Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

"Ófreskja íhaldsins" - Göran Persson kominn út úr skápnum.

Ég fékk mjög skemmtilega skrifaðan texta í morgun - texta sem var í eigu gamals manns á Ísafirði og er síðan á fyrri hluta 20. aldar. Ég ætla að deila honum með ykkur til að undirstrika hvað lítið hefur nú breyst í málflutningi vinstri manna. Höfundur textans er mér ókunnur enda skiptir það svo sem ekki neinu máli - pólitísk skoðun hans er ljós af lestri þessa skemmtilega texta

"Ég skal gefa þér gull og græna skóga, ef þú vilt lyfta mér í gullstólinn, segir íhaldið. Það hefur aldrei heyrst að sá flokkur hafi gert sér ómak útaf kosningaloforðum, það hefur aldrei heyrst, að hann hafi beytt sér fyrir bættum kjörum almennings. Það virðist vera vatn á hans myllu að viðhalda skipulagsleysi og glundroða, svo að einn geti troðið annan niður. Þar er þó ein regla ríkjandi og henni dyggilega fylgt, hú er að styrkja þann sterka, en gera þann veika veikari. Íslenzka alþýða hefu ýtt ófreskju íhaldsins örlítið til hliðar, en hefur ekki enn tekist að reka hana af höndum sér. Ófreskja þessi býður í ofvæni með loðna loppu afturhaldsins eftir tækifæri til þess að kyrkja réttinda og umbótamál alþýðunnar. Sósíalistar hafa verið og eru ofsóttir af auðvaldinu, það hefur verið ofin um þá og stefnu þeirra, lyga og blekkingarvefur. Margir sjá í gegnum þennan vef, en þó altof fáir enn sem komið er. Eina leiðin til að sigrast á þessum ofsóknum og hleypidómum, er að halda uppi fræðslustarfsemi um stefnu sósiallista. Við höfum enga þörf fyrir trúðleikara til þess að þyrla upp moldryki, svo að stefnumálin finnist ekki í myrkviðinu, þá látum við þeim einum eftir sem þörf hafa á slíkum loddaraleik".

Já - skemmtilegur texti.

Ég las ennfremur í morgun um að Göran Persson - fyrrum forsætisráðherra Svíþjóðar og Sósíaldemokrati - Samfylkingarmaður - hefur selt sig auðvaldinu - selt sig hæstbjóðanda en hann er búinn að ráða sig sem ráðgjafi og ætlar að græða vel - skítlykt af málinu segja félagar hans hjá Samfylkingunni - já þegar stigið er af sviðinu og tjaldið fellur - þá tekur raunveruleikinn við - það má öllum vera ljóst!


Bjórinn bjargar byggðum landsins - stoppistöðvar pólítíkusanna.

Afi minn og alnafni þótti aldrei sérstaklega góður bílstjóri - ók um á ljósbláum skóda með hatt á höfði. Mér datt í hug ferðirnar með afa og ömmu til Dalvíkur á sunnudögum þegar ég sá að Steingrímur J var að nefna bjórverksmiðjuna á Árskógsströnd sem dæmi um nýsköpun - sem hún er auðvitað er - og sem í dag er víst fastur viðkomustaður pólítíkusanna - enda bruggtækin falleg og lyktin góð - og ekki skemmir ískaldur Kaldi á erilsömum kosningaferðalögum.

Málið var að afi var ákaflega vanafastur maður - hann fór til að mynda alltaf til Dalvíkur - út á Hól við Dalvík - á hverjum sunnudegi - í það minnsta á sumrin - en þaðan var hann ættaður og honum bar heilög skylda til að heimsækja frændfólkið sitt sem þar bjó - drekka með þeim kaffi og skoða slægjuna. Og við amma fórum með. Sá gamli var pinnstífur undir stýri - og við amma máttum ekki segja orð - áttum að sitja grafkyrr og steinþegjandi til að trufla ekki gamla við aksturinn - og guð hjálpi okkur ef við gerðumst svo djörf að snerta á stjórntækjunum - svo sem að stilla miðstöðina - þá fékk maður gúmorren.

En það var einmitt eftir eina af þessum sunnudagsferðum sem amma gamla spurði son sinn hann pabba "segggðu mér Ágúst, er allveg sama hvar á veginum ekið er?" - ha, hváir pabbi?? "jú bílarnir skjótast fram úr okkur - ýmist hægra megin eða vinstra megin - og ég má ekki spyrja hann Þolleif minn" sagði þá sú gamla. En afi hafði nú bara þann háttinn á að aka sem næst miðju vegarins - aldrei í hærri gír en öðrum og blásvartur strókurinn stóð aftan úr skodanum þegar hann brunaði eftir þjóðveginum út Eyjafjörðinn - honum kom ekkert við hvernig aðrir óku - hann hugsaði bara um sig - með silfurlitað merki fest í grillið á bílnum og sem á stóð 25 ára öruggur akstur.

Og nú er það víst svo að pólítíkusarnir hundsa fyrirtækin á Akureyri og bruna sem leið liggur í bjórverksmiðjuna á Árskógsströndinni - og svo getur maður bara giskað á aksturslagið á bakaleiðinni.


Góð byrjun á slæmri martröð - sjö ára standpína.

Mér stóð ekki á sama þegar ég las frétt í einu af sænsku vefblöðunum http://www.expressen.se/halsa/halsoarkivet/1.668502 - en þar kemur fram að Carter nokkur er búinn að þjást af bölvuðum óþægindum síðastliðin sjö ár - honum reis hold og svo virðist sem það sé upprisið - hann nær'onum nefnilega ekki niður. Kaldir bakstrar og ísböð duga skammt - honum stendur á sama - harður á sínu. En auðvitað er þetta ekkert grín - og auðvitað stöndum við með karl greyinu - harkan sex - ekkert þýðir að gefast upp - þó hann langi að slá slöku við.

Jebb - steratröll, þetta er ábending til ykkar - hættið í pillunum ef þið ætlið ekki að "standa" í svona veseni.

 


Stærðin skiptir máli - svindl og svínarí segir rödd sannleika og réttlætis á sunnanverðum Vestfjörðum.

Mikið var fundað í síðustu viku á Ísafirði - saman voru komnir karlar og konur sem áttu það sammerkt að hafa áhuga á þorski. Þetta voru gestir frá ýmsum löndum  - Skotlandi - Hjaltlandseyjum - Noregi og Svíþjóð. Já og Akureyri.

Og auðvitað skartaði Vestfirsk náttúra sínu fegursta - norðan kaldi - kvöldsól og fuglalíf. Og niðurstöðurnar eru góðar og lofa góðu. En auðvitað eru þeir sem alltaf blanda kvótamálum inn í þetta - líkt og vísindanefndin sem gaf þessu verkefni háa einkun og ákvað að styrkja það um 1 milljón evrur hafi áhuga á kvótaumræðu á Íslandi - nei, vísindin eru langt yfir það þras hafin. Þorskurinn vex óháð því hvort kvótinn er eða ekki - bara ef hann fær kjöraðstæður - og það er einmitt það sem við erum að gera - skapa aðstæður sem fá fiskinn til að vaxa vel - nýta fóðrið vel og enda svo sem hágæða var á diskum neytenda. Ekkert meira um það að segja. En auðvitað finnst mér hundleiðinlegt að Vestfirðingar skuli nota tækifærið og ata þessar rannsóknir auri - segja að um svindl og þaðan að verra sé að ræða (http://nilli.blog.is/blog/nilli/). Mér persónulega er sama - ég birti mínar niðurstöður í ritrýndum tímaritum - sem eru ritrýnd af til þess hæfum einstaklingum - ekki bloggurum á Suðurfjörðum Wink

Já - maður tekur pusið í hnakkann - hér eru engin tæknilega mistök - allt gengur eins og í sögu - enda gamlir og margreyndir menn sem sjá um kvíarnar fyrir okkur - Barði og Beggi - Eiríkur og Halli - þeir fara létt með þetta - ekkert klúður þar. En að öllum öðrum ólöstuðum þá var það svo sannarlega gott fyrir þetta verkefni að fá Barða Ingibjarts í lið með okkur - sá kann til verka! Enda voru gestirnir frá útlöndum mjög impóneraðir af handbragði Barða og uppsetningu ljósabúnaðarins í sjókvíunum. Já gott fólk skiptir máli - og stærðin skiptir máli - þrátt fyrir mótbárur sunnan frá Tálknafirði. Stærðin skiptir máli Cool

 


50 tommu flatlús á búðarkalli í hversdagsfötum - með 10% fluttningskostnaði og 25% verndartollum.

Ég hef rætt í nokkrum pistlum um ótrúlegan verðmun á flatskjám á Íslandi og í Svíþjóð - og hef fengið viðbrögð. Nú má ekki misskilja að ég hafi verið að setja ofan í við "búðarkallinn í hversdagsfötunum" - neinei. Ég er bara að tala almennt um þennan mun. Og í dag - þá var ég einmitt stoppaður af búðarkallinum margfræga í hversdagsfötunum og vildi hann ræða flatskjá við mig. Mér leist ekkert sérstaklega vel á það því mér heyrðist hann segja flatlús - og fannst það enganveginn við hæfi niðrí miðbæ Ísafjarðar - og auðvitað ekki þar sem ég var með konunni. En hann gaf sig ekki og þegar hann nefndi stærðina - 50 tommur þá leið næstum yfir mig. Ég sá fyrir mér skrímslið sem aumingjans maðurinn væri með í brókunum - sá stutti væri líklegast skorpinn eftir blóðsjúgandi 50 tommu kvikindi - úfff.

Hann horfði á mig -starði - og skildi ekkert hvað væri eiginlega að viðmælandanum - náfölum og ræfilslegum. Svo sló hann létt á öxl mér og sagði - "37 tommur er líklegast besta stærðin fyrir þig - þetta er svo lítið hjá þér" - hvurn andskotann er maðurinn að segja hugsaði ég. Konan tók ekki eftir neinu og fannst þetta bara hið eðlilegasta mál - eðlilegt samtal tveggja kalla niðrí bæ. Ég skildi hvorki upp né niður - förum heim sagði ég hastarlega við konuna - ég hef ekkert hér að gera. Á leiðinni heim rann upp fyrir mér ljós - flatlúsin var flatskjárinn margumræddi. Þessi sem kostar svo mikið á Íslandi og lítið í Svíþjóð - og auðvitað þarf ég ekkert stærri en 37 tommur - plássið er svo lítið hjá mér - í 120 ára gömlu húsinu.

Já seisei - svona getur þetta verið. En niðurstaða þessa var að vondikallinn er ríkið - íslenska ríkið. Sem á stundum mætti halda að lifði sjálfstæðu lífi - enginn réði við skepnuna og hún gengi sjálfala um - nartandi af öllum - og þeir einu sem sleppa eru þeir sem koma sínu til útlanda þar sem ríkið nær ekki þá. Já ríkið - hvaða skepna er þetta eiginlega - sem hugsar svo ílla um afkvæmin að stór hluti virðist vart hafa í sig eða á - treður á þeim sem minni og selur sig hæstbjóðanda á götuhorni náttúrunnar - fáðu þér hluta af mér - kostar bara nokkrar krónur.

Nei - þetta þarf að endurskoða - afnema þessa tolla á vörum sem ekki eru framleiddar á Íslandi - leyfa okkur borgurunum að njóta afgangsins frekar en að eyða honum í utanlandsferðir uppgjafaþingmanna og samráðsmönnum þeirra.

Það er löngu hætt að fraleiða Rafha eldavélar á Íslandi - takið eftir því. BURT MEÐ AÐFLUTTNINGSGJÖLD OG VERNDARTOLLA.

Það er mín skoðun.


Bláa lónið - Vigur - Ósvör - Vel heppnaður ársfundur í Codlight-tech verkefninu.

Það var ekki laust við að ég sofnaði þreyttur í gærkveldi - ánægður en samt ósáttur.

Við í evrópska rannsóknaverkefninu codlight-tech (linkur hér til hliðar) kláruðum fyrsta rannsóknarárið með fundi á Íslandi. Það var þoka og kalsi sem tók á móti erlendu vísindamönnunum á Keflavík - en flestir voru þeir að koma úr ágætis hlýindum Skotlands, Hjaltlandseyja, Noregs og Svíþjóðar. En svona er Ísland í dag og ekkert við því að gera. Við það búið var stokkið upp í stóran og breyttan Econaline og brunað í bláa lónið. Og það hrein ánægja af því að geta farið með útlendinga í eins vel heppnaða afþreyingu og Bláa Lónið er - snyrtilegt og skemmtilega hannað.

Eftir gott stopp í Bláa Lóninu var haldið til Reykjavíkur - þar sem við fengum okkur að borða á Vegamótum - en einn úr hópnum hafði fengið skilaboð frá kollega í USA um að þar væri íslenskt augnkonfekt eins og hann orðaði það. Að sjálfsögðu voru skotarnir með tölfræðina á hreinu end er Ísland auglýst á Bretlandseyjum svo að þar sé hlutfall kvenna 3 gegn einum - ekki slæmum kostur að fara þangað í frí - og greinilegt að íslenski ferðaiðnaðurinn "kann að auglýsa Ísland" ...hmmm

Morguninn eftir héldum við Vestur -og fundir byrjuðu. Ekki ætla ég nú að eyða púðri í að útskýra niðurstöður en þær eru í stuttu máli mjög góðar - og því verður spennandi að byrja næsta rannsóknarár með það að markmiði að stytta eldistíma þorsks til muna - með tilheyrandi hagræðingu og auknum vaxtar möguleikum í greininni. Jákvætt það.

En það sem skiptir svo miklu máli þegar dagarnir fara í fundasetur - frá morgni til kvölds - er að hafa upp á eithvað að bjóða fyrir gesti sem eru komnir langt að. Og hér fyrir Vestan höfum við svo miklu meira en Perlu og pöbba - við höfum Vigur og Ósvör! En á miðvikudaginn fór hópurinn með Barða á Fengsæl -elsta trébát á Íslandi sem ennþá er í notkun - siglandi inn í Vigur - þar sem okkar beið dýrindis veisla - ekki bar í mat og drykk - heldur náttúrperla sem ábúendur hafa svo sannarlega haldið vel til - gestirnir voru dolfallnir yfir fegurð lands og eyju - nokkuð sem enginn má láta framhjá sér fara - ÉG BANNA ÞAÐ!

Og siglingin heim - út djúpið - allveg stórkostleg í sólarlaginu - magnað og teistan og lundinn í vorskapi. Ógleymanleg ferð með öllu.

Svona enduðum við fyrri fundardag - en í lok síðari fundardags skelltum við okkur í heimsókn í frystihús HG í Hnífsdal - þar sem erlendu gestirnir fengu að sjá vinnslu aflans í landi. Að heimsókn lokinni var keyrt sem leið lá út Óslhlíð - og það var ekki laust við að það færi um fólk þegar það sá stórgrýti og björg í vegakanntinum - fólk sem kemur úr landi þar sem skilningur er á mikilvægi þess að gera jarðgöng. Eftir þá áhugaverðu ökuferð var endað í Ósvör.

Ósvör er perla -  ekki bara í sögulegum skilningi heldur hefur Finnboga - Arngrími og fleirum tekist að byggja upp skemmtilegt safn - í anda gamalla tíma. Finnbogi vinur minn fór á kostum - enda klæddur í skinnsjógalla þess tíma - og runnu sögur af vörum. Heimsóknin var ógleymanleg. það er skylda þeirra er að Ósvör standa að hafa þar áfram menn sem kunna að taka á móti fólki og segja frá liðnum tímum - menn eins og Finnboga og Arngrím.

Þetta var semsagt vel heppnaður fundur að öllu leyti.

En því miður fyrir rannsóknaumhverfið hér á svæðinu þá tók stjórn AVS rannsóknasjóðs þá ákvörðun að veita Náttúrustofu Vestfjarða ekki rannsóknastyrk til að umhverfisrannsókna - rannsókna sem myndu leiða til betri þekkingar á umhverfisáhrifum sjókvíaeldis - efla samstarf um rannsóknir - bæði innanlands og utan. Mjög skrítið í ljósi gæða verkefnisins og þess að að því standa helstu vísindamenn á sviðinu. OG LÍKA Í LJÓSI ÞESS AÐ RANNSÓKNIN FÆRI FRAM HÉR FYRIR VESTAN - ÞAR SEM UPPBYGGINGAR ER ÞÖRF -  UNDIR STJÓRN DR. ÞORLEIFS EIRÍKSSONAR HJÁ NÁTTÚRUSTOFU VESTFJARÐA. SEMSAGT ENGIR PENINAR FRÁ AVS Í UMHVERFISRANNSÓKNIR - ENGIR PENINGAR TIL BOLUNGARVÍKUR. SLÆMT MÁL FYRIR VÍSINDIN - SLÆMT MÁL FYRIR UMHVERFIÐ - SLÆMT MÁL FYRIR ÞORSKELDISIÐNAÐINN Í HEILD SINNI.Frown

 


Á Vestfjörðum eru björgin fuglarnir og firðirnir - Á Vestfjörðum á Náttúrufræðistofnun með sín sýnasöfn heima.

Í Bolungarvík er nóg pláss - þar starfar Náttúrustofa Vestfjarða undir stjórn Dr. Þorleifs Eiríkssonar. Á vestfjörðum eru stærstu fuglabjörg landsis. Á Vestfjörðum eru Hornstrandir með refina og rekann. Á Vestfjörðum er sjóbleikjan einstök. Á Vestfjörðum er nóg húsnæði og skortur á störfum. Á Vestfjörðum er náttúran við útidyrnar. Á Vestfjörðum er engin stóriðja. Á Vestfjörðum standa frystarnir tómir í auðum rækjuvinnslum.

ÞARF AÐ HAFA FLEIRI ORÐ UM MÁLIÐ? 


mbl.is Auglýst eftir húsnæði fyrir Náttúrufræðistofnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gengur samkynhneigð í erfðir - hver var niðurstaða Kára í díkód?

Vinkona mín hún Ólína skrifa mjög áhugaverðan pistil í dag og fjallar þar m.a. um stöðu samkynhneigðra og upphlaup í kjölfar prestastefnu á Húsavík. 

Eitt sinn var læknir spurður að því hvort samkynhneigð gengi í erfðir - læknirinn svaraði um hæl: "ekki ef samkynhneigðin er stunduð eingöngu".

Það væri því áhugavert að vita hvað kom út úr rannsóknum þeirra díkód manna - svona eins og þegar átti að leita að alkahólisma geninu - mig minnir endilega að það hafi átt að vera eitt af genunum sem Kári ætlaði að finna. Spurningin vaknar hvort að hann hafi verið í samstarfi við Gunnar í Krossinum og ef barn fæddist með 66 basa "galla" á 6. litning þá væri Gunnar mættur um hæl  með reistan kross - 666...

Samkynhneigð er vel þekkt í dýraríkinu - ástæður eru óþekktar og líklega engar skiljanlegar líffræðilegar ástæður - en það er einmitt málið - er einhver ástæða til að leita að ástæðunum - er ekki bara málið að sætta sig við þetta og leyfa þeim er svo er ástatt um að vera - vera það sem þeir vilja - í sátt við samfélagið og samfélagið við þá - þar sem við erum jú öll hluti af sömu heildinni.

En auðvitað er þetta ekki létt ásigkomulag - að vera samkynhneigður og ég verð að viðurkenna að ég er feginn að "hafa ekki lent'íðí" - eða eins og móðir mín sagði: "mikið er ég feginn að hann Tolli minn gerði móður sinni það ekki að verða hommi".

En hvað veit ég - fólk er komandi út úr allskyns skápum á öllum aldri - bæði útskornum eikar og einföldum IKEA.

svo er nú það.


Trallalalla la..."Ég er á Vestur leiðinni....að vísu fastur á há heiðinni....."

Ég fór af einhverjum ástæðum að raula fyrir munni mér þennan lagstúf. Að vísu var  flugsjoppugrillið  í Hvalfirðinum - ekki fyrir Vestan eins og ætla mætti - kannski af því að það keyrir enginn heilvita maður vestur.

En hvað um það. Ég var í 60 ára afmæli um helgina hjá hálfsystur konu minnar - henni Olgu - í hátíðarsalnum í Valhöll - húsi Sjálfstæðismanna - hvað annað. Í veislunni hélt tengdamóðir mín ákaflega skemmtilega ræðu - ég meira að segja neyddist til að hæl'enni fyrir vikið - bara af því að hún átti það skilið - hefði kannski átt að nota tækifærið og setja út á framburð og ræðutækni...en nje. Tengdó var nefnilega dönskukennari minni í den - og allir muna hvernig dönskukennarinn var - ekki orð um það meir. Að vísu sækir alltaf á mig máltækið "þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur" - af því að Nanna dönskukennari er tengdmóðir mín í dag Crying - veit ekki hvort að hún les þetta.

En hvað um það - Í ræðunni segir hún skemmtilega frá því hvernig vegakerfið var á þjóðvegi 1 - fyrir ríflega 30 árum. Málið var nefnilega það að Olga fór eitt sinn keyrandi frá Reykjavík til Akureyrar - og hugðist heimsækja tengdó  - og í þeirri ferð sem farin var fyrir ríflega 30 árum lendir hún í hremmingum - hristist og skelfur í bílnum alla leiðina - ömurleg upplifun á hræðilegum vegum. Hún lofaði sér því að keyra aldrei aftur þessa leið - ALDREI.

En svo gerist það fyrir um 3 árum síðan að síminn hringir hjá tengdó á Akureyri - og á hinum enda línunnar er Reykjavíkur Olga - sem býður góðan dag og spyr hvort þær eigi nú ekki að fá sér kaffibolla. Tengdó segist gjarnan vilja fá sér bolla með'enni en líklegast verði nú kaffið orðið kalt þegar hún komi suður! "tja það er engin hætta á því" segir þá Olga - "ég er á Akureyri" - Nú? segir Tengdó og hváir. "Já segir Olga - ég kom keyrandi í gær" - Ha?! segir tengdó - keyrandi? "Já, veistu þetta er bara ekkert mál - þeir eru búnir að malbika alla leið - vissurðu það?" Segir þá Olga og hljómar eins og Hercule Pirot þegar hann afhjúpar kokkinn sem morðingjann.

Já, þeir eru voru búnir að malbika til Akureyrar - og luku því fyrir um 15 árum (fimmtán árum) síðan - (til að koma í veg fyrir kommentum frá verjendum vegaáætlunar þá kalla ég bundið slitlag malbik).

Og á því herrans ári 2007 er EKKI búið að malbika vestur - og við er þar búum erum í sömu sporum og Olga þegar hún fór keyrandi til Akureyrar fyrir 30 árum síðan - og raulum bara lagstúfinn "ég er á Vestur leiðinni - að vísu fastur á háheiðinni...."

AningarstadirOg til gamans vil ég geta þess að á heimasíðu vegagerðarinnar er að finna skemmtilegt kort - en þar má sjá kort með merktum áningarstöðum með græjum - m.a. klósetti (WC) þar sem hægt er að m.a. að hægja sér...já skíta. Og svoleiðis lúxus er bara ekkert að finna á leiðinni Vestur. En auðvitað þurfa Vestfirðingar ekkert á slíkum munaði að halda - þeir skíta bara heima hjá sér!

Já þeir ættu kannski að framleiða "Vestfirska stoma-poka" - hentugir í ferðalögin - fyrir vestan.


Tengdadóttir Framsóknar gerir allt vitlaust - sex þúsund missa vinnuna.

Ég fór suður í gær. Ekki get ég kannski sagt að ég hafi skroppið - svona eins og sagt er í Reykjavíkurelítunni um Lundúnar og Njújork heimsóknir. Nei við fjölskyldan keyrðum suður - í 7 tíma.

Vegirnir - eða eigum við að kalla þetta vegaslóða - enda eru Hestakleyfin og strandir nánast ófærar venjulegum fólksbifreiðum - voru hræðilegir. Drullan svakaleg og ef maður slysaðist til að opna gluggann þá fékk maður umsvifalaust drulluklessu í andlitið. Já maður skreppur ekkert suður - ekki að Vestan. Líklegast ekki að Austan heldur.

En á leiðinni hlustuðum við á útvarpið - svona þegar það náðist. Þar var ítrekað og á öllum stöðvum - því maður var alltaf að skipta - vegna slæmra skilyrða - verið að fjalla um unga tengdadóttur Umhverfisráðherra í ríkisstjórninni sem fékk ríkisborgararétt án þess að uppfyllan önnur skilyrði en að vera útlendingur.

Og þetta var sko allveg svakaleg frétt - miklu meiri frétt en að 48 manns hefðu misst vinnuna í Bolungarvík. Já það var bara svona forbí-frétt. Hitt er líka miklu mun merkilegra - af því að Framsókn er innblandað í málið - samsæri af verstu gerð. Framsóknarflokkurinn sem ekki vill sjá annað en íslenskar beljur og rollur er kominn með tengdadóttur - innflutta í þokkabót. Halló, hvað er að gerast  - á kannski að flytja inn norskar beljur í kjölfarið - opna markaðinn og setja bændurna á hausinn. Nei takk segi ég. Engan innfluttning hér - alla vega ekki nema með lögbundnum aðlögunartíma.

En í forbí-fréttinni þá missa 48 fjölskyldur fyrirvinnu - sem framreiknað í höfuðborgartölur er líklegast 6000 (sex þúsund) manns. Ein tengadóttir fær landvistarleyfi og allt verður vitlaust - en 6000 missa vinnuna er forbí-frétt. Já ég segi sex þúsund af því að Alþigi er fyrir sunnan og þingmenn skilja ekkert landsbyggðartölur - í það minnsta fæstir.

Nú þarf eitthvað að gerast - eitthvað strax. Grímur bæjarstjóri reddar þessu ekki með nýrri hljómsveit - "atvinnu-hrun í Hólshreppi" eða eitthvað álíka. Neibb - bæjarstjóra-umbinn þarf að gera meira en svo - og fá í lið með sér Vestfirsku þinghreyfinguna og allir verða að taka saman höndum.

það er mín skoðun.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband