Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Bólugrafinn únglíngur - Akureyri.

Nú er ég búinn að vera á Akureyri í rúman sólarhring - mínum æskuslóðum. Og bærinn er ennþá Akureyri þó hér sé mikið breytt - til batnaðar að ég tel að mestu. Gríðarleg uppbygging hefur átt sér stað - jafnt innra sem ytra. Það var því óvænt en notarleg tilfinning þegar ég vaknaði í morgun og heyrði ekki í nokkrum bíl - bara þessi gamla góða þögn sem einkennir rólyndis bæi. Akureyri er sem sagt bara Akureyri.

En þegar farið er um  bæinn þá er manni auðvitað ljóst að hér hefur eitthvað átt sér stað - eitthvað mjög mikið. Þar sem áður var lítið gamalt hús sem kallaðist Baldurshagi eru risin háhýsi - í hróplegu ósamræmi við umhverfið að mér finnst - og Helgi magri verður dálítið eins og unginn á páskaegginu - hálf-aumingjalegur-gulur-pípuhreinsara-úngi með engan tilgang. Ef hann er þarna ennþá. Já Akureyri er svo sannarlega sem óharnaður únglíngur - með andlitið bólgið og bólugrafið - bíður eftir þroskanum og fullvöxnu útlitinu. En hér er nú samt skemmtilegur hraði - eins og allir séu eithvað að flýta sér - ekki eins hratt og í Reykjavík en miklu hraðar en á Ísafirði. Og jakkafata - drakta bisnessmenn og konur eru einhvernveginn svo miklu meiri bisness menn og konur - í jakkafötum og dröktum. Meira að segja Ísfirðingarnir sem ég hitt í hádeginu á Bautanum voru allt öðruvísi en venjulega - svo miklu meiri viðskiptamógúlar en þegar maður mætir þeim fyrir Vestan - voru einhvernveginn svo mikið í bisness. Dálítil sveitarómantík yfir þessu - hefði átt að kanna hvort ekki væri kaupstaðarlykt af þeim.

En fyrir Vestan halda menn uppá að Fiskistofa er að fjölga stöðugildum um eitt - og boða til veislu. Og mér finnst það bara fínt - sérstaklega þegar ég sá að nýja starfið á að vera m.a. umsjón með öllu þorskeldi - skráningum og slíku. Það er vel - þá náum við þessum pakka vestur. Því að það er sama hvaða flokk menn kjósa - það hefur gengið ágætlega í uppbyggingu tengdri þorskeldisrannsóknum fyrir vestan - og þar hafa þeir er stjórna tekið virkan þátt - fyrst Árni Matt og nú Einar K. Og ég á ekki von á öðru og heyri ekki annað en að Einar k. ætli sér að halda áfram stuðningi við það verkefni. Það er vel. Því uppbygging verður að vera ópólítísk - með þátttöku allra er áhuga hafa á að byggja upp - hvað sem er - og sem skilar viðkomandi sveitarfélagi mögulegri framtíð. Framtíð sem ekki verður í flokkslitunum heldur BJÖRT.

Það er mín skoðun.


Er Ísland að hverfa...?

Ég fékk sent þessa "skemmtilegu" mynd - og nokkra púnkta til umhugsunar.

Skoðið endilega.

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Og allir saman nú.....gull...gulllll....guuuullllllll

Það er dálítið kómískt ástand fyrir Vestan - svona sorgleg-kómík. Það eru nefninlega allir að reyna að bjarga Vestfjörðum - menn að stinga saman nefjum hér og þar - jafnt kvölds og morgna. Allt er á fullu og allir taka þátt. Hálfgert gullgrafaraæði og allir, já allir ætla sér að ná sneið af kökunni. Og auðvitað er það vel - ja maður lifandi - allveg hreint stórfínt. En það er bara svo gaman að vita af þessum "grúpperingum". Ég sjálfur hef auðvitað "rætt við menn" og "spjallað við fólk".  Og auðvitað hef ég ýmsar lausnir. Líkt og allir aðrir.

En málið er náttúrlega það að allar lausnir KOSTA PENINGA - sumar mikla - aðrar minni. En ALLAR KOSTA ÞÆR PENINGA. Og því spyr maður: "eru þessir peningar til" og afhverju eru þeir til núna en ekki áður allt fór í steik?

Ég tel mikilvægt að ríkið komi til hjálpar - flytji strörf Vestur, störf sem hentar að flytja og geta hæglega unnist fyrir vestan. Ég vil líka að ríkið komi með stuðning við fyrirtækin á svæðinu - það er líklegast ekki vanþörf á.

Og þetta með vegina.....úffffff þetta með vegina. Ég nefninlega keyrði frá Ísafirði til Reykjavíkur í gær - ef keyra er rétta orðið - ég hálf þræddi þessa slóð sem þó eru verst á Ströndum. Meira að segja þokkalega stolt rolla af Ströndum léti ekki bjóða sér svona lagað - nei hún myndi líklegast feta sína leið. En við mannfólkið - þurfum að láta bjóða okkur þetta ár eftir ár - og nú með tvöfaldri áhættu þar sem umferð stórra fluttningabíla er margföld - MARGFÖLD. Sem sagt, holur-skítur og fluttningabílar = uppskrift að vel heppnuðu dauðaslysi. Maður hreinlega skilur ekki hvernig hægt er að komast lifandi suður.

Ekki það að ég vorkenni ekki aumingja borgarbúunum með gatnakerfið þar á bæ - sem þó hópur skipulagsfræðinga vinnur dag og nótt við að útfæra - og góðvinur minn er einn - fór meira að segja til könudu til að stúdera - lærði víst í rangri borg - eða eithvað hlýtur það að vera.....vinstri-græn gatnamót og hægri mislæg, eða hvað þessar útfærslur heita allar...ekki skil ég það - ég er bara aungra manna að norðan. Nei þá kýs ég nú frekar Bolungarvík með ein götuljós - eða götuljósalíki því þau eru alltaf steindauð. Líklegast enginn bíll til að stoppa fyrir gangandi vegfarendum, eða öfugt - en hvað veit ég.....aungra manna að norðan.

En ég er sem sagt búinn að keyra suður eftir drulluslóð með dauðagildrum - aka um borgina í einskonar skipulögðu kaósi og ætla svo keyrandi norður annaðkvöld. Tja, ætli Bjössi lögga bíði mín ekki við Blönduós - úfff...það er vandlifað - í það minnsta undir stýri. Og auðvitað legg ég þetta á mig til að kynnast landi og þjóð af eigin raun. Maður veit náttúrlega ekki nema að maður skelli sér í forsetaframboð - kominn tími til að raunvísindamaður taki við embættinu - aungra manna að norðan.

já ég held það bara - skelli mér í framboð! Búinn að kynnast svo mörgu og mörgum. Konan talar frönsku - ég sænsku og ensku - sem sagt partýhæf í þremur löndum!

Svo er nú það, tja seisei já.


Atkinskúrinn drepur - konur.

Ég skrifaði pistil hér um daginn um megrunarkúra – ekki af því að ég teldi mig vera einhvern sérfræðing á sviðinu - heldur finnst mér bara svo leiðinlegt hve mikil vitleysa er höfð fyrir fólki – á stundum.

Og nú eru niðurstöður rannsóknar sem staðið hefur í 12 ár að sýna fram á Atkinskúrinn getur stytt lífshlaup kvenna - komið þeim í gröfina langt fyrir aldur fram. 

 

Og hvað veldur? Jú, eins og ég benti á í fyrri pistli um megrunarkúra þá felst í Atkinskúrnum að skera niður magn kolvetna í fæðunni og auka hlutfall próteina og fitu – þá maður er á Atkinskúrnum svokallaða. Ég benti einnig á að kúrinn gæti haft slæm áhrif á heilann þar sem eldsneyti heilans eru kolvetni – ekki prótein eða fita og hættan væri að enda í dauðadái - coma - kóma.

 

Rannsóknin sem birt var í Journal of Internal Medicine sl. Mánudag, byggir á því að fyrir tólf árum svöruðu 42000 konur á Uppsalasvæðinu í Svíþjóð mjög nákvæmum spurningum um fæðuval og megrun. Nú tólf árum síðar kemur í ljós að dánartíðni var hærri hjá konum sem fengu dagskammt hitaeininga úr próteinum en ekki kolvetnum – flestar létust úr hjarta og æðasjúkdómum. Þetta bendir ótvírætt til að mikilvægt er að útiloka ekki allveg kolvetni úr matnum.  .

 

Ég segi - allt er best í hófi - smakkið heldur á púngunum góðu - þar er góð blanda af fitu og próteinum og þegar búið er að brytja púnga niður á pastabeð - nú þá er maður með mjög skemmtilegan "pasta-púng" - hina fullkomnu blöndu.

það er mín skoðun.


Skyrtutrix og verkun púnga - Vestfirskt gúrme.

Ég var að segja frá einföldu trixi til að nota á skyrtur til að losna við að strauja þær. Nú veit ég ekki hvort að mér sé heimilt skv. lögum að ræða svona trix - en ég geri það samt - verð þá bara í klefa með þeim Spaugstofumönnum.

En - þegar búið er að þvo skyrtur er gott að skella þeim í þurkara og láta hann ganga í 5-10 mín - ekki við of hán hita - hengja skyrtuna svo upp á herðatré og láta þorna - og þá þarf ekki að strauja!

Nú, þá eru það púngarnir - verkaðir skv. gamalli hefði í Bolungarvík. Veit ekki hvort hér er um einakleyfishæfa aðferð að ræða - en hví ekki að kanna málið - ekki veitir af eins og staðan er í dag. Ég vona að þeir Bernódusarbræður afsaki þetta. 

Þegar lambhrút hefur verið slátrað er púngur skorinn af og saltað í sárið. Síðan eru eistu dregin úr og hreinsuð af þeim himnan og troðið umsvifalaust í skjóðuna aftur. Gott er að taka bút af slagi og troða í skjóðuna meðfram eistum og sauma fyrir. Næsta skref er að svíða púnginn - með gúmmelaðinu í. Við það öðlast hann skemmtilega áferð og góðan konsistens. Hér erum við komin með dásamlegan rétt - bæði nýsoðinn með kartöflum eða kaldan ofan á brauð. Ekki er vitlaust að hafa með sér púng eða tvo þegar farið er í gönguferð eða lengri túra - og nota sem skemmtilegan puttamat. Eins finnast bæði börnum og útlendingum gaman af að leika sér með slíkan mat - hægt er að nota púng til knattiðkunar og éta síðan er hungrið segir til sín.

Ég fæ vatn í munnin við þessi skrif.....

 

 


Kvenmannslaus karl í þvottahúsi.

Ég er alinn upp með fjórum systrum. Næst yngstur og er því ekkert dekurdýr. Að vísu kvörtuðu systur mínar yfir því að mamma dekraði mig allt of mikið. Ekki fannst mér það. Ekki þega ég lá inni í rúmi og nennti ekki fram í eldhús að fá mér að borða morgunmat - kallaði bara fram og mamma kom með allt smurt inn til mín. Ekki heldur þegar við pabbi sátum inni í stofu og slöppuðum af eftir góðan mat á aðfangadagskvöld og biðum eftir að mamma og systur mínar gengju frá í eldhúsinu og kláruðu að þvo upp svo hægt væri að opna pakka. Já ég fann aldrei neitt að ráði fyrir því að vera eini strákurinn í hópnum. Ég tók svo sem til hendinni - setti í þvottavél þegar mamma var ekki heima - einu sinni - því ég tók eithvað vitlaust á takkanum og hann brotnaði - og ódýrar var að kaupa nýja þvottavél og mamma sagði að ég þyrfti ekkert að gera þetta aftur - stelpurnar myndu sjá um það fyrir mig.

Og ég hélt í barnaskap mínum að allar konur ættu að vera eins og mamma.

En þar sem ég er farinn að tala um þvott ætla ég að tala um þvott - því að í  morgun sannreyndi ég húsráð sem mér var kennt ekki alls fyrir löngu - þ.e. hvernig meðhöndla skal skyrtur svo ég sleppi við að strauja þær (það sá mamma alltaf um líka - en ekki konan mín). Það sem er svo gaman við þetta húsráð að það var ekki konan mín sem sagði mér þetta heldur aðrar konur - og það tvær - allt aðrar konur. Og báðar eru þær giftar og hafa verið lengi - og eru náttúrlega að tala um skyrtur eiginmanna sinna - og viðurkenna þar með að hugsa um sína kalla - bognar í baki fyrir framan þvottavélina - og eru líka örugglega fyrir aftan eldavélina þegar í eldhúsið er komið.

Jæja, meira um húsráðið - En ég kom sem sagt heim glaður í bragði og sagði konunni minni frá þessum leyndarmáli - þessari gjörð sem gerir skyrturnar sléttar og fínar - og ég sagði þetta eins og ég væri kominn með eithvað sem myndi létta henni lífið - svo um munaði - En þá var svarið: "og?"! - OG, sagði ég, er þetta það eina sem þú hefur um málið að segja? "já" sagði hún, "ég skil ekki hvað þetta kemur mér við - ekki geng ég í þínum skyrtum". Ég lét eins og ég hefði ekki heyrt þetta - setti skyrturnar í óhreintaus körfuna og ákvað að bíða þar til þær kæmu svo hreinar upp í fataskápinn minn. Allveg handviss um að konan myndi sjá að sér - sinna sínum manni - því auðvitað hlaut hún að vera alin upp af mömmu sinni - sem hefur þá þvegið og straujað af pabba hennar...eða það hélt ég?

Og nú var ég semsagt að koma úr þvottahúsinu, búinn að prufa nýja trixið - jú af því að skyrturnar fóru aldrei sjálfar í þvottavélina - hvað þá að þær kæmu nýþvegnar og straujaðar í skápinn. Og konan búin að vera úti í Frakklandi í viku og kemur ekki heim fyrir en eftir viku. Ég varð semsagt sjálfur að sjá um þetta. Og hló dátt í þvottahúsinu yfir því hve auðvelt þetta er - í reynd gaman. Og ekki síst að kunna trixið. Trixið sem spara mér ótrúlegan tíma sem ég get nú varið fyrir framan sjónvarpið - missi ekki af neinu og geri ekki neitt á meðan - og skyrturnar sléttar og fínar. Og í réttum litum - enda var ég búinn að taka rauða sokkinn og setja í poka - hnýta fyrir og fela - svo að helvítið laumaði sér ekki með í vélina.

Og hvert er svo trixið? ..ha,ha - ef þið bara vissuð.

Mér líður eins og sjálfstæðum manni. Þarf ekki að fara með skyrturnar í hreinsun. Get þvegið þær sjálfur.

Já- í næsta bloggi er ég að spá í að fara í saumana á því hvernig maður verkar púnga - á Bolungarvíkurvísu.

Ég held ég geri það bara.


Er lífið alvarlegasti sjúkdómurinn?

Einhverju sinni sagði einhver "lífið er alvarlegasti sjúkdómurinn - enginn hefur lifað það af". Í það minnsta styttist það með hverjum deginum sem líður og það er kannski einmitt sú staðareynd sem gerir það svo dýrmætt. Og þá er líka mikilvægt að fá að lifa því eins og maður kýs sjálfur - auðvitað innan skynsamlegra marka og án þess að skaða aðra - um ókomna tíð. 

Ég og sonur minn Ísak vorum að koma úr matarboði hjá vinafólki mínu. Það var gaman að sjá hvað Ísak varð stoltur þegar hann hitti litla prinsinn á heimilinu sem heitir líka Ísak - eitt sólskinsbros.

En það var húsfreyjan, Anna sem sá um matinn og gerð listavel. Venjulega hefði nú heimilisfaðirinn gert það en hann er búinn að ganga í gegnum ansi erfiðan tíma eftir að hafa greinst með heilaæxli sl.haust - í kjölfar heilablóðfalls. Margir hefðu líklegast lagst niður og gefist upp - en ekki hann Stjáni - nei, það er bara ekkert í boði hjá mönnum eins og Stjána.

Við Stjáni reynum að hittast á hverju degi - skreppa saman í gufu og ræða málin. Og það er mér svo sannarlega gefandi að ræða dagleg líf við mann sem tekur veikindum sínum af slíku æðruleysi að slíku hef ég aldrei kynnst áður. Aldrei. Það er nefninlega svo einkennilegt hve mikilli orku maður eyðir í hluti sem ekki skipta nokkru einasta máli - engu. Í það minnsta á ég það til. Og þess vegna er það svo gott að kynnast því hvað skiptir máli í lífinu - sem er að lifa lífinu lifandi og njóta þess sem það hefur uppá að bjóða.

Það er nefninlega ekkert sjálfgefið að við verðum hér á morgun - hver veit. En auðvitað þýðir ekkert að velta því fyrir sér.

Um daginn þegar Stjáni vinur minn var búinn að vera í rannsókn á Landspítalanum - og ég vissi að hann var að fara á fund hjá lækninum morguninn eftir til að ræða niðurstöður og framhald þá auðvitað kraumaði í mér kvíði. Á leiðinni í vinnuna morguninn eftir þá kom yfir mig sterk ánægjutilfinning - vellíðan og Stjáni kom ósjálfrátt upp í hugann. Svo kom í ljós þegar hann hringdi í mig eftir fundinn með lækninum að átt hefðu sér stað framfarir - miklar framfarir sem ekki var sjálfgefið að ættu sér stað. Það var ánægja - ekta ánægja.

Ef maður setur þessar aðstæður sem eru að eiga sér stað í lífi fólks sem glímir við svipuð vandamál og hann Stjáni vinur minn - og spyr sig: Hvernig stendur á því að ég þarf að eyða svo miklum tíma og orku í að berjast fyrir því að geta búið þar sem ég vil? Hvernig stendur á þvi að alvarleg mismunun á sér stað í þjóðfélagi sem auðveldlega ætti að geta sinnt öllum þegnum sínum vel og af samviskusemi? Ég bara skil það ekki.....

 Getur það verið að fólk sé verðlagt mismunandi eftir því hvar það býr - eiga ekki allir sama rétt hvað varðar búsetu sama hvar á landinu þeir kjósa að búa? Ég bara spyr!?

Hver ætlar að taka af skarið og laga þetta ástand - ég bara spyr? Hvað skiptir það okkur máli hvort nýr flokkur nagi af Effi eða VaffGéi - Málið er að tekin sé ákvörðun um að gera landið byggilegt fyrir ALLA sem í landinu búa.

Það er mín skoðun.


Gríðarlegar auðlindir undir Vestfjörðum.

Fyrir nokkru kom sérfræðingur í heimsókn á Vestfirði. Það er svo sem ekkert nýtt að sérfræðingar leggi leið sína hingað Vestur - en þessi var með í farteskinu fyrirlestur sem hann síðan flutti í samstarfi við Vestfjarða akademíuna (VAK - sjá heimasíðu http://www.hsvest.is/vak/).

Hér er úrdráttur úr kynningunni:

  "Í fyrsta fyrirlestri vetrarins mun Hafsteinn Ágústsson olíuverkfræðingur hjá Statiol í Noregi fjalla um olíuleit og vinnslu í norður Noregi og Barentshafi. Í fyrirlestrinum verður fjallað um hvernig erlend fyrirmynd geti verið fyrirmynd tilsvarandi verkefnis á Vestfjörðum. Gefið verður yfirlit yfir framkvæmdir og kostnað ásamt þeim áhrifum sem slíkar framkvæmdir hafa á atvinnulíf svæðisins en margt er líkt með þessum svæðum.

Hafsteinn Ágústsson er sérfræðingur í olíuverkfræði við höfuðstöðvar Statoil í Stavanger, Noregi. Hann hefur uþb 27 ára starfsreynslu í olíuiðnaðinum, bæði hjá verktökum og olíufyrirtækjum. Hafsteinn hefur verkfræðipróf í eðlisfræði og rafeindatækni frá háskólanum í Loughborough í Englandi, og masterspróf í mælingatækni frá sama skóla. Enn fremur hefur hann masterspróf í olíuverkfræði frá Heriot-Watt háskólanum í Edinborg í Skotlandi".

Þetta reyndist ákaflega skemmtilegur og fræðandi fyrirlestur - ágætlega sóttur og endaði Hafsteinn á síðum moggans og í speglinum. Enda um mjög merkilegt viðfangsefni að ræða - nokkuð sem er vel raunhæft og skilar raunverulegum arði. Og það sem er náttúrlega mjög merkilegt er að nýjar aðferðir við boranir eru umhverfisvænar á allan hátt - ekki lengur þessir risa borpallar heldur botnlægar boreiningar sem ekki trufla t.d. veiðar á svæðinu - gasið er síðan flutt í lögnum í land - kælt niður og sett í tankskip. Svo eru öllu umframgasi dælt niður í holurnar aftur svo mengun verður hverfandi.

Já - og hverjir mættu. Jú það mætti fólk af öllum gerðum - NEMA PÓLÍTÍKUSAR OG BÆJARSTJÓRNARMENN FYRIR VESTAN. Semsagt - það mætti enginn sem ýtt gæti slíkum verkefnum úr vör - sem gæti hafið umræðu - sem þó er kosinn til slíkra starfa.

En hví ekki að skoða þessa möguleika - hví ekki að leita samstarfs við t.d. Statoil í Noregi um slíkar rannsóknir - hví ekki að gera eithvað sem getur skipt máli.

Ég bara spyr! Gerum það - og gerum það strax.

 Það er mín skoðun.


Að gefa fórnarlömbum umferðaslysa langt nef.

Mér féllust hendur þegar ég sá umfjöllun í Kastljósi um dreng á Suðurnesjum sem ók á ógnarhraða eftir þröngum malbikuðum vegi. Hugsunarlaus eða í mesta lagi sjálfhverfur. Líkt og honum væri skítsama um allt og alla - auðvitað var ljóst að honum var skítsama um sjálfan sig. Og þetta gerir viðkomandi í umræðunni um fjölgun dauðaslysa í umferðinni - dauðaslysa þar sem fólk á öllum aldri deyr - örkumlast eða missir ástvini. Ég vona svo sannarlega að þessi ungi maður verði tekinn úr umferð - allir umferð - langan tíma.

Ég átti góðan vin - uppeldisfélaga norður á Akureyri sem flutti með foreldrum sínum og bræðrum í Hveragerði. Í dag er hann Gísli dáinn - dó í hörmulegu slysi á Suðurlandsvegi aðeins á 18. ári. Og í dag 20 árum eftir andlát Gísla geta foreldrarnir, Hannes og Sibba, ekkert nema reynt að vekja fólk og stjórnvöld til umhugsunar - sem var gert þegar krossar voru reystir, einn fyrir hvern látinn. En gengur það? Er eithvað gert í málunum? Þá á ég ekki við að það séu bara stjórnvöld sem um er að kenna - nei - hér verða allir að axla ábyrgð - taka þátt.

Ég minnist Gísla oft - ekki síst þegar synir mínir hlaupa um á gamlársköld og safna rakettuprikum - en það gerðum við Gísli svo oft. En aldrei aftur.

Við skuldum þeim sem hafa orðið umferðinni að bráð afsökun og sú afsökun verður að koma sem átak í bættri umferðarmenningu - betri vegum og ábyrgum akstri. Ég mun reyna mitt besta - EN ÞÚ?


Nokkrar kjúklingauppskriftir.

Hér um daginn var ég að ræða landbúnað - þar taldi ég það í raun fásinnu að stunda kjúklingarækt á Íslandi þegar hægt væri að flytja inn mun ódýrari vöru en við getum framleitt. Ég stend við þá skoðun mína. Eins er það með svínakjötið - seint ætla íslenskir kjötiðnaðarmenn að læra að búa til alvöru skinku - hættum þessu strögli. Ræktum það sem íslenskt er og flytjum restina inn.

En hvað um það - hér læt ég af því tilefni fylgja nokkrar kjúklingauppskriftir sem einhver sendi mér.

 

Verði ykkur að góðu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband