Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Afhjúpaður við kjólakaup - kvenlegt eðli í súkkulaðilandi.

Ég komst í'ann krappann - þar sem karlmennskan ræður ríkjum - í heimabæ jakkafatanna og formlegheitanna - í Brussel.

Ég fór utan að hitta nokkra kollega - ræða málin og spekúlera - kynna niðurstöður og taka þátt í Evrópumálunum. Já ég fór til Brussel. Hafði að vísu komið þar áður en fannst lítt spennandi - kannski vegna þess að ég hafði engan tíma til að skoða - bjó og fór á fund í ESB hverfinu - sterílu og ljótu.

En nú hafði ég auka tíma - tíma til að labba og skoða. En fyrst var það fundurinn með skriffinnunum - bírókrötunum. Í háreistu húsi sem ekki hafði nokkra hlýju settumst við á fund. ESB fulltrúinn var ung kona sem augljóslega var þreytt - ofurþreytt og stressuð. Ég kveikti á tölvunni - hugðist taka á móti mikilvægum sendingum - enda tæknin svo mikil að maður þarf ekkert að detta úr sambandi þó maður sé í útlöndum.

Og til mín streymdi tölvupóstur. Fyrst kom eitt bréf frá "Edinborgarhúsinu" á Ísafirði. Ég opnaði póstinn og reyndist hann vera frá fínni frú sem músíserar í "Skugga-Sveini" - og hljóðaði uppá að ég skyldi kíkja í flottustu fatabúð Brussel borgar ef ég hefði tíma. Nú, jæja hugsaði ég og einbeitt mér að fundinum. Kollegarnir sem sátu mér við hlið skildu auðvitað ekki skilaboðin - enda á íslensku. Karlmenn frá skotlandi - Frakklandi og Noregi.

En þá kom gusan - tölvubréfin streymdu inn - öll merkt "Edinborgarhúsinu" - ég hélt að um bilun væri að ræða - og ákvað að opna þau til að kanna vandann - og þá byrjuðu myndirnar af skjótast fram - af gullfallegum stúlkum í kjólum! og undir stóð - "þessi er fínn" ...."líst betur á þann númer tvö"....og svo framvegis. Kollegarnir í jakkafötunum kímdu - horfðu á mig kankvísir þegar ég lokaði myndunum einni af annarri.

Svo lauk fundi - og glósurnar byrjuðu fyrir alvöru..... "mikið hefur þú bætt á þig...ertu kominn í D-skálar..." ... og ólmir vildu þeir fara með mér í kjólabúðina - sáu svo vel fyrir sér íslendinginn í rauðum blúndukjól - eitthvað svo jólalegur - með belgískt súkkulaði á milli fingra.

Og auðvitað reyndist mér gjörsamlega ómögulegt að fara inn í nokkra búð - ávallt hafði sá franski orðið og talaði með öllum öngum við afgreiðslustúlkurnar  - benti á mig og svo greyp hann um mitti sér og veifaði frá sér....og afgreiðslustúlkurnar brostu - litu á mig, kinkuðu kolli og brostu til mín með meðaumkun...og ég skildi ekki orð.....

Já - það var ekki laust fyrir að frúin í Edinborgarhúsinu hafi gert mér lífið erfitt í borg bírókratanna - og nú er maður stimplaður "the Icelandic transverstite".....

 


Það sem vel er grafið geymist vel!

Í kvöld er frumsýning á Skugga-Sveini. Örlar á stressi og spenningi - það er gott. Veður er vont og minnir sjálfsagt um margt á líf þeirra útilegumanna - það er líka gott.

Fyrstu setninguna skrifaði ég í fyrradag. Nú er frumsýningin afstaðin og reyndar sýning nr. 2 líka. Jón minn sterki er búinn að rífa kjaft og fá flengingar - en ótrauður heldur hann fram ágæti sínu.

En það sem ég sagt vildi hafa er að Matthías spilaði ákveðna rullu í hugum margra krakka fyrir norðan - ekki beint sjálfur heldur húsið hans sem stóð og stendur enn á stöllunum fyrir neðan kirkjuna - Sigurhæðum. Háreist hús á fallegum stað. Þar grófum við okkar fyrstu flösku - ef svo mætti að orði komast. En áður en maður komst á innkaupa-aldurinn þurfti að fá einhvern til að kaupa fyrir sig flösku - kryppling eða aumingja eins og stundum var sagt. Og fenginn varð að fela - ekki þorði maður með hann heim. Og því lá ágætlega við fela við rætur húss Matthíasar - sem stóð jú nærri bænum og var í leiðinni heim.

Í þá daga voru menn ekkert fjasask þetta með eðalvín og ártöl - nei, vínið var "Stjáni bróðir" - kínverskt rauðvín eða krypplingur. Ekkert flóknara en það. Að vísu var maður á þeim tíma líka sannfærður um að hvorki pabbi né mamma kynnu að telja - því við og við hnuplaði maður kirsuberja vínflösku úr heimilisframleiðslunni....dísætu og drakk af stút í lystigarðinum sem konurnar gerðu um árið.

Það var í þá daga - þegar fjársjóður var ennþá grafinn. Flöskur og bara allt sem átti að geymast til betri tíma. En auðvitað var best að muna vel og leggja á minnið hvar gröfturinn átti sér stað - því annars varð veiganna ekki neitt né afraksturs notið. Og stundum urðu það einmitt örlög greftrunar - "líkið" bara fannst ekki aftur. Ætli maður eigi ekki eina eða tvær flöskur ennþá grafnar á góðum stað við rætur Matthíasar.....

En verri voru þó hremmingarnar sem Taui vinur minn lenti í. Hann eins og svo margir fór í unglingavinnuna - sem hét einfaldlega vinnuskólinn í þá daga - enda var maður undir húðlatri stjórn góðra manna - Bjössa Sverris og Sigga Davíðs....og lærði vel til verka - við að hesthúsa einni með öllu og lítilli kók....en það er nú önnur saga. En hvað um það, aumingjans Taui hafði reitt arfa allan liðlangan daginn þegar verkstjórinn kom á landróvernum og deildi út launaumslögunum - en í þá daga fengu menn borgað í peningaseðlum. Taui greyið, ekki með vasa á buxunum og í skítugum jakka tók á það góða ráð að grafa umslagið - á góðum stað í útjaðri garðsins - kirkjugarðsins. Lagði vel á minnið hvar staðurinn var og ætlaði svo að sækja fenginn að loknum vinnudegi - og njóta erfiðisins með ljúffengum ís og gúmmelaði.

En aldrei fann Trausti ræfillinn staðinn - "leiðin voru eitthvað svo lík" og ómögulegt var að átta sig á staðsetningunni.....já þetta var launalausasti mánuður Taua - sem í dag skilst mér að geri það gott í Könudu.

Já - minningar um Matthías ylja manni.


Skugga-Sveinn á fjölunum fyrir Vestan. Litli Leikklúbburinn með metnaðarfulla sýningu á haustdögum.

Ekki veit ég hvort að tilviljun ein réð því að ég var fenginn til að koma á eina æfingu með Litla Leikklúbbnum (LL) á Ísafirði og lesa hlutverk "Jóns sterka" í Skugga Sveini - en það sumsé gerðist og nú er ég "orðinn Jón sterki...".

Aldrei, aldrei fyrr hef ég nálægt leikhúsi komið - í það minnsta ekki baksviðs né á sviði. En nú er ég sem sagt kominn í hlutverk í Skugga Sveini sem LL er að setja upp undir stjórn konu minnar Hrafnhildar Hafberg.

"Nú,nú - seisei, varla hefur það verið mikil breyting" segja sumir, "þú ert líklega undir sömu stjórn á æfingum líkt og heimavið". Og auðvitað er það rétt. En munurinn er bara sá að nú býr aumingjans Hrafnhildur með okkur báðum.... "Jóni sterka og mér" - eins og það hafi nú ekki verið nóg að búa með mér einum - þó ég sé ekki ýmist staddur á "grasafjalli að gutla við grefils fitl í sólskyninu" eða "að berja danskinn á Bakkanum" líka líkt og Jón sterki......

En Jón Sterki er skemmtilegur karl, þó mestur sé hann í kjaftinum - eins og Sigurður á Dal bendir réttilega á í leikritinu. Hann er hrokagikkur hinn mesti - lítur stórt á sig - og rífur kjaft við menn og málleysingja. En þegar á hólminn er komið þá.....

Já - ég held að þetta verði hin mesta skemmtun. Og upplifunin að fá að taka þátt í þessu felst ekki síst í því að maður fær nýja sýn á hið hversdagslega - þ.e. samferðafólkið. Í hlutverkunum eru nefnilega einstaklingar sem maður á förnum vegi þekkir sem sjúkrafluttningamann - bóksala -  tölvunörda og guð má vita hvað. Skemmtilegur hópur sem umbreytist í útilegumenn - lögréttu og sýslumenn - bændur og búalið. Meira að segja Hólasveinar eru þarna komnir ljóslifandi og syngjandi í þokkabót! Já, það er ekki amalegt að vera með kennslustöðu við Hólaskóla og kynnast þeim Hólasveinum eins og þér létu hér á árum áður - syngjandi glaðir og kokhraustir - eða eru þeir kannski ennþá svona....?

Leikmyndin mun vekja eftirtekt enda um nýstárlega hugmynd að ræða sem miðar að því að heiðra minningu Sigurðar málara Péturssonar - skemmtileg útfærsla hjá honum "Jóni Sigurpáls vip.hon.art." Já hún á eftir að koma skemmtilega á óvart þessi sýning.

Það passar vel að sýna Skugga Svein í nýopnuðu Edinborgarhúsinu eftir miklar endurbætur - stórglæsilegum húsakynnum LL - en þegar húsið var opnað á sínum tíma var það einmitt Skugga Sveinn sem var fyrsta sýningin.

Nú er bara að sjá hvort fólk mæti..... en frumsýningin er 17. nóvember....


Helvítis englarnir.

Mér finnst hún um margt kómísk - umræðan um Hells Angels og heimsóknartilraunina til Íslands. Ekki það á hér sé ekki um alvarlegt mál að ræða - nei, bara það að þeir skuli vilja koma til Íslands.

Mér finnst það í raun álíka gáfulegt og að 4x4 jeppaklúbburinn stofnaði útibú í Vatíkaninu. Málið er einfalt - það frýs undan þeim þegar þeir þjóta um götur bæja og þorpa íklæddir leðurvestum og berhausaðir. Eða ég geri ráð fyrir að þeir séu mótorhjólagæjar.

En ef markmiðið er að stunda glæpi þá finnst mér það ennþá fáránlegra að koma til Íslands. Ekki ætla þeir að fara "huldu" höfði - merktir í bak og fyrir - með saumaða leppa á skinnvestum sem segja til um hvort þeir hafi drepið mann. Líklegast segja þessir leppar líka til um hvort þeir séu hættir með bleyju - í það minnsta er nóg af miðum á vestunum.

Nú, svo er auðvitað illfært víðast hvar um landið - í það minnsta fyrir Harley Davidsson. Ekki ætla þeir að setjast á Yamaha YZ eða Enduro torfæruhjól til að ræna sjoppuna á Flateyri.....En ef svo væri þá verða þeir auðvitað að velja réttan árstíma til að sitja ekki fastir á Hrafnsfjarðarheiðinni....

Já flott verður líklega íslandsdeildin - í Millet úlpum skreyttir með hrafnsfjöðrum pikkfastir á þorskafjarðarheiðinni.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband