Aðeins til að byrja með..

Þú ert búinn að segja þetta svona tíusinnum. Sagði konan mín. Ég var að spá í hvernig texta mig langaði að skrifa – á bloggið – aftur. Kúlaðursteinbítur.

Mig er nefninlega farið að klæja í að skrifa aftur. Skrifa.

Málið með mig er auðvitað það að ég nýti mér allt sem ég lærði í mínum uppvexti. Ég semsagt geri ekkert sem pirrar syni mína – Hilmi eða Ísak – eins og ég þurfti að upplifa endalaust af hendi föður míns. Hann var til dæmis endalaust að hringja í mig – spyrja hvernig ég hefði það – hvort mig vantaði eithvað – pening? Fullkomlega vonlaust...verandi loks fluttur að heiman (þægilegt eftir nokkur ár að heiman).

Nei – svona er ég ekki. En auðvitað hringi ég í drengina – mína. Spyr hvernig þeir hafi það. Vantar þá eithvað ...kannski pening? Hvað veit ég...?

Ég skil samt ekki að þeir segja báðir við mig...“pabbi....“ – já hvað þýðir það – ég hringi nú ekki alltaf í þá – í það minnsta ekki oftar en nokkrum sinnum í viku....

Eða?


Komið þið sæl.

Þegar ég var að alast upp var mér kennt að vera ávalt í hreinni brók. Mamma orðaði það svo „ef þú þarft á sjúkrahús þá vilja hjúkkurnar ekki þurfa að taka þig úr skítugri brók“. Það þótti mér fallegt.

Ég er að ég held í hreinni brók og þessvegna.... ætla ég að ....

að fjalla um ýmislegt og segja sögur. Jafnvel af honum afa mínum eða það sem þarf etv að halda enn betur til haga – hvernig það var að alast upp á Akureyri – búa lengi í útlöndum – koma heim og flytja aftur ut....


Ungi bóndinn fyrir norðan og kínverjinn sem ekki má kaupa landspildu á öræfum.

Fyrir mörgum árum síðan ákvað reykvískur ungur maður að flytja norður á land og hefja búskap. Ekki var þó áhugi á búskap til kominn vegna fyrri reynslu eða þekkingar á búskaparháttum almennt. Hann hafði aldrei í sveit komið en líklegast ímyndað sér rómantíkina sem búskapnum fylgdi. Kannski las hann Dalalíf Guðrúnar frá Lundi - enda kaus hann að flytjast í þá sveit.  En hvað um þær ástæður sem að baki lágu, hann einfaldlega var íslenskur ungur maður og gat gert hvað hann vildi án afskipta stjórnvalda.

Og norður fór hann ásamt sinni spúsu. Auðvitað féllust honum hendur þegar hann sá tómt fjósið - auða básana sem þyrfti að fylla af kúm sem hægt væri að mjólka. Nú voru góð ráð dýr. En sem betur fer hafði hann tengsl við dýralækni fyrir norðan sem leiðbeint gat honum um kaup á bústofni. Bændurnir í sveitinni reyndust og hjálplegir og vildu selja honum góðan startpakka eins og það kallast fyrir sunnan.

Hinn ungi bóndi þáði ráðleggingar bændanna og var innan skamms búinn að fylla fjósið. En eitt þótti honum þó verra sem var að hann gat ómögulega skilið þessi tækniorð sem bændurnir notuðu og vissi hreinlega ekki hvað þeir voru að tala um.

Leitaði hann þá á náðir dýralæknisins og bað hann að koma með sér undir húsvegg til skrafs og ráðlegginga. "segðu mér eitt" sagði ræfils ungi bóndinn "hvað er þetta eiginlega sem bændurnir vilja endilega að ég kaupi og þeir kalla kvíga"?

Já er nema von að íslensk stjórnvöld telji sig þurfa að hafa varann á þegar allt í einu birtist kínverji og vill breyta auðn í vin - reisa nokkur 5 stjörnu hótel og guðmávita hvað. Ísland skal auðvitað byggjast upp af efnilegum ungum íslendingum - útlendingar hafa ekkert hingað að gera - nema þeir séu auðvitað listamenn eða elíta!

Heimóttaskapurinn verður seint frá okkur tekinn íslendingum!


Kynbótadómur í fermingur fyrir norðan.

Þegar börn eru fermd þá er það svo að gjarnan kemur fólk saman til að fagna. Í sjálfu sér er það ekkert skrítið því þetta ku vera viðburður sem skiptir máli í lífi hvers einstaklings sem svo kýs.

Það skemmtilega við slíkan hitting, ef svo má að orði komast, er að rifjaðir eru upp gamlir tímar, fólk jafnvel kynnist og á stundum menn dæmdir fyrir árangur, útlit eða heppnuð afkvæmi.

Í dag upplifði ég slíkt.

Ég hitti gamlan bónda úr Bárðardal. Sauðfjárbónda til áratuga og mikinn sauðfjár ræktanda. Hann tók mig tali og dásamaði veisluna og frænku sína sem verið var að ferma. Spyr mig svo hvort ég sé sonur Gústa dýralæknis. Ég kvað svo vera. Þið eruð ágætt fólk til útlitsins - en mikið helvíti er hann fallegur bróðir þinn með skeggið! Ha? segi ég....nei þetta er nú hann Ingólfur mágur minn segi ég. Noh segir þá bóndinn - já hann er assgoti fallegur - og svo þykkur til herðanna! Hvað gerir þessi maður?
Ég hló við og sagði honum það. Sagðist svo auðvitað átta mig á því að ófáa hrútana hljóti hann að hafa þuklað um dagana. Þessi myndi sóma sér á meðal bestu verðlaunahrúta! Þá hló bóndi.

Mikið varð Ingólfur mágur glaður - og mikið hlógum við systkin - jafnvel dýralæknirinn tók andköf. Auðvitað hafði Ingólf ekki grunað að dagurinn yrði hans - að loks yrði hann dæmdur af manni með þekkingu - sem vissi vel að þykkt á herðum og baki skipti máli - í ræktunarstarfi!!

Verð ég þó að viðurkenna að skeggið skyggir á dóminn - minnir um margt að kvikmyndaleikara í ákveðinni tegund mynda - sem eiga það að sammerkt að vera bannaðar börnum!


Ekki íslensk framleiðsla!

Mjög mikilvægt er að katta og hundaeigendur geri sér grein fyrir því hvað þeir eru að gefa dýrum sínum -

iceland pet þurrfóður er framleitt í Hollandi - og eins og kemur fram í fréttinni þá hafa fjöldi dýraeigenda og dýralækna kvartað yfir fóðrinu!

MURR ER HINSVEGAR ÍSLENSKT FÓÐUR - RÉTT SAMSETT MEÐ ÞARFIR DÝRANNA Í HUGA!


mbl.is Gæludýrafóður innkallað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig ert þú frá náttúrunnar hendi?

murr-kjotaetur_dv_270211 (2)

Hundar og kettir eru kjötætur frá náttúrunnar hendi - það er sama hvað okkur finnst - það er staðreynd sem enginn fær breytt!

Þessvegna á að gefa þeim fóður sem unnið er með það að leiðarljósi!

Murr fóður er framleitt úr hágæða íslensku kjöti og sláturafurðum - sérvalið hráefni sem uppfyllir kröfur til manneldis. Enda hví ætti maður ekki að vilja hugsa vel um dýrin sín?

Veldu íslenska gæða framleiðslu!


BÓKIN "ÞAÐ SVÍKUR EKKI BRAGAKAFFIÐ" ER KOMIN ÚT!

Áhugasamir geta haft samband við höfund í síma 895 4774 og pantað sér eintak.

Bókin fæst líka í Pennanum Eymundsson og Bónus Ísafirði.

Kapa


Bókin um Bragakaffi er að koma út!

Ágætu lesendur - nú er búið að safna öllum sögum af Bragakaffi saman í bók - og er listamaðurinn Ómar Smári Kristinsson að myndskreyta!

Og...þið auðvitað kaupið eintak fyrir jólin! Verður væntanlega til sölu í Pennanum - Bókhlöðunni - á Ísafirði!

 

Góða skemmtun!


Heilsuferðamennska - hræðileg lífsreynslusaga ungra hjóna!

Ég horfði um daginn á þennan þátt í sænska ríkissjónvarpinu og fjallar um hvernig draumar ungrar stúlku urðu að martröð.

Þessi unga stúlka sem búsett er í Malmö í Svíþjóð fór ásamt kærasta sínum til Póllands til að undirgangast brjóstastækkun. Hún einfaldlega treysti fyrirtæki sem auglýsti sig á vefnum og í ljósi þess að Pólland væri í ESB þá hlyti allt að vera í lagi.

 Reyndin varð önnur - og í dag er stúlkan sem lifandi lík á sjúkrastofnun í Malmö.

Skoðið endilega viðhengið.

Í ljósi allrar umræðu á Íslandi um heilsuferðamennsku þá er vert að hægja á og skoða málin til hlítar áður en áfram er haldið!


Að lenda í óþarfa hremmingum - ömurleg lífsreynsla!

Fólk lendir í ýmsu á lífsferlinum og sumt er auðvitað alvarlegra en annað. En um eitt getum við sjálfsagt verið sammála og það er hve ömurlegt það getur verið að lenda í aðstæðum sem þó ætti svo auðveldlega að vera hægt að koma í veg fyrir.

Í slíkum aðstæðum lentum við fjölskyldan sl. mánudag.

Slydda, norðan kuldi og hreint ömurlegt veður einkenndi þennan dag. Eftir skemmtilega helgi í Reykjavík vorum við á vesturleið.

Og þá hófst hrakfallasaga fjölskyldunnar. Allt mér náttúrlega að kenna. Stoppuðum á N1 á Ártúnshöfða til að kaupa okkur nesti og um leið ætlaði ég að setja dísel olíu á bílinn. En viti menn - þegar ég stóð þarna í kuldanum og dældi á bílinn þá gerði ég mér ekki grein fyrir að ég hafði gripið RANGA dælu - í stað dísel olíu dældi ég bensíni á bílinn!

Ef ég hefði áttað mig á þessu strax hefði auðvitað enginn skaði verið. En ég gerði það ekki og ók af stað nokkur hundruð metra eða þar til bíllinn stoppaði. Þá laust það niður í höfuð mér að ég hafði óvart dælt bensíni á bílinn!!

Sem meðlimur í FÍB - þá hringi ég þangað. Í annað sinn sem ég lendi í hremmingum á ferlinum og leita til þeirra þá auðvitað gerðu þeir ekkert annað en að benda mér á að leita til aðila sem gætu hjálpað mér! Ég velti fyrir mér hvaða hlutverki þessi félagsskapur gegnir yfir höfuð - því miður.

En hvað um það - ég hringi í pit-stop og eftir sjálfsagt stutta bið á Reykvískan mælikvarða - sem þó var heil eilífð fyrir fólk í okkar stöðu og í norðan kulda - birtist aðstoðarbíll. Sérfræðingurinn sem sendur var talaði því miður litla sem enga íslensku og átti ég því engra kosta völ á að ræða málin við hann. En hann dældi og djöflaðist - og sendi mig svo auðvitað af stað fullvissan um að allt væri í lagi. Sem auðvitað var ekki því bíllinn stoppaði með látum skömmu síðar - og áfram gekk þetta um dágóða stund.

Mér leist ekki á blikuna og hafði samband við umboð bíltegundarinnar sem ég ók á og sendi pit-stopparann burtu eftir að hafa greitt um 14000 fyrir dælingu og nokkra lítra af díselolíu. Hann reyndar kvaddi mig með orðunum "dæla kapút"!

En hvað gat ég gert eða sagt - kann ekkert á vélar!

Ég hringdi því næst í "Krókinn" og þeir fluttu fyrir mig bílinn á verkstæði þar sem ég upplifið sem betur fer hreint frábæra þjónustu - mjög almennilegt viðmót og kurteisi! Þetta var bílaverkstæði á Malarhöfða 2 sem heitir AÐALVERKSTÆÐIÐ - og tóku þeir mér opnum örmum og ég fann að þeir gerðu sér fyllilega grein fyrir þeirri ömurlegu aðstæðum sem ég og mín fjölskylda vorum í - með hugsanlega skemmdan bíl að reyna að komast heim.

Í ljós kom auðvitað að bíllinn var stórskemmdur og viðgerðarkostnaður gríðar hár (hleypur á hundruðum þúsunda). Það er þó bót í máli að viðmót það sem ég fékk á bílaverkstæðinu bætti mjög líðan okkar.

Ég hef síðastliðna viku spurt mig spurningarinnar: Hefði verið hægt að koma í veg fyrir þetta? Já er auðvitað svarið....og á ég þá ekki við hið augljósa svar: "ekki taka ranga dælu"!!

Eftir að hafa talað við fjölda aðila um þetta - og komist að því að þetta er gríðarlega algengt - þá skil ég ekki hversvegna olíufélögin gera ekki einfalda breytingu á stútum dæla til að koma í veg fyrir að svona geti gerst! Ég veit að sum bjóða uppá lykla sem læsa fyrir annað eldsneyti en það sem knýr viðkomandi bíl - en þá um leið eru þau auðvitað að tryggja sér að ekki sé verslað við aðra - en stundum er jú málið það að ekki bjóðast viðkomandi valkostir.

Ef olíufélögin vilja gera eitthvað sem getur gert okkur neytendum verulegt gagn - án mikils tilkostnaðar - þá ættu þau að sammælast um að gera viðeigandi breytingar á dælum sínum svo ekki fleiri lendi í slíkum óþarfa kostnaði og veseni!

Ég er vonsvikinn yfir þessum mistökum mínum - en AÐALVERKSTÆÐIÐ á Malarhöfða 2 (sími þar er 577 4004) hefur veitt okkur frábæra þjónustu!

 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband