Salka er ekki í sambandi. En meðvituð samt.

Eins og ég nefndi áður þá skrapp ég norður til Akureyrar - heimsótti fjölskyldu en enga vini. Auðvitað tók ég Sölku með - en Salka er 2ja ára Border Collie. Ég er nokkuð viss um að ferðin verður Sölku minnisstæð og þá sérstaklega heimsóknin til systur minnar Elfu - sem er dýralæknir. Ég missti út úr mér að etv. væri best að nota tækifærið og biðja dýralækninn að sprauta Sölku svo ekki yrði hún hvolpafull. Það endaði með snöggri ófrjósemisaðgerð á Sölku - tannsnyrtingu og manekyr - eða hvað það nú heitir og þykir svo fínt hjá fínufrúnum. Salka fékk sem sagt gúmmorren. Vaknaði upp í drapplitaðri samfellu og mundi ekkert eftir hvað hafði gerst - hvaða "stelpa" hefur ekki lent í svoleiðis sitúasjón...spyr ég??. En nú er ekki lengur notðaður plastkragi - þessi sem einna nothæfastur er þegar verið er að troða í sig pítu. Nei, samfella skal það vera og lúkkið verður ákaflega álkulegt - svona eins og að ganga í buxum keyptum i kaufélaginu í Varmahlíð

Ég náttúrlega sótti Sölku á spítalann um kvöldið - vildi ekki skilja hana eftir í búri á ókunnum stað. Og ef það væri ekki nóg að Salka væri í drapplitaðri samfellu og með bleiju - þá var köttur í búrinu fyrir ofan. Já, niðurlægingin var algjör. Salka, rykuð á sál og líkama, hnusaði út í loftið en gat ósköp lítið - ekki merkilegur pappír - kannski eins og hlutabréf í díkód - spennandi en verðlaus. Svo að við Salka fórum bara heim - heim til tengdó þar sem við gistum. En auðvitað var Salka ekki búin að gleyma skyldum sínum og embætti - hún er og verður hundur - og hundum ber að elta ketti - meira að segja þó maður sé í samfellu með bleiju. Það voru nefninlega tveir aldeilis óforskammaðir kettir fyrir utan húsið hjá tengdó - og Salka gerði það sem Sölku bar - hún elti þá - eða í það minnst gerði sitt besta - skakkalappaðist tvo þrjá metra, stoppaði og snéri við. Kettirnir voru á bak og burtu og hún gat lagst til hvílu - búin að sinna skyldum sínum sem hundur í þjóðfélagi manna og annarra hunda. Já við vorum stolt við Salka.

Og nú eru liðnir 5 dagar frá aðgerðinni og Salka er ennþá í samfellunni - reyndar mun hressari og getur orðið skokkað um og hnusað. Tekið rispur og verið hundur sem skammast sín ekkert fyrir að vera í samfellu - drapplitaðri og svona dálítið "low fashion". Ég held að hún sé bara nokkuð ánægð með samfelluna - svona frekar stolt af því að vera öðruvísi - rebell. Og í kvöld þegar við skruppum í göngutúr á staðinn þar sem henni þykir best að gera stykkin sín þá var hún sjálfri sér lík - ætlaði aldrei að komast í réttu stellinguna - finna réttu lyktina til að geta skitið - snérist og snérist - hokraði og hnusaði - og þegar hún var loks kominn í fílinginn þá þurfti náttúrlega þessi kattar andskoti að birtast - svona rétt til að trufla það sem hafði tekið svo langan tíma að fullkomna - og setti allt úr jafnvægi. Nú þurfti að byrja aftur. Finna lykt - rétta lykt á réttum stað. En það bara gekk ekki - og Salka hökti um í keng en fann sig ekki. Ég gafst upp - Salka gafst upp og við fórum heim. Óskitin Salka í drapplitaðri samfellu. Við verðum að reyna aftur á eftir. Já það er ekki auðvelt að vera Border Collie sem heitir Salka - í það minnsta þegar gera þarf stykkin sín.

Jæja svo var nú það. Nú er að sjá hvað gerist fyrir nóttina - en auðvitað væri hún vís með að heimta að skreppa út í nótt -bara svona til að minna mig á hver það er sem ræður! En við erum bara tvö ein heima - ég og hún Salka. Mig munar ekkert um það að fara á fætur og út í rokið - ekki þegar Salka þarf að skíta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Jóhannsdóttir

Takk fyrir vinarboðið. Gaman að hitta þig hér . Sjáumst á blogginu!

Guðrún Jóhannsdóttir, 4.4.2007 kl. 02:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband