Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Miðvikudagur, 18. apríl 2007
Skipulagsfræðingur með söguþekkingu dettur ofan í holu á Ísafirði.
Ég sá þessa fyrirsögn fyrir mér á forsíðu Séð og heyrt - en ég nefnilega fékk mann í heimsókn sem eins og fyrirsögnin bendir til er með fjöl-menntun frá tveim menningarsvæðum - lærði bæði á Íslandi og í útlöndum - og sem steinlá í götunni minni - sú vinstri lenti ofan í holu en hægri löppin upp á malbikshrauk. Já það er íllfær um göturnar á eyrinni. Og til að toppa ófærðina og valda sjónmengun af versta tagi þá voru bæjarstarfsmennirnir í holufyllingum í gær - svona eins og blindir menn í bútasaum - höfðu ekki hugmynd um hvar ætti að byrja - enda Tangagatan og reyndar vel flestar götur á eyrinni - eins og sneið af svissneskum osti - þykk sneið með djúpum holum - bara verri.
En aumingja skipulagsfræðingurinn sem hróðugur var búinn að segja mér af mikilli innlifun og söguþekkingu að Ísafjörður væri með elsta bæjarskipulag á Íslandi. Já allveg eldgömlu - meira að segja eldra en malbiksleyfarnar sem þekja eyrina. Ekki veit ég hvernig á því stendur að Ísafjarðarbær kemur ekki til móts við íbúana sem leggja sitt af mörkum við að gera upp gömul hús - skapa fallegt upprunalegt útlit gamalla hverfa - með því að hreinlega helluleggja þessar gömlu götur. Það er nefnilega svo að á Ísafirði er hellusteypa - nokkuð sem er einkaframtak duglegrar fjölskyldu og því þarf hvorki að bíða eftir að Ómar komi siglandi á strandferðaskipi eða fært verði vestur - hellusteypan er á staðnum.
Ég vil ekki þurfa að sértryggja alla gesti sem koma til mín - fólk sem glápir á fallega uppgerð hús og endar ofan í holu - holu sem erfitt getur verið að komast uppúr - og kannski er bara bæjarstjórnin föst í holu líka? tja ekki veit ég.
En semsagt - drífum í því að gera Eyrina aðlaðandi fyrir alla þá ferðamenn og Vestfirðinga sem þangað leggja leið sína - helluleggjum allar götur á eyrinni og hættum þessum "malbiks"framkvæmdum - enda eru hellulögn bæði endingarbetri og fallegri.
það er mín skoðun.
ps. skipulagsfræðingurinn er að ná sér -búinn að kaupa sér snjóþrúgur og ætlar ekki að taka neina sénsa í næstu heimsókn - ef það verður bílfært eða flogið.
Þriðjudagur, 17. apríl 2007
Ég geng ekki með steinbarn í maganum - olíuhreinsistöð er raunhæfur kostur.
Ég er eins og vonandi flestir - mannlegur - geri mistök en er tilbúinn til að leiðrétta þau - ég brást nefnilega ókvæða við vegna hugmynda um Olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Ástæðan var sú að ég taldi slíkt vera mjög mengandi og hættulegt náttúrunni. Sem er auðvitað hárrétt - nema rétt sé haldið á spöðunum. Og í dag fékk ég að vita að nútímaolíuhreinsistöðvar menga alls ekki mikið - málið er hinsvegar að úrgangurinn er mengandi og það þarf að finna ásættanlegan stað til að losa sig við hann. Eins er staðreyndin sú að aldrei hefur olíuskip strandað við strendur Noregs eða við Holland (t.d. Rotterdam) þar sem er að finna hátækni olíuhreinsistöðvar. Þau skip sem fórust við Biskaya flóa - Alaska og fyrir utan Portúgal og Spán voru á siglingaleiðinni - þ.e. urðu vélarvana og steyttu á skerjum - sem auðvitað er óháð olíuhreinsistöðvunum.
Já svona getur nú borgað sig að tala við sérfræðing á sviðinu - mann sem búinn er vinna í bransanum í þrjátíu ár (haag@statoil.no) - og fá hreinar staðreyndir - engin pólitík - heldur blákaldur veruleiki.
Og það sem meira er - ég treysti orðum þessa manns sem gaf sér tíma til að ræða málin þrátt fyrir að hann væri í Grieg höllinni í Bergen að stýra fundi með 400 olíuverkfræðingum.
Sá hinn sami sagði að Vestfirðingar ættu ekki að hika við slíkan iðnað - fagnaði hugmyndinni en lagði ofuráherslu á að hann væri að miða við alvöru olíuhreinsistöð sem byggð væri eftir ströngustu kröfum - og líklega verðu nóg að gera fyrir Mugi gamla því mér skildist að við slíka höfn störfuðu fjöldi lóðsa og dráttarbáta til að koma í veg fyrir strand 80.000 tonna risaskipa.
Já - nú eykst spennan.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Þriðjudagur, 17. apríl 2007
Velferð fiska í rannsóknum og eldi.
Ég spjallaði við Hrafnhildi og Gest Einar í morgunútvarpinu á Rás 2 um velferð fiska í rannsóknum og eldi.
Áhugasamir geta hlustað á viðtalið hér.
Mánudagur, 16. apríl 2007
Nýjasta eldið fyrir Vestan: "sardínur í olíu" .
Ég hélt að ég væri að endurupplifa 1. apríl þegar ég heyrði fréttir um að ein af hugmyndum sem nefndin fræga væri að vinna úr væri olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Þessi setning var löng - enda um þvílíka fásinnu að ræða. FÁSINNU. Auðvitað eru aðilar í olíuiðnaðinum að leyta sér að stað fyrir olíuhreinsistöðvar - vegna gríðarlegrar mengunar. En Ísland á ekki að vera hreinsistöðvarnýlenda fyrir rússneska olíubossa - nóg var nú að einhver rússinn vildi gera Ísland að fanganýlendu.
Og ætla Vestfirðingar að fara að bjóða risaolíuskipum að leggja upp að Vestfjörðum - jafnvel í nokkrum pörtum - nú þá fá nú fleiri en 500 vinnu - við að hreinsa fjörur.
Ef þetta er aðalmálið sem rætt var í þessari ágætu nefnd og áhugi er á að kanna möguleika á að vinna það sem í jörðinni er - þá hefði nefndin betur mætt á áhugaverðan fyrirlestur yfirolíuverkfræðings Statoil sem benti á raunhæfa möguleika á gasvinnslu á Vestfjörðum - umhverfisvæna vinnslu með framtíðarmöguleika - já og marga, marga milljarða fyrir íslensku auðjöfrana að fjárfesta með.
Nei olíuhreinsistöð er ekki lausnin á vanda Vestfjarða - langt í frá og í raun besta lausnin til að endanlega eyða byggð á Vestfjörðum. Gleymum þessari dellu áður en fólk hættir að taka mark á okkur.
Að vísu er það ekki rétt hjá Árna Finnssyni að olía sé eitthvað gamaldags! - Hið rétta er að olía er allt of dýrt hráefni til að nota til brennslu - hvort sem er í vélum eða öðru - og olíuiðnaðurinn tæki því fagnandi ef bílar yrðu drifnir af vetni - ástæðan er einfaldlega sú að alla olíu heimsins þarf í dýran iðnað - plastiðnað - því ekki er hægt að nota neitt annað efni til plastframleiðslu en olíu. Svo að Íslendingar ættu að leggja áherslu á að efla vetnisrannsóknir.
Hér er verið að reyna að byggja upp miðstöð rannsókna í þorskeldi - en ekki framleiðslu á "sardínum í olíu".
Mánudagur, 16. apríl 2007
Brynhildur drottning Íslands - Eiríkur Fáfnisbani - Jón Utanríkisráðherra og morðtilraun í Óshlíð.
Ég held að ég sé komplett að verða ruglaður. Kosningabaráttan er orðin á þann veg að ég veit ekki hvað snýr upp né niður aftur eða fram eða þar um kring. Og svo til að bæta gráu ofan á svart þá settist ég fyrir framan sjónvarpið í gærkveldi og ætlaði aðeins að skerpa á sögukunnáttunni og rifja upp bardagann við orminn Fáfni. En þar var allt eins og í pólítíkinni - vantaði ekkert annað en Jakob Magnússon í teinóttum jakkafötum vopnaðan tilgerðarlegum frösum til að kóróna vitleysuna. Brynhildur var orðin drottning af Íslandi sem ég hélt að ekki hefði verið fundið á þessum tíma og Sigurður hét Eiríkur..... í það minnsta í þær mínútur sem ég horfði! Nú vantar ekkert annað en að Sjálfstæðismenn tapi gjörsamlega glórunni og taki Frjálslynda með sér í ríkisstjórn og geri Jón Magnússon að Utanríkisráðherra.
Hvar endar þessi vitleysa? Að vísu endaði hún hjá okkur Hrafnhildi næstum því um helgina þegar við ætluðum að fá okkur bíltúr til Bolungarvíkur - lentum ekki í grjóthruni heldur voru þar á ferðinni fljúgandi björg - tóku með sér vegrið og brutu malbik. Mér brá í brún - fjallsbrún. Stoppaði bílinn ætlaði út að kíkja aðeins á þetta - en af einhverju orsökum skipaði frúin mér til baka - var eithvað stressuð. Ég náttúrlega hringdi í 112 til að tilkynna lífshættulegar aðstæður - stórgrýti þakti veginn og guð má vita hvað - en ekkert samband fékkst við lögguna fyrir Vestan - sjálfsagt ekki í GSM sambandi - Já hún Þuríður sundafyllir var í vondu skapi þennan dag og reyndi að drepa mig - Sjálfsagt hefur Grímur vinur minn frá Dröngum verið að krukka í hólinn þar sem hann segir hana dysjaða - það er á hreinu. Svo að nú ætla ég gera eins og Gummi í Byrginu - kæra kellu fyrir verknaðinn - alla vega að hugsa málið - svona að sjá til.
Svo er nú það.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 15. apríl 2007
Hættum að vera NEYTENDUR - gerumst NEITENDUR - látum ekki bjóða okkur hvað sem er á hvaða verði sem er.
Ég fór með strákinn minn á fótboltamót í morgun. Það kemur neytendamálum ekkert við í sjálfu sér - en þá hittir maður búðarkarla sem eru í foreldrahlutverki og ekki á bakvið afgreiðsluborðið. Ég hitti einn slíkan í morgun - búðarkarl í hversdagsfötum. Og þá náttúrlega greip ég tækifærið og fór að bölsótast yfir verðlagi á sjónvörpum - þessum flottu fjörtíuogtveggja tommu sem maður hefur auðvitað ekkert við að gera - segir konan mín. En samt eru þetta hræðilega dýr tæki - og ég þurfti að ná búðarkallinum á trúnó til að hann viðurkenndi það.
Málið er að ég kíki yfirleitt á sænsku vefblöðin - svona til að skoða hvað er að gerast í umheiminum. Og eitt af því sem þar er að gerast er að verð á flatskjám er að hrynja - ólíkt hæga niðurganginum hér á Íslandi - en hér virðist ríkja meira "harðlífi". Verð á 32 tommu skjám er í mjög mörgum tilfellum komið niður fyrir 50 þúsund kall - já fimmtíuþúsundkall. Og verð á 42 tommu skjám er að sama skapi að lækka mjög - fjöldi tegunda komnar niður fyrir 100 þúsund kall - hundraðþúsundkall. Og það í búðum sem við erum búin að "íslenska". Ég tek dæmi um beint úr raunheimum: Elgiganten er líklega það sem við köllum Elko á Íslandi - þar kostar 42 tommu plasma skjár (42PC3RA) 95,645 krónur íslenskar (miðað við gengið í dag) en ef ég fer á vef Elko þá er verðið á sama skjá komið í 179,995 - já tvöfalt hærra. Nú veit ég ekkert hvað gerist á leiðinn frá Svíþjóð til Íslands - eða hvort tollar eða aðfluttningsgjöld skýra muninn....ég spyr?
Og búðarkallinn í hversdagsfötunum gat ekkert útskýrt þetta fyrir mér.
Já stundum líður manni eins og átt sé við óæðri endann.
Laugardagur, 14. apríl 2007
Tilvistarkreppa og litblinda eru nútíma"sjúkdómar" sem verður að finna lausn á og það strax.
Ég keypti mér eintak af DV í dag. Það er svo sem ekkert merkilegt nema fyrir þær sakir að ég bý á Ísafirði og hér kaupir fólk helst ekki DV - ætla því ekki að nefna þau kaup frekar. En í DV las ég viðtal við tvo einstaklinga sem báðir eiga við tilvistarkreppu að stríða. En munurinn er sá að annar þeirra er sem betur fer á góðri leið með að finna leið til að bæta stöðu sína- hálpa sér að glíma við vandann - en það er Lalli Johns sem er að glíma við ömurlegar afleiðingar þess að hafa nauðugur verið vistaður á Breiðuvík og óska ég honum svo sannarlega velfarnaðar í þeirri leit - ömurleg staðreynd að slík viðbjóðsstofnun hafi verið til.
Ómar Ragnarsson er hinsvegar árum á eftir Lalla í leitinni að ljósinu - gjörsamlega ómeðvitaður um vandann og virðist að auki vera litblindur - talar mikið um græna litinn, en sér hann hvergi - kannski er kallinn með sérhæfða litblindu - sér bara ekki grænt. Og í leitinni að græna litnum leitar hann hjálpar hjá manni sem ekki sér gult - er blindur á gula litinn - en kjósendur eru marg oft búnir að sýna honum gula spjaldið - en hann heldur alltaf áfram - sér ekki gula spjaldið sem endaði með því að hann fékk það rauða. Þá gekk hann úr Samfylkingunni. Þetta er svona "haltur leiðir blindan" samband þeirra félaga og ekki batnar það nú þegar Bubbi verður kominn í hópinn - hann sér líklegast um auglýsingarnar - algjör UMHVERFIS BOBA þar á ferð.
Tja, ekki veit ég hvort við getum kennt löngum biðlistum í heilbrigðiskerfinu um stöðuna - en hjálp verða þessir ágætu herrar að fá - og það strax.
það er mín skoðun.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Föstudagur, 13. apríl 2007
MISSION NOTIMPOSSIBLE: BJÖRGUM EYJUM!
Ég var að spá í það hér um daginn hvort ekki væri lausnin á kanínuvanda Eyjamanna fengin með páskaleik Þjóðverja - að siga hundum á kvikindin - en auðvitað eru páskarnir svo stuttur tími og hundarnir fáir. En hér kemur þetta - hann Karl frá Þýskalandi ætlar að senda nokkur svona krútt til Eyja og þær munu hrekja litlu ræflana á haf út! Að vísu er hann dálítið tregur í taumi því að hann sendi víst nokkur stykki til Norður Kóreu til að bjarga sveltandi þjóð en bansettur Kim Jong Il grillaði þær í afmælisveislunni hjá sér - svo að alþýðan í kóreu sveltur enn.
Nú er það bara spurningin hvort Eyjamenn éti kanínurnar í lundaleysinu - tja hver veit en við vonum það besta.
Föstudagur, 13. apríl 2007
Aðrir handleggir og ósamvinnufúsir armar.
Það ku hafa tíðkast hér áður fyrr þegar bændur og búalið leituðu til kaupfélagsstjórans eftir láni að hann fór gjarnan undan í flæmingi - en slík sena er sjálfsagt flestum ógleymanleg er sáu myndina "Land og Synir". Já það vantaði víst oft annan handlegginn á Kaupfélagið. Og það er ekki bara vinstri handleggurinn sem hvarf af Kaupfélaginu - nei hann fór líka af aumingjans asíska dýralækninum sem ætlaði í góðmennsku sinni að hjúkra krókódíl - heppinn að vera ekki að bora í nefið þegar króksi beit af honum handlegginn. Ég þekki tvo dýralækna - og tel víst að þeir lendi ekki í sambærilegum hremmingum í íslenskum sveitum - nema náttúrlega ef beljan snýr sér snöggt við þegar verið er að athuga hvort hún sé með kálfi!
Og svo er það þetta með armana sem aldrei virðast geta starfað saman - jafnvel þó að þeir séu í raun á sömu skepnunni. Nú er það nýjasta að Margrét og Ómar séu sitthvor armurinn á sömu hreyfingunni - sem ekki geta unnið samhent lengur - ætli Kobbi stuð sé þá miðfóturinn - svona til jafnvægis og hvatningar? tja ekki veit ég - en ég hef meiri áhyggjur af henni Margréti sem greinilega er í vandræðum með arma - en eins og allir muna þá klauf hennar armur sig burtu frá Frjálslyndum - sem kalla mætti Mislynda í dag - af því að þar eru víst orðnir svo margir armar að líkja mætti við kolkrabba. Þegar kosningum líkur tel ég víst að Margréti verði boðin staða hjá þróunardeild Össurar og verði þar sett í að sjá um þróun gerviarma - svona sem auðvelt er að taka af og setja á aftur - allt eftir hentugleika í það og það skiptið. Og mér sýnist Ómar ætti að fá sér slíka arma - en hann þarf víst að hafa sig allan við að hrifsa til sín hugmyndir og frumvörp annarra - gott að hafa fleiri arma við þá iðju - helst með marga og langa fingur.
Já það er spennandi að fylgjast með þessu öllu saman - stórskemmtilegt.
Fimmtudagur, 12. apríl 2007
Að fara í pútnahús getur dregið dilk á eftir sér segja bæði Magic Johnson og sveinki - betra að setja öryggið á oddinn þegar íþróttir eru annarsvegar.
Mikið er fjallað um hugsanlegan fluttning Eiðs Smára frá Barselóna til Manséstér Júnætíd. Stundum er hann spurður en stundum er bara eins og honum komi þetta ekkert við - mæti bara til vinnu og standi sína plikt. En líklegast má nú telja að ferðum fótboltaáhugamanna til Bretlands muni fjölga þegar "okkar" maður er kominn þangað á ný. Og þeim sem hugsanlega hyggja á slíka ferð er hollt að setja öryggið á oddinn - vera ekki með neina stæla og passa sig á útlendingunum.
Eftirfarandi sögu má taka sem dæmisögu um hvernig slík ferð getur snúist upp í öndverðu sína - sett strik í reikninginn og dregið dilk á eftir sér.
Sagan er af úngum piliti að norðan - köllum hann bara sveinka - en sá hefur alla tíð verið mikill Arsenal aðdáandi - svo mikill að minnstu munaði að ekki tækist að ferma pilt því fermingin stangaðist á við athöfnina í Akureyrarkirkju - en það er önnur saga - og miklu lengri. En í tölu trúenda komst sveinki og er enn. Að vísu er hann genginn úr Arsenalklúbbnum - honum ofbauð þegar Arsenal gerði jafntefli eftir að hafa sett met í ensku deildinni í fjölda sigurleikja í röð. Já hann fékk nóg af aumingjaskapnum - og gekk úr klúbbnum eftir 30 ára dvöl.
En sem sagt - til Lundúna skyldi sveinki fara - sjá leik og jafnvel menningarlíf borgarinnar - en það birtist mörgum íslendingnum sem barþjónn á búllu. Að vísu byrjaði ekki ferð sveinka vel - því kall náttúrlega gleymdi passanum norðan heiða og þurfti að útvega bráðabirgða passa á keflavíkurvelli - og þá hefði auðvitað fyrsta varnaðarklukkan átt að hringja. En það gerðist ekki og í staðinn skellti sveinki í sig öllara klukkan sexþrjátíu um morguninn - enda alvöru maður á útferð - á vit ævintýra.
þegar til Lundúna koma - tékkaði sveinki sig inn á hið rammíslenska hótel sem ég kalla svo þar sem það er, eða í það minnsta var vinsæll gististaður íslendinga - YMCA hótel - við Oxfordstræti að mig minnir. Settist inn á barinn og fékk sér neðan í því - enda ekki daglegt brauð að maður komi á bar þar sem bæði er píanó og þeldökkur barþjónn sem heitir Gustav. Og var sveinki ekki lengi að tengja og kallaði ræfils barþjóninn ekkert annað en "black-man-Ray" það sem eftir lifði ferðar og til heiðurs goðsögninni "blind-man-Ray". En nú fara leikar að æstast - sveinki kominn í stuð - og leikurinn brátt að byrja. En ekki verður frekar fjallað um leikinn sem slíkan - því ferðasagan fjallar um ferðina og söguna sem henni fyglir.
Að leik loknum má hreinlega segja að sveinki hafi verið orðinn svart-fullur. Þetta sumbl og sú staðreynd að sveinki var í slíkum ham að fátt var honum ófært endaði með því að hann reif sig úr öllu nema grænum brókunum - sveipaði um sig sovéska fánanum og hvarf út af hótelinu - já hann hafði nefninlega keypt sér sovéska fánann þegar hann kom af leiknum - hjá götusala.
Ekki fara neinar spurnir af sveinka fyrr en daginn eftir þegar fara átti heim - þá var risið lægra á sveinka - bakkus bróðir gufaður upp og móri sestur í hans stað. Og ekki var hann til frásagnar um hvert hann hefði farið eða hvað hann hefði gert. Að vísu benti ýmislegt til að hann hefði lent á einhverskonar pútnahúsi - ekki orð um það meira.
Þetta þótti samferðamönnum hans ansi skondið - og allveg til þess fallið að grínast með. Fóru þeir nú hver af öðrum að þakka sveinka samvistirnar - skemmtileg kynni - og báðu hann vel að lifa - þann stutta tíma sem hann ætti eftir. "Hví og hva.." voru svör sveinka - hví hugðu þeir honum ekki líf? "Jú sjáðu til sögðu þeir - eftir pútnahúsferðina - án öryggishjálms á oddi - ertu líklega sýktur". "Já af þessu eidsi". Og nú var sveinka öllum lokið - minningarnar sem höfðu ekki látið sjá sig komu nú hver af annarri - ekki endilega í réttri tímaröð - en líkt og púsluspil pössuðu brotin saman. Og myndin var ófögur svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Svo var flogið heim - flestir ánægðir með úrslit leiksins - en sveinki niðurlútur og skömmustulegur - blótaði í hálfum hljóðum - dæsti og skalf.
Svo líða nokkrir dagar. Sveinki viðar að sér allskyns upplýsingum um þennan banvæna sjúkdóm -sem á þessum tíma var ekki mikið í umræðunni. Þurrkaði upp bæklingamarkaðinn á heilsugæslustöðvum og tannlæknastofum - og á endanum var hann orðinn einn helsti sérfræðingur í eids. Og árangurinn lét ekki á sér standa - hann var hreinlega löðrandi í einkennum. Út um allt - meira að segja rispa á milli stórutánna sagði sína sögu. Heimsóknin á pútnahúsið dró dilk á eftir sér. Og því meira sem sveinki las - því betur varð hann að sér - og því betur skildi hann að nú væri stutt í endalokin.
Hann mætti að vísu til vinnu - þar sem hann starfaði á næturvöktum í verksmiðju á Akureyri - stóð þar og skalf - ýmist af kulda eða hita - og svo þegar pásur voru, kaffi eða matartímar þá las sveinki - og las - og las - og greindi einkenni. Allt bar að sama brunni - það var sama hvað hann las - staðreyndirnar hrúguðust upp - hann var með þetta eids. Nú var svo komið að sveinki var óvinnufær - kallaður var til læknir en fann ekkert að sveinka - sem lá heima hitalaus í skjálftakasti. Á endanum veiðir læknirinn upp úr sveinka hluta úr ferðasögunni. Situr þögull og hlustar á sveinka kveina um konur og vín - óheppni og heimsku. Í lok viðtals fær sveinki tíma hjá sérfræðing til frekari rannsókna - og blóðprufu.
Þegar niðurlútur Arsenalaðdáandinn mætir í viðtalið - segir sérfæðingurinn hátt og snjall svo sveinka fannst þetta glymja um húsið allt "komdu með kónginn lagsmaður" - stroksýni var tekið og blóð dregið. "þú færð niðurstöðurnar á miðvikudaginn fyrir klukkan 15". Og með þetta fór sveinki út - vitandi það að næstu daga myndi hann telja alla klukkutíma, mínútur og sekúndur - nokkru sinnum. Úff.
Svo líður tíminn - það kemur mánudagur - þriðjudagur og loks örlagastundin. Og klukkan tifar - er í tvo tíma að færast um fimm mínútur - og sveinki bíður. Svo verðu klukkan tvö - engin símhringing - hálf þrjú - engin símhringing - ......ÞRJÚ!!...engin hringing. Sveinki rýkur upp - rífur símann úr sambandi og stingur aftur í samband - ring....ring.....hrópar síminn og sveinki rífur upp tólið "HALLÓ" svarar hann útúrtaugaður....- "eretta sveinki" er spurt...."JÁ" svarar sveinki. "Já, niðurstöðurnar eru komnar.....tiktiktikktikktikk....klukkan tifar...tifar.......og þær eru neikvæðar" segir röddin. Sveinki missir símtólið - grípur um höfuð sér og æviminningarnar fljúga í gegnum huga hans - allt sem hann ætlaði að gera en gerði ekki - og þetta sem hann gerði en átti ekki að gera. "hallóóóó´"....heyrist þá úr tólinu". Sveinki tekur upp tólið "haahhhhallló" segir hann veikri röddu - "heyrðu lagsmaður" er sagt úr símtólinu - hvellri röddu "sveinki minn - neikvætt í læknisfræði er jákvætt fyrir sjúklínginn"...- "ha?" segir sveinki - "já og mundu svo eftir smokknum.....". Með það leggur læknirinn á og hverfur til sinna starfa. Sveinki var endurfæddur - Það var eins og sveinki hefði fengið doðasprautu í rassinn - nýtt líf með nýjum tækifærum - og hættum - en núna með öryggið á oddinn.
Já það er betra að passa sig þegar maður er úngur maður að norðan - í útlöndum. Sveinki hefur allveg náð sér af þessum krankleika og lifir öruggu lífi í dag. Er að ég held á ferðalagi um Rússland - vonandi bólusettur fyrir berklum.
seisei já.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)