Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Formaðurinn minn var bestur. En ekkert jafnast á við skjöldótta kú í íslenskri sumarnótt.

Það var eitt sinn maður á Akureyri sem var ástfanginn af skjöldóttri kú - ekki svona kynferðislega - heldur var hér um hreinræktaða platónska ást að ræða. Sönn og falleg ást. Um helgar gerði maður þessi sér þann dagamun að dressa sig upp í teinótt jakkaföt - kaupa blómvönd og skella sér í Sjallann - og á meðan dansinn dunaði og Ingimar hélti uppi fjöri geymdi kall blómvöndinn í innanávasa frakkans. Þegar dansleik lauk skellti maðurinn sér í frakkann og gekk út í bjarta sumarnóttina ánægður - ilmur var af sumri og fuglasöngur í lofti og geislar sólar léku við Hríseyjartoppa - þá fékk maðurinn sér leigubíl og brunaði með honum á móts við skjöldóttu kúna - sem líkt og samkýr hennar lá og jórtraði í haganum - enda sumarið yndislegt og rómantískt. Maðurinn bað leigubílstjórann að stöðva bifreiðina í vegakantinum - stökk yfir skurðinn og klofaði girðinguna - rétti fram blómvöndinn og settist á þúfu - þarna átti hann svo fallega stund og horfði á skjöldóttu kúna mjatla á blómvendinum - bæði þegjandi en eitthvað svo sátt við lífið - engar áhyggjur - ekkert vesen. Og á meðan beið leigubíllinn - og engra spurninga var spurt.

Þessi saga kemur stundum upp í huga mér þegar ég les fyrirsagnir eins og "mín kona sigraði" - "Ingibjörg var best" - "Steingrímur var stórkostlegur" - já ekki þarf skjöldótta kú til að fólk sitji agndofa yfir ágætum síns "manns".

Já- svo er nú það með náttúruna.


Betri líðan - meiri gæði.

Það þarf auðvitað ekki að útskýra fyrir fólki að mikilvægt er að fara vel með dýr - sama hvort um gæludýr eða húsdýr er að ræða - fiskur er þar á meðal. En lítið stressaður fiskur gefur af sér betri afurðir og okkur sem stundum slíkar rannsóknir ber skylda til að búa svo um hnútana að dýrinu líði vel og að því sé ekki misboðið. Fiskar eru ekki undanskyldir slíkum kröfum. Niðurstaðan verður betri framleiðsluvara á betra verði þar sem afföll verða minni - og allt leiðir þetta til þess að mögulegt verður að vera með öflugan iðnað á Íslandi sem heitir eldi sjávardýra.
mbl.is Rannsaka streitu í eldisfiskum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt sinn höfðu bændur með sér torfu til sjós - að öðrum kosti gátu þeir ekki mígið.

Hér í eina tíð þegar íslenskir bændur fóru í ver þá höfðu þeir gjarnan með sér græna torfu út á sjó - stundum úr túnfætinum heima ef þess var kostur - en án torfunnar gátu þeir ómögulega mígið. Nú hefði mátt halda að slíkur siður væri löngu útdauður - en aldeilis ekki.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nefnilega haft sína grænu torfu til að standa á í að verða ansi langan tíma - hartnær tólf ár. En nú virðist torfan vera að veðrast burtu - þolir ílla seltu úthafsins og stanslausan átroðning. Er orðin veðruð og ræfilsleg. Nokkur strá berjast reyndar ennþá fyrir lífi sínu en torfan atarna má muna sinn fífil fegurri - er varla nokkrum til gagns lengur.

En auðvitað má skipta út torfu - taka aðra til handagagns - kannski þá er predíkar sjálfbærni og fallegt umhverfi - hver veit. Ég held í það minnsta að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að hugsa sig vel um - því ansi marga langar að taka þátt í útgerðinni - vera til halds og trausts þegar á þarf að halda - vera fasta landið í ólgusjónum - torfan góða. Hvort það verða Vinstri grænir eða Samfylking veit ég ekki - en ef réttum kúrsi á að halda þá er í mínum huga ekki spurning um að skútunni sé best siglt af Sjálfstæðismönnum hvort sem torfan verður skorin úr samfylkingar eða vinstrigræna túninu.

Það er mín skoðun.

 


Borgarafundurinn í Hömrum Ísafirði - ræðan mín.

Það komst á síður bb.is að einhver kurr væri í mönnum yfir hverjir væru hvar að segja hvað um hvern og hversvegna og guðmávitahvað. Ég ætla því að setja hér ræðuna sem ég var með fyrir framan mig í pontunni í Hömrum - þó svo að ég hafi kannski ekki lesið hana orðrétt upp - en eins og prestarnir þá þarf maður texta til að legga út af. Og hér kemur þetta:

Ágætu Vestfirðingar og aðrir gestir. Ég sat á kaffistofu þróunarsetursins og dreypti á kaffi. Mér var litið á útprentað línurit sem upplýsti mig um að þróun búsetu á Vestfjörðum hefur verið í eina átt.  Þetta línurit minnti mig um margt á þróun þjóðþekkts fyrirtækis á Reykjavíkursvæðinu sem ég starfaði hjá í 3 ár - og sem til stóð að veita ríkisábyrgð uppá 20 milljarða. Í dag lesum við um stöðu þess fyrirtækis á síðum dagblaðanna.  En ég ætla mér ekki í þessari tölu minni að ræða neitt frekar um fyrirtækið fyrir sunnan – heldur ætla ég að tala um möguleikana hér fyrir vestan.  Ég segi möguleika vegna þess að á sviði lífvísinda – náttúrvísinda,  eru möguleikarnir svo sannarlega til staðar.  Líta má á Vestfirði sem náttúrulega rannsóknastofu – hvað meina ég með því? Jú, þegar vísindamenn stunda rannsóknir þá eru þær af tvennum toga – annarsvegar svo kallaðar rannsóknastofu-rannsóknir þar sem allt er unnið við mjög stýrðar aðstæður og svo hinsvegar við náttúrulegar aðstæður. En því miður þá er oftar en ekki mjög erfitt að yfirfæra rannsóknastofu vinnuna í náttúrulega umhverfið.  Og þetta er einmitt málið hér fyrir Vestan – við höfum hér aðstæður sem henta ákaflega vel fyrir fjöldann allan af rannsóknum í náttúruvísindum – allt frá eldi sjávarlífvera  til rannsókna á gróðursamfélögum á Hornströndum. Og mig langar að nefna það að ég átti gott samtal við einn helsta sérfræðing norðmanna á sviði lífrænnar ræktunar og sú ágæta kona tjáði mér það að Vestfirðir gætu verið ákaflega hentugt svæði til að stunda lífræna ræktun – sambærileg svæði í Noregi væru að gefa góða raun – er þetta etv. tækifæri sem vert er að skoða? En hvað er að eiga sér stað þessa dagana á sviði rannsókna í þorskeldi í sjó.? Á þeim stutta tíma sem liðinn er frá því að ákvörðun var tekin um eflingu rannsókna hér fyrir vestan á sviði þorskeldis þá hefur eftirfarandi átt sér stað: Evrópuverkefni með þátttöku Matís og tveggja Vestfirskra fyrirtækja.og fjöldi íslenskra verkefna á sviði  eldis – vinnslu og gæðamála í fiskvinnslu. Og hvað svo – hvert er framhaldið. Niðurstöður þær sem við erum að sjá núna úr þessum verkefnum skila sér í frekari uppbyggingu – afhverju? Jú vegna þess að eftir þessu er tekið – við erum að skila árangri.  Og hvað er það sem ég vil sjá í nánustu framtíð:
  • Að hér verði áframhaldandi uppbygging á svið rannsókna í þorskeldi – að fjármunum verði varið í frekari uppbyggingu á rannsóknaaðstöðu.
  • Að starfsemi Náttúrstofu Vestfjarða verði efld til muna – með þátttöku ríkis og allra sveitarfélaga á vestfjörðum og staðsetning sérfræðinga verði dreyfð um Vestfirði.
  • Að hér verði miðstöð umhverfisrannsókna tengdum eldi í sjó – og það verði gert með 5 ára föstu framlagi frá ríki – sem mun skila sér í öflugu rannsóknastarfi – en nú þegar hafa erlend eldisfyrirtæki lýst yfir miklum áhuga á samstarfi við Matís og Náttúrstofu Vestfjarða um slíkar rannsóknir.
  • Að hér verði öflugt samstarf við Háskóla landsins og nemum á sviði náttúrvísinda verði gert kleift að stunda hér hluta af námi – rannsóknaverkefni í samstarfi við vísindamenn á svæðinu.
  • Að hér verði stofnaður öflugur sumarháskóli – að hingað verði fengnir erlendir vísindamenn  til að starfa við kennslu og rannsóknir í hluta af sumri – skóli sem ekki er bara fyrir nema heldur líka vísindamenn úr alþjóða vísindaumhverfinu að koma saman og stunda rannsóknir og ræða málin.
 Og að lokum langar mig að varpa fram hugmynd sem ég hef þegar rætt við aðila sem málið varðar og sem ég kýs að kalla: Fyrirtæki – Menntun – Háskólasetur: Möguleikar landsbyggðarinnar. Í mínum huga felst framtíð landsbyggðarinnar í uppbyggingu þeirra fjölmörgu fyrirtækja og rannsóknastofnana sem starfa á landsbyggðinni. Því miður er staðreyndin sú að þessi fyrirtæki og rannsóknastofnanir eiga oft á tíðum erfitt uppdráttar – og nýjasta  dæmið er að sjálfsögðu brottfluttningur Marels af svæðinu.  En hvað getum við gert – hvað geta kjörnir fulltrúar okkar sem eiga að berjast fyrir tilverurétti okkar landsbyggðarfólks að gera - Eg vil að við spyrjum okkur eftirfarandi spurninga - :
  1. Hverjar eru þarfir fyrirtækja á landsbyggðinni?
  2. Hvernig er hægt að gera landsbyggðina að spennandi kosti fyrir nemendur á háskólastigi?
  3. Hvernig gerum við menntafólki kleift að fara til starfa út á landsbyggðina?
 Lausnin er miklu nær okkur en við höldum og felst einfaldlega í samþættingu ofangreindra þriggja þátta.  Með því að gera þarfagreiningu fyrirtækja á landsbyggðinni, skoða hvar skóinn kreppir og hvað þurfi að gera til að efla þau og markaðssetja er fyrsta skrefið stigið. Annað skrefið væri síðan stigið með því að gera nemendum í ýmsum greinum fjárhagslega mögulegt að flytjast í það minnsta tímabundið út á landsbyggðina og starfa að verkefnum, sem nýtast sem hluti af námi, hjá landbyggðarfyrirtækjum. Og síðasta skrefið væri stigið, og sem reyndar er stigið til hálfs, með því að skapa náms og vinnuaðstöðu á formi háskólasetra í viðkomandi landshluta. Og hér er lausnin:1.      Fyrirtækin gera þarfagreiningu með hjálp t.d. atvinnuþróunarfélags viðkomandi sveitarfélags/landshluta. 2.      Þeir nemendur sem kjósa að gera námsverkefni hjá fyrirtækjum á landsbyggðinni hljóti dvalarstyrk (ekki enn eitt lánið) sem nemur framfærslu skv. reglum LÍN og sem gerir þeim búsetu á landsbyggðinni mögulega og  hefði lítil sem engin áhrif á rekstur viðkomandi fyrirtækis.3.      Náms og vinnuaðstaða ásamt tengslum við leiðbeinanda eða skóla viðkomandi námsmanns yrði Háskólasetrið í landshlutanum. En markmið uppbyggingar háskólasetranna hlýtur að hafa verið til að efla landsbyggðina. Hver borgar svo brúsann? Jú, kostnaður við hvern nema hlýtur að teljast lítill miðað við ávinninginn sem fengist með þessu – ávinning á formi bættra rekstarmöguleika fyrirtækja, sérmenntun nema og ekki síst auknum líkum á því að þeir kjósa að nota þetta tækifæri til að kynnast landsbyggðinni, ílengist eða jafnvel setjist að á viðkomandi stað. Þetta er því landsbyggðarmál sem ætti að vera þverpólitískt og í raun samtarf ríkis og sveitarfélaga sem stofna ættu sérstakan sjóð til úthlutunar í þetta verkefni. Vestfirðir eru ákjósanlegur fyrsta tilraun – eini landshlutinn þar sem stóriðja hefur ekki komið til tals.

 


Er uppreisn á skútunni Frjáslyndu? Fær Ómar sjálfstæða skoðun? Fer Jón að brosa og hættir Ingibjörg að hlægja? Verða Geir og Steingrímur dús?

Það var einkar áhugavert að fylgjast með umræðum í sjónvarpinu í gær. Ekki það að umræðurnar hafi verið á sérstaklega háu plani - nei það var bara svo gaman að sjá hvaða stefnu og stíl þeir eru að marka sér.

Ómar var sjálfum sér líkur - ekki með neitt á takteinum nema baráttuna gegn álverum og var því miður eithvað svo sammála síðasta ræðumanni - nema Jóni - sem ræskti sig, kipptist til, glennti sig og hallaði sér að Geir Haarde sem sat þungbúinn og pirraður undir þessari pirrandi umræðu að manni fannst og brosti aldrei - ólíkt Ingibjörgu sem brosti þessu yfirlætislega brosi sem fer í taugarnar á landanum og hló hæðnislega á stundum enda er hún orðin óvinsæl og óviss um stefnu Samfylkingarinnar - líkt og Addikittagau sem er orðinn valdlaus á eigin skútu og eltir hugmynda(leysis)fræði öfgamannanna í flokknum eins og Sverrir Hermanns spáði fyrir um. Og svo voru það VG þar sem hörð vinstri pólítík ræður ríkjum og aðeins er farið að sljákka í foringjanum enda virðist hann hafa toppað of snemma - og hann farinn að sýna gamla góða reiðisvipinn - hlýðið mér annars fer allt til helvítis.

En hvað var rætt? Það bar í raun tvennt á góma - álver og innflytjendur. Álver til að bjarga landinu eða eyðileggja landið og innflytjendur til að reysa álver og eyðileggja þjóðfélagið. Hafa þessir ágætu formenn ekki um mikilvægari hluti að ræða - hvað með ungafólkið og skuldsetningu - miðaldrafólkið og skattana - gamla fólkið og áhyggjulausa ævikvöldið - og allt þar á milli sem skiptir okkur máli þessi fáu ár sem mannskepnan lifir. Það eru nefninlega ótrúlega mörg málefni sem snerta daglegt líf fólks og enginn virðist ætla að ræða af nokkru viti. Ég vona að við lendum ekki í sömu vandamálum og t.d. Japanir þar sem nánast engir skattar eru - en þar er heldur engin þjónusta við eldriborgara og fólk byrjar að safna fyrir eigin útför strax og það er vinnufært. Það er engin framtíð.

Og kvótinn - fiskveiðarnar - hver má veiða - hvar og hvenær? Er rétt að halda úti ríkisstofnun er stundar fiskrannsóknir? Er rétt að þegar rætt er um hvað má veiða þá sé talað við sérfræðing hjá hagsmunasamtökum líkt og LÍÚ? Er ekki rétt að gera eithvað í þessum efnum svo þjóðarsátt geti ríkt um málið? Það er deginum ljósara að þorskgöngur og nýliðun fer ekki eftir veiðipólítík íslendinga - sem getur bara snúist um það hverjir mega veiða fiskinn sem syndir umhverfis landið. Mér sýnist að kominn sé tími til að ræða þetta mál og finna lausn sem gerir það að verkum að fleiri geti stundað þann búskap sem fiskveiðar eru. Og umhverfismálin - á ekkert að ræða þau af skynsemi? Á ekki að taka þátt í að vernda hið ósnortna taka ábyrgar ákvarðanir um heildstæða náttúrvernd á Íslandi?

Þetta eru allt spurningar sem ég bíð spenntur eftir að menn ræði af skynsemi fyrir komandi kosningar - málefni sem eru margfallt stærri í sniðum en málefni innflytjenda -  sem er ekkert mál.

Er lausn byggða landsins ef til vill sú að skila kvótanum sem hvarf - þessum 20.000 þorskígildistonnum sem t.d. voru eitt sinn hér fyrir Vestan?

Já það verður spennandi að fylgjast með þróun mála í landspólítíkinni.


Lausn á kanínuvanda Eyjamanna.

Ég er kominn með hugmyndina að lausn Eyjamanna á kanínuvandanum í lundaholunum. Þeir ættu að taka sér til fyrirmyndar páskaleik þjóðverja - að vísu er þar notaður héri - en getur vart skipt máli. Meðfylgjandi mynd útskýrir allt:

Kanínuleit


Forsetinn og gróðurhúsaáhrifin.

Mér fannst einkar athyglisvert að sjá að forseti Íslands er farinn að semja fyrirlestur um hlýnun jarðar-gróðurhúsaáhrifin - og hvernig Íslendingar hafa lagt sitt af mörkum í þeim efnum - ég geri að minnsta kosti ráð fyrir því. En þannig hljómar það - en hann ætlar að kynna fyrir umheiminum hvernig hægt er að nota Ísland sem "litla rannsóknarstofu" í þeim fræðum - enda hafa Íslendingar auðvitað gert allt sem hægt er að gera til að taka þátt í þeirri þróun.

Íslendingar hafa nefninlega verið þjóða duglegastir við að þurrka upp það votlendi sem til er í landingu og nú er staðan einfaldlega sú að lítið sem ekkert er eftir af votlendi landsins - með tilheyrandi sinubrunum og eyðimerkurmyndunum. Ætli þar hafi ekki farið fremstir í flokki íslensku bændurnir sem vildu yrkja jörðina - grófu skurði um allar jarðir til að drena landið - ætluðu sér að gera tún - rækta jörðina - en eftir stendur örótt land með fækkandi búfénaði - staðreyndin er nefninlega sú að minnstur hluti þess lands sem vatni var hleypt úr var nokkurtíma ræktað. 

En hvað þýðir þetta - jú auðvitað það að gríðarlegt magn kolefnis hefur losnað út í andrúmsloftið - kolefni sem annars var bundið í jarðveginum - og nýtist núna til að taka þátt í að gleypa geisla sólar og hækka hitastigið í umhverfinu.

Og ekki má gleyma bílaeign landsmanna - sem ku vera númer eitt eða tvö í heiminum sé miðað við höfðatölu. Já þar höfum við Íslendingar svo sannarlega ekki setið hjá - nei. Enginn er maður með mönnum nema að eiga nokkra - og nú síðast vera með bílstjóra svo ekki þurfi að drepa á bílnum þó maður skreppi í óperuna eða kokteil.

En bisness menn sjá nú yfirleitt monnípeninga í flestu - og er mengunin ekki undanskilin. Jú nú er skógrækt orðin að iðnaði - þar er víst hægt að selja mengunarkvóta - nýjasta kvótabraskið. já ekki er nú öll vitleysan eins.

Já við erum svo sannarlega lítil rannsóknastofa í þessum efnum - og ég hreinlega get ekki beðið eftir því að forseti Íslands birti fyrirlesturinn á netinu - svo að við - lýðurinn í landinu - fáum notið viskunnar eða í það minnsta fengið upplýsingar um hvað hann er að tjá sig um - nema að hann sé náttúrlega að gera þetta til að hífa upp annars lélega laun - ná sér í smá bitling - aukatíma - og noti sinn prívat tíma til þess. Forsetinn er nefninlega Íslendingur og Íslendingar eru tækifærissinnar. Meira að segja forsetafrúin er orðin Íslensk - notaði áreksturinn við skyltið til agítera fyrir skíðahjálmum - það er vel.

 http://www.visir.is/article/20070409/FRETTIR01/70409022

tja, ég bíð spenntur.


Pólítíska argaþrasið fyrir Vestan.

Nú ganga hnútuköstin á víxl - allir vilja eigna sér málefnalega umræðu en enginn kannast við að taka þátt í pólítísku argaþrasi - enda allir að vinna við að bjarga Vestfjörðum. Það er auðvitað gott að menn leggi sitt af mörkum í þeim efnum. Hvort sem það er á borgarafundi í Hömrum þar sem sjálfstæðismenn sáu sér ekki fært að mæta -en aðrir stjórnmálaflokkar mættu í staðinn. Stundum er það bara svo - en um það snýst náttúrlega ekki þetta mál.

Málið snýst um lausnir. Lausnir á vanda Vestfjarða og á tímum fjarnáms þá ættu þeir sem ekki mættu vel að geta unnið vinnuna annarstaðar. Ég mun í það minnsta ekki kjósa þann er þrasar mest - ég mun kjósa þann er gerir best.

Ég talaði á fundinum - ekki sem pólítískt valinn maður - ég talaði vegna þess að ég sé möguleika hér fyrir Vestan - möguleika sem menn eiga að koma sér saman um að nýta - möguleika sem ýtt var úr vör m.a. af ráðherrum úr Sjálfstæðisflokki. Ekki má gleyma því. En auðvitað hefðu ráðherrar úr öðrum flokkum gert hið sama ef þeir hefðu verið við völd - ekki spurning - enda framtíða Vestfjarða málefni sem ekki á að kafna í pólítísku argaþrasi.

Gerum eins og hinn ágæti maður Einar Hreinsson benti á: "förum heim að læra" og komum með lausnir. En þangað til - hættum þessum pólítíska argaþrasi sem ENGU skilar fyrir framtíð Vestfjarða.

Það er mín skoðun. 


Að toppa of snemma - ekki bara vandamál hjá rúsínupúngum.

Það var alþekkt í "draumalöndum" Steingríms Joð að íþróttamenn pumpuðu í sig allskyns lyfjan og ólyfjan til að efla þrek og bæta árangur. Og þar sem eftirliti var ábótavant þá auðvitað komst þetta aldrei upp - þrátt fyrir að konur væru skeggjaðar og karlar með rúsínupúng - líkt og ónefndur læknir fyrir norðan orðaði svo skemmtilega og fékk bágt fyrir. En það er önnur saga.

Svo féll járntjaldið - og eftirlitið batnaði. Þá fór nú að kárna gamanið hjá skeggjuðu konunum og getulausu körlunum. Einn af öðrum hurfu þeir af sjónarsviðinu - bæði íþróttamennirnir og hrossalæknarnir sem sáu um sprauturnar - sem betur fer. Að vísu var auðvitað einn og einn sem komst í gegn - ekki geta allir mígið í einu. Tækninni fleytti fram og ný efni - preparöt - komu fram - sum ætluð öðrum dýrategundum en mönnum - en hvað um það - enginn munur á hlaupandi rúsínupúng og veðhlaupahesti.

Og allt snérist þetta um að toppa á réttum tíma - þegar áhrifin voru sem mest.

Í pólítíkinni í dag má segja að svipað sé uppi á teningnum - það er að toppa á réttum tíma - láta ekki hanka sig of snemma - ná markmiðinu og svo má hitt koma á eftir. ´

Og þetta sýnist mér vera að gerast hjá þeim Vinstri-grænum  - ÞEIR ERU AÐ TOPPA OF SNEMMA - almenningur er að átta sig á því að það gengur auðvitað ekki að kjósa yfir sig einhverja austantjalds vinstri-stjórn - sem segir hvað má og hvað ekki - og hverjir mega og hverjir ekki. Nje, fjandinn hafi það. Ég held að Húsvíkingarnir vilji fá að ráða því hvort og hvernig orka og auðlindir í þeirra landi sé ráðstafað.

það er svo.

 


LAXINN: GREIN I.

LAXINN OG LÍFEÐLISFRÆÐIN SEM STJÓRNAR LÍFSFERLINUM. 

Atlantshafslaxinn hefur ávallt vakið áhuga fólks og ófáar eru sögurnar af laxveiðiferðum þegar “sá stóri” slapp. Ástæða þessa áhuga felst etv. í því hversu tignarlegur fiskur laxinn er þegar hann á ferð sinni upp árnar til hrygningar lætur fátt stoppa sig og stekkur upp flúðir og fossa.

Vísindamenn hafa heillast af laxinum sökum þess flókna lífsferil sem laxinn lifir og gífurlegrar aðlögunarhæfni að lífi jafnt í sjó og fersku vatni. Atferli laxins, að færa sig úr ánni í sjó, ferðast um langan veg áður en að hann leytar uppi fæðingará sína til að hrygna sem kynþroska fiskur hefur lengi verið mönnum umhugsunar og rannsóknarefni.

Í nokkrum pistlum verður fjallað einstök atriði í lífsferli laxfiska og reynt að svara hinum ýmsu spurningum sem vakna þegar líf þessa merkilega fisks er skoðað. Fyrsti pistillinn fjallar um lífsferil laxins en síðan verður í nokkrum pistlum þar á eftir farið nánar í einstaka lífeðlisfræðilega þætti er skipta veigamiklu máli í lífsferli laxanna.

  LAXFISKAR – YFIRLIT YFIR LÍFSFERIL.  Laxfiskar eru forn fylking beinfiska (latneskt heiti er Protacanthoptergii) sem talið að hafi myndast fyrir um 180 milljón árum og tilheyrir laxfiskaættin (Salmonidea) henni. Laxfiskaættin skiptist í þrjár undirættir, mallar (Thymallinae), karpafiskar (Corigoninae) og laxfiskar (salmoniae). Til laxfiska teljast fimm ættkvíslir, þ.m.t. Atlantshafslax, nokkrar tegundir af Kyrrahafslaxi, nokkrar tegundir Urriða og Bleikju.

Helsta búsvæði laxfiska er á norðlægum slóðum. Þó er einnig að finna laxfiska á suðlægum slóðum sem líklega hafa verið innfluttir af mönnum en sloppið úr haldi og náð að fjölga sér í náttúrunni.

Laxinn eyðir ýmist allri ævinni í ferskvatni eða hluta í ferskvatni og hluta í sjó.

Þar sem laxinn eyðir allri ævinni í ferskvatni verða oft stór vötn í hlutverki sjávar og ganga fiskarnir í  þær ár sem í vötnin renna.

Líklegt þykir að laxfiskar eigi uppruna sinn í ferskvatni þar sem þeir leita upp í ferskvatn til að hrygna og jafnframt sú staðreynd að hrognin þola ekki seltu.

Við kynþroska á sér stað útlitsbreyting hjá laxinum, frá silfurgljáandi áferð í litríkan riðabúning og er það merki um að laxinn sé að verða tilbúinn til að ganga upp í heimaá sína til hrygningar, sem yfirleitt á sér stað seint á haustin. Hængarnir koma fyrr á hrygningarsvæðin en hrygnurnar sem lenda inná þeim svæðum sem hængarnir hafa helgað sér. Þar grafa hrygnurnar holur og gjóta eggjum sínum, atferli sem hrygnur geta endurtekið nokkrum sinnum. Hængarnir sprauta síðan sviljum yfir hrognin áður en þau eru hulin möl á árbotninum. Því er staðarval fyrir got mjög mikilvægt til að tryggja afkomu hrognanna. Á þessum tíma étur laxinn ekkert og er því af skiljanlegum ástæðum mikið um afföll. Þeir fiskar sem lifa af til vors ganga þá niður til sjávar á ný og dvelja í sjó yfir sumarið, eða jafnvel lengur, áður en þeir ganga upp í árnar á ný til að hrygna.

Hrognin eru grafin í möl á árbotninum yfir veturinn og klekjast eftir 6-8 mánuði og er klak háð hitastigi árinnar (um 400 daggráður þarf til klaksins). Fyrst eftir klak kallast seiðin kviðpokaseiði, eru um 2,5 sm að lengd og dvelja niðurgrafin í mölinni á árbotninum þar til forðanæringin er á þrotum og laxarnir verða að finna sér fæðu. Fyrsta sumarið tvöfalda seiðin líkamslengd sína og dvelja í ánni allt að 4 árum, algengast er 3 – 4 ár en 2 – 8  ár er einnig þekkt, eða þar til að þau hafa náð göngustærð sem er á bilinu 12-18 sm. Í Kálfá, þverá Þjórsár hafa rannsóknir sýnt að laxagönguseiði eru á bilinu 10 – 16 cm. Þegar sá tími rennur upp sem seiðin fara að ganga til sjávar hafa þau tekið miklum breytingum, bæði innra sem ytra. Þegar þessir ungu laxar hafa náð til sjávar fara þeir að vaxa hratt og þeir hundraðfaldað þyngd sína á einu ári í sjó ásamt því að útlitið breytist og þeir fá silfurgljáandi áferð (göngubúningur). 

Afföll í sjó eru hinsvegar mikil enda lífsbaráttan hörð og þegar þau skila sér uppí árnar á ný er talið einungis á bilinu 1-30% nái til baka. Í ánum taka svo veiðimenn við og fækkar það ennfrekar þeim löxum sem ná að hrygna á komandi hausti.

Því lengur sem laxar dvelja í sjó þeim mun stærri verða þeir og er þar Grímseyjarlaxinn etv. þekktastur. En lífsferill hans var á þá vegu að hann mun hafa dvalið fjögur ár í ferskvatni, tvö ár í sjó og hrygndi eftir það, gekk til sjávar og dvaldi þar í tvö ár til viðbótar áður en hann hrygndi á ný og svo á annað ár í viðbót í sjó. Þetta er uppskrift að risalaxi stangveiðimannsins!!   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband