Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ert þú lax - eða silungsveiðimaður?

Ég er að spá í að skrifa nokkra pistla um líffræði þessara fiska - lifnaðarhætti og aðlögun. En ég nenni því ekki nema áhugi sé fyrir hendi - og ég ætla að mæla áhugann út frá heimsóknum og viðbrögðum.

kv, tolli.


Salka er ekki í sambandi. En meðvituð samt.

Eins og ég nefndi áður þá skrapp ég norður til Akureyrar - heimsótti fjölskyldu en enga vini. Auðvitað tók ég Sölku með - en Salka er 2ja ára Border Collie. Ég er nokkuð viss um að ferðin verður Sölku minnisstæð og þá sérstaklega heimsóknin til systur minnar Elfu - sem er dýralæknir. Ég missti út úr mér að etv. væri best að nota tækifærið og biðja dýralækninn að sprauta Sölku svo ekki yrði hún hvolpafull. Það endaði með snöggri ófrjósemisaðgerð á Sölku - tannsnyrtingu og manekyr - eða hvað það nú heitir og þykir svo fínt hjá fínufrúnum. Salka fékk sem sagt gúmmorren. Vaknaði upp í drapplitaðri samfellu og mundi ekkert eftir hvað hafði gerst - hvaða "stelpa" hefur ekki lent í svoleiðis sitúasjón...spyr ég??. En nú er ekki lengur notðaður plastkragi - þessi sem einna nothæfastur er þegar verið er að troða í sig pítu. Nei, samfella skal það vera og lúkkið verður ákaflega álkulegt - svona eins og að ganga í buxum keyptum i kaufélaginu í Varmahlíð

Ég náttúrlega sótti Sölku á spítalann um kvöldið - vildi ekki skilja hana eftir í búri á ókunnum stað. Og ef það væri ekki nóg að Salka væri í drapplitaðri samfellu og með bleiju - þá var köttur í búrinu fyrir ofan. Já, niðurlægingin var algjör. Salka, rykuð á sál og líkama, hnusaði út í loftið en gat ósköp lítið - ekki merkilegur pappír - kannski eins og hlutabréf í díkód - spennandi en verðlaus. Svo að við Salka fórum bara heim - heim til tengdó þar sem við gistum. En auðvitað var Salka ekki búin að gleyma skyldum sínum og embætti - hún er og verður hundur - og hundum ber að elta ketti - meira að segja þó maður sé í samfellu með bleiju. Það voru nefninlega tveir aldeilis óforskammaðir kettir fyrir utan húsið hjá tengdó - og Salka gerði það sem Sölku bar - hún elti þá - eða í það minnst gerði sitt besta - skakkalappaðist tvo þrjá metra, stoppaði og snéri við. Kettirnir voru á bak og burtu og hún gat lagst til hvílu - búin að sinna skyldum sínum sem hundur í þjóðfélagi manna og annarra hunda. Já við vorum stolt við Salka.

Og nú eru liðnir 5 dagar frá aðgerðinni og Salka er ennþá í samfellunni - reyndar mun hressari og getur orðið skokkað um og hnusað. Tekið rispur og verið hundur sem skammast sín ekkert fyrir að vera í samfellu - drapplitaðri og svona dálítið "low fashion". Ég held að hún sé bara nokkuð ánægð með samfelluna - svona frekar stolt af því að vera öðruvísi - rebell. Og í kvöld þegar við skruppum í göngutúr á staðinn þar sem henni þykir best að gera stykkin sín þá var hún sjálfri sér lík - ætlaði aldrei að komast í réttu stellinguna - finna réttu lyktina til að geta skitið - snérist og snérist - hokraði og hnusaði - og þegar hún var loks kominn í fílinginn þá þurfti náttúrlega þessi kattar andskoti að birtast - svona rétt til að trufla það sem hafði tekið svo langan tíma að fullkomna - og setti allt úr jafnvægi. Nú þurfti að byrja aftur. Finna lykt - rétta lykt á réttum stað. En það bara gekk ekki - og Salka hökti um í keng en fann sig ekki. Ég gafst upp - Salka gafst upp og við fórum heim. Óskitin Salka í drapplitaðri samfellu. Við verðum að reyna aftur á eftir. Já það er ekki auðvelt að vera Border Collie sem heitir Salka - í það minnsta þegar gera þarf stykkin sín.

Jæja svo var nú það. Nú er að sjá hvað gerist fyrir nóttina - en auðvitað væri hún vís með að heimta að skreppa út í nótt -bara svona til að minna mig á hver það er sem ræður! En við erum bara tvö ein heima - ég og hún Salka. Mig munar ekkert um það að fara á fætur og út í rokið - ekki þegar Salka þarf að skíta.


Strákur...svo stelpa. Allt þetta í afmælisgjöf frá mömmu.

Ég las ákaflega athyglisverða grein í sænska blaðinu Aftonbladet (linkur hér að neðan) um afmælisgjöf eina í Bretlandi. Nú þætti það líklegast ekki vera markvert að fá afmælisgjöf - í það minnsta fá ansi margir gjafir á afmælisdaginn. En þessi pakki var öðruvísi - verulega öðruvísi eða eiginlega alt öðruvísi. Jú hann Tom fékk kynskiptiaðgerð frá mömmu sinni á 15 ára afmælisdaginn. Líklegast gjöf sem erfitt er að skila - í það minnsta þega búið er að "opna pakkann".

En um hvað snýst þetta í raun. Í nútíma læknavísindum er hægt að gera ansi margt - og sem betur fer margt gott. Eins og virðist vera í tilfelli Tom sem leið vítishvalir yfir veru sinni í röngum líkama - skildi ekkert af hverju honum var pakkað inn í rangar umbúðir. Og auðvitað skilur maður að það hlýtur að vera slæmt - þó erfitt sé að setja sig í spor Tom. En Tom á góða móður sem gerði sitt til að gera honum lífið bærilegt -reyndar varð lífið ánægjulegt í fyrsta skipti fyrir Tom - sem nú heitir Melanie. Og er bara falleg ung stúlka.

Og náttúrlega sem úng stúlka þá losar hún sig við kærastann. Af því að það er svo gott að vera úng stúlka og einhleyp. Eitthvað svo mikið frelsi í því að vera einhleyp - og frjáls. En ég spyr, hvar stöndum við varðandi siðfræði vísindanna? Ber þessari úngu stúlku að tilkynna það öllum er hún bindur bagga sína með að hún hafi verið hann en sé núna hún? Ég veit það ekki. Eru til einhverjar reglur?

Það sem ég er að segja og spá í er hvort það skipti í raun einhverju máli - náttúrlega hlítur það að koma upp á yfirborðið þegar parið hyggur á barneignir - það er ljóst. Þarf Melanie til að mynda að nefna þetta þegar hún fer í launaviðtal og í ljós kemur að hún á að fá "kvenmannslaun" sem allir vita að eru lægri (skv. könnunum) - getur hún þá beitt fyrir sér þeirri staðreynd að "ég var einu sinni strákur". Tja, ekki veit ég. 

Fyrir mér er þetta þetta spurning um að fá að lifa lífinu eins og maður vill sjálfur -sem er ekkert sjálfgefið í raun - ekki núna þegar hægt er að "bæta" fyrir "mistök" náttúrunnar. Ég færi í það minnsta í aðgerð - ef ég til dæmis fæddist með auka löpp.

Og til geðlæknis ef ég hefði fæðst Þórsari. 

Og í öllu þessu tilgangurlífsinsbrölti er verið að tefja frumvarp um stofnfrumurannsóknir. Menn verða að gera sér í hugarlund tvennt: þarfir vissra einstaklinga og hæfni vísindamanna. Bera má þetta saman við knattspyrnu á knattspyrnuvelli: Bæði liðin reyna að halda boltanum inni á vellinum - reyna semsagt að vera ekki mikið að sparka knettinum út af vellinum - til að tefja ekki tímann. Ef settir eru upp battar á völlinn þá fer boltinn ekki út af - er alltaf í leik. Málið snýst nefninlega ekki um hvort heldur hvernig - þ.e. setjum "batta" utan um völlinn - setjum reglur og leyfum vísindamönnunum að sinna rannsóknum - innan "vallarnis". Með því nýtist öll tækni og þekking betur - verður þjáðum til góðs. Jafnt konum sem körlum og konum sem eiga að vera karlar og körlum sem eiga að vera konur.

það er mín skoðun.

http://www.aftonbladet.se/vss/nyheter/story/0,2789,1037447,00.html


Þegar "Skalli" stal Verinu.

Jæja Hafnfirðingar kusu burt Álverið. Og Steingrímur getur andað léttar. Líkurnar á því að hann fái álver heim í kjördæmið eru fyrir vikið mun betri - miklu betri. Og þá verður nú gaman hjá Steingrími - svona staða foreldris sem setur nammi í skál hjá sælgætissjúku barni og segir svo "nei skamm, ekki borða - bara horfa".

Það verður gaman þá - sérstaklega þegar hann kemur með rökin - umhverfisverndina og allt það. En ég er ekki viss um að Húsvíkingarnir leggi við hlustir - Steingrímur er jú bara ráðinn til 4 ára í senn og ef hann verður með eithvað múður þá bara fer hann í framboð í öðru kjördæmi næst. En mér sýnist semsagt staðan vera sú að Húsvíkingarnir geta hætt áformum um krókódílarækt - sem reyndar var ansi skondin. Sérstaklega sagan að því  þegar einhver þeirra var spurður hvernig ætti að fóðra kvikindin - þá var svarað "setjum upp skylti í vegkantinn sem á stendur BAÐSTRÖND / BEACH og þá þarf ekkert að spá í fóðrunina".

En mér fannst í það minnsta Steingrímur vera framsýnn þegar hann ét grunnskólabörnin í Hafnafirði mótmæla stækkun álvers. Þetta er það sem ég kalla "móðins" mótmæli. Látum þá sem erfa landið sjá um mótmælin.

En fyrst Hafnfirðingarnir eru svona flestir orðnir harðsvíaraðir umhverfissinnar þá langar mig að spyrja þá: Hvernig farnast Flórgaðanum á Ástjörn? Sú var nefninlega tíðin að ég las líffræði við HÍ og hafði áhuga á fuglaskoðun. Og í einum fuglakúrsinum gerðum við okkur ferð að Ástjörn til að skoða Flórgoða þar sem hann lá á eggjum - á einni af síðustu varpstöðvunum - ósnortinni Átjörninni - þessari sem er að ég held orðin eins og gosbrunnur í miðri uppbyggingunni. Til að styggja nú ekki ræfils fuglana þá skriðum við yfir túnið sem lá að vatninu - eða í raun að landinu umhverfis vatnið - því ekki mátti maður fara alveg að tjörninni - til að styggja ekki Flórgoðann. Síðan lá maður í þögninni og þorði varla að anda - í það minnsta ekki í áttina að Ástjörn - nú til að styggja ekki Flórgoðann. Og ég spyr - hvar eru fuglarnir núna - fá þeir frið? Hefur átt sér stað "Náttúruverndarhvarf" á svæðinu?

Já það er allveg stórkostlegt að fylgjast með bylgju náttúrverndar vinstrigrænna - sem líður um landið líkt og grænþörungsslykja í annars fallegum læk. En það er nú samt svo að þessi græna náttúrulega slykja getur bæði kveikt og slökkt líf - en því er jú stjórnað af skynsamri náttúru - ekki spekúlöntum sem í skyndingu verða umhverfisvænir - til að halda vinnunni. 

Ég bíð spenntur eftir þega Steingrímur fer norður og kemur viti fyrir Húsvíkingana sem ætla sér að byggja álver og fylla það af öllum þeim sem ekki fá atvinnu af því að sýna hvali í sínu náttúrulega umhverfi. Það verður sjón að sjá.

Já það er vandratað í þessu umhverfiverndarumhverfi.


Bólugrafinn únglíngur - Akureyri.

Nú er ég búinn að vera á Akureyri í rúman sólarhring - mínum æskuslóðum. Og bærinn er ennþá Akureyri þó hér sé mikið breytt - til batnaðar að ég tel að mestu. Gríðarleg uppbygging hefur átt sér stað - jafnt innra sem ytra. Það var því óvænt en notarleg tilfinning þegar ég vaknaði í morgun og heyrði ekki í nokkrum bíl - bara þessi gamla góða þögn sem einkennir rólyndis bæi. Akureyri er sem sagt bara Akureyri.

En þegar farið er um  bæinn þá er manni auðvitað ljóst að hér hefur eitthvað átt sér stað - eitthvað mjög mikið. Þar sem áður var lítið gamalt hús sem kallaðist Baldurshagi eru risin háhýsi - í hróplegu ósamræmi við umhverfið að mér finnst - og Helgi magri verður dálítið eins og unginn á páskaegginu - hálf-aumingjalegur-gulur-pípuhreinsara-úngi með engan tilgang. Ef hann er þarna ennþá. Já Akureyri er svo sannarlega sem óharnaður únglíngur - með andlitið bólgið og bólugrafið - bíður eftir þroskanum og fullvöxnu útlitinu. En hér er nú samt skemmtilegur hraði - eins og allir séu eithvað að flýta sér - ekki eins hratt og í Reykjavík en miklu hraðar en á Ísafirði. Og jakkafata - drakta bisnessmenn og konur eru einhvernveginn svo miklu meiri bisness menn og konur - í jakkafötum og dröktum. Meira að segja Ísfirðingarnir sem ég hitt í hádeginu á Bautanum voru allt öðruvísi en venjulega - svo miklu meiri viðskiptamógúlar en þegar maður mætir þeim fyrir Vestan - voru einhvernveginn svo mikið í bisness. Dálítil sveitarómantík yfir þessu - hefði átt að kanna hvort ekki væri kaupstaðarlykt af þeim.

En fyrir Vestan halda menn uppá að Fiskistofa er að fjölga stöðugildum um eitt - og boða til veislu. Og mér finnst það bara fínt - sérstaklega þegar ég sá að nýja starfið á að vera m.a. umsjón með öllu þorskeldi - skráningum og slíku. Það er vel - þá náum við þessum pakka vestur. Því að það er sama hvaða flokk menn kjósa - það hefur gengið ágætlega í uppbyggingu tengdri þorskeldisrannsóknum fyrir vestan - og þar hafa þeir er stjórna tekið virkan þátt - fyrst Árni Matt og nú Einar K. Og ég á ekki von á öðru og heyri ekki annað en að Einar k. ætli sér að halda áfram stuðningi við það verkefni. Það er vel. Því uppbygging verður að vera ópólítísk - með þátttöku allra er áhuga hafa á að byggja upp - hvað sem er - og sem skilar viðkomandi sveitarfélagi mögulegri framtíð. Framtíð sem ekki verður í flokkslitunum heldur BJÖRT.

Það er mín skoðun.


Er Ísland að hverfa...?

Ég fékk sent þessa "skemmtilegu" mynd - og nokkra púnkta til umhugsunar.

Skoðið endilega.

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Skyrtutrix og verkun púnga - Vestfirskt gúrme.

Ég var að segja frá einföldu trixi til að nota á skyrtur til að losna við að strauja þær. Nú veit ég ekki hvort að mér sé heimilt skv. lögum að ræða svona trix - en ég geri það samt - verð þá bara í klefa með þeim Spaugstofumönnum.

En - þegar búið er að þvo skyrtur er gott að skella þeim í þurkara og láta hann ganga í 5-10 mín - ekki við of hán hita - hengja skyrtuna svo upp á herðatré og láta þorna - og þá þarf ekki að strauja!

Nú, þá eru það púngarnir - verkaðir skv. gamalli hefði í Bolungarvík. Veit ekki hvort hér er um einakleyfishæfa aðferð að ræða - en hví ekki að kanna málið - ekki veitir af eins og staðan er í dag. Ég vona að þeir Bernódusarbræður afsaki þetta. 

Þegar lambhrút hefur verið slátrað er púngur skorinn af og saltað í sárið. Síðan eru eistu dregin úr og hreinsuð af þeim himnan og troðið umsvifalaust í skjóðuna aftur. Gott er að taka bút af slagi og troða í skjóðuna meðfram eistum og sauma fyrir. Næsta skref er að svíða púnginn - með gúmmelaðinu í. Við það öðlast hann skemmtilega áferð og góðan konsistens. Hér erum við komin með dásamlegan rétt - bæði nýsoðinn með kartöflum eða kaldan ofan á brauð. Ekki er vitlaust að hafa með sér púng eða tvo þegar farið er í gönguferð eða lengri túra - og nota sem skemmtilegan puttamat. Eins finnast bæði börnum og útlendingum gaman af að leika sér með slíkan mat - hægt er að nota púng til knattiðkunar og éta síðan er hungrið segir til sín.

Ég fæ vatn í munnin við þessi skrif.....

 

 


Gríðarlegar auðlindir undir Vestfjörðum.

Fyrir nokkru kom sérfræðingur í heimsókn á Vestfirði. Það er svo sem ekkert nýtt að sérfræðingar leggi leið sína hingað Vestur - en þessi var með í farteskinu fyrirlestur sem hann síðan flutti í samstarfi við Vestfjarða akademíuna (VAK - sjá heimasíðu http://www.hsvest.is/vak/).

Hér er úrdráttur úr kynningunni:

  "Í fyrsta fyrirlestri vetrarins mun Hafsteinn Ágústsson olíuverkfræðingur hjá Statiol í Noregi fjalla um olíuleit og vinnslu í norður Noregi og Barentshafi. Í fyrirlestrinum verður fjallað um hvernig erlend fyrirmynd geti verið fyrirmynd tilsvarandi verkefnis á Vestfjörðum. Gefið verður yfirlit yfir framkvæmdir og kostnað ásamt þeim áhrifum sem slíkar framkvæmdir hafa á atvinnulíf svæðisins en margt er líkt með þessum svæðum.

Hafsteinn Ágústsson er sérfræðingur í olíuverkfræði við höfuðstöðvar Statoil í Stavanger, Noregi. Hann hefur uþb 27 ára starfsreynslu í olíuiðnaðinum, bæði hjá verktökum og olíufyrirtækjum. Hafsteinn hefur verkfræðipróf í eðlisfræði og rafeindatækni frá háskólanum í Loughborough í Englandi, og masterspróf í mælingatækni frá sama skóla. Enn fremur hefur hann masterspróf í olíuverkfræði frá Heriot-Watt háskólanum í Edinborg í Skotlandi".

Þetta reyndist ákaflega skemmtilegur og fræðandi fyrirlestur - ágætlega sóttur og endaði Hafsteinn á síðum moggans og í speglinum. Enda um mjög merkilegt viðfangsefni að ræða - nokkuð sem er vel raunhæft og skilar raunverulegum arði. Og það sem er náttúrlega mjög merkilegt er að nýjar aðferðir við boranir eru umhverfisvænar á allan hátt - ekki lengur þessir risa borpallar heldur botnlægar boreiningar sem ekki trufla t.d. veiðar á svæðinu - gasið er síðan flutt í lögnum í land - kælt niður og sett í tankskip. Svo eru öllu umframgasi dælt niður í holurnar aftur svo mengun verður hverfandi.

Já - og hverjir mættu. Jú það mætti fólk af öllum gerðum - NEMA PÓLÍTÍKUSAR OG BÆJARSTJÓRNARMENN FYRIR VESTAN. Semsagt - það mætti enginn sem ýtt gæti slíkum verkefnum úr vör - sem gæti hafið umræðu - sem þó er kosinn til slíkra starfa.

En hví ekki að skoða þessa möguleika - hví ekki að leita samstarfs við t.d. Statoil í Noregi um slíkar rannsóknir - hví ekki að gera eithvað sem getur skipt máli.

Ég bara spyr! Gerum það - og gerum það strax.

 Það er mín skoðun.


Að gefa fórnarlömbum umferðaslysa langt nef.

Mér féllust hendur þegar ég sá umfjöllun í Kastljósi um dreng á Suðurnesjum sem ók á ógnarhraða eftir þröngum malbikuðum vegi. Hugsunarlaus eða í mesta lagi sjálfhverfur. Líkt og honum væri skítsama um allt og alla - auðvitað var ljóst að honum var skítsama um sjálfan sig. Og þetta gerir viðkomandi í umræðunni um fjölgun dauðaslysa í umferðinni - dauðaslysa þar sem fólk á öllum aldri deyr - örkumlast eða missir ástvini. Ég vona svo sannarlega að þessi ungi maður verði tekinn úr umferð - allir umferð - langan tíma.

Ég átti góðan vin - uppeldisfélaga norður á Akureyri sem flutti með foreldrum sínum og bræðrum í Hveragerði. Í dag er hann Gísli dáinn - dó í hörmulegu slysi á Suðurlandsvegi aðeins á 18. ári. Og í dag 20 árum eftir andlát Gísla geta foreldrarnir, Hannes og Sibba, ekkert nema reynt að vekja fólk og stjórnvöld til umhugsunar - sem var gert þegar krossar voru reystir, einn fyrir hvern látinn. En gengur það? Er eithvað gert í málunum? Þá á ég ekki við að það séu bara stjórnvöld sem um er að kenna - nei - hér verða allir að axla ábyrgð - taka þátt.

Ég minnist Gísla oft - ekki síst þegar synir mínir hlaupa um á gamlársköld og safna rakettuprikum - en það gerðum við Gísli svo oft. En aldrei aftur.

Við skuldum þeim sem hafa orðið umferðinni að bráð afsökun og sú afsökun verður að koma sem átak í bættri umferðarmenningu - betri vegum og ábyrgum akstri. Ég mun reyna mitt besta - EN ÞÚ?


Nokkrar kjúklingauppskriftir.

Hér um daginn var ég að ræða landbúnað - þar taldi ég það í raun fásinnu að stunda kjúklingarækt á Íslandi þegar hægt væri að flytja inn mun ódýrari vöru en við getum framleitt. Ég stend við þá skoðun mína. Eins er það með svínakjötið - seint ætla íslenskir kjötiðnaðarmenn að læra að búa til alvöru skinku - hættum þessu strögli. Ræktum það sem íslenskt er og flytjum restina inn.

En hvað um það - hér læt ég af því tilefni fylgja nokkrar kjúklingauppskriftir sem einhver sendi mér.

 

Verði ykkur að góðu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband