Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Grískur guð í speglinum hjá mér!

Ég fékk bréf um daginn frá gamalli skólasystur - hún var að minna mig á að nú væru 20 ár frá því að við útskrifuðumst frá Verkmenntaskólanum á Akureyri - 20 ár - já það þurfti svo sannarlega að minna mig á það - enda held ég mér með eindæmum vel og líður oft eins og ég hafi verið að útskrifast í fyrra vor - í það minnsta þurfti ég að skoða passann til að minna mig hvað ég er orðinn gamall - eða eldri.

En auðvitað er því öðruvísi farið með skólasystkin mín - þau eru líklegast flest farin að láta á sjá - það geta ekki allir haldið sér í formi - verið eins og grískur guð. Nje, tæpast. En þetta er bara hluti af lífinu - að eldast - og sumir eldast bara mun hægar en aðrir - ég er einn af þeim. Er lygilega ungur á sál og sérstaklega líkama. Varla nokkur aukakíló nema bara svona rétt hér og þar - svona bara til að undirstrika mig og skerpa línurnar.

Og úthaldið - það er á sama "level" og það var þegar maður var upp á sitt besta með KA í fótboltanum - bara mjög svipað - var til að mynda með strákunum mínum tveim í fótbolta á laugardaginn - í um 10 mín og ég finn ekkert rosalega fyrir strengjum í dag - bara rétt í fótum og baki - já og í annarri öxlinn og niður hendina - já og svo skringilega líka í hársverðinum. Já svona getur maður haldið sér ótrúlega vel - ég nota sömu fótboltaskóna og þá  - að vísu hafa buxurnar og bolurinn auðvitað hlaupið - enda margþvegið  - en ég er í sömu skóstærð sem segir sína sögu - jahá.

Og af því að maður er Arsenal maður þá skellti ég mér í treyju merktri Henry - en það er alltaf verið að plata inná mann óvönduðum vörum í útlöndum - þegar ég var kominn í treyjuna þá sprungu stafirnir á bakinu og það stóð eiginlega bara "enr" á bakinu - Háið og Yið voru svo teigðir að maður sá ekkert hvað átti að standa - en það skiptir auðvitað engu máli - Henry er franskur og Háið er ekkert notað í framburðinum - mátti því allveg missa sín.

Já það verður spennandi að koma til Akureyrar og brosa að liðinu - þessum sem eru búin að eldast um 20 ár frá því að við útskrifuðumst - og til að svekkja liðið þá ætla ég að mæta í gráu jakkafötunum með svarta lakkrísbindið sem ég klæddist í útskriftinni - finn reyndar ekki skóna - allt þetta bara til að djóka í þeim - þetta er inni í skáp og ég hef verið að bíða eftir rétta tækifærinu - og nú er það komið. Djöfull verð ég flottur - nokkurn veginn viss um að konan fer að nöldra út af þessu - bara af því að hún er að drepast úr öfundsýki yfir því hvað ég held mér vel! - já svo mikið er víst.

 


Til hvers að vera að halda hátíðlegan "sumardaginn fyrsta" - ein þjóða í Evrópu!! BRANDARI segi ég.

Það er allveg ótrúlegt að lesa frétt af þessu tagi án þess að nota upphrópunarmerki til staðfestingar mikillar undrunar - því að auðvitað nær það engri átt að maður skuli ekki geta ferðast um sama landshlutann allt árið um kring. Ekki veit ég hvernig Lalli læknir ætlar til Patró í dag - líklegast á jeppa-vélsléða-trillu líkt og síðast - já það er eins gott að hún Birna kona hans er í framboði fyrir Sjálfstæðismenn og kippir þessu í "liðinn" - svo notað sé læknamál.

Nú er kominn tími til að tengja. Ég á von á vísindamönnum frá 3 Evrópulöndum í næstu viku og meiningin er hafa fund um Evrópuverkefni sem við vinnum að og er stýrt héðan - ræða mjög mikilvægar niðurstöður sem eiga eftir geta aukið möguleika á arðbæru þorskeldi. Ég ætlaði svo að keyra suður í Brjánslæk og taka ferjuna yfir til Stykkilshólms og aka þaðan til Reykjavíkur að fundi loknum - bara svona til að monta mig af Íslandi - hrikalegri fegurð lands og þjóðar - EN VERRA ER EF VIÐ SITJUM SVO FÖST UPPI Á HEIÐI - EKKI NEINNI ÁKVEÐINNI HEIÐI - HELDUR VIRÐIST MAÐUR GETA VALIÐ ÚR HÉR FYRIR VESTAN - FLESTAR HEIÐAR ERU NEFNILEGA ÓFÆRAR FLESTA MÁNUÐI ÁRSINS - JÁ Á ÞVÍ HERRANS ÁRI 2007.

Þetta er til skammar - ég finn því miður ekkert annað orð yfir þetta.

 Og nú bíð ég auðvitað eftir öllum kommentunum frá "hinum flokkunum" sem ætla svo sannarlega að laga þetta....;)

 


mbl.is Ófært um Dynjandisheiði og Hrafnseyrarheiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrópusambandið - er það eitthvað ofan á brauð?

Ég sat opinn fund á Hótel Ísafirði í hádeginu í dag sem boðaður var af Evrópusamtökunum og Heimssýn  - um Evrópumálefni. Tveir karlar héldu hvor um sig stuttar ræður - annar með inngöngu í EB og hét sá Þorvaldur Gylfason og hinn karlinn, Ragnar Arnalds, var á móti aðild. Karlarnir voru gamlar kempur - annar eldri en hinn og bar það með sér í föðurlegum umhyggjusömum tón - hafði miklar áhyggjur af því ef unga fólkið í dag færi nú að finna upp á þeirri vitleysu að ganga í Evrópusambandið - hafði setið í nefndum og ráðum - þekkti til í Brussel og vissi að þetta væri nú ekkert fyrir landann - nei við ættum heimi í liði með Norðmönnum - af því að við værum svo miklar þorskveiðiþjóðir. Sá yngri var vígreifur og vitnaði í afa sinn sem barðist fyrir byggingu sjúkrahúss á Ísafirði - lék þann gamla snilldarvel þegar hann las bút úr 70 ára gamalli ræðu karlsins þar sem hann þrumaði yfir Ísfirðingum af svölum gamla sjúkrahússins. Það gustaði af Þorvaldi - talaði af djúpri sannfæringu um ágæti sambandsins í Evrópu - og taldi Íslendingum hollast að taka þátt - svona líkt og ungu fólki sem lifði í synd - ætti að gifta sig hið snarasta - enda væri það ekki það sama og að missa sjálfstæði sitt - nei maður fengi bara partner sem taka þyrfti tillit til.

En um hvað snýst þetta allt saman - hvað er það sem við Íslendingar erum hræddir við? Ég held að svarið sé ákaflega einfalt - óvissuna. Við Íslendingar erum nefnilega bara lítil eyþjóð með lítið hjarta sem slær taktfast í heimahaganum og þolir illa ytri áreiti - svo sem óþarfa stress um að stóru þjóðirnar ætli að taka af okkur allt sem við eigum. Þetta þjóðareinkenni kemur svo vel fram í íþróttunum - erum svo fáir en baráttuglaðir en af einhverjum ástæðum Þurfum við alltaf að vera minni máttar og eiga á brattann að sækja. Það erum við - Íslendingarnir - ÍSLENDINGURINN - fáir í raun en margra manna maki miðað "við höfðatölu".

Og af þessu er umræðan lituð - djarfir vilja sumir taka þátt í að móta stefnu Evrópusambandsins en sjálfskipaðir "besservissar" segja neineinei seiseinei - og rökin eru ævinlega "viljið þið  missa tögl og hagldir á Íslandi - bæði á landi og á miðum" - og maður spyr sig - hverjir eru þessir aðilar í raun - getur verið að hér sé um óþægilega hagsmuna árekstra að ræða - getur verið að það henti ákveðnum aðilum ekki að við tökum þátt í alvöru evrópsku samfélagi? tja ekki veit ég. En þetta þarf að koma fram í dagsljósið - nema að ástæðurnar séu "ljósfælnar". 

Og ég tel óráðlegt að bíða - við erum búin að bíða nógu lengi. Ástæðan er nefnilega sú að við vitum ekkert hvað við missum og eina leiðin til þess er að sækja um inngöngu í Evrópusambandið - líkt og meirihluti þjóðarinnar vill samkvæmt skoðanakönnunum - bæði hægrisinnaðir og miðjumenn. Auðvitað eru Vinstir menn á móti - enda er það þeirra hlutverk að vera á móti - þó þeir hafi auðvitað ekki hugmynd um hvað það er sem þeir eru hræddir við - það er bara eitthvað svo "á mótilegt" við Evrópusambandið.

En samt erum við alltaf tilbúin til að sækja pening og styrki til Brussel og staðreyndin er sú að Evrópusambandið heldur gangandi fjölda rannsóknaverkefna á Íslandi - sem síðan skilar sér í þekkingu og framþróun lands og þjóðar.

Ég verð því að segja að mér er sama hvar í flokki menn standa - aðild að Evrópusambandinu hlýtur að vera nokkuð sem við Íslendingar þurfum að skoða mjög fljótlega - og þær upplýsingar sem við þurfum á að halda fáum við ekki nema að sækja um aðild - hefja viðræður og umræður - kanna hverju við þurfum að fórna og um hvað við getum samið. Að öðrum kosti er valdið ekki hjá okkur - valdið að taka ákvörðun um hvað hentar og passar íslensku þjóðinni - við getum ekki bara staðið í stað og horft á úr fjarska - Ísland er hluti af Evrópu og okkur ber skylda til að láta til okkar taka í sambýli við aðrar þjóðir - það gerum við ekki með því að Halldór Ásgrímsson eða aðrir álíka setjist í "ráð og nefndir".

það er mín skoðun.


NEITANDINN - VELTUM ÍSLENSKU ORMUNUM AF GULLINU.

verðþróun50 tommu plasmaskjar

 

Hér fyrir ofan eru myndir sem sýa verðþróun á plasmaskjám sl. ár í Svíðþjóð og 50" sjónvarp - báðar myndir teknar af vefnum http://www.prisjakt.nu/produkt.php?pu=93840 - og ég spyr: ER ÞETTA ÞRÓUNIN Á ÍSLANDI?  Og plasmaskjárinn sem myndin til hægri er af 50" plasma sjónvarpi sem er til sölu á "ótrúlegu tilboðsverði" hjá ORMSSON (heilsíðu auglýsing í mogganum í gær) á aðeins krónur 299.900 (á íslensku: þrjúhundruð þúsund). Þetta sama tegund af skjá kostar í Svíþjóð 17.900 sænskar krónur (á íslensku: hundrað og sjötíuþúsund). En til að kóróna þetta þá tala þeir Ormssynir um að "LISTAVERÐ"  sé 449.900 krónur íslenskar (á íslensku: fjögurhundruð og fimmtíuþúsund). Dýrasta verð sem ég fann í Svíþjóð á þessari tegund sjónvarps var sambærilegt "tilboðsverði" þeirra Ormssona. 

Já það er verið að gera grín að okkur blessuðum - en Svíar þeir kvarta sáran yfir þessu verði sem þeim er boðið - sérstaklega vegna þess að verð í Bretlandi er allt að 20% lægra á þessum vörum en í Svíþjóð - kann því miður ekki að reikna öll hundruð prósentin sem munar þá væntanlega á vörunum þega þær eru komnar til Íslands.

En eigum við ekki bara að skrifa þetta á fluttningskostnað og norðankalda - Hvernig í ósköpunum á ég að fá að kaupa svona dót? Það er ekki konan mín sem ræður því - það eru Ormssynirnir allir á Íslandi - sama hvað þeir heita - og þess vegna ætla ég að hætta að nöldra í konunni.

Að vísu reyndi konan mín ansi sniðugt trix á mig hér um daginn - Við vorum að horfa á okkar gamla sjónvarp og í auglýsingahléi var verið að auglýsa flatskjái á tilboði - hún benti á einn og sagði: "hva.. sjáðu Tolli minn það er bara ekkert betri mynd í þessum skjá en fína sjónvarpinu okkar"..... það tók mig viku að fatta þetta. Nei, dagar einfeldni og auðtrúar eru liðnir - nú segi ég NEI TAKK!!

Lifi NEITENDUR.

 


Buhuuuu heyrist úr Austfjarðarþokunni - setjum Hjörleif í umhverfismat - gefum svo olíuhreinsistöðvarumræðunni frí!

Flestir hafa skoðanir - reyndar sagði hinn mæti maður "dörtí Harrí: opinions are like assholes - everybody seems to have one..." - ekki orð um það meir. Auðvitað er ekkert að því að hafa skoðanir - en að þurfa að skrifa grein (visir.is í dag) sem fjallar um skýrslu Sólnes sem skrifuð var fyrir um 10 árum síðan og fjallar um mengun - og heimfæra það uppá staðreyndir dagsins í dag og vera svo hissa á því að ekki sé vitnað í þessa skýrslu í umræðunni um - já lesið nú: HUGSANLEGA - MÖGULEGA - PÆLINGAR UM OG KANNSKI - olíuhreinsistöð á Vestfjörðum er náttúrlega brandari. Ekki ósvipaður brandari og að tala um að endalausar ræður Hjörleifs á Alþingi hefðu þurft að fara í umhverfismat vegna óendanlegs magns af CO2 sem flæddu úr lungum þingmannsins.

Málið er nefnilega að Mongstad olíuhreinsistöðin við Björgvin í  Noregi er með um 2,7 milljónir tonna af CO2 í útsleppi á ári miðað við 10 milljón tonna ársframleiðslu. Og megnið er vegna þess að túrbínur stöðvarinnar eru drifnar af gasi - gasi sem ekki yrði raunin í rafmagnslandinu Íslandi. Og þar fyrir utan eru áform um -  og sem þegar eru komin af stað - að dæla CO2 niður í borholurnar aftur. Svo einfalt er það - og ekkert mál fyrir þann er áhuga hefur að kynna sér málið - sem náttúrlega kann að nota tölvu og internetið.

En auðvitað er ánægjulegt að sjá að vinstrigræni frændi minn sem ávallt er eins og klipptur út úr ítölsku tískublaði skuli vera vinur Sólnes - að Sólnesar skuli vera teknir í sátt - ekki gekk nú lítið á hér um árið þegar papa-Sólnes byggði Kröflu - þá heyrðist baulað frá vinstri og líklegast hefur Hjörleifur tekið þátt í því.

Ég er sammála Ólínu vinkonu minni - ljúkum þessari umræðu á málefnalegan hátt - leyfum sérfræðingum og næstu ríkisstjórn að taka ákvörðun - og sem byggir á vísindlegum rökum.


Skipulagsfræðingur með söguþekkingu dettur ofan í holu á Ísafirði.

Ég sá þessa fyrirsögn fyrir mér á forsíðu Séð og heyrt - en ég nefnilega fékk mann í heimsókn sem eins og fyrirsögnin bendir til er með fjöl-menntun frá tveim menningarsvæðum - lærði bæði á Íslandi og í útlöndum - og sem steinlá í götunni minni - sú vinstri lenti ofan í holu en hægri löppin upp á malbikshrauk. Já það er íllfær um göturnar á eyrinni. Og til að toppa ófærðina og valda sjónmengun af versta tagi þá voru bæjarstarfsmennirnir í holufyllingum í gær - svona eins og blindir menn í bútasaum - höfðu ekki hugmynd um hvar ætti að byrja - enda Tangagatan og reyndar vel flestar götur á eyrinni - eins og sneið af svissneskum osti - þykk sneið með djúpum holum - bara verri.

En aumingja skipulagsfræðingurinn sem hróðugur var búinn að segja mér af mikilli innlifun og söguþekkingu að Ísafjörður væri með elsta bæjarskipulag á Íslandi. Já allveg eldgömlu - meira að segja eldra en malbiksleyfarnar sem þekja eyrina. Ekki veit ég hvernig á því stendur að Ísafjarðarbær kemur ekki til móts við íbúana sem leggja sitt af mörkum við að gera upp gömul hús - skapa fallegt upprunalegt útlit gamalla hverfa - með því að hreinlega helluleggja þessar gömlu götur. Það er nefnilega svo að á Ísafirði er hellusteypa - nokkuð sem er einkaframtak duglegrar fjölskyldu og því þarf hvorki að bíða eftir að Ómar komi siglandi á strandferðaskipi eða fært verði vestur - hellusteypan er á staðnum.

Ég vil ekki þurfa að sértryggja alla gesti sem koma til mín - fólk sem glápir á fallega uppgerð hús og endar ofan í holu - holu sem erfitt getur verið að komast uppúr - og kannski er bara bæjarstjórnin föst í holu líka? tja ekki veit ég.

En semsagt - drífum í því að gera Eyrina aðlaðandi fyrir alla þá ferðamenn og Vestfirðinga sem þangað leggja leið sína - helluleggjum allar götur á eyrinni og hættum þessum "malbiks"framkvæmdum - enda eru hellulögn bæði endingarbetri og fallegri.

það er mín skoðun.

ps. skipulagsfræðingurinn er að ná sér -búinn að kaupa sér snjóþrúgur og ætlar ekki að taka neina sénsa í næstu heimsókn - ef það verður bílfært eða flogið.


Ég geng ekki með steinbarn í maganum - olíuhreinsistöð er raunhæfur kostur.

Ég er eins og vonandi flestir - mannlegur - geri mistök en er tilbúinn til að leiðrétta þau - ég brást nefnilega ókvæða við vegna hugmynda um Olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Ástæðan var sú að ég taldi slíkt vera mjög mengandi og hættulegt náttúrunni. Sem er auðvitað hárrétt - nema rétt sé haldið á spöðunum. Og í dag fékk ég að vita að nútímaolíuhreinsistöðvar menga alls ekki mikið - málið er hinsvegar að úrgangurinn er mengandi og það þarf að finna ásættanlegan stað til að losa sig við hann. Eins er staðreyndin sú að aldrei hefur olíuskip strandað við strendur Noregs eða við Holland (t.d. Rotterdam) þar sem er að finna hátækni olíuhreinsistöðvar. Þau skip sem fórust við Biskaya flóa - Alaska og fyrir utan Portúgal og Spán voru á siglingaleiðinni - þ.e. urðu vélarvana og steyttu á skerjum - sem auðvitað er óháð olíuhreinsistöðvunum.

Já svona getur nú borgað sig að tala við sérfræðing á sviðinu - mann sem búinn er vinna í bransanum í þrjátíu ár (haag@statoil.no) - og fá hreinar staðreyndir - engin pólitík - heldur blákaldur veruleiki.

Og það sem meira er - ég treysti orðum þessa manns sem gaf sér tíma til að ræða málin þrátt fyrir að hann væri í Grieg höllinni í Bergen að stýra fundi með 400 olíuverkfræðingum.

Sá hinn sami sagði að Vestfirðingar ættu ekki að hika við slíkan iðnað - fagnaði hugmyndinni en lagði ofuráherslu á að hann væri að miða við alvöru olíuhreinsistöð sem byggð væri eftir ströngustu kröfum - og líklega verðu nóg að gera fyrir Mugi gamla því mér skildist að við slíka höfn störfuðu fjöldi lóðsa og dráttarbáta til að koma í veg fyrir strand 80.000 tonna risaskipa.

Já - nú eykst spennan. 


Velferð fiska í rannsóknum og eldi.

Ég spjallaði við Hrafnhildi og Gest Einar í morgunútvarpinu á Rás 2 um velferð fiska í rannsóknum og eldi.

Áhugasamir geta hlustað á viðtalið hér.

 

 


Nýjasta eldið fyrir Vestan: "sardínur í olíu" .

Ég hélt að ég væri að endurupplifa 1. apríl þegar ég heyrði fréttir um að ein af hugmyndum sem nefndin fræga væri að vinna úr væri olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Þessi setning var löng - enda um þvílíka fásinnu að ræða. FÁSINNU. Auðvitað eru aðilar í olíuiðnaðinum að leyta sér að stað fyrir olíuhreinsistöðvar - vegna gríðarlegrar mengunar. En Ísland á ekki að vera hreinsistöðvarnýlenda fyrir rússneska olíubossa - nóg var nú að einhver rússinn vildi gera Ísland að fanganýlendu.

Og ætla Vestfirðingar að fara að bjóða risaolíuskipum að leggja upp að Vestfjörðum - jafnvel í nokkrum pörtum - nú þá fá nú fleiri en 500 vinnu - við að hreinsa fjörur.

Ef þetta er aðalmálið sem rætt var í þessari ágætu nefnd  og áhugi er á að kanna möguleika á að vinna það sem í jörðinni er - þá hefði nefndin betur mætt á áhugaverðan fyrirlestur yfirolíuverkfræðings Statoil sem benti á raunhæfa möguleika á gasvinnslu á Vestfjörðum - umhverfisvæna vinnslu með framtíðarmöguleika - já og marga, marga milljarða fyrir íslensku auðjöfrana að fjárfesta með.

Nei olíuhreinsistöð er ekki lausnin á vanda Vestfjarða - langt í frá og í raun besta lausnin til að endanlega eyða byggð á Vestfjörðum. Gleymum þessari dellu áður en fólk hættir að taka mark á okkur.

Að vísu er það ekki rétt hjá Árna Finnssyni að olía sé eitthvað gamaldags! - Hið rétta er að olía er allt of dýrt hráefni til að nota til brennslu - hvort sem er í vélum eða öðru - og olíuiðnaðurinn tæki því fagnandi ef bílar yrðu drifnir af vetni - ástæðan er einfaldlega sú að alla olíu heimsins þarf í dýran iðnað - plastiðnað - því ekki er hægt að nota neitt annað efni til plastframleiðslu en olíu. Svo að Íslendingar ættu að leggja áherslu á að efla vetnisrannsóknir.

Hér er verið að reyna að byggja upp miðstöð rannsókna í þorskeldi - en ekki framleiðslu á "sardínum í olíu".


Brynhildur drottning Íslands - Eiríkur Fáfnisbani - Jón Utanríkisráðherra og morðtilraun í Óshlíð.

Ég held að ég sé komplett að verða ruglaður. Kosningabaráttan er orðin á þann veg að ég veit ekki hvað snýr upp né niður aftur eða fram eða þar um kring. Og svo til að bæta gráu ofan á svart þá settist ég fyrir framan sjónvarpið í gærkveldi og ætlaði aðeins að skerpa á sögukunnáttunni og rifja upp bardagann við orminn Fáfni. En þar var allt eins og í pólítíkinni - vantaði ekkert annað en Jakob Magnússon í teinóttum jakkafötum vopnaðan tilgerðarlegum frösum til að kóróna vitleysuna. Brynhildur var orðin drottning af Íslandi sem ég hélt að ekki hefði verið fundið á þessum tíma og Sigurður hét Eiríkur..... í það minnsta í þær mínútur sem ég horfði! Nú vantar ekkert annað en að Sjálfstæðismenn tapi gjörsamlega glórunni og taki Frjálslynda með sér í ríkisstjórn og geri Jón Magnússon að Utanríkisráðherra.

Hvar endar þessi vitleysa? Að vísu endaði hún hjá okkur Hrafnhildi næstum því um helgina þegar við ætluðum að fá okkur bíltúr til Bolungarvíkur - lentum ekki í grjóthruni heldur voru þar á ferðinni fljúgandi björg - tóku með sér vegrið og brutu malbik. Mér brá í brún - fjallsbrún. Stoppaði bílinn ætlaði út að kíkja aðeins á þetta - en af einhverju orsökum skipaði frúin mér til baka - var eithvað stressuð. Ég náttúrlega hringdi í 112 til að tilkynna lífshættulegar aðstæður - stórgrýti þakti veginn og guð má vita hvað - en ekkert samband fékkst við lögguna fyrir Vestan - sjálfsagt ekki í GSM sambandi - Já hún Þuríður sundafyllir var í vondu skapi þennan dag og reyndi að drepa mig - Sjálfsagt hefur Grímur vinur minn frá Dröngum verið að krukka í hólinn þar sem hann segir hana dysjaða - það er á hreinu. Svo að nú ætla ég gera eins og Gummi í Byrginu - kæra kellu fyrir verknaðinn - alla vega að hugsa málið - svona að sjá til.

Svo er nú það.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband