partýhæf í þremur löndum!

Svo er nú það, tja seisei já.


Pam er tilbaka - betri en nokkru sinni áður.

Mikið óskaplega var það mér mikill léttir að sjá að Pamela Anderson er að hefja leik í nýrri syrpu af "STRANDVERÐIR".

En ég bíð spenntur eftir íslensku seríunni "LANDVERÐIR" - þar sem kynþokkafullir íslenskir landverðir hlaupa um í lopapeysum og sauðskinnsskóm. Ég held að þetta sé bisness og passi t.d. vel í auglýsingu um Hornstrandir - eða nýja þjóðgarðinn í Jökulsárgljúfrum -

Group 2, 506-6, 118-27,  59-20T


Lennart er með typpi - má ekki heita Pía.

Óréttlátt segir Lennart. Já það er vandlifað í henni veröld - þar sem laun og önnur mannréttindi stjórnast af því sem yfirleitt er falið innanklæða. Og aumingja Lennart sem eyðir miklum tíma í smink og aðrar álíka aðgerðir á hverjum morgni - klæðir sig í sokkabuxur og kjól fær bara alls ekkert að heita Pía. En Lennart telur það sinn fullkomna rétt að fá að heita Pía - í það minnsta sem millinafn - til þess að femíníska hliðin fá tjáð sig opinberlega. Hann hefur nefninlega kvenlegt innsæi - femíníska hlið og er farinn í skaðabótamál við Sænska ríkið. Pía skal hann heita og ekkert múður.

Og nafnanefndin sænska tekur þetta ekki í mál. Kall getur ekki heitið konunafni - ekki frekar en að epli sé kallað appelsína og Lennart verður bara að bíta í það súra...epli. Nú eru jafnréttissinnar risnir upp á afturfæturnar og segja það sjálfsögð réttindi Lennarts að heita það sem hann vill - hvort sem undir honum hangir typpi eður ei.

Spennandi umræða - hvað gerir Lennart? Erum við Íslendingar heppnir að flest karlmannsnöfn enda á -ur?


Vestfjarðableikjan og Vestfirðingar af áður óþekktri arfgerð.

Það hefur vakið nokkra athygli hér vestra að sjóbleikjan sem veiðist hér á svæðinu er af áður óþekktri arfgerð. Arfgerð sem ekki hefur sést áður. Merkilegar niðurstöður og áhugavert að skoða frekar. En maður spyr sig, skyldu Vestfirðingar á sama hátt teljast óskyldir öðrum Íslendingum - og þeim algjörlega óviðkomandi. Í það minnsta er ljóst að áhugi ráðamanna er ekkert sérstaklega mikill.

Og svo til að kóróna þetta allt þá er alltaf verið að ræða við einhvern sérfræðing við háskólann á Akureyri sem segir spekingslega með Eyjafjörðinn í baksýn:"líklegast er það ekki rétt að styrkja þau sveitarfélög sem mest þurfa á því að halda". Já, hann er magnaður þessi sérfræðingur - sá með Eyjafjörðinn í bakgrunn. Fróðlegt væri að vita hvað hann segir um bleikjuna hér Vestra - líklega mun mikilvægara að skoða þau kvikindi sem synda um í Eyjafjarðaránni.

Ég spyr mig - hvaða tilgangi á það að þjóna að ræða á þennan hátt við sérfræðinginn? Er ekki deginum ljósara að eitthvað þarf að gera. Hvort sem sérfræðingurinn kennir eitthvað annað í kennslustofum háskólans á Akureyri - og ræðir í sjónvarpsviðtali við gamlan skólabróður sinn úr MA - ég bara spyr?!

Svo er alveg með ólíkindum að bera aðstæður fyrir Vestan saman við aðstæður í nágrannalöndum okkar - Af hverju spyr einhver? Jú - hér er nánast ekkert vegasamband á meðan t.d. Færeyjar eru að hruni komnar vegna fjölda jarðganga. 

Ég tek dæmi: Í morgun talaði ég við lækni sem staddur var á Patreksfirði. Og læknirinn sem þurfti að komast frá Ísafirði til Patreksfjarðar í gær fór hluta leiðarinna á vélsleða, hluta á bát og hluta akandi. OG TAKIÐ NÚ EFTIR: HÉR FYRIR VESTAN ER LÍKA ÁRIÐ 2007, ég er ekki að tala um héraðslækni í byrjun síðust aldar.

Já, líklegast er það bara frekja og óþarfa lúxus að biðja um akveg sem opinn er árið um kring. Mun mikilægara er að byggja tónleikahús á hafnarbakkanum í Reykjavík - einhvers staðar verður fína fólkið að hittast og ræða vandamál landsbyggðarinnar.

það er mín skoðun.


FRAMTÍÐ VESTFJARÐA: STOFNUN HÁSKÓLANS - HÁSKÓLI VESTFJARÐA: STOFNUN FRAMTÍÐAR.

ÉG ER BÚINN AÐ SKIPTA UM SKOÐUN - KOMINN Á ÞÁ SKOÐUN AÐ RÉTT SÉ AÐ HEFJA UNDIRBÚNINGSVINNU AÐ STOFNUN HÁSKÓLA VESTJFJARÐA!

Af hverju? Jú skoðum málið á púnktaformi:

  1. Landfræðilegar ástæður.
    1. Ísafjörður er miðsvæðis í landshluta sem virðist að mestu afskiptur.
    2. Hingað eru varla nokkrar samgöngur sem treystandi er á.
    3. Hér er mjög fjölbreytileg náttúra.
  2. Menntunarlegar ástæður.
    1. Hér er  sterkur menntaskóli.´
    2. Hér er þörf á háskólamenntuðu fólki.
    3. Hér er til staðar fólk sem getur tekið virkan þátt í uppbyggingu háskóla.
  3. Byggðarþróunarlegar ástæður.
    1. Hér er sannanlega þörf á nýrri hugsun í uppbyggingu.
    2. Stjórnvöld hafa ekki komið að uppbyggingu á landsbyggðinni sem nokkru nemur.
    3. Vandamál virðist vera fyrir pólítíkusa að koma með nokkra lausn á byggðavandanum.
    4. Háskóli laðar til sín nýtt fólk.
  4. Fjárhagslegar ástæður.
    1. Fjárstreymi verður að vera í Vesturátt.
    2. Fjármunir verða að stoppa fyrir Vestan.
    3. Fjárhagsstjórnin verður að vera fyrir Vestan.
    4. Það verður að hætta að fjarstýra Vestfjörðum "að sunnan".
  5. Rannsóknalegar ástæður.
    1. Að stunda rannsóknanám með mikilli fjarlægð milli "rannsóknaaðstöðu og háskóla" er slæmur kostur.
    2. Nálægð háskóla við viðfangsefnið mikilvægt - sérstaklega á fyrstu stigum náms.
    3. Dýrt er fyrir nemendur og rannsóknaverkefni að greiða þann ferðakostnað sem fylgir því að stunda "fjar-rannsóknir".
    4. Að fá að stunda nám og rannsóknir "í heimabyggð" er að sjálfsögðu að gefa nemum kost á að rækta arfleifð sína.

 Af ofangreindu má lesendum vera ljóst að mikilvægt er að hefja undirbúning að stofnun Háskóla Vestfjarða - þar sem ekki aðeins Vestfirðingum verður boðin þátttaka heldur öllum þeim er vilja stuðla að fjölbreyttu mannlífi í landi þar sem fólki er frjálst að lifa og starfa þar sem það kýs.

Ég segi því - hefjumst handa við uppbyggingu Vestfjarða - með stofnun HÁSKÓLA!

 

það er mín skoðun.

 


Íslenskar beljur fyrir kröfuharða íslendinga.

TolliÞegar ég var að alast upp heimsótti ég fjöldann allan af sveitabæjum með föður mínum sem var hérðasdýralæknir í Eyjafirði. Á þeim tíma skiptu bæirnir tugum í Eyjafjarðarsveit og pabbi sagði mér að þetta væri líklegast besta landbúnaðarhérað landsins. Þar voru kúabúin stór og fjárbúin líka. Það var ævintýri líkast að aka um í fallegri sveit á fallegu sumarkveldi - kýrnar á beit í haga og hrossastóð á bökkum Eyjafjarðarár. Sannkölluð sveitarómantík sem líður manni ekki úr minni.

En þegar farið er um fallegar sveitir Eyjafjarðar í dag þá verður manni ljóst að eithvað mikið hefur breyst - sveitabæirnir standa að vísu margir en útihúsin eru víðast tóm. Endurnýjun í stéttinni er nánast engin - meira að segja KEA sagði upp forstjóranum að mér er sagt vegna þess að hann var farinn að fjárfesta of mikið í bújörðum - og er að ég held bóndi í dag - er mér sagt.

En hvað er að gerast með íslensku þjóðina. Á sama tíma og 94% landsmanna vilja að hér sé landbúnaður standa gjöfular bújarðir tómar og sumstaðar eru réttir án þess að ein einasta rolla sjáist á ferli - varla eru þeir að draga framliðnar rollur í dilka? Það er eithvað skrítið við þessa niðurstöðu skoðanakönnunarinnar - nema náttúrlega að þessi 6% ráði öllu - séu þeir sem telja okkur fyrir bestu að lítill sem enginn búskapur sé í landinu - kannski eru það þeir sem frekar leggja uppúr lágu verði á innfluttum matvælum - ekki veit ég? 

Og til að gera dæmið ennþá undarlegra þá er meira en helmingur þjóðarinnar tilbúinn til að greiða meira fyrir íslenska landbúnaðarframleiðslu en innflutta! Tja, nú er maður allveg að missa þráðinn. Og flestir segja gæði íslensku landbúnaðarvaranna miklu meiri en þessara svokölluðu útlendu landbúnaðarvara - og að það sé bændunum alls ekkert að kenna að verðið sé eins hátt og raun ber vitni.

Er ekki bara málið að opna landið fyrir óheftum innfluttningi á landbúnaðarvörum? það hlýtur að vera niðurstaða þessarar könnunar sem Bændasamtökin létu gera að innfluttningurinn muni hvort eð er detta upp fyrir - deyja. Einfaldlega vegna þess að yfir 90% landsmanna vilja hafa íslenskan landbúnað - yfir 60% landsmanna séu tilbúnir að greiða meira fyrir íslenskar landbúnaðarvörur sem eru svo miklu betri en þessar útlensku - varla ljúga yfir 80% þjóðarinnar sem segja að þær íslensku séu af meiri gæðum en þær útlendu. Spurningin sem vaknar hjá mér er sú hve stór hluti þeirra sem spurðir voru hafa yfir höfuð komið út fyrir landsteinana? Og hvort valið hafi verið af handahófi af skráðum félögum í Framsóknarflokknum. Tja, maður spyr sig! 

Ég bjó í mörg ár í útlöndum og borðaði þarf af leiðandi útlendan mat - nema náttúrlega séríslensku framleiðsluna: kæsta skötu og Vestfirskan hákarl. En ég fann aldrei neinn mun á matnum þar en hér - ég er í það minnsta ennþá lifandi. Mjólkin var góð, kjötmetið ágætt og osturinn ljómandi. Og allt kostaði þetta svo miklu minna en hér heima. Af hverju þurfum við á íslandi signt og heilagt að láta segja okkur að vegna íslenskrar sérstöðu og íslenskra gæða þá þurfi hitt og þetta að kosta svo og svo mikið meira - af hverju segjum við ekki bara hingað og ekki lengra. Það hlýtur öllum að vera ljóst að t.d. kjúklingarækt getur varla gengið á Íslandi - flytja korn til landsins til að ala kjúkling - sem síðan er svo margfalt dýrari en í útlöndum. Hvers vegna að stunda svínarækt þegar svínakjöt er eitt ódýrasta kjöt sem fáanlegt er t.d. í Svíþjóð og Danmörku og hægt væri að flytja það til landsins margfalt ódýrara - burt séð frá því að við Íslendinga stöndum langt að baki frændum vorum Dönum og Svíum í að hantera svín? Og nautgriparæktin  - Argentína er jú þekkt fyrir hágæða nautakjöt og ekki er nokkur tuddi þar smitaður af nautariðunni stórhættulegu - bara til að nefna nokkur dæmi.

Ég segi: eflum séríslenska framleiðslu - t.d. framleiðslu á íslensku lambakjöti og mjólkvörum. Íslenska mjólkin hefur eiginleika sem eru eftirsóknarverðir út frá heilsufarslegu sjónarmiði - það hafa íslenskar rannsóknir t.d. Dr. Bryndísar Evu Birgisdóttur og Dr. Braga Líndal Ólafssonar sýnt.

þetta er í það minnsta mín skoðun.


1500 manns missa vinnuna í Reykjavík!

 

 Tolli

Já svona myndi væntanlega fyrirsögnin vera á forsíðu dagblaðanna á höfuðborgarsvæðinu ef Vestfjarðaástandið tæki sig upp þar! Það misstu nefninlega 35 fjölskyldur fyrirvinnu á Ísafirði í liðinni viku. Og hlutfallið væri líklegast um 1500 manns ef þetta væri fyrir sunnan - á Reykjavíkursvæðinu þar sem allt var vitlaust út af klámi sem þó aldrei var og trjám sem hurfu úr Heiðmörk.

Og stærsta ákvörðunin var tekin fyrir sunnan. Það er svo óhagkvæmt að vera með rekstur fyrir Vestan. Þó að reksturinn skili hagnaði. Það er bara ekki nægur hagnaður - líklegast af því að hann er ekki talinn í milljörðum líkt og hjá þeim stóru fyrir sunnan.

En hjá okkur fyrir Vestan voru góðir gestir - vísindamenn frá Stirling háskólanum í Skotlandi - einum af þessum stóru og frægu. Vísindamenn sem sækjast eftir því að vinna með okkur að rannsóknum í þorskeldi. Af hverju? Ekki af því að við eigum svo mikið af peningum, nei - af því að við erum að gera góða hluti, af því að við erum með gott starfsfólk og af því að við höfum framtíðarsýn og áherslur sem eru eftirsóknarverðar. Og hverjir koma að þessum rannsóknum - jú vísindamenn hjá Matís og Vestfirskir fiskeldismenn ásamt fleirum góðum innlendum aðilum.

En við viljum fleira - við viljum meira og við getum meira - svo miklu meira. EN, því miður er það svo að það er bara svo erfitt að berjast og vinna sigra ef sú þróun sem nú virðist vera í gangi er ekki stöðvuð og aðgerðir settar í gang til að efla frekar en hefta. Við þurfum nefninlega sterkt samfélag til að hið jákvæða og öfluga geti þrifist - því af nógu er að taka - það sem er tekið þarf bara að lenda á réttum stað - til uppbyggingar á landsbyggðinni frekar en í endalausum mokstir undir fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu sem ekki þurfa á því að halda.

 

Það er mín skoðun.


Staðið úti á hlaði.

TolliÍ Syðridal er ákaflega fallegt. Ég stóð þar úti á hlaði hjá vini mínum sem þar er bóndi. Það blés norðan kaldi og gekk á með éljum - ekki ósvipað ástatt þar og í pólítíkinni.

Þar blæs hann reyndar meira frá vinstri og að vísu ekki alvega eins kallt, í það minnsta hélt Steingrímur opnunarræðuna húfulaus.

En í sveitinni var nú aðallega verið að spá í búskapinn - Dranga-Kóngur var að sækja hey og við þurftum að koma rúllu á kerru.

Rollurnar verða að fá sitt hey hvað sem stóriðjuframkvæmdum líður - já og vegalagning framhjá æfingahúsi Sigur-rósar og þrátt fyrir að hún Bryndís, sú góða kona, sitji grátandi á skurðarbarmi og Jón þrumi yfir lýðnum.

Ekki var rætt eitt orð um umhverfismál þar sem við stóðum á hlaðinu. Að vísu heyrðist jarm úr útihúsum en ég veit ekkert hvað þar var rætt.

Mikið ósköp held ég að Steingrímur hafi verið búinn að bíða lengi eftir að Íslendingar vöknuðu af þessum væra blundi sakleysingjans sem hefur engar áhyggjur af súru regni eða eyðingu lands.

Reyndar var öllum á Íslandi nákvæmlega sama og er mörgum sjálfsagt enn.

Í það minnsta var umhverfisfræði sem slík ekki til í líffræðinámi við HÍ fyrr en í kringum 1990. Ég held að ég hafi setið eitt af fyrstu námskeiðunum sem kennt var í umhverfisfræði við líffræðiskor HÍ. 

Og þá var ekkert sérstaklega verið að spá í umhverfismál á Íslandi - ég lærði að mig minnir mest um Tjernobyl slysið í Rússlandi - kannski var bara ekkert umhverfi til að fjalla um á Íslandi.

Eða var kannski vandamálið bara það að Steingrímur var ennþá að spá í hvernig best væri að klekkja á kapítalismanum með ræðum um allt aðra hluti og hreinlega ekki búinn að átta sig á því að umhverfismálin eru miklu vinsælli. Miklu líklegri til árangurs í atkvæðaveiðum.

Að vísu voru vinstri grænir til í Þýskalandi á þessum tíma - að mig minnir. Mig minnir líka að þeir hafi verið að spá í þetta súra regn - en við höfum engin tré - ekkert sem súra regnið skilur eftir sig ummerki á. En það er ekkert að marka, þeir búa svo miklu nær kjarnorkunni og kolanámunum - eða bjuggu í það minnsta nær þeim þegar þetta var.

Í dag er þetta allt orðið svo glóbalt - hnattlægt - að okkur kemur svo sannarlega við hvað aðrir gera við skítinn frá sér. Við eigum meira að segja kvóta á formi koltvíildis - eða ónotaðan kvóta. Og menn eru víst eithvað farnir að braska með hann.

Ég vil bara hafa það á hreinu að ég hef ekkert á móti umhverfismálum og vernd almennt - enda um gríðarlega mikilvægan málaflokk að ræða. 

Mér finnst bara skipta máli að sú umræða sé á skynsamlegum nótum - og sé glóbal - hnattlæg. 

Ég hef heldur ekkert á móti dýravernd - er mjög fylgjandi henni.

Mér þótti það bara ekki dýravernd þegar dýraverndunarsinnar brutust inn í dýrageymslurnar hjá okkur við Gautaborgarháskóla og slepptu út kanínum og rottum. Bara af því að þau eiga ekkert að vera í búrum.

Síðan týndum við upp hræin næstu daga - sem lágu á víð og dreif um nærliggjandi hverfi.

Það er ekki dýravernd.

Það verður spennandi að fylgjast með aðdraganda kosninga. Hvað ætla flokkarnir að gera í umhverfismálunum? Snýst ekki umhverfisvernd dálítið mikið um forvarnarstarf?

Er ekki réttast að flokkarnir sameini krafta sína í að finna farveg fyrir umhverfisvernd sem hentar Íslandi og þeim er þar búa? Að við göngum út frá 0 púnkti sem er NÚNA! - Að við horfum fram á veginn í stað þess að skammast yfir því sem þegar er gert.

Eða hvað vill fólkið í landinu? - Ekki veit ég það - mér sýnist fólk í það minnsta styðja bæði hægri og vinstri flokka þrátt fyrir að mér heyrist Steingrímur haldi því fram að hægri flokkar fari ránshendi um landið - ræni Íslendinga náttúrunni - náttúru sem stundum er talað um að við eigum ekkert í - hún sé í eigu komandi kynslóða.

Ég veit það nú ekki allveg - kannski skil ég þetta bara ekki. Ég bý hér núna og veit satt að segja ekkert um hvar ég verð eftir að ég drepst!

Væri ekki rétt að þessir ágætu forystumenn flokkana kæmu sér saman um ákveðin atriði sem skipta okkur íslendinga máli í umhverfismálum - horfi til framtíðar. Komi á þjóðarsátt um málið.

Það er mín skoðun.


Marel, ekki bara Marel!

Ég sat og spjallaði við vinnufélaga minn í gær. Sérfræðimenntaðan vinnufélaga sem starfar EKKI hjá Marel en kemur málið svo sannarlega við - þ.e. uppsögn starfsmanna Marels á Ísafirði. Það er nefninlega svo að eiginmaðurinn starfar hjá Marel. Eða eigum við að segja starfaði...það er jú alltaf dálítið sérstakt að vinna á uppsagnarfresti.

Og málið er nefninlega það að þessi gjörningur Marels er ekkert einkamál þess fyrirtækis - þetta hefur mikið meiri áhrif heldur en bara uppsögn starfsmanna fyrirtækisins - önnur fyrirtæki þar sem makarnir starfa sitja líka í súpunni. Ekki ætlast stjórnendur Marels til þess að fólk taki upp búskaparformið "fjarbúð"?

Það er nefninlega svo - bara þessum ágætu mönnum til fróðleiks - að margfeldi áhrif slíks gjörnings eru gríðarleg, ekki síst í sveitarfélögum þar sem birt er forsíðufrétt í bæjarblaðinu þegar nýtt fólk flytur í bæinn.

Og við vorum að kaupa rándýra vog - framleidda hjá Marel á Ísafirði... löbbuðum bara yfir og ræddum kosti og galla vogarinnar áður en við létum slag standa. Nú er það búið. Ætli ég geti skilað voginni? Í það minnsta vona ég að hún bili ekki því það gæti tekið tímana tvenna að senda vogina suður - í það minnsta ef maður metur fjarlægðina á sama hátt og háu herrarnir fyrir sunnan sem stundum tala um Vestfirði "sem hluta af annarri plánetu...þar þarf enginn að búa - það er svo fjandi langt þangað...í það minnsta fyrir okkur hérna fyrir sunnan...."

Þetta er mín skoðun.Tolli


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband