Fúkyrðaflaumur og grjótkast - mömmur á "víg"- vellinum.

Ég las pistil Ólínu í morgun um áhyggjur hennar af fúkyrðum þjálfara í knattspyrnuleik fyrir sunnan. Ég er sammála henni hvað þetta varðar.

Hitt hefur mér þó ávalt þótt áhugaverðara en það er hátterni foreldra - einkum mæðra -  á hliðarlínunni sem breytast úr hægverskum húsfreyjum í grenjandi ljón þegar að hliðarlínunni er komið. Það er nefnilega í eðli okkar sem dýrategundar að verja afkvæmin - hvetja þau til dáða og beita til þess þeim ráðum sem við kunnum. Því miður eru þau ráð stundum vandræðaleg og engu líkara en að nálægð við knattspyrnuvöll sem inniheldur eigin afkvæmi valdi bráðum framheilaskaða með öfgakenndar afleiðingar.

En þetta er ekkert nýtt. Ég man alltaf eftir því í gamla daga þegar við félagar í KA lékum á Siglufirði og kerlingarnar á hliðarlínunni létu rigna yfir okkur steinvölum þegar brunað var upp eftir kantinum. Kona í kápu að kasta grjóti. Okkur þótti þetta fyndið enda sjalgæf sjón.

Ekki man ég reyndar hvort að þetta var raunin þegar við heimsóttum BÍ sem að mig minnir að hafi heitið ÍBÍ á þeim tíma og lékum við þá knattspyrnu - reyndar var spilað á grasinu á Torfunesi. Við unnum en það skipti engu máli í raun enda um vináttuleik að ræða. Sú ferð varð okkur að vísu minnisstæðust fyrir ferðina í Bolungarvík - en ég ásamt hluta leikmanna lenti í bíl þar sem bílstjórinn var með hálfgerða kókflöskubotna sem gleraugu - átti erfitt með að finna bílstjórahurðina til að komast inn í bílinn og þegar það tókst tilkynnti hann okkur hróðugur að hann væri handhafi hraðametsins um Óshlíð. Við sögðum vá og meintum það - höfðum auðvitað aldrei til Bolungarvíkur komið og Óshlíðin okkur óþekkt. Það var hún hinsvegar ekki eftir þessa ferð - ómalbikuð og svigaði kókbotninn á milli steina sem höfðu hrunið.

Já margar eru minningarnar og mismunandi.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Níelsson

Sæll og blessaður !

Hef lengi hugsað mér að rétt væri að kvitta fyrir "innlitið" því hér er ég fasta gestur og kem því í verk nú.  Fyrst vil ég votta þér samúð við fráfall Kristjáns vinar þín, ég kynntist honum reyndar aðeins á árum hans hér á Akureyri og  það er rétt að þar fór drengur góður. 

Tolli þessi ferð til Bolungarvíkur gleymist ekki það er rétt, ég var vatnamaður hjá ykkur og Steini heitinn Þórarinsson. þjálfaði.

Þessi maður sem ók okkur var líklega brjálaður en það sem honum tókst var að lækna mig af ótta við Ólafsfjarðarmúla ! Óshlíðin þennan laugardag var  varla fær en sem betur fer þá sá maður ekki nema hluta leiðar svo hroðalega hratt var farið.

Ferðin og móttökur Jóa hása voru konunglegar og þið sem betur fer spiluðu samkv. dagbókarfærslu dagsins vel í báðum leikjum.  Eitthvað fjallar þessi sama dagbók um athugasemdir þínar um Sundhöll Ísfirðinga en það er annað mál !

 Kveðjur góðar,

Gunni Nella vatnamaður 3 fl. KA sumarið 1983

Gunnar Níelsson, 4.9.2007 kl. 23:53

2 Smámynd: Þorleifur Ágústsson

Blessaður meistari - gaman að heyra frá þér. Jú þetta er ógleymanlegt og ég hugsa oft um þessa heimsókn sem var frábær.  kv,tolli.

Þorleifur Ágústsson, 5.9.2007 kl. 08:14

3 Smámynd: Torfi Jóhannsson - Framtíðin er okkar.

Gaman væri að heyra hverjar þessar dagbókarfærslurnar sem Gunni vatnamaður (hvað er það) setur á blað um athugasemdir þínar við sundhölina.

Torfi Jóhannsson - Framtíðin er okkar., 5.9.2007 kl. 12:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband