Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Lífríki Norður Atlantshafsins....hm

Athyglisverð hugmynd en mikið er ég hræddur um að kostnaðurinn muni verða of mikill - einkum og sér í lagi er það öryggisglerið sem ku vera gríðarlega dýrt - svo dýrt að heimsóknir þurfa að vera marga....ofboðslega margar.

Þá að dýrunum....lífríki Norður Atlantshafs. Já. En ísbirnir....eru þeir hluti af lífríki Norður Atlantshafs...eru þeir ekki landdýr...tja það hélt ég. Nú þá er líklega óvitlaust að hafa þarna til sýnis Vestfirskt fiskveiðisamfélag sem eru að mér virðist að deyja út - það væri spennandi. Hafa þar smábátasjómann að beita.....

En flott hugmynd sem tími er til að koma af stað - hver man ekki eftir sædýrasafninu sem var með "sædýrin apa og ljón....".

 


mbl.is Stefnt að uppbyggingu sjávardýrasafns í Sandgerði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veit ekki vandinn að lausnin er löngu fundin?

Mér finnst áhugavert að búa á litlum stað fyrir Vestan. Ekki vegna þess að stutt er í allar áttir. Nei af því að þar kemst maður í kynni við kalla sem kunna sko að leysa vandann.

Ef ég til dæmis fæ mér göngutúr niður á bryggju og er svo heppinn að hitta kall eða tvo sem eru að landa eða gera sig klára í róður - nú þá er ekki að spyrja að því - þeir eru með lausnina á vandanum sem steðjar að í sjávarútveginum. Með þetta alveg á hreinu og eru bit á þekkingarleysi vitringanna með diplómun á Hafró - svo ég tali nú ekki um ekkisens vitleysuna í ráðherranum að hlusta á slíkt bull sem prentað er í metravís og kallast veiðiráðgjöf. Ja svei mér þá segja þeir og slá sér á lær.

Nú, svo þegar ég er búinn að fá lausn vandans í hafinu og held áfram göngunni uppi á yfirborðinu þá getur vel verið að ég fái mér kaffisopa í vélsmiðju einni hér í bæ  - og þar er ekki bara verið að leysa fiskveiðivandann - nei þar er allt leyst - yfir heitum kaffibolla og meððí. Já - vegleysurnar og kílómetrarnir suður styttast svo skiptir tugum kílómetra - fjöll eru boruð - firðir þveraðir - nýjasta tækni og tól hönnuð til verksins og ég varla kominn niður í hálfan bolla. Og ekki þarf maður að óttast að kaffið kólni því hitinn er slíkur í mannskapnum að það liggur við að allt sjóði uppúr.

Já og klukkan er ekki orðin hádegi. Ég í sumarfríi og luma orðið á lausnum sem bjargað geta heilli þjóð.

Nú auðvitað held ég göngunni áfram - dagurinn vart hálfnaður og ég orðinn verulega spenntur - hafði ekki hugmynd um hve auðvelt og augljóst þetta væri allt - nú maður hefur jú aldrei mígið í saltan sjó eða fjöruna sopið - hvað þá að hafa fest bílinn uppi á alvöru Vestfirskri heiði um miðjan vetur - svona maður eins og ég "aungra manna að norðan" eins og einn kallinn benti mér á þegar ég sagði honum að ég ætti engar ættir að rekja Vestur.

Og áfram labba ég - kem við hjá fleiri köllum - fæ mér auðvitað annan kaffibolla og heyri hvað þeir hafa til málanna að leggja. Auðvitað berst talið að því sem skiptir máli - að eiga góða konu. Mér er bent á að konur geti verið varasamar og sumar auðvitað meira en aðrar - að allir séu þeir húsbændur á sínum heimilum og sko tilbúnir til að kenna mér trikk eða tvö til að konan sé ánægð.

Best að hafa þessar elskur ánægðar - það er boðorð dagsins.

Kallar með allt á hreinu. Eru samt eitthvað svo miklu málglaðari þegar ég heimsæki þá í vinnuna en þegar ég mæti þeim með frúnni í Bónus - hafa kannski bara meiri tíma til að tala  í vinnunni - eða kannski er konan bara ekkert ánægð þegar ég mæti þeim í Bónus - hvað veit ég - ekki kann ég öll trikkin sem þeir nota.

Já maður lærir margt á því að búa í litlu samfélagi - eitthvað svo langt frá orsök vandans en svo nálægt lausninni. Kannski er það bara svo að vandinn og lausnin eiga ekki heima á sama stað - vandinn fyrir sunnan og lausnin fyrir Vestan - og samskiptin föst á heiðinni?..

tja hver veit... en eitt er víst að "margt drífur á daga manns á einum degi fyrir Vestan".

 


Saving the whale.....uhh saving Iceland.....þurfum við ógreidda útlenda unglinga til að bjarga landinu...?

Fyrst var það hvalurinn sem bjarga þurfti frá Íslendingunum....svo er það Ísland frá Íslendingunum og líklegast verður það á endandum Íslendingarnir sjálfir sem deyja út....

Við erum merkileg þjóð Íslendingar. Í hvert skipti sem við hittum útlending er ekki bara að við látum eins og við höfum aldrei séð annað fólk en íslendinga - heldur göngum við út frá því að útlendingarnir hafi aldrei áður farið til útlanda -  undirstrikum þetta með ótrúlega heimóttalegum spurningum og leikrænni tjáningu - setjum upp spyrjandi svip og spyrjum "há dú jú læk æsland".

En á sama tíma og okkur er svo mikið í mun að túristarnir svari "verrý næs og vá" þá erum við líka eitthvað svo kúl og sjálfstæð. Gefum skít í alþjóðasamfélagið - ráðum okkur sjálf - höfum ekkert með Evrópusambandið að gera - veiðum okkar hvali og virkjum okkar ár. Erum svona "afdala pönkarar" sem fengið hafa nasaþef af kapítalinu.

Já við ætlum að helst að selja Ísland og kaupa öll hin löndin - svona útrásar ævintýri fyrir lífstíð. Eins og að þjóðin sé að bregða búi og flytja á mölina - búin að gefast upp á búskapnum og ætli sér á malbikið - "loka sjoppunni" og flytja til London.

Og eftir stendur að flytja þarf inn útlenda öfgahópa til að mótmæla sölu landsins - virkjunum og veseninu - nú af því að íslendingarnir sjálfir eru jú allir komnir í útrás.

Já það er skrítið að búa á Íslandi - há dú jú læk?

 

 


Ekki að spyrja að því....

Engu skárri en mannfólkið - koma heim með "klamidíu"Cool


mbl.is Laxar með sjúkdómseinkenni á gotrauf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lopinn teigður af VERÐI og SJÓVÁ og textinn "ekki benda á mig" raulaður.

Já þann leik eru tryggingafélögin Vörður á Akureyri og Sjóvá að leika þessa dagana - en ég hef verið að rekja raunasögu foreldra minna í fyrri bloggum sem virðast hafa brotið það af sér að aka með sitt fellihýsi á löglegum hraða í Borgarfirðinum á leið heim af Þingvöllum þegar bjálfi úr Hólmavík reyndi með glæfralegum akstri að drepa þau - já og að tryggja bæði bílinn og fellihýsi hjá íslensku tryggingafélagi - kakótryggja....nú til að vera viss um að vera "vel tryggð" - sem auðvitað virðist ekki vera bleksins á tryggingasmaningnum virði.

Er ekki kominn tími til að gerð sé rannsókn á vinnubrögðum tryggingafélaga í landinu - að skoðað verði í kjölinn hvernig bótagreiðslum er háttað og hvernig stendur á því að tryggingafélög virðast á stundum geta sett sig í dómarasæti - og allt auðvitað á kostnað tjónþola - gefið að virðist vera lítið sem ekkert fyrir lögregluskýrslur og sett af stað ferli sem tekur langan tíma og óljósar niðurstöður - svona "ekki benda á mig..." leik. Allt til þess gert að þurfa nú ekki að standa við gerða samninga við tryggingataka.

Og ekki vantar loforðin og loforðin og gullið og grænuskógana og bla..bla..bla.... Já það er því miður svo. Og auðvitað eru þau öll miklu betri en "hin" tryggingafélögin....eins og konan sem hringdi í mig frá Sjóvá þegar hún las bloggið mitt - nú til þess að segja mér hvað þeir hjá Sjóvá væri miklu betri en liðið hjá Verði.....hræðilega hneiksluð á þjónustinn hjá keppinautunum.....og hvar stendur hnífurinn núna??Nú í Sjóvárbeljunni - á kafi í bullinu.

Þetta er í einu orði sagt ÖMURLEGT.

Það er mín skoðun.

 


Andrés önd á Gardemoen í Oslo.

Ótrúlega skemmtileg færsla hjá vini mínum Baldri Sveinbjörns - enda Akureyringur og gamall golfari.

Tryggingafélög - peningaplokk eða öryggi?

Tryggingafélög hafa komið við sögu hjá mér í dag.

Fyrst hringir móðir mín í mig og segir að hún hafi loks heyrt frá tryggingafélaginu sínu (Verði á Akureyri) vegna tjóns sem hún og faðir minn lentu í 29.Júní sl. og sem næstum varð þeim og fleirum að aldurtila - að nú væri málið í hendi Sjóvár þar sem tjónvaldur (bjálfi frá Hólmavík sem reyndi stórhættulegan framúrakstur á flutningabíl með tengivagn) væri tryggður þar. Þau eiga semsagt að bíða lengur og líklegast að biðja til guðs að tryggingafélögin greiði þeim umsamdar bætur. Já það er magnað þegar tjónþoli er látinn bíða og bíða...og bíða. Nú ef Sjóvá neitar að borga þá teigist líklegast á þessum annars alltof langa lopa. 

Ég spyr því - hversvegna er fólki ekki greiddar út bætur í stað þess að láta það bíða á meðan tryggingafélög karpa um hver eigi að bera skaðann - hvað kemur það tjónþolanum við? Ekki gerðu þau neinn samning um annað en að greiða iðgjald til Varðar..... í það minnsta dregst aldrei að senda út reikninga - rukkanir og þá stendur alveg klárt hver á að borga og hvenær!!

Nú seinni kynni mín af tryggingafélögum í dag var þegar ég ræddi við eiginkonu vinar míns sem liggur alvarlega veikur af alvarlegu krabbameini í höfði. Ég spurði hana út í hvort hann væri með sjúkdómstryggingar eða líftryggingu - nú bara af því að mér finnst varla líða sú vika sem manni er talið trú um ágæti slíkra trygginga.Og svarið var einfalt - NEI. Af hverju spyr ég - jú hann lenti í alvarlegu slysi fyrir mörgum árum og slasaðist á baki - jú og svo reykir hann. Semsagt hann er ekki hæfur í tryggingakerfið..... Og nú liggur hann sjúkur af krabbameini í höfði sem hvorki er hægt að rekja til bakáverka sem hann hlaut hér um árið né reykinga!

Ég spyr því - er þetta ekki eitthvað skrítið..... eru veikindi eða dauðsföll ekki metin út frá orsökum eða eru tryggingafélögin að "lágmarka skaðann" sem þau verða fyrir þegar greiða þarf út tryggingar..... Er ekki eitthvað að þessu kerfi - hjá þessum félögum sem að mér skilst liggja á milljörðum og milljörðum ofan.

Já það er eitthvað meiriháttar að - eða........? 


Þríþraut fyrir Vestan - táknræn barátta byggðastefnu.

Á síðum bb.is má lesa að tveir vaskir menn ætla að mótmæla dapurri aðstöðu til sundiðkunar á Ísafirði og er það vel.

Ég tel að hér verði um fystu útgáfu af nýrri gerð þríþrautar - svona af því að mikil gróska er í allskyns þrekþrautum hér Vestra - hvort sem um íþróttir eða atvinnumál er að ræða.

Nú, þessi þríþraut byggir eins og nafnið gefur til kynna á þremur þrekraunum keppenda og ætla mennirnir ungu að byrja keppnina á því að "synda í hægðum sínum og annarra" en mér skilst að þeir muni ætla að þvera pollinn og hefja sundið við klóakúttakið við Menntaskólann - og til að áhorfendur geti ekki haft áhrif á hraða sundmannanna þá eru íbúar efri bæjar beðnir að sturta ekki niður úr klósettum á sundtímanum - nú til að skapa ekki ólöglegt meðstreymi. Annar hluti þríþrautarinnar verður væntanlega þegar keppendur "ganga í hægðum sínum" um bæinn og skoða starfsemi rækjuvinnslunnar og Marel á Ísafirði - ásamt fleiri ummerkjum um mikla og öfluga uppbyggingu á landsbyggðinni. Þriðji hlutinn verður síðan þegar keppendur munu grípa til fáka sinna og hjakka í sama farinu - ekki ólíkt byggðastefnu stjórnvalda.

Já ég held að þetta geti orði gríðarlega spennandi keppni og er óskandi að í hita leiksins fari menn ekki út í óþarfa skítkast né ati andstæðinginn (s)auri.

Svo er nú það og ég bíð úrslitanna spenntur - er eiginlega að "skíta" á mig úr spenningi.


Vinur.

Á lífsleiðinni kynnist maður mörgum. Oft er það svo að þeir sem maður kynnist fyrst og eyðir uppvextinum í samneiti við eru þeir sem maður kallar bestu vini sína. Það er auðvitað í mörgum tilfellum rétt. En á stundum kynnist maður einhverjum sem maður tengir vel við og úr verður vinskapur sem þrátt fyrir tiltölulega stutt kynni er djúpstæður.

Kristján vinur minn er slíkur vinur. Við kynntumst hér fyrir Vestan og höfum haft mikil samskipti æ síðan. Það eru ekki margir sem eru gæddir þeim hæfileika að láta sig aðra varða - hag þeirra og heilsu. Kristján er einn af þeim. Af þeim sökum finnst mér gott að geta kallað hann vin minn. Vin sem hefur reynst mér vel.

Mig langar að deila með ykkur einstökum manni sem glímir við erfiðleika sem maður vill engum manni þurfa að upplifa  - og það gerir hann af æðruleysi og einstökum lífsvilja - enda einstakur maður.

Ég hef í nokkrum bloggum minnst á að hann Kristján  sem greindist fyrir að verða ári síðan með illkynja heilaæxli. Á þeim tíma sem liðinn er hefur Kristján vinur minn gengið í gegnum erfiðari meðferðir og aðgerðir en nokkur á að þurfa að gera - aldrei. Sá styrkur og það æðruleysi sem Kristján hefur sýnt á þessum erfiðu tímum er mér óskiljanlegt.

Aldrei bíður hann svo góðan daginn án þess að spyrja um leið hvernig ég og fjölskyldan höfum það - aldrei kvartar hann þó á stundum sé heilsan svo slæm að hann getur vart reist höfuð frá kodda - óskapleg þreyta og sjónin léleg. Aldrei. Kristján er bara ekki þannig gerður - fyrir honum er það mikilvægt að fólk hafi það gott - að ekkert ami að og mér er það minnisstætt nú fyrir skemmstu er ég sat á sjúkrabeði Kristjáns og hann sagði við mig "Tolli, ef það er eitthvað sem ég get gert fyrir þig láttu mig þá vita". Já svona er Kristján og ég er stoltur að þekkja hann.

Í dag keyrði ég hann á spítalann en honum fannst ómögulegt að vera að ræsa út sjúkrabíl - svo mikið vesen. Ég á ekki von á öðru en ég þurfi að keyra hann heim aftur - kannski ekki á morgun en vonandi fljótlega. Og það mun ég svo sannarlega gera með bros á vör því Kristján ætlar sér að kenna mér að kasta flugu - og ég verð að láta hann standa við það loforð!

Fyrir mér er Kristján holdgerfingur góðs vinar - vinar sem ég bið að fái að komast heim sem fyrst í faðm fjölskyldunnar.

 


Á banabeði.

Ég ligg fársjúkur og er í raun varla fær um að skrifa þessa færslu. Búinn að vera máttfarinn mjög og hvert skref sem ég hef þurft að taka hefur verið mér hreint helvíti. Líðanin er skelfileg og verst er að geta ekki tekið þátt í fjölskyldulífinu - en ég tók samt þó ákvörðun að vera ekki að þreyta konuna með eylífu kvarti - þannig er ég bara - ég sæki mitt vatn sjálfur og staulast einn og óstuddur á salernið - þó auðvitað ætti ég að fá fulla þjónustu - hef í raun rétt á því.

Já þetta er ömurlegt líf. Ég sef illa sökum kvala og vakna aftur og aftur við það að mér finnst ég vera að kafna - svo illa líður mér á stundum að spurning er hvort ekki þurfi að kalla til aðstandendur til að fara yfir stöðuna - í það minnsta hringja í mömmu og biðja hana að væta enni mitt með rökum klút.

Já ég veit ekki hvað konur eru að kvarta yfir erfiðum meðgöngum og barnsburði  - þær ættu að setja sig í mín spor.

Setja sig í spor ekta karlmanns með kvef.

En ég er að skána.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband