Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010

Þá ómaði tónlist um dalinn allan!

Bóndinn á Hanhól gengur sem leið liggur upp hjallana og lítur eftir fé  - rétt að vita hvort skjáturnar séu ekki örugglega með lömbin.

Það er farið að bregða birtu enda ágústmánuður langt liðinn.

Kvöldin eru dýrðleg í ágúst mánuði og bóndinn í essinu sínu - fátt skemmtilegra en að ganga um hæðir og hjalla innst í Syðridal. Svo sest hann á stein og hvílir lúin bein - nýtur útsýnis út dalinn og sér Grænuhlíð baðaða kvöldsól  rísa upp úr sjónum í fjarska.

Þögnin er algjör - fyrir utan jarm í lömbum að leita sér spena að sjúga - allt þar til ómur tals berst bóndanum innan úr botni dalsins. Raddirnar hækka og bóndinn sperrir eyrun - hér fer ekki á milli mála að flutningur á ekki ómerkara verki en "Pilti og Stúlku" eftir Jón Thoroddsen er að eiga sér stað og það í botni Syðridals!

Bóndinn hlustar og nýtur heimsbókmenntanna.

Lesturinn berst frá virkjun orkbús Vestfjarða í dalbotninum. Bensi í virkjuninni í essinu sínu og spilar dalbúum til yndisauka. Að vísu má telja að bóndinn á Hanhól sé sá eini sem heyri  fyrir utan Bensa sjálfan - í það minnsta í mannheimum. En kannski falla slíkar bókmenntir í kramið hjá ferfætlingum - ekki er gott um það að segja.

Já Bensi hjá orkubúinu var fyrir það að spila tónlist og jafnvel leikrit ef svo lá á honum - og þá ekki bara fyrir sig sjálfan heldur bauð hann dalnum öllum upp á slíkar veislur! 

Einhverju sinni hafði Bensi samband við bóndann og spurði hvort hann hefði eithvað heyrt í tónlistinni hjá sér - bóndi svaraði því til að örlítinn óm hefði hann jú heyrt.  Jahá sagði þá Bensi - það lagast - ég var að fá mér nýjan magnara - þú muntu heyra mun betur næst!!

Og svo ómaði tónlistin sem aldrei fyrr og jafnvel fuglarnir tóku sér pásu og hlustuðu á Bach og félaga.

Já þessi Bensi sem svo var kallaður var eftirlitsmaður orkubúsins í Syðridal og bjó þar í herbergiskitru. Þegar línumennirnir fóru skildu þeir eftir vinnuskúra og þá vænkaðis hagur Bensa og hann flutti sig í einn vinnuskúrinn. Með allt til als við stöðina þá fékk hann sér stundum neðan í því og spilaði fyrir íbúa dalsins.

Á stundum kallaði hann eftir leigubíl og lét færa sér flösku. Í einni slíkri ferð komst leigubíllinn ekki lengra sökum snjóa en að Hanhól og var bóndinn fenginn til að framlengja ferðina enda vel jeppa búinn. Bensi brást hinn versti við - fannst þetta nú einum of langt gengið að trufla bóndann si svona - argasta ókurteisi og skammaðist út í leigubílstjórann.

Já hann spilaði ekki til að hrella hann Bensi - heldur til yndisauka.

Þrátt fyrir fábreitt líf í virkjun í Syðridal var Bensi enginn hreppsómagi - nei hann var jarðeigandi í Arnarfirði og ku hafa gefið orkubúinu jarðirnar á einhverjum tímapunkti. Ekki fylgir sögunni hversvegna - líklegast til að efla starfsemi orkubúsins og leggja sitt af mörkum svo að íbúar svæðisins fengju trygga orku um ókomin ár.

Það virðist því miður ekki hafa gengið eftir. En á kyrrlátu kvöldi má víst ennþá heyra óminn af klassískri tónlist berast frá virkjunarhúsinu í Syðridal.

Og það löngu eftir brotthvarf Bensa.


Frá Súðavík til Taiwan!

Okkur í Murr þótti nokkuð spennandi þegar við fengum fyrirspurn um vöruna okkar frá Taiwan. Í ljós kom að áhugi þeirra Taiwan búa snýr að heilnæmi Murr og Urr. Í því felst að mikil hræðsla er í Taiwan og víðast í Asíu við fuglaflensu og kúariðu.

Fuglaflensa er dauðans alvara - þó svo að fjölmiðlar hafi ekki lengur úthald að fjalla um veikina - og láta sem hún sé í rénun. Staðreyndin er sú að fuglaflensa er til staðar og fólk er ennþá að deyja úr veikinni.

Ísland er eitt fárra ríkja sem greinist EKKI með fuglaflensu eða kúariðu (Jacob Creutzfeld eða BSE) og þess vegna teljumst við hafa upp á að bjóða mjög mikið dýraheilbrigði.

Murr og Urr er framleitt úr Íslensku hráefni - og sem hægt er að rekja beint á býli. Þetta skapar mikið öryggi fyrir neytendur  - og eigendur gæludýranna. Við hjá Murr látum ekki framleiða fyrir okkur á erlendri grundu undir því yfirskyni að um íslenska vöru sé að ræða - nei við framleiðum al-íslenska vöru úr besta fáanlega hráefni og samkvæmt þörfum dýranna!!

En svo þegar aðilinn í Taiwan ætlaði að senda okkur greiðslu fyrir prufum þá kom í ljós að orðspor íslensku bankanna er í svaðinu og þeim því ráðlagt að senda ekki peninga til Íslands !! Ótrúlegt - en krónurnar fengum við þó og án teljandi vandræða.

Nú er að sjá hvort stjórnvöld nái að snúa við þessari óáran og bæta ímynd okkar og orðspor.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband