Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Föstudagur, 23. mars 2007
Vestfirðir: Ekkert álver....engir Vinstri-Grænir....
Ég gerði smá grín að honum Hlyni Hallssyni, þeim ágæta dreng, í pistli mínum hér um daginn. En nú er mér dauðans alvara - í ljósi þess að mest vaxandi flokkur landsins skuli ekki vera með neina starfsemi á Vestfjörðum svo mark sé takandi á.
Eru þessar áhyggjur mína vegna þess að hér sé náttúruvernd í klessu? Nei, en það má leiða að því líkum að stór flokkur láti til sín taka í byggðamálum sem öðrum málum - og setji íbúa ofar fyrirtækjum - framtíð lands í hendur fólksins og þar fram eftir götunum. Hugsi um hag ALLRA landsmanna og undanskilji ekki Vestfirði. Hér er jú margt grænt - og þegar horft er á landakortið þá eru Vestfirðir svo sannarlega "til vinstri".
Ég spyr því Steingrím - hefur þú engan áhuga á Vestfjörðum? Ertu ekkert á "vestur-leiðinni"...þú ert kannski bara fastur á "há-heiðinni"?
ÞAÐ ÞARF KANNSKI ÁLVER OG VIRKJANIR TIL AÐ STEINGRÍMU FÁI ÁHUGA - LANDSBYGGÐARMÁLIN SNÚAST KANNSKI EKKERT UM FÓLKIÐ?
Ja, maður spyr sig.
Fimmtudagur, 22. mars 2007
Margrét og Stuðið en Ómar stiklar í Umhverfisráðuneytinu.
Ég hef haft tröllatrúa á þeirri dugmiklu konu henni Margréti Sverrisdóttur. Og auðvitað er alkunna að Ómar er orðinn talsmaður náttúruverndar. Sem er gott - af náttúrvernd er ekki of mikið á Íslandi.
En það sem mér reyndar hefur fundist verst um náttúruverndina hans Ómars er hve seint hún sprettur upp - í það minnsta af þeim krafti og núna. En hvað um það - mér er alltaf minnistætt þegar hann ráðlagði að gamlar steinhleðslur í útihúsum að Knarrareyri í fjörunni á Flateyjardal skyldu varðveittar - til marks um mikið starf kotbóndans á Íslandi - en það var ekki gert og þegar ég heimsótti staðinn fyrir nokkrum árum þá voru þær nánast horfnar. En hvað er það þegar við erum að tala um heilu landsvæðin sem eru að hverfa undir vatn - farin og koma aldrei aftur.
En hér komum við nefninlega að kjarna málsins. Mér finnst skorta svo mikið á "for-náttúruvernd" - þessa sem gerir eitthvað áður en farið er af stað. Það er nefninlega eitthvað svo mikið púður farið í þetta sem þegar er komið - og verður.
Ómar þekkir landið betur en flestir - og hví ekki setja hann í umhverfisráðuneytið - sem ráðherra umhverfismála - sama hvaða flokkur sigrar kosningar. Það er jú þegar byrjað að sækja "hæfa" menn úr atvinnulífinu og gera að ráðherrum - og stundum borgarstjórum. Afhverju er Ómar ekki bara utan-pólítíkus-ráðherra. Með einlægan áhuga á náttúruvernd - og óhlutdræga matshæfileika.
En aftur að Margréti. Hvað er það sem gerir að Margrét finnur sig ekki í öðrum flokkum - tja, ekki veit ég. En því miður er ég bara svo hræddur um að kraftar hennar nýtist ílla í þessu "einka" framboði - ekki síst þar sem mér sýnist hún ætla að vera með "stuðmanninn" í eftirdragi. Ég hélt reyndar að það stuð væri nú nánast búið - komið á aldur - útbrunnið - gúddbæ. Nei, stuðið er ennþá að berjast við að komast á þing og minnir um margt á rjúpuna við staurinn og refinn sem aldrei náði vínberjunum.
Ég segi því - gangi þér allt í haginn Margrét og ég veit að margir hér fyrir Vestan bera til þín traust - enda munt þú ekki gleyma Vestfirðingunum og þessum 20.000 þorskígildistonnum sem Ólafur Halldórsson minnti á í ræðunni í Hömrum hér um daginn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 21. mars 2007
Ódýrt rafmagn - sem enginn veit um nema ÁLRISAR.
Ég hef verið að velta því fyrir mér hvernig standi á því að það virðast bara vera álver - eða álrisar - sem hafa áhuga á ódýra rafmagninu okkar? Ef við erum virkilega að framleiða svona ódýrt rafmagn - afhverju flykkjast ekki hingað fyrirtæki sem eru að leyta eftir ódýru rafmagni?
Er eithvað annað í fyrirtækjaumhverfinu sem er fráhrindandi. Eða fá fyrirtæki á Íslandi ekki að kaupa orku á sama verði og hinar umdeildu álbræðslur? Er kannski þessi græna orka sem Landsvirkjun talar um kannski ekkert svo græn? Hvað er málið - hvar eru fyrirtækin?
Í Svíþjóð glíma lítil bæjar og sveitarfélög við vanda eins og við hér. Verið er að "hagræða" og flytja störf - ýmist á milli svæða innanlands eða til útlanda. Nú stendur til að flytja 150 störf til Suður-Afríku og það vegna þess hve rafmagn er dýrt í Svíþjóð. Um er að ræða fyrirtæki sem er í pappírsframleiðslu - og þarf mikið og ódýrt rafmagn. Og ég stóð í þeirri trú að rafmagn væri ódýrt á íslandi - fyrir alla.
En hvernig stendur á því að nágrannaþjóðirnar vita ekkert af þessu græna og ódýra rafmagni. Getur verið að stefnan sé sú að fá hingað "RISA".... svo ekki fari mikill tími í að semja við marga smærri aðila - tja, ekki veit ég. En mér er skapi næst að setja bara auglýsingu í dagblöðin í nágrannalöndunum og auglýsa þessa ódýru raforku - já, segja bara öllum sem heyra vilja frá þeim kostaboðum sem hér virðast vera í gangi. ÓDÝRT RAFMAGN Á ÍSLANDI - NÓG TIL - OG HVER AÐ VERÐA SÍÐASTUR - ALLAR SPRÆNUR AÐ VERÐA VIRKJAÐAR.....
...eða er maður bara svona mikill hálfviti að skilja þetta ekki?
Miðvikudagur, 21. mars 2007
Djöfull ertu vitlaus Tolli....ótrúlegt!
Ég hef alltaf gaman af málefnalegum umræðum. Sérstaklega þegar menn hafa eithvað að segja. Ég skrifaði stutt blogg um Monu Sahlin og ræðuna sem hún hélt sem nýr formaður jafnaðarmanna í Svíþjóð - og sem fór svona fyrir brjóstið á "óskráðum" - EN sem hann nennti að kommentera á með þessu líka snilldar kommenti sem ég nota í fyrirsögninni.
Já það er auðvitað vandlifað og það þekkir auðvitað Mona Sahlin ákaflega vel - reyndar eins og vinkona hennar Gudrun Schyman líka.
En það er Göran Persson sem fer á kostum - sá sem laug því að vera með próf í viðskiptafræði - sem hann var ekki með - hann var að vísu búinn að vera í skóla - átti bara eftir að klára prófin. En nú er semsagt kallinn alveg að spila út og lætur ekki nægja að ráðast á Carl Bildt heldur er hann eins og naut í flagi. Hann hreinlega fer hamförum í yfirlýsingum um hina og þessa - þverpólítískt og ópólítískt. Kannski er Göran í fráhvarfi eftir hrun jafnaðarmanna í síðustu kosningum. Verst að ekki skuli vera sama kerfið í Svíþjóð og hér - þar sem mönnum er bara skúbbað í Seðlabankann til að þeir þegi - eða eigi í það minnsta að þegja.
Já svona getur verið erfitt að sætta sig við tap - að vera tapari - lúser eins og unglingarnir segja. Og nú verður spennandi að sjá hver tapar í vor - og hvað gerist þá - hver fer verður fúll á móti - hver endar í Seðlabankanum.....hér fyrir Vestan.
En í það minnsta - "óskráður" takk fyrir að koma svona fyrir mig vitinu. Nú sé ég ljósið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 17. mars 2007
Vestfjarðableikjan og Vestfirðingar af áður óþekktri arfgerð.
Það hefur vakið nokkra athygli hér vestra að sjóbleikjan sem veiðist hér á svæðinu er af áður óþekktri arfgerð. Arfgerð sem ekki hefur sést áður. Merkilegar niðurstöður og áhugavert að skoða frekar. En maður spyr sig, skyldu Vestfirðingar á sama hátt teljast óskyldir öðrum Íslendingum - og þeim algjörlega óviðkomandi. Í það minnsta er ljóst að áhugi ráðamanna er ekkert sérstaklega mikill.
Og svo til að kóróna þetta allt þá er alltaf verið að ræða við einhvern sérfræðing við háskólann á Akureyri sem segir spekingslega með Eyjafjörðinn í baksýn:"líklegast er það ekki rétt að styrkja þau sveitarfélög sem mest þurfa á því að halda". Já, hann er magnaður þessi sérfræðingur - sá með Eyjafjörðinn í bakgrunn. Fróðlegt væri að vita hvað hann segir um bleikjuna hér Vestra - líklega mun mikilvægara að skoða þau kvikindi sem synda um í Eyjafjarðaránni.
Ég spyr mig - hvaða tilgangi á það að þjóna að ræða á þennan hátt við sérfræðinginn? Er ekki deginum ljósara að eitthvað þarf að gera. Hvort sem sérfræðingurinn kennir eitthvað annað í kennslustofum háskólans á Akureyri - og ræðir í sjónvarpsviðtali við gamlan skólabróður sinn úr MA - ég bara spyr?!
Svo er alveg með ólíkindum að bera aðstæður fyrir Vestan saman við aðstæður í nágrannalöndum okkar - Af hverju spyr einhver? Jú - hér er nánast ekkert vegasamband á meðan t.d. Færeyjar eru að hruni komnar vegna fjölda jarðganga.
Ég tek dæmi: Í morgun talaði ég við lækni sem staddur var á Patreksfirði. Og læknirinn sem þurfti að komast frá Ísafirði til Patreksfjarðar í gær fór hluta leiðarinna á vélsleða, hluta á bát og hluta akandi. OG TAKIÐ NÚ EFTIR: HÉR FYRIR VESTAN ER LÍKA ÁRIÐ 2007, ég er ekki að tala um héraðslækni í byrjun síðust aldar.
Já, líklegast er það bara frekja og óþarfa lúxus að biðja um akveg sem opinn er árið um kring. Mun mikilægara er að byggja tónleikahús á hafnarbakkanum í Reykjavík - einhvers staðar verður fína fólkið að hittast og ræða vandamál landsbyggðarinnar.
það er mín skoðun.
Fimmtudagur, 15. mars 2007
FRAMTÍÐ VESTFJARÐA: STOFNUN HÁSKÓLANS - HÁSKÓLI VESTFJARÐA: STOFNUN FRAMTÍÐAR.
ÉG ER BÚINN AÐ SKIPTA UM SKOÐUN - KOMINN Á ÞÁ SKOÐUN AÐ RÉTT SÉ AÐ HEFJA UNDIRBÚNINGSVINNU AÐ STOFNUN HÁSKÓLA VESTJFJARÐA!
Af hverju? Jú skoðum málið á púnktaformi:
- Landfræðilegar ástæður.
- Ísafjörður er miðsvæðis í landshluta sem virðist að mestu afskiptur.
- Hingað eru varla nokkrar samgöngur sem treystandi er á.
- Hér er mjög fjölbreytileg náttúra.
- Menntunarlegar ástæður.
- Hér er sterkur menntaskóli.´
- Hér er þörf á háskólamenntuðu fólki.
- Hér er til staðar fólk sem getur tekið virkan þátt í uppbyggingu háskóla.
- Byggðarþróunarlegar ástæður.
- Hér er sannanlega þörf á nýrri hugsun í uppbyggingu.
- Stjórnvöld hafa ekki komið að uppbyggingu á landsbyggðinni sem nokkru nemur.
- Vandamál virðist vera fyrir pólítíkusa að koma með nokkra lausn á byggðavandanum.
- Háskóli laðar til sín nýtt fólk.
- Fjárhagslegar ástæður.
- Fjárstreymi verður að vera í Vesturátt.
- Fjármunir verða að stoppa fyrir Vestan.
- Fjárhagsstjórnin verður að vera fyrir Vestan.
- Það verður að hætta að fjarstýra Vestfjörðum "að sunnan".
- Rannsóknalegar ástæður.
- Að stunda rannsóknanám með mikilli fjarlægð milli "rannsóknaaðstöðu og háskóla" er slæmur kostur.
- Nálægð háskóla við viðfangsefnið mikilvægt - sérstaklega á fyrstu stigum náms.
- Dýrt er fyrir nemendur og rannsóknaverkefni að greiða þann ferðakostnað sem fylgir því að stunda "fjar-rannsóknir".
- Að fá að stunda nám og rannsóknir "í heimabyggð" er að sjálfsögðu að gefa nemum kost á að rækta arfleifð sína.
Af ofangreindu má lesendum vera ljóst að mikilvægt er að hefja undirbúning að stofnun Háskóla Vestfjarða - þar sem ekki aðeins Vestfirðingum verður boðin þátttaka heldur öllum þeim er vilja stuðla að fjölbreyttu mannlífi í landi þar sem fólki er frjálst að lifa og starfa þar sem það kýs.
Ég segi því - hefjumst handa við uppbyggingu Vestfjarða - með stofnun HÁSKÓLA!
það er mín skoðun.
Þriðjudagur, 13. mars 2007
Ísafjarðarfundurinn - varst þú þar? Ég spyr...Hlyn!
Eftir ágætan fund á Ísafirði hefur því miður farið dálítið púður í að kvabbast yfir því hverjir mættu og hverjir ekki. Það er náttúrlega ljóst að fullt af fólki mætti bara alls ekki - enda hefðu Hamrar ekki rúmað alla Vestfirðinga. En mest um vert er að raddir Vesfirðinga heyrðust - en síðan kemur náttúrlega í ljós hvað situr eftir og nýtist til uppbyggingar hér fyrir Vestan. Við sjáum til - í það minnsta mun ég gera mitt - enda segi ég eins og hún Ólína: Ég vil búa hér. Þess vegna flutti ég hingað.
En svo rek ég augun í bloggið hans Hlyns Hallssonar sem hefur eitt um fundinn að segja að hann saknaði stjórnarliða - tja hvað veit hann um það - ekki var Hlynur á staðnum. En ég var þar og sá barasta alls ekkert til Hlyns - hann hefur sjálfsagt ekki átt bindi fyrir tilefnið - nú eða þá að hauskúpujakkinn sem honum finnst svo kúl hefur verið í hreinsun - nú eða að hann veit bara alls ekkert hvar Ísafjörður er - nú eða þá að bara eithvað allt annað. Hvað veit ég.
En málið er að auðvitað var einn úr Stjórnarliðinu á fundinum - í það minnsta held ég að hann hafi ennþá verið það þegar fundurinn var boðaður - æi maður hefur varla undan að fylgjast með þessu flokka-flækingi hjá sumum. Hann var í það minnsta kosinn sem Framsóknarmaður - þó að hann sitji sem Frjálslyndur í einhverja mánuði. Ætli Bo Halldórs hefði ekki bara sagt: "Nýtt lúkk - sama röddin".
En flokksfélagi Hlyns hélt í það minnsta framboðsræðu - sem var alls ekki meiningin með þessum fundi - eins og Hlynur hefði vitað - ef hann hefði mætt.
EN, það sem mér finnst nú skipta megin máli er að eithvað sé gert í málum Vestfirðinga. Og mér sýnist það auðvitað vera hið besta mál ef fundir eru haldnir og nefndir skipaðar - eða eins og Einar Hreinsson sagði og Hlynur veit ekki - því hann var ekki fyrir Vestan: "Menn verða að fara heim og læra - og koma svo með eithvað haldbært".
Þegar þetta er skrifað er klukkan rúmlega kvöldmatur - Hlynur er sjálfsagt heima í kvöldmat en ég sit hér og blogga - nú bara svona rétt til að hita upp áður en ég fer að skrifa eithvað merkilegra en létt grín að blogginu hans Hlyns - enda ætla ég að senda nefndinni hugmyndir sem tengjast því sem ég starfa við - nú bara svona til þess að nefndin fái eithvað að moða úr. En ég held að það þýði ekkert að senda Hlyn neitt - hann var ekki á fundinum og veit því ekkert hvað við viljum hér fyrir Vestan. Hann kemur sjálfsagt bara með hugmyndir um Listagil og álverslausa Vesfirði.
En Hlynur er nú eftir allt ágætis strákur. Af Brekkunni eins og ég. Munurinn er bara sá að ég bý fyrir Vestan núna og þarf einhvernveginn að hafa svo mikið fyrir því - sem er svo óeðlilegt - það á nefninlega að vera eftirsóknarvert að búa fyrir Vestan. Þar eru fjöllin há og firðirnir fallegir. Ég er viss um Hlynur mun líkt og aðrir sem stunda pólítík hjálpa okkur hér fyrir Vestan - hann kemur líklega með fullt af lausnum - í það minnsta er hann lúnkinn að sjá hvað stjórnarliðar gerðu vitlaust.
Það er mín skoðun.
Föstudagur, 9. mars 2007
Kosningaskrif - nokkrum árum of sein á ferðinni...
- Samstarf: Nú þegar er myndaður öflugur hópur innlendra og erlendra vísinda- og eldismanna. Þessir aðilar hittast reglulega, síðast í Björgvin í Noregi og verður næsti fundur haldinn á Ísafirði í Maí. Sem dæmi um þátttkendur í því samstarfi má nefna: Matís ohf., Hraðfrystihúsið Gunnvör hf., Alfsfell ehf., Hafrannsóknastofnunin, Náttúrustofa Vestfjarða, Háskólinn á Hólum, Háskólinn á Akureyri, Háskóli Íslands, Landbúnaðarháskóli Íslands, Vaki-DNG, Stirling háskóli í Skotlandi, Gautaborarháskóli í Svíþjóð, Landbúnanaðarháskólinn í Uppsala í Svþjóð, Hafrannsóknastofnunin í Björgvin í Noregi, Intravision Group í Oslo í Noregi og svo mætti lengi, lengi telja. Fyrirhugaður fundur er á Ísafirði árið 2009 í einu af mörgum rannsóknaverkefnum sem Matís ohf., á Ísafirði tekur þátt í áætlaður fjöldi fundargesta er hátt í 200 enda um gríðarlega stórt verkefni að ræða með heildarveltu um 120 milljón evrur.
- Rannsóknir. Fjölmargar rannsóknir eru þegar farnar af stað og allar eiga þær sammerkt að tengjast Vestfjörðum. Þessar rannsóknir eru flestar til lengri tíma yfirleitt 3-5 ár sem er sá tími sem rannsóknasjóðir miða yfirleitt við.
- Áherslur. Þær áherslur sem eru í rannsóknum á fiskeldi í sjó tengjast flestar því sem talið er nauðsynlegt á hverjum tíma. Ekki er um geðþótta ákvarðanir að ræða heldur er gengið út frá vísindalegum rökum og þörfum fiskeldisiðnaðarins. Sem dæmi um áherslur í rannsóknum sem þegar er byrjað að vinna eru: Líf- og lífeðlisfræði þorsks í eldi, sameindalíffræðilegar rannsóknir á þorski með tilliti til vaxtar, gæða og kynþroska hjá þorski í eldi, áhrif sjókvíaeldis á umhverfi, samspil eðlisfræðilegra umhverfisþátta og sjókvíaeldis, velferð fiska í eldi.
Niðurstaðan og staðreynd málsins er því sú að uppbygging er þegar hafin og mun halda áfram með þátttöku aðila úr vísinda og atvinnulífinu. Sú uppbygging mun hinsvegar þurfa allan þann stuðning sem ríki og sveitarfélög geta veitt og talsmenn slíkrar uppbyggingar eru þeir sem landinu stjórna og kosnir til starfans af fólkinu öllu. Ég á því ekki von á öðru en að Sólborg og hennar fólk komi hingað Vestur og heimsæki okkur sem að uppbyggingunni vinna og skrifi nýja grein um hve vel henni hafi litist á allt saman og hvað þau hlakki til að stiðja við bakið á þeim hugmyndum verkefnum og tækifærum sem hér eru.
Það er mín skoðun.
Mánudagur, 5. mars 2007
Íslenskar beljur fyrir kröfuharða íslendinga.
Þegar ég var að alast upp heimsótti ég fjöldann allan af sveitabæjum með föður mínum sem var hérðasdýralæknir í Eyjafirði. Á þeim tíma skiptu bæirnir tugum í Eyjafjarðarsveit og pabbi sagði mér að þetta væri líklegast besta landbúnaðarhérað landsins. Þar voru kúabúin stór og fjárbúin líka. Það var ævintýri líkast að aka um í fallegri sveit á fallegu sumarkveldi - kýrnar á beit í haga og hrossastóð á bökkum Eyjafjarðarár. Sannkölluð sveitarómantík sem líður manni ekki úr minni.
En þegar farið er um fallegar sveitir Eyjafjarðar í dag þá verður manni ljóst að eithvað mikið hefur breyst - sveitabæirnir standa að vísu margir en útihúsin eru víðast tóm. Endurnýjun í stéttinni er nánast engin - meira að segja KEA sagði upp forstjóranum að mér er sagt vegna þess að hann var farinn að fjárfesta of mikið í bújörðum - og er að ég held bóndi í dag - er mér sagt.
En hvað er að gerast með íslensku þjóðina. Á sama tíma og 94% landsmanna vilja að hér sé landbúnaður standa gjöfular bújarðir tómar og sumstaðar eru réttir án þess að ein einasta rolla sjáist á ferli - varla eru þeir að draga framliðnar rollur í dilka? Það er eithvað skrítið við þessa niðurstöðu skoðanakönnunarinnar - nema náttúrlega að þessi 6% ráði öllu - séu þeir sem telja okkur fyrir bestu að lítill sem enginn búskapur sé í landinu - kannski eru það þeir sem frekar leggja uppúr lágu verði á innfluttum matvælum - ekki veit ég?
Og til að gera dæmið ennþá undarlegra þá er meira en helmingur þjóðarinnar tilbúinn til að greiða meira fyrir íslenska landbúnaðarframleiðslu en innflutta! Tja, nú er maður allveg að missa þráðinn. Og flestir segja gæði íslensku landbúnaðarvaranna miklu meiri en þessara svokölluðu útlendu landbúnaðarvara - og að það sé bændunum alls ekkert að kenna að verðið sé eins hátt og raun ber vitni.
Er ekki bara málið að opna landið fyrir óheftum innfluttningi á landbúnaðarvörum? það hlýtur að vera niðurstaða þessarar könnunar sem Bændasamtökin létu gera að innfluttningurinn muni hvort eð er detta upp fyrir - deyja. Einfaldlega vegna þess að yfir 90% landsmanna vilja hafa íslenskan landbúnað - yfir 60% landsmanna séu tilbúnir að greiða meira fyrir íslenskar landbúnaðarvörur sem eru svo miklu betri en þessar útlensku - varla ljúga yfir 80% þjóðarinnar sem segja að þær íslensku séu af meiri gæðum en þær útlendu. Spurningin sem vaknar hjá mér er sú hve stór hluti þeirra sem spurðir voru hafa yfir höfuð komið út fyrir landsteinana? Og hvort valið hafi verið af handahófi af skráðum félögum í Framsóknarflokknum. Tja, maður spyr sig!
Ég bjó í mörg ár í útlöndum og borðaði þarf af leiðandi útlendan mat - nema náttúrlega séríslensku framleiðsluna: kæsta skötu og Vestfirskan hákarl. En ég fann aldrei neinn mun á matnum þar en hér - ég er í það minnsta ennþá lifandi. Mjólkin var góð, kjötmetið ágætt og osturinn ljómandi. Og allt kostaði þetta svo miklu minna en hér heima. Af hverju þurfum við á íslandi signt og heilagt að láta segja okkur að vegna íslenskrar sérstöðu og íslenskra gæða þá þurfi hitt og þetta að kosta svo og svo mikið meira - af hverju segjum við ekki bara hingað og ekki lengra. Það hlýtur öllum að vera ljóst að t.d. kjúklingarækt getur varla gengið á Íslandi - flytja korn til landsins til að ala kjúkling - sem síðan er svo margfalt dýrari en í útlöndum. Hvers vegna að stunda svínarækt þegar svínakjöt er eitt ódýrasta kjöt sem fáanlegt er t.d. í Svíþjóð og Danmörku og hægt væri að flytja það til landsins margfalt ódýrara - burt séð frá því að við Íslendinga stöndum langt að baki frændum vorum Dönum og Svíum í að hantera svín? Og nautgriparæktin - Argentína er jú þekkt fyrir hágæða nautakjöt og ekki er nokkur tuddi þar smitaður af nautariðunni stórhættulegu - bara til að nefna nokkur dæmi.
Ég segi: eflum séríslenska framleiðslu - t.d. framleiðslu á íslensku lambakjöti og mjólkvörum. Íslenska mjólkin hefur eiginleika sem eru eftirsóknarverðir út frá heilsufarslegu sjónarmiði - það hafa íslenskar rannsóknir t.d. Dr. Bryndísar Evu Birgisdóttur og Dr. Braga Líndal Ólafssonar sýnt.
þetta er í það minnsta mín skoðun.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 2. mars 2007
1500 manns missa vinnuna í Reykjavík!
Já svona myndi væntanlega fyrirsögnin vera á forsíðu dagblaðanna á höfuðborgarsvæðinu ef Vestfjarðaástandið tæki sig upp þar! Það misstu nefninlega 35 fjölskyldur fyrirvinnu á Ísafirði í liðinni viku. Og hlutfallið væri líklegast um 1500 manns ef þetta væri fyrir sunnan - á Reykjavíkursvæðinu þar sem allt var vitlaust út af klámi sem þó aldrei var og trjám sem hurfu úr Heiðmörk.
Og stærsta ákvörðunin var tekin fyrir sunnan. Það er svo óhagkvæmt að vera með rekstur fyrir Vestan. Þó að reksturinn skili hagnaði. Það er bara ekki nægur hagnaður - líklegast af því að hann er ekki talinn í milljörðum líkt og hjá þeim stóru fyrir sunnan.
En hjá okkur fyrir Vestan voru góðir gestir - vísindamenn frá Stirling háskólanum í Skotlandi - einum af þessum stóru og frægu. Vísindamenn sem sækjast eftir því að vinna með okkur að rannsóknum í þorskeldi. Af hverju? Ekki af því að við eigum svo mikið af peningum, nei - af því að við erum að gera góða hluti, af því að við erum með gott starfsfólk og af því að við höfum framtíðarsýn og áherslur sem eru eftirsóknarverðar. Og hverjir koma að þessum rannsóknum - jú vísindamenn hjá Matís og Vestfirskir fiskeldismenn ásamt fleirum góðum innlendum aðilum.
En við viljum fleira - við viljum meira og við getum meira - svo miklu meira. EN, því miður er það svo að það er bara svo erfitt að berjast og vinna sigra ef sú þróun sem nú virðist vera í gangi er ekki stöðvuð og aðgerðir settar í gang til að efla frekar en hefta. Við þurfum nefninlega sterkt samfélag til að hið jákvæða og öfluga geti þrifist - því af nógu er að taka - það sem er tekið þarf bara að lenda á réttum stað - til uppbyggingar á landsbyggðinni frekar en í endalausum mokstir undir fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu sem ekki þurfa á því að halda.
Það er mín skoðun.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)