Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Leikræn tjáning íslenska landsliðsins.

Fátt finnst mér hallærislegra en fótboltamenn að kreista fram leikræna tjáningu. Forsíða Fréttablaðsins í dag er dæmi um það. 

Og margar útgáfurnar af leikrænni tjáningu hefur maður auðvitað séð. Einhverju sinni rugguðu leikmenn ímynduðu barni og svo auðvitað danssporin og mjaðmahnykkirnir. En ég spyr, hvert skyldu þeir benda ef t.d. líkja ætti eftir meðspilara sem "kæmi út úr skápnum" - eða hreinlega leikmaður gengi alla leið og færi í kynskiptingu - já þá væri gaman að sjá hverjar handahreyfingarnar væru.....svo ekki sé minnst á hvaða tjáningu íslenska landsliðið hefði notað ef Georg Best hefði verið íslenskur leikmaður og þjálfari, en hann drakk sig jú í hel. Kannski skálað út í loftið? tja....maður spyr sig.

Nóg var auðvitað að leika með sorgarband - það þurfti ekkert að "benda fólki á" hvað verið væri að meina með því.

En þetta með líkingamálið er nefnilega nokkuð sem fótboltamenn ættu bara að leggja á hilluna. Það er mín skoðun.


Leif Garrett - alvöru hetja á hjólum.

Ég þurftir suður yfir heiðar í dag til að hitta gott fólk á fundi. Þá rauk hann upp og ég veðurteptur. Slæmt að komast ekki heim - en gaf mér tækifæri til að hitta soninn sem býr hjá mömmu sinni í Reykjavík. Eiga með honum skemmtilega stund.

Og það er einmitt í börnunum sem maður sér hvað tíminn er afstæður og allt gengur einhvernvegin í endurnýjun lífdaga. Minningarnar verða ljóslifandi - koma fram í sviðsljósið og sumt sem er löngu liðið kemur fram líkt og skeð hefði í gær. Svo upplifði ég kvöldstundina.

En við feðgar skelltum okkur í "skate parkið" vestur í bæ. Þar þeysast unglingarnir um á hjólabrettum og gera alls kyns kúnstir. Og nú er semsagt sonurinn byrjaður á þeirri iðju - búinn að fá sér bretti - skrautlegt að neðan en með sandpappír að ofan. Svaka græja að mér er sagt. Og þar sem hann brunaði niður rampinn rifjuðust minningar um árdaga skeitbord á Íslandi - en það var á þeim árum þegar Leif nokkur Garrett var aðal maðurinn með sítt að aftan - sykur sætur með gyllta lokka. Söngvari í hljómsveit og hetja á bretti. Aðal maðurinn.

Og við allir grænir af öfund. Dáðumst að hetjunni - hópuðumst í Nýjabíó á Akureyri á sunnudagseftirmiðdegi - allir með bretti - í það minnst flestir - sumir eða kannski bara einn...en í minningunni auðvitað allir. Enginn okkar kunni nokkurn skapaðan hlut á græjuna - en það skipti engu máli - við blístruðum með bíómiðanum og rifum í okkur popp. Hrópuðum og vorum með stæla - enda stelpur í salnum. Og eftir bíóið var rokið út að prufa brettin - bruna um stéttar og torg - og sem auðvitað endaði með ósköpum þegar einn okkar handleggsbrotnaði. En við vorum hetjur - líkt og Leif Garrett. Alvöru menn. Svo var það búið og enginn nennti lengur að vera á bretti - enda engir rampar - bara brekkur og malargötur.

Bara Tommi Leifs - en hann var skíðakóngur sem hafði verið á ólympíuleikum og gat skautað sig upp Þingvallstrætið á brettinu - stæltur og brúnn - að koma úr sundi. Við hinir horfðum á og öfunduðumst.

Já Leif Garrett er alvöru hetja - en hvar er hann núna?....                          


Ófyndni og vitleysisgangur.

Ég er sammála sjálfum mér. Færslan í fyrradag með bleyjurnar var ómakleg og ómálefnaleg. Það er ófremdar ástand í miðbæ Reykjavíkur - það er staðreynd. En þrátt fyrir allt þá má ekki skella skuldinni á skemmtanaglaða - umhverfið verður allt að breytast.

Og lögreglustjóranum og hans starfsfólki ber auðvitað að herða tökin - réttu tökin og þá auðvitað engin vettlingatök. Kominn tími til.

En mín skoðun er einfaldlega sú að ganga rétt til verka - vera ekki með offors og óþarfa fantaskap við þá sem í raun eru ekki orsök vandans - beina spjótum og aðgerðum að orsökinni - en taka ekki eilíft á afleiðingunum. Við vitum það að margt má betur fara í samfélaginu - og bara sú staðreynd að skortur er á meðferðarúrræðum þýðir ekki að sérsveit lögreglunnar sé kölluð til og látin "hreinsa upp skítinn".

Nú verður jafnaðarstjórnin að taka sig saman í andlitinu - hreinsa til og efna loforð.

 


Lögreglustjórinn á mála hjá Pampers?

Nú á heldur betur að herða tökin niður í miðbæ. Ekki verður nokkrum manni hleypt þangað bleyjulausum. Lögreglustjórinn og sérlegur aðstoðarmaður verða sjálfir á vaktinni og munu taka stöðuna - verða með sérútbúna víra sem snúast hægri vinstri ef svo mikið sem einn dropi lekur út í óþökk þeirra hvíthöttuðu.

Já ekkert pissustand dán tán. Það er skv. lögreglustjóranum alls engin tengsl á milli skorts á salernum og fjölda þeirra er míga úti. Bara alls engin tengsl. Og því má ljóst vera að þessi lýður verður að ganga með bleyju - enda eru þær með ólíkindum rakadrægar og duga vel eina kvöldstund - jafnvel þó að maður þurfi að ganga langa leið heim til sín í morgunsárið, nú af því að leigubílstjórarnir þora ekki dán tán.

Telja má víst að herða verði þróun á bleyjum fyrir full-orðna - og þurfi þær að rúma í það minnsta eina kippu - ef ekki tvær. Já það er orðið vandlifað í henni höfuðborginni. Nú svo ef bleyjan verður full - þá er mönnum gefinn kostur á afvötnun - og mun SÁÁ sjá um þann hluta - ætla að þurrka einn á dag. Mér finnst því líklegt að þeir muni hafa áhuga á þeim sem eru með fjölnota bleyjur - þessar sem hægt er að þvo og hengja svo út á snúru til þerris. Það verður heimilislegt um að líta í hlíðum Grafarvogsins.....fyrir innan brú á komandi misserum  - hvítt línið blaktandi í sunnan vindi og berrassaðir skríkjandi bættir menn.

Já það verður auðvelt að þekkja þá úr sem hafa farið í þurrk - í það minnsta dán tán - þeir verða jú allir mun minni um sig bleyjulausir - nettari til mittisins - ekki eins gleiðir og pungsignir.

Ég ætla að pissa áður en ég voga mér dán tán.....og spáir maður í hvort eitthvað samráð eigi sér stað..."hvort að það sé skítalykt úr bleyjunni...."

Já og ein spurning í lokin: Eru þeir Stefán og Jón HB lögregluskólagengnir....eru þeir ekki bara lögfræðingar í úníform?....tja ég spyr.


Er landsbyggðin dragbítur á þróun landsbyggðarinnar?

Ég er landsbyggðarmaður - fæddur og upp alinn. En því miður er ég þess viss að landbyggðarhrokinn sé eitt helsta vandamál okkar landsbyggðarfólks.

En hvað er þessi landsbyggðarhroki? Jú, mitt mat er að krafan um að standa til jafns á við höfuðborgarsvæðið hvað varðar allt - sem auðvitað er rétt og sanngjörn krafa - en þegar einhver kemur og vill taka þátt - þá kemur upp staðan að heimamenn segja "þú ert ekki héðan - þú ert svo nýflutt(ur) að ekki er séns að þú hafir þekkingu eða skilning á þörfum okkar hér". Og það er einmitt þetta sem ég kalla landsbyggðarhroka.

Enginn skilur okkur landsbyggðarfólkið og okkar þarfi nema við sjálf - og því getur enginn "fyrir sunnan" hjálpað okkur á réttan hátt - vegna þekkingarleysis sunnanmanna.

Ég spyr, getur þetta verið vandinn. Að landsbyggðarfólkið sjálft treysti engum nema sjálfum sér og því sé endalaust verið að karpa um aðferðafræði í stað þess að leysa vandamálin - vilji þiggja hjálp en afþakki hjálpina þegar hún berst?

Er ekki mikilvægt að tekin verði upp heildræn mynd - að samfélagið allt sé Ísland - að fólk leyfi öðrum að hafa skoðanir í stað þess að karpa endalaust um hvað sé rétt og hvað sé rangt - sem yfirleitt er huglægt mat.

Vantar landsbyggðina þor til að prufa eithvað nýtt - takast á við lausn eigin vanda - losna úr viðjum vanans....?

Eða bjó ég of lengi í Reykjavík - er ég búinn að missa tengslin við landsbyggðina - veit ég ekki neitt, nýfluttur Vestur....??


Flóðmiguvandamál í miðborginni - það er skítlykt af málinu.

Í ljósi þess að í gær skrifaði ég færslu þar sem ég var að draga í efa þann gjörning nýja lögreglustjórans í Reykjavík að hundelta sóða um miðbæ Reykjavíkur um miðja nótt með hjálp sérþjálfaðra lögreglumanna - til þess eins að rétta þeim sektarmiða fyrir að kasta rusli - skal ég drepið frekar á þessu sérkennilega máli sem skítalykt er af.

Ég er sammála þeim sem eru leiðir á flóðmigu íslendinga í miðbænum - sem öllum verður svo undarlega mál á stöðum sem á engan veginn henta til slíkra aðgerða. Sumum verður reyndar brátt í brók og enn öðrum óglatt af allri skemmtuninni. Það er slæmt og í raun gengur bara alls ekki.

En í þessu felst ekki gagnrýni mín. Hún felst í því að með ofstæki á ofstæki burtu að reka - nokkuð sem í mínum huga bara gengur ekki. Það að tæma bauk af bjór og kasta í götu er nokkuð sem ekki verðu upprætt af sérsveitarmönnum - þó í flottum göllum séu. Og þar liggja heldur ekki almanna hagsmunir - ekki í raun.

Nær er að sporna við almennri ölvun - ólátum og ofbeldi - byrja þar og fá fólk og almenningsálit í lið með sér. Ekki vaða stjórnlaust um og benda á og handtaka - pirrast og vera eins og fasisti sem staðnaður er í tíma og rúmi.

Ég bjó í mörg ár í Svíþjóð. Þar er löggan með byssur og allskonar græjur. En þeir voru ekkert að eltast við fólk sem henti rusli. Auðvitað geri ég ráð fyrir að losun líkamsvessa hverskonar hefði orðið tilefni til afskipta - en mest eru þeir að sinna ofbeldi og slíkum ömurlegheitum. Og það sem meira var um vert - skemmtistaðirnir og þeir sem þar störfuðu tóku þátt í þeim aðgerðum - en engum er hleypt inn á skemmtistaði og krár sem er áberandi drukkinn - engum. Drukknum er umsvifalaust vísað frá og bent á að drífa sig heim að sofa.

Og þið getið rétt ímyndað ykkur að ófáir íslendingar hafa lent þar upp við vegg - fengið gúmorren og verið snúið við á staðnum  - en þeir lærðu. Jafnvel þeir hörðustu virtu þetta og komu aftur síðar og þá í betra ástandi.

Þetta er lausnin - að vinna saman að lausn málsins - fara ekki um eins og Charles Bronson í gamalli vendetta mynd - með vöðvabúnt sér við hlið í leit að óþekkum kauðum - mígandi utan í byggingar borgarinnar og skítandi í einkagörðum.

það er málið.


Með hvítan hatt á glansandi skóm sektar lögreglustjórinn í Reykjavík mígandi mann með glerglas í hendi.

Ég sá í fréttunum áðan að hálfgert hernaðarástand ríkir á götum Reykjavíkur - í það minnsta í miðbænum. Og fremstur í flokki fer nýi lögreglustjórinn sem urrar á almenning og ætlar að herða svo tökin að maður þorir vart að leysa vind nema í laumi.

Og ekki vantar yfirlýsingarnar frá þeim stutta. Taka hart á smábrotunum og þá fækkar þeim alvarlegu. Sektum fyrir að míga og þá þorir enginn að brjóta af sér frekar. Minnir mig um margt á öfgarnar í Ameríku þar sem gildir auga fyrir auga og tönn fyrir tönn - menn teknir af lífi öðrum til varúðar. Þar sem fullyrðingin er sú að harðar refsingar fæli frá. Og nú er sá stutti byrjaður í Reykjavík.

En er þetta gáfulegt. Á virkilega að fara að eltast við svona smámuni - nokkuð sem hvergi er gert í vestrænum heimi. Held að maður þurfi að fara til landa eins og Singapúr til að upplifa slíkt. Er ekki nær að skapa aðstæður sem verða þess valdandi að fólk hegði sér betur - breyta opnunartímum og bæta almennt eftirlit. 

En er þetta rétta leiðin? Ég bara spyr...tja ekki held ég það þó auðvitað sé rétt að taka á fólki sem mígur og drullar upp um allt - en halló.....hægjum aðeins á og kælum okkur niður.

Ágæti lögreglustjóri - þó úniformið sé flott og skórnir glansandi - ekki missa þig gjörsamlega.


Á skútu með mastrið reist á Roger 300 hundruð kærustur.

Ég hef áhyggjur af ýmsu. Sumt er þess virði að hafa áhyggjur af en á stundum hef ég áhyggjur af því að hafa bara alls ekki áhyggjur. Sum er þess nefnilega bara alls ekki vert að maður sé með áhyggjur af því.

Roger Nilson er kalli í Svíþjóð. Hann er kall í krapinu. Er auðvitað skipstjóri á seglskútum og keppir í svaka keppnum þar sem menn sigla meira að segja hringinn í kringum hnöttinn. Og Roger á auðvitað kærustu í hverri höfn - og elskar þær allar. Hann er nefnilega aðal með aðdráttarafl á við meðalstóra plánetu - dömurnar sogast að kallinum líkt og ló uppí Hoover ryksugu. Ekkert fær stoppað Roger í ástarmálunum. Allir hinir karlarnir náttúrlega að drepast úr öfund yfir kvenhyllinni og Roger brosir út í annað.

En undir niðri líður Roger illa. Hann er nefnilega Svíi og Svíar eru svo meðvitaðir - um sjálfið og siðferðið - svona skandínavísk tilfinning um að vera nú ekki að ota sínum tota út í loftið.

Roger er semsagt sjúkur maður. Hann er haldinn kynlífsfíkn og ástarsýki. Ekki bara það að hann "sigli sinni skútu í allar hafnir með mastrið reist..."  - nei - hann verður yfir sig ástfanginn í leiðinni og nú er staðan orðin svo slæm að hann á 300 kærustur og bara getur ekki meira.

Já ég vorkenni mér fyrir að vorkenna Roger fyrir að vorkenna sjálfum sér. En lífið spyr ekki um hvað sé rétt eða rangt - það bara er.

Og Roger er kominn í meðferð. Búið að kyrrsetja "skútuna og  leggja niður mastrið".


"Stormur í vatnspolli" - Sundlaugarmálið mikla fyrir Vestan.

Fyrir norðan er það Grímseyjarferjan - hér fyrir Vestan er ekki síður stórmál í uppsiglingu...nefnilega sundlaugarmálið mikla og sofandi bæjastjórnarmenn - ef marka má bloggið hennar vinkonu minnar Örnu Láru. Á Ísafirði virðist sem sveitarstjórnarmenn sofi á fundum - í það minnsta fara bæjarmál framhjá þeim....eða öðruvísi get ég ekki skilið þetta. Varla er bæjarstjórinn og hans fólk að ákveða hluti án samráðs við varamannabekkinn......minnihlutann.

En ég segi eins og góður maður sagði eitt sinn þegar hann var að stafla timbri og verkstjórinn var nú ekki alveg sáttur við hvað staflinn var ójafn "...það er alveg sama hvað þú staflar þessu timbri vel - þeir saga það samt...". Með því vil ég undirstrika að það er alveg sama hve flott sundlaug er reist á Ísafirði - Ísfirðingar virðast ekki kunna að reka slíka stofnun.

Sundlaugin á Ísafirði er nefnilega lokuð almenningi - í það minnsta lengstum.

Sem gufubaðsmaður þá er það mér gjörsamlega hulin ráðgáta hvernig á því stendur að ekki megi nýta gufubaðið þó að nokkrir púkar syndi skriðsund í lauginni undir nafni Vestra? Hvað kemur það gufubaðinu við....ég bara spyr? En nei, það virðist auka svo álagið á starfsfólkið að vita af mér kófsveittum og eldrauðum inni í gufubaðinu að því skal haldið læstu þar til ljóst þyki að ekki sé nokkur hræða að æfa sundtökin í lauginni.....og þegar ég spurði eitt sinn vörðinn í glugganum - þá stóð ekki á svari "gufubaðið er svo illa nýtt"....já mig skal ekki undra - erfitt er að nýta það sem ekki er aðgangur að. Það veit ég og þarf ekki MBA nám til að skilja.

Já það er margt í þessu lífi sem ég skil ekki - og þetta er eitt af því.

Ég held að Grímseyjarferjumálið sé bara stormur í vatnsglasi miðað við "fárviðrið í Sundhöllinni".


Fúkyrðaflaumur og grjótkast - mömmur á "víg"- vellinum.

Ég las pistil Ólínu í morgun um áhyggjur hennar af fúkyrðum þjálfara í knattspyrnuleik fyrir sunnan. Ég er sammála henni hvað þetta varðar.

Hitt hefur mér þó ávalt þótt áhugaverðara en það er hátterni foreldra - einkum mæðra -  á hliðarlínunni sem breytast úr hægverskum húsfreyjum í grenjandi ljón þegar að hliðarlínunni er komið. Það er nefnilega í eðli okkar sem dýrategundar að verja afkvæmin - hvetja þau til dáða og beita til þess þeim ráðum sem við kunnum. Því miður eru þau ráð stundum vandræðaleg og engu líkara en að nálægð við knattspyrnuvöll sem inniheldur eigin afkvæmi valdi bráðum framheilaskaða með öfgakenndar afleiðingar.

En þetta er ekkert nýtt. Ég man alltaf eftir því í gamla daga þegar við félagar í KA lékum á Siglufirði og kerlingarnar á hliðarlínunni létu rigna yfir okkur steinvölum þegar brunað var upp eftir kantinum. Kona í kápu að kasta grjóti. Okkur þótti þetta fyndið enda sjalgæf sjón.

Ekki man ég reyndar hvort að þetta var raunin þegar við heimsóttum BÍ sem að mig minnir að hafi heitið ÍBÍ á þeim tíma og lékum við þá knattspyrnu - reyndar var spilað á grasinu á Torfunesi. Við unnum en það skipti engu máli í raun enda um vináttuleik að ræða. Sú ferð varð okkur að vísu minnisstæðust fyrir ferðina í Bolungarvík - en ég ásamt hluta leikmanna lenti í bíl þar sem bílstjórinn var með hálfgerða kókflöskubotna sem gleraugu - átti erfitt með að finna bílstjórahurðina til að komast inn í bílinn og þegar það tókst tilkynnti hann okkur hróðugur að hann væri handhafi hraðametsins um Óshlíð. Við sögðum vá og meintum það - höfðum auðvitað aldrei til Bolungarvíkur komið og Óshlíðin okkur óþekkt. Það var hún hinsvegar ekki eftir þessa ferð - ómalbikuð og svigaði kókbotninn á milli steina sem höfðu hrunið.

Já margar eru minningarnar og mismunandi.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband