Evrópusambandið - er það eitthvað ofan á brauð?

Ég sat opinn fund á Hótel Ísafirði í hádeginu í dag sem boðaður var af Evrópusamtökunum og Heimssýn  - um Evrópumálefni. Tveir karlar héldu hvor um sig stuttar ræður - annar með inngöngu í EB og hét sá Þorvaldur Gylfason og hinn karlinn, Ragnar Arnalds, var á móti aðild. Karlarnir voru gamlar kempur - annar eldri en hinn og bar það með sér í föðurlegum umhyggjusömum tón - hafði miklar áhyggjur af því ef unga fólkið í dag færi nú að finna upp á þeirri vitleysu að ganga í Evrópusambandið - hafði setið í nefndum og ráðum - þekkti til í Brussel og vissi að þetta væri nú ekkert fyrir landann - nei við ættum heimi í liði með Norðmönnum - af því að við værum svo miklar þorskveiðiþjóðir. Sá yngri var vígreifur og vitnaði í afa sinn sem barðist fyrir byggingu sjúkrahúss á Ísafirði - lék þann gamla snilldarvel þegar hann las bút úr 70 ára gamalli ræðu karlsins þar sem hann þrumaði yfir Ísfirðingum af svölum gamla sjúkrahússins. Það gustaði af Þorvaldi - talaði af djúpri sannfæringu um ágæti sambandsins í Evrópu - og taldi Íslendingum hollast að taka þátt - svona líkt og ungu fólki sem lifði í synd - ætti að gifta sig hið snarasta - enda væri það ekki það sama og að missa sjálfstæði sitt - nei maður fengi bara partner sem taka þyrfti tillit til.

En um hvað snýst þetta allt saman - hvað er það sem við Íslendingar erum hræddir við? Ég held að svarið sé ákaflega einfalt - óvissuna. Við Íslendingar erum nefnilega bara lítil eyþjóð með lítið hjarta sem slær taktfast í heimahaganum og þolir illa ytri áreiti - svo sem óþarfa stress um að stóru þjóðirnar ætli að taka af okkur allt sem við eigum. Þetta þjóðareinkenni kemur svo vel fram í íþróttunum - erum svo fáir en baráttuglaðir en af einhverjum ástæðum Þurfum við alltaf að vera minni máttar og eiga á brattann að sækja. Það erum við - Íslendingarnir - ÍSLENDINGURINN - fáir í raun en margra manna maki miðað "við höfðatölu".

Og af þessu er umræðan lituð - djarfir vilja sumir taka þátt í að móta stefnu Evrópusambandsins en sjálfskipaðir "besservissar" segja neineinei seiseinei - og rökin eru ævinlega "viljið þið  missa tögl og hagldir á Íslandi - bæði á landi og á miðum" - og maður spyr sig - hverjir eru þessir aðilar í raun - getur verið að hér sé um óþægilega hagsmuna árekstra að ræða - getur verið að það henti ákveðnum aðilum ekki að við tökum þátt í alvöru evrópsku samfélagi? tja ekki veit ég. En þetta þarf að koma fram í dagsljósið - nema að ástæðurnar séu "ljósfælnar". 

Og ég tel óráðlegt að bíða - við erum búin að bíða nógu lengi. Ástæðan er nefnilega sú að við vitum ekkert hvað við missum og eina leiðin til þess er að sækja um inngöngu í Evrópusambandið - líkt og meirihluti þjóðarinnar vill samkvæmt skoðanakönnunum - bæði hægrisinnaðir og miðjumenn. Auðvitað eru Vinstir menn á móti - enda er það þeirra hlutverk að vera á móti - þó þeir hafi auðvitað ekki hugmynd um hvað það er sem þeir eru hræddir við - það er bara eitthvað svo "á mótilegt" við Evrópusambandið.

En samt erum við alltaf tilbúin til að sækja pening og styrki til Brussel og staðreyndin er sú að Evrópusambandið heldur gangandi fjölda rannsóknaverkefna á Íslandi - sem síðan skilar sér í þekkingu og framþróun lands og þjóðar.

Ég verð því að segja að mér er sama hvar í flokki menn standa - aðild að Evrópusambandinu hlýtur að vera nokkuð sem við Íslendingar þurfum að skoða mjög fljótlega - og þær upplýsingar sem við þurfum á að halda fáum við ekki nema að sækja um aðild - hefja viðræður og umræður - kanna hverju við þurfum að fórna og um hvað við getum samið. Að öðrum kosti er valdið ekki hjá okkur - valdið að taka ákvörðun um hvað hentar og passar íslensku þjóðinni - við getum ekki bara staðið í stað og horft á úr fjarska - Ísland er hluti af Evrópu og okkur ber skylda til að láta til okkar taka í sambýli við aðrar þjóðir - það gerum við ekki með því að Halldór Ásgrímsson eða aðrir álíka setjist í "ráð og nefndir".

það er mín skoðun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Hmmm... það munu nú aðallega vera vinstrimenn sem vilja í ESB hér á landi skv. skoðanakönnunum. Mest andstaða við aðild er á meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins.

Hjörtur J. Guðmundsson, 21.4.2007 kl. 20:27

2 Smámynd: Þorleifur Ágústsson

VG hafnar aðild - og það eiga þeir sameiginlegt með yfirlýstri stefnu Sjálfstæðisflokksins -  en víst er að þeim fækkar í flokki xD sem ætla að halda upp baráttu Davíðs gegn aðild.

Þorleifur Ágústsson, 21.4.2007 kl. 20:39

3 Smámynd: Elías Theódórsson

Njótum þess að búa í sjálfstæðu og frjálsu landi. Þeir sem vilja búa í Evrópusambandinu er frjálst að flytja þangað. Hvar eigum við að búa sem vijum búa utan sambandsins en í Evrópu, ef Ísland & Noregur fara inn? (Ef annað fer inn mun hitt fara líka!)

Elías Theódórsson, 21.4.2007 kl. 22:42

4 Smámynd: Jón Atli Magnússon

Við ættum í það minnst að ræða þetta mál opinskátt og af fullri alvöru. Þegar formaður Sjálfstæðisflokksins kemur fram í fjölmiðla og segir það rugl og vitleysu að tala um inngöngu, þá er eitthvað að.

Jón Atli Magnússon, 21.4.2007 kl. 23:25

5 Smámynd: Skafti Elíasson

Já ég er sammála síðasta manni við eigum að skoða þetta en ekki sitja "heimskir" heima með leppana fyrir glirnunum

Skafti Elíasson, 22.4.2007 kl. 00:32

6 Smámynd: Jóhann H.

Aðildarviðræður strax, upplýsingar inn, umræður í nokkur ár.  Kosningar og fyrsti séns á inngöngu, ca 2012 -2015...

Jóhann H., 22.4.2007 kl. 02:24

7 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Við verðum að ræða þetta. Hjörtur þú mátt ekki vera svona andsnúinn aðild, þú veist að fyrr en siðar munum við fara inn og þa' er svo asnalegt að fara i fylu.

Tómas Þóroddsson, 22.4.2007 kl. 03:42

8 Smámynd: Lárus Vilhjálmsson

Íslendingar verða að fara taka í afstöðu í Evrópumálunum. Það er sérkennilegt að stærstu flokkarnir til vinstri og hægri eru eins og strútar sem stinga hausnum í sandinn þegar kemur að Evrópusambandinu og muldra alltaf að EES samningurinn sé nægjanlegur. Er það sæmandi fullvalda þjóð að sitja undir því að 80% af  lagsetningu í landinu sé ákveðið í Brussel án þess að hún hafi nokkuð um það að segja og að Norðmenn borgi fyrir okkur dvölina í EES. Nei, við eigum að nota næstu árin til að setja okkur samningsmarkmið í aðildarviðræðum og síðan að drífa í þeim.

Lárus Vilhjálmsson, 22.4.2007 kl. 10:48

9 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Þorleifur:
Hefurðu gert einhverja rannsókn á því að þeim sjálfstæðismönnum fækki sem vilji ekki í Evrópusambandið? Það var ekki að sjá t.d. á nýafstöðnum landsfundi flokksins sem ég sat. það er heldur ekki að sjá á skoðanakönnunum. Sú síðasta sem ég sá sýndi að um 70% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins vildu ekki aðild. Ég sé annars að þó þú talir um að skoða málin og þar fram eftir götunum þá hefurðu þegar gert upp hug þinn. Þú vilt ljóslega aðild, sbr. "... en víst er að þeim fækkar í flokki xD sem ætla að halda upp baráttu Davíðs gegn aðild." Þetta finnst þér greinilega ekki góð afstaða til málsins. Sem er að sjálfsögðu hið bezta mál en hvernig væri þá bara að vera hreinn og beinn með það?

Jón Atli:
Ég minnist þess ekki að formaður Sjálfstæðisflokksins hafi sagt að aðild að Evrópusambandinu væri rugl og bull. Hins vegar hefur hann vissulega sagt að aðild væri ekki málið, a.m.k. ekki í fyrirsjáanlegri framtíð, og varla neitt að því að flokkur hafi skýra stefnu í þessum málum. Ekki er stefnuleysið að hjálpa Samfylkingunni og sennilega ekki heldur daður flokksins við Evrópusambandsaðild, ekki frekar en framsóknarmönnum.

Tómas:
Jæja vinur. Ég bara sé ekki fram í framtíðina eins og heldur greinilega að þú getir - og reyndar ófáir Evrópusambandssinnar. Hæfileikaríkt fólk þarna á ferð ;)

Lárus:
Íslendingar verða sakaðir um afstöðuleysi í Evrópumálunum af þér og öðrum Evrópusambandssinnum á meðan við stöndum utan Evrópusambandsins. Það er nokkuð ljóst, ekki sízt af orðum þínum hér að ofan að dæma. Að mati ykkar er greinilega aðeins ein afstaða í boði, að vilja ganga í sambandið. Annað er ekki afstaða. Svona hugsunarháttur á meira skylt við einhvers konar alræðishugmyndir en lýðræðishugmyndir. Og við erum hvorki að taka yfir 80% af lagagerðum Evrópusambandsins og því síður eru 80% íslenzkrar lagasetningar komin frá Brussel. Kynntu þér málin áður en þú heldur svona vitleysu fram ef þú vilt láta taka þig alvarlega. T.d. skýrslu Evrópustefnunefndar forsætisráðherra sem bæði Evrópusambandssinnar og sjálfstæðissinnar hafa lofað sem vel unnið og ítarlegt rit. Þar er fjallað skilmerkilega um þetta. Áttu ekki að heita talsmaður Íslandshreyfingarinnar í utanríkismálum? Þvílíkt og annað eins.

Hjörtur J. Guðmundsson, 22.4.2007 kl. 16:18

10 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Eitt af því sem hlýtur að skipta flesta a.m.k. miklu máli í þessu sambandi eru þau áhrif sem við myndum hafa innan Evrópusambandsins í tilfelli aðildar. Þeir sem vilja í sambandið tala gjarnan um að við þurfum að ganga í það til að hafa áhrif. Þetta hljómar án efa vel í eyrum margra. Minna er hins vegar talað af sömu aðilum um hver þau áhrif kunna að verða. Hversu mikil yrðu þessi áhrif? Í skýrslu Evrópunefndarinnar er t.d. fjallað um þessa hlið málsins á bls. 83-85. Áhrifin yrðu í stuttu máli sagt sáralítil ef einhver.

Vægi aðildarríkja Evrópusambandsins fer fyrst og fremst eftir íbúafjölda þeirra sem er ekki beint hagstætt okkur. Þannig hefðum við að öllum líkindum t.a.m. 3 atkvæði í valdamestu stofnun sambandsins, ráðherraráðinu, af 345 atkvæðum í heildina. M.ö.o. minna en 1% vægi. Hliðstæða sögu má segja af Evrópusambandsþinginu. Þar hefðum við 5 þingmenn af 785, 6 af 750 ef fyrirhuguð stjórnarskrá Evrópusambandsins verður samþykkt. Þ.e. sömu áhrif og Malta.

Aðildarríkin skiptast á að vera í forsæti ráðherraráðsins í 6 mánuði í senn. Miðað við 28 aðildarríki færi Ísland með forsætið á 14 ára fresti. Reynslan sýnir að fátt kemst í verk á þessum sex mánuðum, jafnvel hjá stærstu ríkjunum. Tíminn er í raun enginn. Ef stjórnarskráin verður samþykkt verður þetta kerfi afnumið og í staðinn kemur sérstakur kjörinn forseti.

Ísland fengi einn fulltrúa í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Í Nice-sáttamálanum er gert ráð fyrir að þegar aðildarríkin eru orðin 27 (sem þau eru frá síðustu áramótum) verði fulltrúarnir í framkvæmdastjórninni færri en aðildarríkin sem kemur væntanlega til framkvæmda við skipun næstu framkvæmdastjórnar árið 2009 að öllu óbreyttu. Í stjórnarskránni er hins vegar gert ráð fyrir að hvert aðildarríki eigi aðeins fulltrúa í framkvæmdastjórninni annað hvert kjörtímabil en þau eru 5 ár.

Þess ber þó að geta að fulltrúarnir í framkvæmdastjórninni eru í raun aðeins fulltrúar sinnar aðildarríkja að því leyti að ríkisstjórnir þeirra tilnefna þá (m.ö.o. eru þeir með hliðstætt lýðræðislegt umboð og íslenzkir sendiherrar). Þess utan er þeim bannað að draga taum heimalanda sinna og ber einungis að líta til heildarhagsmuna Evrópusambandsins, sem reynda hafa haft ríka tilhneigingu til að vera þeir sömu og stærri aðildarríkjanna.

Ísland myndi ennfremur mega tilnefna einn dómara í dómstól Evrópusambandsins en sama myndi gilda um hann og fulltrúann í framkvæmdastjórninni. Hann væri ekki fulltrúi Íslands að öðru leyti en því að hann væri tilnefndur af íslenzkum stjórnvöldum. Í öðrum stofnunum sambandsins yrðu áhrif Ísland hliðstæð og í ráðherraráðinu og á Evrópusambandsþinginu, s.s. vel innan við 1% vægi.

Að öðru leyti myndi ekkert breytast við aðild hvað varðar áhrif okkar. Eins og Kolbeinn Árnason, lögmaður og fyrrverandi skrifstofustjóri alþjóðaskrifstofu sjávarútvegsráðuneytisins og fulltrúi þess hjá fastanefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu, sagði á fundi sem Heimssýn hélt 15. marz sl. myndu aðaláhrif Íslands innan sambandsins áfram byggjast á lobbyisma, rétt eins og raunin er í dag. Á móti myndum við gefa eftir yfirráð okkar yfir flestum okkar málum en lítið sem ekkert hafa um þau að segja eftir það.

Kannski eru einhverjir sáttir við þetta og það er vitaskuld bara þeirra mál. Ég er það hins vegar ekki, ekki sízt sem sjálfstæðismaður! Það er alveg ljóst, a.m.k. að mínu mati, að í ljósi þessa yrði Ísland ekki fullvalda né sjálfstætt lengur ef af aðild að Evrópusambandinu yrði.

Hjörtur J. Guðmundsson, 22.4.2007 kl. 16:21

11 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

alltaf kemur þessi langa romsa frá andstæðingum aðildar, og hún verður minna sannfærandi því oftar sem maður sér hana. Copy/Paste rifrildi munu ekki fara neitt með þessa umræðu; sækjum um aðild, rífumst svo.

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 23.4.2007 kl. 13:20

12 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

En æðislegt svar Jónas ;) Eigum við s.s. fyrst að ganga í Evrópusambandið og svo velta því fyrir okkur t.d. hvað við munum hafa mikil áhrif þar innandyra? :D

Hjörtur J. Guðmundsson, 24.4.2007 kl. 23:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband