Vestfjarðableikjan og Vestfirðingar af áður óþekktri arfgerð.

Það hefur vakið nokkra athygli hér vestra að sjóbleikjan sem veiðist hér á svæðinu er af áður óþekktri arfgerð. Arfgerð sem ekki hefur sést áður. Merkilegar niðurstöður og áhugavert að skoða frekar. En maður spyr sig, skyldu Vestfirðingar á sama hátt teljast óskyldir öðrum Íslendingum - og þeim algjörlega óviðkomandi. Í það minnsta er ljóst að áhugi ráðamanna er ekkert sérstaklega mikill.

Og svo til að kóróna þetta allt þá er alltaf verið að ræða við einhvern sérfræðing við háskólann á Akureyri sem segir spekingslega með Eyjafjörðinn í baksýn:"líklegast er það ekki rétt að styrkja þau sveitarfélög sem mest þurfa á því að halda". Já, hann er magnaður þessi sérfræðingur - sá með Eyjafjörðinn í bakgrunn. Fróðlegt væri að vita hvað hann segir um bleikjuna hér Vestra - líklega mun mikilvægara að skoða þau kvikindi sem synda um í Eyjafjarðaránni.

Ég spyr mig - hvaða tilgangi á það að þjóna að ræða á þennan hátt við sérfræðinginn? Er ekki deginum ljósara að eitthvað þarf að gera. Hvort sem sérfræðingurinn kennir eitthvað annað í kennslustofum háskólans á Akureyri - og ræðir í sjónvarpsviðtali við gamlan skólabróður sinn úr MA - ég bara spyr?!

Svo er alveg með ólíkindum að bera aðstæður fyrir Vestan saman við aðstæður í nágrannalöndum okkar - Af hverju spyr einhver? Jú - hér er nánast ekkert vegasamband á meðan t.d. Færeyjar eru að hruni komnar vegna fjölda jarðganga. 

Ég tek dæmi: Í morgun talaði ég við lækni sem staddur var á Patreksfirði. Og læknirinn sem þurfti að komast frá Ísafirði til Patreksfjarðar í gær fór hluta leiðarinna á vélsleða, hluta á bát og hluta akandi. OG TAKIÐ NÚ EFTIR: HÉR FYRIR VESTAN ER LÍKA ÁRIÐ 2007, ég er ekki að tala um héraðslækni í byrjun síðust aldar.

Já, líklegast er það bara frekja og óþarfa lúxus að biðja um akveg sem opinn er árið um kring. Mun mikilægara er að byggja tónleikahús á hafnarbakkanum í Reykjavík - einhvers staðar verður fína fólkið að hittast og ræða vandamál landsbyggðarinnar.

það er mín skoðun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég var að lesa bloggið þitt um Ísafjarðarfundinn. Ég er sömu skoðunar um byggðavanda Vestfirðinga og ég hef alltaf verið frá fyrstu dögum kvótakerfisins. Ég tel að þið hafið við enga að sakast nema ykkur sjálf og ég veit að þetta eru hörð orð. Ég er sjötugur og landsbyggðarmaður þar til ég fluttist suður, en síðan eru 12 ár. Ég ólst upp á sjávarbakkanum í svo afskekktri sveit að mestan hluta ársins kom nánast enginn á minn bæ utan pósturinn á hálfsmánaðar fresti. Ég hef stundað rauðmagaveiðar til matar fyrir fjölskyldu mína. Stundaði eggjatöku og fuglveiðar á snörufleka og ég kann að snúa hrosshárssnörur. Ég hef stundað allar fiskveiðar í atvinnuskyni og jafnframt verið matsmaður á ferskan fisk um áraraðir sem ríkisstarfsmaður. Ég hef rekið fiskverkun og sinnt eigin útflutningi á fiski. Ég þekki allt þetta dæmi af eigin reynslu.

Byggðir Vestfjarða eru helgaðar sjálfsþurftarvinnu í formi sjávargagns auk búfjárræktar til eigin nota að mestu. Harðbýlar sveitir og jafnframt harðduglegt fólk byggði þessi sveitarfélög og Vestfirðingar voru harðir á brúnina eins og aldan sem rís áður en hún brotnar. Ísfirðingar drógu sýslumann sinn út úr húsi á næturþeli og hýddu hann. Framkoma stjórnvalda við afskekktar sjávarbyggðir í formi löglegs kvótaframsals hafa verið kaghýðing í yfirfærðri merkingu. Hvergi eiga frambjóðendur Íhalds og Framsóknar tryggari stuðnings að vænta. Og menn telja sér til manngildis að þekkja kvalara sína persónulega og opna frá þeim jólakortin með helgisvip á andlitum.

Það er lágmark að rísa upp og andmæla þegar einhver hefur í frammi tilburði í niðurlægingarátt. Enginn-og ég segi aftur enginn tæki við umboði mínu sem sýndi af sér jafn forhertan ásetning til niðurlægingar eins og þingmenn núverandi stjórnarflokka hafa sýnt ykkur Vestfirðingum. En eins og vel tamdir þjónar segja ævinlega: Iss, hinir eru ekkert betri.

Munið það nú að láta ekki véla ykkur til að bregðast þessum vinum ykkar sem hefðu vissulega getað stolið af ykkur meira en þeir gerðu.

Árni Gunnarsson (IP-tala skráð) 17.3.2007 kl. 20:32

2 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Sammála síðasta ræðumanni. Við eigum að sýna ríkistjórninni í tvo heimana og kol fella í kosningunum í vor.

Níels A. Ársælsson., 17.3.2007 kl. 21:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband