Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009

Mikilvægi rekjanleika í framleiðslu á gæðafóðri. Gefur þú gæludýrinu þínu hvað sem er?

Við hjá Murr ehf. státum af því að vera með rekjanleika í okkar framleiðslu. Þetta þýðir með öðrum orðum að við vitum hvaðan okkar hráefni kemur - af hvaða skepnum og frá hvaða býlum - og sem öll eru íslensk!

Þetta teljum við mjög mikilvægan þátt í því að bjóða uppá 100% íslenska gæðaframleiðslu og tryggja bestu mögulegu gæði.

Okkur vitanlega er ekkert annað fyrirtæki sem framleiðir gæludýrafóður sem hefur sambærilegan rekjanleika.

Við höldum því stolt áfram okkar framleiðslu - okkar íslensku framleiðslu - sem framleidd er úr íslensku hráefni - á Íslandi!

Með þessum orðum viljum við óska öllum gleðilegra Jóla og farsældar á komandi ári!

Spurning dagsins: Veist þú hvar Icelandpet þurrfóður er framleitt?

svar: mudnöltÚ.


Í minningu undirbúnings jóla.

Nútíma jólaseríur hafa ekki þann sjarma sem þær höfðu hérna einu sinni. Nú fylgja aukaperur og þó ein slokkni þá loga hinar. Nánast viðhaldsfrítt og með öllu óspennandi.

En það var auðvitað ekki alltaf svo hér áður fyrr. Og sumir voru einfaldlega mikið flinkari við halda sínum seríum við en aðrir. Enda voru seríur á þeim tíma yfirleitt allar komnar til ára sinna - nánast lífstíðareign með tilheyrandi viðgerðum með mismiklum árangri. En upp skyldu þær fara - um hver jól.

Mér er ógleymanleg hefð sem skapaðist - en hún var sú að ég var kallaður niður á elliheimili til að hjálpa afa að setja upp seríur.

Nú hefði mátt halda að slíkt hefði verið auðvelt og fljótlegt - einkum í ljósi þess að gömlu hjónin bjuggu í einu herbergi - sem þótti vel duga fyrir gamalt fólk - því ekki voru komnar íbúðir á þeim tíma. En ekki aldeilis. Seríurnar hans afa voru nefnilega komnar til ára sinna og ómögulegt að vita hvort þær færu í gang. Afi var margbúinn að tengja sama víra og líma - og ef þær kveiktu ekki á sér þá þurfti að vinna sig í gegnum alla seríuna - peru fyrir peru - til að finna þá sem var dauð. Það var nefnilega svo að þegar ein peran gaf sig - þá slokknaði á allri seríunni.  Ef það reyndist ekki nóg - þá var hitt eftir - sem var að leita að réttri peru - en Afi átti allskyns perur af ýmsum gerðum sem honum höfðu áskotnast í gegnum árin og engin leið að vita hver var í lagi!

Þessu tók afi með tilheyrandi fussi og sveii. Alltaf sama sagan. Ár eftir ár. Og amma sat í sófanum og hló að þeim gamla - sem æstist þá til muna og fussaði yfir þeirri gömlu. Amma var ekkert í seríudeildinni - hennar hlutverk og sem hún sinnti af kostgæfni var að setja kransa yfir "dána fólkið". En það voru myndir af látnum ættingjum - og sem héngu á veggjum herbergisins. Ekki mátti gleyma neinum - enda var amma þess fullviss að með því væri fylgst að handan.

Afi púlaði - ég handlangaði og amma hló. En kostulegastar voru seríurnar tvær sem voru svo mjög komnar til ára sinna. Þær voru fallegar - plastblóm utan um ljósaperur - og sem merkilegt nokk voru einhverveginn ekki hannaðar til að þola það að hitna. Þær voru nefnilega gæddar þeim eiginleika að þegar perurnar hitnuðu þá skutust plastblómin af þeim - með tilheyrandi hvelli og fussi í afa. Og í ömmu gall "þar skaut Villi" - svo skelli hló hún.

En þessi Villi hafði verið nágranni þeirra í Ránargötunni og faðir þeirra Samherja bræðra. Amma sagði nefnilega að hann hefði verið svo ansi lunkinn með flugeldana - og svo sannarlega kunnað að skjóta upp - við tilheyrandi fögnuð viðstaddra.

Þetta var guðdómlegur tími.

Að loknu öllu stússinu skaut afi á sig koníaki sem hann geymdi í fataskápnum sínum úti í horni. Þetta þótti ömmu nú ekki passlegt svona á jólum og sagði ævinlega "hvunær ætlar þú að læra að fara með vín eiginlega.. Þolleifur?" - þá fussaði afi og sagði: "þó ég verði hundrað ára þá ætla ég ekki að læra það". Fékk sér sitt koníak og dáðist að seríunum. Búinn að steingleyma erfiðinu við að koma þeim saman.

Þar til skyndilega heyrðist smellur og í ömmu gall "þar skaut Villi"!!

Svo komu jólin.

 


Að fá gott í skóinn!

Fá gæludýrin þín ekki örugglega eitthvað gott í skóinn? Wink

 

 jóla murr

 


Sjómannaafsláttur - undarleg sparnaðaraðgerð!

Margar misgóðar tillögur um sparnað hafa litið dagsins ljós á síðustu vikum. Misgóðar segi ég þó auðvitað sé nauðsynlegt að spara. En það er bara enginn raunverulegur sparnaður fólginn í því að vega að rétti sem löng hefð er fyrir og hefur verið túlkuð sem viðurkenning fyrir erfið og hættuleg störf. Hér á ég við um sjómannaafsláttinn. Mér finnst það nefnilega arfavitlaus hugmynd. Og á sama tíma er róið að því öllum árum að koma okkur í Evrópusambandið - einmitt á þeim tíma sem mér þykir einsýnt að við ættum að hægja á og ígrunda vel alla möguleika. Það er ljóst okkur íslendingum að Bretar og Hollendingar hafa beitt okkur óeðlilegum þrýstingi - og nýtt sér stærð sína og völd í Evrópusambandinu til að ná sínu fram. Kannski væri best að hafa vaðið fyrir neðan sig í þeim efnum.

Og á sama tíma les ég að fyrirhugað sé að leggja niður Sjávarútvegs og Landbúnaðarráðuneytið - þær stofnanir sem halda utan um það sem okkur er dýrmætast! Mikil er sú viska sem þeirri ákvörðun fylgir - eða þannig.

Mér finnst nú réttast í stöðunni að endurhugsa aðeins sparnaðaraðgerðir - og skoða vel allar hliðar áður en vaðið verðu áfram. 

Og ekki verður síður fróðlegt að fylgjast með lífinu á Bessastöðum þegar forsetinn þarf að taka ákvörðun um Icesave - minnug gjárinnar sem hann varaði við !

Hann hlýtur að hlusta á þessar tæplega 30.000 sálir sem óska eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.


Fyrir áhugasama um laufabrauðsgerð!

Laufabrauð er ekki bara gott - heldur listaverk eins og hér sést!


Þegar rödd fólksins og máttur skilar árangri - Óshlíðargöngin eru dæmi um það!

Það hafði samband við mig maður í dag út af allt öðrum málum en að þakka Pálínu. En eins og oft er þá berst tal tveggja manna um víðan völl. Svo var líka í þessu samtali. Og auðvitað fórum við að ræða ný-gegnum-slegin Óshlíðargöng.

Eins og kannski margir vita þá mætti margt fyrirmennið til veislu og fögnuðu gestir því að búið væri að opna á milli Hnífsdals og Bolungarvíkur. Veislan var víst köllu "slá í gegn". Auðvitað er gaman þegar fólk gerir sér glaðan dag og guð almáttugur veit að slíkt er mikilvægt á þeim tímum sem við lifum.

En verra er þegar tækifærið er notað af pólitíkusum til að slá sig til riddara - óverðskuldað. Og í þetta sinn vantaði hetju dagsins. Við megum nefnilega ekki gleyma því að í fyrstu drögum átti að grafa nokkrar styttri holur - eða göng til að spara. En þá sagði fólkið hingað og ekki lengra.

Í fararbroddi var Pálína Vagnsdóttir - ef mig minnir rétt og barðist fyrir raunverulegum samgöngubótum!

En í veislunni voru það pólitíkusarnir.... og Möllerinn auðvitað með glænýtt bindi að þvaðra um ágæti sitt og atorku - að hafa komið þessum samgöngubótum á!

Æi æi minn kæri....

Ég vil með þessum pistli árétta að það var fólkið í Bolungarvík sem barðist fyrir göngunum og sem yfirvöld neyddust til að hlusta á!

Rödd fólksins var sjálfumglöðum pólitíkusum yfirsterkari!

Húrra fyrir þeim. Og sérstaklega þér Pálína!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband