Íslenskar beljur fyrir kröfuharða íslendinga.

TolliÞegar ég var að alast upp heimsótti ég fjöldann allan af sveitabæjum með föður mínum sem var hérðasdýralæknir í Eyjafirði. Á þeim tíma skiptu bæirnir tugum í Eyjafjarðarsveit og pabbi sagði mér að þetta væri líklegast besta landbúnaðarhérað landsins. Þar voru kúabúin stór og fjárbúin líka. Það var ævintýri líkast að aka um í fallegri sveit á fallegu sumarkveldi - kýrnar á beit í haga og hrossastóð á bökkum Eyjafjarðarár. Sannkölluð sveitarómantík sem líður manni ekki úr minni.

En þegar farið er um fallegar sveitir Eyjafjarðar í dag þá verður manni ljóst að eithvað mikið hefur breyst - sveitabæirnir standa að vísu margir en útihúsin eru víðast tóm. Endurnýjun í stéttinni er nánast engin - meira að segja KEA sagði upp forstjóranum að mér er sagt vegna þess að hann var farinn að fjárfesta of mikið í bújörðum - og er að ég held bóndi í dag - er mér sagt.

En hvað er að gerast með íslensku þjóðina. Á sama tíma og 94% landsmanna vilja að hér sé landbúnaður standa gjöfular bújarðir tómar og sumstaðar eru réttir án þess að ein einasta rolla sjáist á ferli - varla eru þeir að draga framliðnar rollur í dilka? Það er eithvað skrítið við þessa niðurstöðu skoðanakönnunarinnar - nema náttúrlega að þessi 6% ráði öllu - séu þeir sem telja okkur fyrir bestu að lítill sem enginn búskapur sé í landinu - kannski eru það þeir sem frekar leggja uppúr lágu verði á innfluttum matvælum - ekki veit ég? 

Og til að gera dæmið ennþá undarlegra þá er meira en helmingur þjóðarinnar tilbúinn til að greiða meira fyrir íslenska landbúnaðarframleiðslu en innflutta! Tja, nú er maður allveg að missa þráðinn. Og flestir segja gæði íslensku landbúnaðarvaranna miklu meiri en þessara svokölluðu útlendu landbúnaðarvara - og að það sé bændunum alls ekkert að kenna að verðið sé eins hátt og raun ber vitni.

Er ekki bara málið að opna landið fyrir óheftum innfluttningi á landbúnaðarvörum? það hlýtur að vera niðurstaða þessarar könnunar sem Bændasamtökin létu gera að innfluttningurinn muni hvort eð er detta upp fyrir - deyja. Einfaldlega vegna þess að yfir 90% landsmanna vilja hafa íslenskan landbúnað - yfir 60% landsmanna séu tilbúnir að greiða meira fyrir íslenskar landbúnaðarvörur sem eru svo miklu betri en þessar útlensku - varla ljúga yfir 80% þjóðarinnar sem segja að þær íslensku séu af meiri gæðum en þær útlendu. Spurningin sem vaknar hjá mér er sú hve stór hluti þeirra sem spurðir voru hafa yfir höfuð komið út fyrir landsteinana? Og hvort valið hafi verið af handahófi af skráðum félögum í Framsóknarflokknum. Tja, maður spyr sig! 

Ég bjó í mörg ár í útlöndum og borðaði þarf af leiðandi útlendan mat - nema náttúrlega séríslensku framleiðsluna: kæsta skötu og Vestfirskan hákarl. En ég fann aldrei neinn mun á matnum þar en hér - ég er í það minnsta ennþá lifandi. Mjólkin var góð, kjötmetið ágætt og osturinn ljómandi. Og allt kostaði þetta svo miklu minna en hér heima. Af hverju þurfum við á íslandi signt og heilagt að láta segja okkur að vegna íslenskrar sérstöðu og íslenskra gæða þá þurfi hitt og þetta að kosta svo og svo mikið meira - af hverju segjum við ekki bara hingað og ekki lengra. Það hlýtur öllum að vera ljóst að t.d. kjúklingarækt getur varla gengið á Íslandi - flytja korn til landsins til að ala kjúkling - sem síðan er svo margfalt dýrari en í útlöndum. Hvers vegna að stunda svínarækt þegar svínakjöt er eitt ódýrasta kjöt sem fáanlegt er t.d. í Svíþjóð og Danmörku og hægt væri að flytja það til landsins margfalt ódýrara - burt séð frá því að við Íslendinga stöndum langt að baki frændum vorum Dönum og Svíum í að hantera svín? Og nautgriparæktin  - Argentína er jú þekkt fyrir hágæða nautakjöt og ekki er nokkur tuddi þar smitaður af nautariðunni stórhættulegu - bara til að nefna nokkur dæmi.

Ég segi: eflum séríslenska framleiðslu - t.d. framleiðslu á íslensku lambakjöti og mjólkvörum. Íslenska mjólkin hefur eiginleika sem eru eftirsóknarverðir út frá heilsufarslegu sjónarmiði - það hafa íslenskar rannsóknir t.d. Dr. Bryndísar Evu Birgisdóttur og Dr. Braga Líndal Ólafssonar sýnt.

þetta er í það minnsta mín skoðun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Mæltu manna heilastur Tolli.

En mér finnst það mætti líka efla sérframleiðslu ákveðinna landbúnaðarsvæða, jafnvel einstakra bæja á Íslandi. Það væri ekki amalegt að geta keypt heimareykt Hólsfjallahangikjöt eða nýtt Strandalamb til dæmis? Maður veit aldrei hvaðan kjötið er sem fæst hér.  Ég held það væri til stórra bóta fyrir bæði bændur og neytendur ef unnt væri að efla sérstöðu ákveðinna landbúnaðarsvæða sem státa af tilteknum bragðgæðum vegna þess að gróður er kjarngóður og loftslag gott. Líkt og gerist víðast hvar erlendis, t.d. hjá vínbændum.

  Þetta er nú bara smá-hugleiðing. Skemmtileg síða hjá þér!

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 5.3.2007 kl. 15:50

2 identicon

Kveðjur af Suðurnesjum

kikka og Le Grand L (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 11:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband