Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Hættum að vera NEYTENDUR - gerumst NEITENDUR - látum ekki bjóða okkur hvað sem er á hvaða verði sem er.

Ég fór með strákinn minn á fótboltamót í morgun. Það kemur neytendamálum ekkert við í sjálfu sér - en þá hittir maður búðarkarla sem eru í foreldrahlutverki og ekki á bakvið afgreiðsluborðið. Ég hitti einn slíkan í morgun - búðarkarl í hversdagsfötum. Og þá náttúrlega greip ég tækifærið og fór að bölsótast yfir verðlagi á sjónvörpum - þessum flottu fjörtíuogtveggja tommu sem maður hefur auðvitað ekkert við að gera - segir konan mín. En samt eru þetta hræðilega dýr tæki - og ég þurfti að ná búðarkallinum á trúnó til að hann viðurkenndi það.

Málið er að ég kíki yfirleitt á sænsku vefblöðin - svona til að skoða hvað er að gerast í umheiminum. Og eitt af því sem þar er að gerast er að verð á flatskjám er að hrynja - ólíkt hæga niðurganginum hér á Íslandi - en hér virðist ríkja meira "harðlífi". Verð á 32 tommu skjám er í mjög mörgum tilfellum komið niður fyrir 50 þúsund kall - já fimmtíuþúsundkall. Og verð á 42 tommu skjám er að sama skapi að lækka mjög - fjöldi tegunda komnar niður fyrir 100 þúsund kall - hundraðþúsundkall. Og það í búðum sem við erum búin að "íslenska". Ég tek dæmi um beint úr raunheimum: Elgiganten er líklega það sem við köllum Elko á Íslandi - þar kostar 42 tommu plasma skjár (42PC3RA)    95,645 krónur íslenskar (miðað við gengið í dag) en ef ég fer á vef Elko þá er verðið á sama skjá komið í 179,995 - já tvöfalt hærra. Nú veit ég ekkert hvað gerist á leiðinn frá Svíþjóð til Íslands - eða hvort tollar eða aðfluttningsgjöld skýra muninn....ég spyr?

Og búðarkallinn í hversdagsfötunum gat ekkert útskýrt þetta fyrir mér.

Já stundum líður manni eins og átt sé við óæðri endann.


Tilvistarkreppa og litblinda eru nútíma"sjúkdómar" sem verður að finna lausn á og það strax.

Ég keypti mér eintak af DV í dag. Það er svo sem ekkert merkilegt nema fyrir þær sakir að ég bý á Ísafirði og hér kaupir fólk helst ekki DV - ætla því ekki að nefna þau kaup frekar. En í DV las ég viðtal við tvo einstaklinga sem báðir eiga við tilvistarkreppu að stríða. En munurinn er sá að annar þeirra er sem betur fer á góðri leið með að finna leið til að bæta stöðu sína- hálpa sér að glíma við vandann - en það er Lalli Johns sem er að glíma við ömurlegar afleiðingar þess að hafa nauðugur verið vistaður á Breiðuvík og óska ég honum svo sannarlega velfarnaðar í þeirri leit - ömurleg staðreynd að slík viðbjóðsstofnun hafi verið til.

Ómar Ragnarsson er hinsvegar árum á eftir Lalla í leitinni að ljósinu - gjörsamlega ómeðvitaður um vandann og virðist að auki vera litblindur - talar mikið um græna litinn, en sér hann hvergi - kannski er kallinn með sérhæfða litblindu - sér bara ekki grænt. Og í leitinni að græna litnum leitar hann hjálpar hjá manni sem ekki sér gult - er blindur á gula litinn - en kjósendur eru marg oft búnir að sýna honum gula spjaldið - en hann heldur alltaf áfram  - sér ekki gula spjaldið sem endaði með því að hann fékk það rauða. Þá gekk hann úr Samfylkingunni. Þetta er svona "haltur leiðir blindan" samband þeirra félaga og ekki batnar það nú þegar Bubbi verður kominn í hópinn - hann sér líklegast um auglýsingarnar - algjör UMHVERFIS BOBA þar á ferð.

Tja, ekki veit ég hvort við getum kennt löngum biðlistum í heilbrigðiskerfinu um stöðuna - en hjálp verða þessir ágætu herrar að fá - og það strax.

það er mín skoðun.  


MISSION NOTIMPOSSIBLE: BJÖRGUM EYJUM!

1rabbitÉg var að spá í það hér um daginn hvort ekki væri lausnin á kanínuvanda Eyjamanna fengin með páskaleik Þjóðverja - að siga hundum á kvikindin - en auðvitað eru páskarnir svo stuttur tími og hundarnir fáir. En hér kemur þetta - hann Karl frá Þýskalandi ætlar að senda nokkur svona krútt til Eyja og þær munu hrekja litlu ræflana á haf út! Að vísu er hann dálítið tregur í taumi því að hann sendi víst nokkur stykki til Norður Kóreu til að bjarga sveltandi þjóð en bansettur Kim Jong Il grillaði þær í afmælisveislunni hjá sér - svo að alþýðan í kóreu sveltur enn.

Nú er það bara spurningin hvort Eyjamenn éti kanínurnar í lundaleysinu - tja hver veit en við vonum það besta.


Aðrir handleggir og ósamvinnufúsir armar.

Það ku hafa tíðkast hér áður fyrr þegar bændur og búalið leituðu til kaupfélagsstjórans eftir láni að hann fór gjarnan undan í flæmingi - en slík sena er sjálfsagt flestum ógleymanleg er sáu myndina "Land og Synir". Já það vantaði víst oft annan handlegginn á Kaupfélagið. Og það er ekki bara vinstri handleggurinn sem hvarf af Kaupfélaginu - nei hann fór líka af aumingjans asíska dýralækninum sem ætlaði í góðmennsku sinni að hjúkra krókódíl - heppinn að vera ekki að bora í nefið þegar króksi beit af honum handlegginn. Ég þekki tvo dýralækna - og tel víst að þeir lendi ekki í sambærilegum hremmingum í íslenskum sveitum - nema náttúrlega ef beljan snýr sér snöggt við þegar verið er að athuga hvort hún sé með kálfi!

Og svo er það þetta með armana sem aldrei virðast geta starfað saman - jafnvel þó að þeir séu í raun á sömu skepnunni. Nú er það nýjasta að Margrét og Ómar séu sitthvor armurinn á sömu hreyfingunni - sem ekki geta unnið samhent lengur - ætli Kobbi stuð sé þá miðfóturinn - svona til jafnvægis og hvatningar? tja ekki veit ég - en ég hef meiri áhyggjur af henni Margréti sem greinilega er í vandræðum með arma - en eins og allir muna þá klauf hennar armur sig burtu frá Frjálslyndum - sem kalla mætti Mislynda í dag - af því að þar eru víst orðnir svo margir armar að líkja mætti við kolkrabba. Þegar kosningum líkur tel ég víst að Margréti verði boðin staða hjá þróunardeild Össurar og verði þar sett í að sjá um þróun gerviarma - svona sem auðvelt er að taka af og setja á aftur - allt eftir hentugleika í það og það skiptið. Og mér sýnist Ómar ætti að fá sér slíka arma - en hann þarf víst að hafa sig allan við að hrifsa til sín hugmyndir og frumvörp annarra - gott að hafa fleiri arma við þá iðju - helst með marga og langa fingur.

Já það er spennandi að fylgjast með þessu öllu saman - stórskemmtilegt. 


Að fara í pútnahús getur dregið dilk á eftir sér segja bæði Magic Johnson og sveinki - betra að setja öryggið á oddinn þegar íþróttir eru annarsvegar.

Mikið er fjallað um hugsanlegan fluttning Eiðs Smára frá Barselóna til Manséstér Júnætíd. Stundum er hann spurður en stundum er bara eins og honum komi þetta ekkert við - mæti bara til vinnu og standi sína plikt. En líklegast má nú telja að ferðum fótboltaáhugamanna til Bretlands muni fjölga þegar "okkar" maður er kominn þangað á ný. Og þeim sem hugsanlega hyggja á slíka ferð er hollt að setja öryggið á oddinn - vera ekki með neina stæla og passa sig á útlendingunum.

Eftirfarandi sögu má taka sem dæmisögu um hvernig slík ferð getur snúist upp í öndverðu sína - sett strik í reikninginn og dregið dilk á eftir sér.

Sagan er af úngum piliti að norðan - köllum hann bara sveinka - en sá hefur alla tíð verið mikill Arsenal aðdáandi - svo mikill að minnstu munaði að ekki tækist að ferma pilt því fermingin stangaðist á við athöfnina í Akureyrarkirkju - en það er önnur saga - og miklu lengri. En í tölu trúenda komst sveinki og er enn. Að vísu er hann genginn úr Arsenalklúbbnum - honum ofbauð þegar Arsenal gerði jafntefli eftir að hafa sett met í ensku deildinni í fjölda sigurleikja í röð. Já hann fékk nóg af aumingjaskapnum - og gekk úr klúbbnum eftir 30 ára dvöl.

En sem sagt - til Lundúna skyldi sveinki fara - sjá leik og jafnvel menningarlíf borgarinnar - en það birtist mörgum íslendingnum sem barþjónn á búllu. Að vísu byrjaði ekki ferð sveinka vel - því kall náttúrlega gleymdi passanum norðan heiða og þurfti að útvega bráðabirgða passa á keflavíkurvelli - og þá hefði auðvitað fyrsta varnaðarklukkan átt að hringja. En það gerðist ekki  og í staðinn skellti sveinki í sig öllara klukkan sexþrjátíu um morguninn - enda alvöru maður á útferð - á vit ævintýra.

þegar til Lundúna koma - tékkaði sveinki sig inn á hið rammíslenska hótel sem ég kalla svo þar sem það er, eða í það minnsta var vinsæll gististaður íslendinga - YMCA hótel - við Oxfordstræti að mig minnir. Settist inn á barinn og fékk sér neðan í því - enda ekki daglegt brauð að maður komi á bar þar sem bæði er píanó og þeldökkur barþjónn sem heitir Gustav. Og var sveinki ekki lengi að tengja og kallaði ræfils barþjóninn ekkert annað en "black-man-Ray" það sem eftir lifði ferðar og til heiðurs goðsögninni "blind-man-Ray". En nú fara leikar að æstast - sveinki kominn í stuð - og leikurinn brátt að byrja. En ekki verður frekar fjallað um leikinn sem slíkan - því ferðasagan fjallar um ferðina og söguna sem henni fyglir.

Að leik loknum má hreinlega segja að sveinki hafi verið orðinn svart-fullur. Þetta sumbl og sú staðreynd að sveinki var í slíkum ham að fátt var honum ófært endaði með því að hann reif sig úr öllu nema grænum brókunum - sveipaði um sig sovéska fánanum og hvarf út af hótelinu - já hann hafði nefninlega keypt sér sovéska fánann þegar hann kom af leiknum - hjá götusala.

Ekki fara neinar spurnir af sveinka fyrr en daginn eftir þegar fara átti heim - þá var risið lægra á sveinka - bakkus bróðir gufaður upp og móri sestur í hans stað. Og ekki var hann til frásagnar um hvert hann hefði farið eða hvað hann hefði gert. Að vísu benti ýmislegt til að hann hefði lent á einhverskonar pútnahúsi - ekki orð um það meira.

Þetta þótti samferðamönnum hans ansi skondið - og allveg til þess fallið að grínast með. Fóru þeir nú hver af öðrum að þakka sveinka samvistirnar - skemmtileg kynni - og báðu hann vel að lifa - þann stutta tíma sem hann ætti eftir. "Hví og hva.." voru svör sveinka - hví hugðu þeir honum ekki líf? "Jú sjáðu til sögðu þeir - eftir pútnahúsferðina - án öryggishjálms á oddi - ertu líklega sýktur". "Já af þessu eidsi". Og nú var sveinka öllum lokið - minningarnar sem höfðu ekki látið sjá sig komu nú hver af annarri - ekki endilega í réttri tímaröð - en líkt og púsluspil pössuðu brotin saman. Og myndin var ófögur svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Svo var flogið heim - flestir ánægðir með úrslit leiksins - en sveinki niðurlútur og skömmustulegur - blótaði í hálfum hljóðum - dæsti og skalf.

Svo líða nokkrir dagar. Sveinki viðar að sér allskyns upplýsingum um þennan banvæna sjúkdóm -sem á þessum tíma var ekki mikið í umræðunni. Þurrkaði upp bæklingamarkaðinn á heilsugæslustöðvum og tannlæknastofum - og á endanum var hann orðinn einn helsti sérfræðingur í eids. Og árangurinn lét ekki á sér standa - hann var hreinlega löðrandi í einkennum. Út um allt - meira að segja rispa á milli stórutánna sagði sína sögu. Heimsóknin á pútnahúsið dró dilk á eftir sér. Og því meira sem sveinki las - því betur varð hann að sér - og því betur skildi hann að nú væri stutt í endalokin.

Hann mætti að vísu til vinnu -  þar sem hann starfaði á næturvöktum í verksmiðju á Akureyri - stóð þar og skalf - ýmist af kulda eða hita - og svo þegar pásur voru, kaffi eða matartímar þá las sveinki - og las - og las - og greindi einkenni. Allt bar að sama brunni - það var sama hvað hann las - staðreyndirnar hrúguðust upp - hann var með þetta eids. Nú var svo komið að sveinki var óvinnufær - kallaður var til læknir en fann ekkert að sveinka - sem lá heima hitalaus í skjálftakasti. Á endanum veiðir læknirinn upp úr sveinka hluta úr ferðasögunni. Situr þögull og hlustar á sveinka kveina um konur og vín - óheppni og heimsku. Í lok viðtals fær sveinki tíma hjá  sérfræðing til frekari rannsókna - og blóðprufu.

Þegar niðurlútur Arsenalaðdáandinn mætir í viðtalið - segir sérfæðingurinn hátt og snjall svo sveinka fannst þetta glymja um húsið allt "komdu með kónginn lagsmaður" - stroksýni var tekið og blóð dregið. "þú færð niðurstöðurnar á miðvikudaginn fyrir klukkan 15". Og með þetta fór sveinki út - vitandi það að næstu daga myndi hann telja alla klukkutíma, mínútur og sekúndur - nokkru sinnum. Úff.

Svo líður tíminn - það kemur mánudagur - þriðjudagur og loks örlagastundin. Og klukkan tifar - er í tvo tíma að færast um fimm mínútur - og sveinki bíður. Svo verðu klukkan tvö - engin símhringing - hálf þrjú - engin símhringing - ......ÞRJÚ!!...engin hringing. Sveinki rýkur upp - rífur símann úr sambandi og stingur aftur í samband - ring....ring.....hrópar síminn og sveinki rífur upp tólið "HALLÓ" svarar hann útúrtaugaður....-  "eretta sveinki" er spurt...."JÁ" svarar sveinki. "Já, niðurstöðurnar eru komnar.....tiktiktikktikktikk....klukkan tifar...tifar.......og þær eru neikvæðar" segir röddin. Sveinki missir símtólið - grípur um höfuð sér og æviminningarnar fljúga í gegnum huga hans - allt sem hann ætlaði að gera en gerði ekki - og þetta sem hann gerði en átti ekki að gera. "hallóóóó´"....heyrist þá úr tólinu". Sveinki tekur upp tólið "haahhhhallló" segir hann veikri röddu - "heyrðu lagsmaður" er sagt úr símtólinu - hvellri röddu "sveinki minn - neikvætt í læknisfræði er jákvætt fyrir sjúklínginn"...- "ha?" segir sveinki - "já og mundu svo eftir smokknum.....". Með það leggur læknirinn á og hverfur til sinna starfa. Sveinki var endurfæddur - Það var eins og sveinki hefði fengið doðasprautu í rassinn - nýtt líf með nýjum tækifærum - og hættum - en núna með öryggið á oddinn.

Já það er betra að passa sig þegar maður er úngur maður að norðan - í útlöndum. Sveinki hefur allveg náð sér af þessum krankleika og lifir öruggu lífi í dag. Er að ég held á ferðalagi um Rússland - vonandi bólusettur fyrir berklum.

seisei já.


Formaðurinn minn var bestur. En ekkert jafnast á við skjöldótta kú í íslenskri sumarnótt.

Það var eitt sinn maður á Akureyri sem var ástfanginn af skjöldóttri kú - ekki svona kynferðislega - heldur var hér um hreinræktaða platónska ást að ræða. Sönn og falleg ást. Um helgar gerði maður þessi sér þann dagamun að dressa sig upp í teinótt jakkaföt - kaupa blómvönd og skella sér í Sjallann - og á meðan dansinn dunaði og Ingimar hélti uppi fjöri geymdi kall blómvöndinn í innanávasa frakkans. Þegar dansleik lauk skellti maðurinn sér í frakkann og gekk út í bjarta sumarnóttina ánægður - ilmur var af sumri og fuglasöngur í lofti og geislar sólar léku við Hríseyjartoppa - þá fékk maðurinn sér leigubíl og brunaði með honum á móts við skjöldóttu kúna - sem líkt og samkýr hennar lá og jórtraði í haganum - enda sumarið yndislegt og rómantískt. Maðurinn bað leigubílstjórann að stöðva bifreiðina í vegakantinum - stökk yfir skurðinn og klofaði girðinguna - rétti fram blómvöndinn og settist á þúfu - þarna átti hann svo fallega stund og horfði á skjöldóttu kúna mjatla á blómvendinum - bæði þegjandi en eitthvað svo sátt við lífið - engar áhyggjur - ekkert vesen. Og á meðan beið leigubíllinn - og engra spurninga var spurt.

Þessi saga kemur stundum upp í huga mér þegar ég les fyrirsagnir eins og "mín kona sigraði" - "Ingibjörg var best" - "Steingrímur var stórkostlegur" - já ekki þarf skjöldótta kú til að fólk sitji agndofa yfir ágætum síns "manns".

Já- svo er nú það með náttúruna.


Ég og Björgólfur - við kunnum sko að halda upp á afmæli. Já maður minn. Að vísu í sitthvoru lagi - en hvað um það.

Afmælisveislur íslenskra athafnamanna verða flottari og flottari og er það vel. Verst er þó að ná ekki monnýpeningnum til landsins - veðrið spilar líklegast stóra rullu og svo myndu lúðarnir bara hanga á gægjum og gengi íslensku krónunnar svo óstöðugt að 50 Cent verða að engu áður en fyrsta lagið er hálfnað.

Ég er alinn upp í sömu götu og auðkýfingar þess tíma - þegar ég lék mér á snjóþotu fengu nágrannakrakkarnir vélsleða - svona míní. Þegar ég fék reiðhjól fengu þeir skellinöðru - og þegar ég fékk skellinöðru voru þeir komnir á torfæruhjól. Og hvernig haldið þið að mér hafi liðið? - mér leið bara allveg ágætlega takk fyrir. Auðvitað öfundaðist maður út í að þeir fengu súkkulaði á brauðið á meðan ég fékk gamla góða smjörið og ostinn. Og svo voru það afmælisveislurna - já maður minn - þá var nú glatt á hjalla hjá okkur strákunum í götunni - því auðvitað var okkur boðið. Og bræðurnir niðrá horni - sem ólust upp á frekar ströngu og íhaldssömu heimili en góðu samt - þeir gjörsamlega misstu sig og voru fluttir ælandi og hálf meðvitundarlausir heim sökum ofáts á pylsum með öllu - líka með rauðkáli. Minnir að sá eldri hafi blánað upp og ælt á 14 pylsu með öllu. Þetta voru sko alvöru afmælisveislur - já maður minn.

En ég hélt aldrei upp á afmælið - hætti þegar ég var 6 ára og hélt þeim kúrs þar til ég varð 40 ára í fyrra. En þá bauð ég til veislu - já maður minn. Og frúin borgaði. Ekki var það nú verra. Finnbogi vinur minn Bernódusar marineraði heilan lambskrokk - og lánaði mér svo heimatilbúið grill til að nota til að grilla gripinn. Veislan var nefnilega haldin úti í grasgrænni náttúrunni - þar sem hvorki 50 Cent eða aðrir slíkir hafa komið - ekki einu sinni 10 Cent. Í Grunnavík í Jökulfjörðum. En þar eigum við nefninlega allveg stórkostlega vini, Fiðrik og Sigurrós, sem lánuðu okkur aðstöðuna á Sútarabúð heila helgi. Og ekki nóg með það heldur sótti Kapteinn Friggi Jó afmælisliðið til Bolungarvíkur og sigldi því yfir djúpið - á fleyinu RAMÓNU - gullfallegu skipi sem stórfenglegt er að sigla með á fallegu sumarkvöldi. Tár.

Þetta var sko afmæli í lagi. Og ekki nokkur maður hefur fett fingur út það - enda ekki gefið upp hvað svona herlegheit kosta - uss - rosalegt dæmi. Stella á Hanhól lánaði mér veislutjald - en það er gripur sem allir þurfa að eiga - og sem Stella keypti í Köben og fór með heim - aldrei að vita hvenær þarf að slá upp veislu - eða fundi refaskytta og minkabana - og ég fékk verkfræðing frá Statoil í Noregi til að setja það upp - enda maðurinn sérfræðingur í borpöllum - dugar ekkert minna. Og svo til að lambið fengið sanngjarna meðferð þá fékk ég hreinræktaðann sauðfjárbónda til að sjá um grillið - Framsóknarmann í þokkabót. Frábært - kjötið meyrt líkt og afmælisbarnið.

Já - það er ekki á hvers manns færi að halda uppá afmæli svo vel sé. það veit ég - það eigum við Björgólfur sameiginlegt - að kunna að halda upp á afmæli.

kíkið endilega á http://www.grunnavik.is


Betri líðan - meiri gæði.

Það þarf auðvitað ekki að útskýra fyrir fólki að mikilvægt er að fara vel með dýr - sama hvort um gæludýr eða húsdýr er að ræða - fiskur er þar á meðal. En lítið stressaður fiskur gefur af sér betri afurðir og okkur sem stundum slíkar rannsóknir ber skylda til að búa svo um hnútana að dýrinu líði vel og að því sé ekki misboðið. Fiskar eru ekki undanskyldir slíkum kröfum. Niðurstaðan verður betri framleiðsluvara á betra verði þar sem afföll verða minni - og allt leiðir þetta til þess að mögulegt verður að vera með öflugan iðnað á Íslandi sem heitir eldi sjávardýra.
mbl.is Rannsaka streitu í eldisfiskum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt sinn höfðu bændur með sér torfu til sjós - að öðrum kosti gátu þeir ekki mígið.

Hér í eina tíð þegar íslenskir bændur fóru í ver þá höfðu þeir gjarnan með sér græna torfu út á sjó - stundum úr túnfætinum heima ef þess var kostur - en án torfunnar gátu þeir ómögulega mígið. Nú hefði mátt halda að slíkur siður væri löngu útdauður - en aldeilis ekki.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nefnilega haft sína grænu torfu til að standa á í að verða ansi langan tíma - hartnær tólf ár. En nú virðist torfan vera að veðrast burtu - þolir ílla seltu úthafsins og stanslausan átroðning. Er orðin veðruð og ræfilsleg. Nokkur strá berjast reyndar ennþá fyrir lífi sínu en torfan atarna má muna sinn fífil fegurri - er varla nokkrum til gagns lengur.

En auðvitað má skipta út torfu - taka aðra til handagagns - kannski þá er predíkar sjálfbærni og fallegt umhverfi - hver veit. Ég held í það minnsta að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að hugsa sig vel um - því ansi marga langar að taka þátt í útgerðinni - vera til halds og trausts þegar á þarf að halda - vera fasta landið í ólgusjónum - torfan góða. Hvort það verða Vinstri grænir eða Samfylking veit ég ekki - en ef réttum kúrsi á að halda þá er í mínum huga ekki spurning um að skútunni sé best siglt af Sjálfstæðismönnum hvort sem torfan verður skorin úr samfylkingar eða vinstrigræna túninu.

Það er mín skoðun.

 


Borgarafundurinn í Hömrum Ísafirði - ræðan mín.

Það komst á síður bb.is að einhver kurr væri í mönnum yfir hverjir væru hvar að segja hvað um hvern og hversvegna og guðmávitahvað. Ég ætla því að setja hér ræðuna sem ég var með fyrir framan mig í pontunni í Hömrum - þó svo að ég hafi kannski ekki lesið hana orðrétt upp - en eins og prestarnir þá þarf maður texta til að legga út af. Og hér kemur þetta:

Ágætu Vestfirðingar og aðrir gestir. Ég sat á kaffistofu þróunarsetursins og dreypti á kaffi. Mér var litið á útprentað línurit sem upplýsti mig um að þróun búsetu á Vestfjörðum hefur verið í eina átt.  Þetta línurit minnti mig um margt á þróun þjóðþekkts fyrirtækis á Reykjavíkursvæðinu sem ég starfaði hjá í 3 ár - og sem til stóð að veita ríkisábyrgð uppá 20 milljarða. Í dag lesum við um stöðu þess fyrirtækis á síðum dagblaðanna.  En ég ætla mér ekki í þessari tölu minni að ræða neitt frekar um fyrirtækið fyrir sunnan – heldur ætla ég að tala um möguleikana hér fyrir vestan.  Ég segi möguleika vegna þess að á sviði lífvísinda – náttúrvísinda,  eru möguleikarnir svo sannarlega til staðar.  Líta má á Vestfirði sem náttúrulega rannsóknastofu – hvað meina ég með því? Jú, þegar vísindamenn stunda rannsóknir þá eru þær af tvennum toga – annarsvegar svo kallaðar rannsóknastofu-rannsóknir þar sem allt er unnið við mjög stýrðar aðstæður og svo hinsvegar við náttúrulegar aðstæður. En því miður þá er oftar en ekki mjög erfitt að yfirfæra rannsóknastofu vinnuna í náttúrulega umhverfið.  Og þetta er einmitt málið hér fyrir Vestan – við höfum hér aðstæður sem henta ákaflega vel fyrir fjöldann allan af rannsóknum í náttúruvísindum – allt frá eldi sjávarlífvera  til rannsókna á gróðursamfélögum á Hornströndum. Og mig langar að nefna það að ég átti gott samtal við einn helsta sérfræðing norðmanna á sviði lífrænnar ræktunar og sú ágæta kona tjáði mér það að Vestfirðir gætu verið ákaflega hentugt svæði til að stunda lífræna ræktun – sambærileg svæði í Noregi væru að gefa góða raun – er þetta etv. tækifæri sem vert er að skoða? En hvað er að eiga sér stað þessa dagana á sviði rannsókna í þorskeldi í sjó.? Á þeim stutta tíma sem liðinn er frá því að ákvörðun var tekin um eflingu rannsókna hér fyrir vestan á sviði þorskeldis þá hefur eftirfarandi átt sér stað: Evrópuverkefni með þátttöku Matís og tveggja Vestfirskra fyrirtækja.og fjöldi íslenskra verkefna á sviði  eldis – vinnslu og gæðamála í fiskvinnslu. Og hvað svo – hvert er framhaldið. Niðurstöður þær sem við erum að sjá núna úr þessum verkefnum skila sér í frekari uppbyggingu – afhverju? Jú vegna þess að eftir þessu er tekið – við erum að skila árangri.  Og hvað er það sem ég vil sjá í nánustu framtíð:
  • Að hér verði áframhaldandi uppbygging á svið rannsókna í þorskeldi – að fjármunum verði varið í frekari uppbyggingu á rannsóknaaðstöðu.
  • Að starfsemi Náttúrstofu Vestfjarða verði efld til muna – með þátttöku ríkis og allra sveitarfélaga á vestfjörðum og staðsetning sérfræðinga verði dreyfð um Vestfirði.
  • Að hér verði miðstöð umhverfisrannsókna tengdum eldi í sjó – og það verði gert með 5 ára föstu framlagi frá ríki – sem mun skila sér í öflugu rannsóknastarfi – en nú þegar hafa erlend eldisfyrirtæki lýst yfir miklum áhuga á samstarfi við Matís og Náttúrstofu Vestfjarða um slíkar rannsóknir.
  • Að hér verði öflugt samstarf við Háskóla landsins og nemum á sviði náttúrvísinda verði gert kleift að stunda hér hluta af námi – rannsóknaverkefni í samstarfi við vísindamenn á svæðinu.
  • Að hér verði stofnaður öflugur sumarháskóli – að hingað verði fengnir erlendir vísindamenn  til að starfa við kennslu og rannsóknir í hluta af sumri – skóli sem ekki er bara fyrir nema heldur líka vísindamenn úr alþjóða vísindaumhverfinu að koma saman og stunda rannsóknir og ræða málin.
 Og að lokum langar mig að varpa fram hugmynd sem ég hef þegar rætt við aðila sem málið varðar og sem ég kýs að kalla: Fyrirtæki – Menntun – Háskólasetur: Möguleikar landsbyggðarinnar. Í mínum huga felst framtíð landsbyggðarinnar í uppbyggingu þeirra fjölmörgu fyrirtækja og rannsóknastofnana sem starfa á landsbyggðinni. Því miður er staðreyndin sú að þessi fyrirtæki og rannsóknastofnanir eiga oft á tíðum erfitt uppdráttar – og nýjasta  dæmið er að sjálfsögðu brottfluttningur Marels af svæðinu.  En hvað getum við gert – hvað geta kjörnir fulltrúar okkar sem eiga að berjast fyrir tilverurétti okkar landsbyggðarfólks að gera - Eg vil að við spyrjum okkur eftirfarandi spurninga - :
  1. Hverjar eru þarfir fyrirtækja á landsbyggðinni?
  2. Hvernig er hægt að gera landsbyggðina að spennandi kosti fyrir nemendur á háskólastigi?
  3. Hvernig gerum við menntafólki kleift að fara til starfa út á landsbyggðina?
 Lausnin er miklu nær okkur en við höldum og felst einfaldlega í samþættingu ofangreindra þriggja þátta.  Með því að gera þarfagreiningu fyrirtækja á landsbyggðinni, skoða hvar skóinn kreppir og hvað þurfi að gera til að efla þau og markaðssetja er fyrsta skrefið stigið. Annað skrefið væri síðan stigið með því að gera nemendum í ýmsum greinum fjárhagslega mögulegt að flytjast í það minnsta tímabundið út á landsbyggðina og starfa að verkefnum, sem nýtast sem hluti af námi, hjá landbyggðarfyrirtækjum. Og síðasta skrefið væri stigið, og sem reyndar er stigið til hálfs, með því að skapa náms og vinnuaðstöðu á formi háskólasetra í viðkomandi landshluta. Og hér er lausnin:1.      Fyrirtækin gera þarfagreiningu með hjálp t.d. atvinnuþróunarfélags viðkomandi sveitarfélags/landshluta. 2.      Þeir nemendur sem kjósa að gera námsverkefni hjá fyrirtækjum á landsbyggðinni hljóti dvalarstyrk (ekki enn eitt lánið) sem nemur framfærslu skv. reglum LÍN og sem gerir þeim búsetu á landsbyggðinni mögulega og  hefði lítil sem engin áhrif á rekstur viðkomandi fyrirtækis.3.      Náms og vinnuaðstaða ásamt tengslum við leiðbeinanda eða skóla viðkomandi námsmanns yrði Háskólasetrið í landshlutanum. En markmið uppbyggingar háskólasetranna hlýtur að hafa verið til að efla landsbyggðina. Hver borgar svo brúsann? Jú, kostnaður við hvern nema hlýtur að teljast lítill miðað við ávinninginn sem fengist með þessu – ávinning á formi bættra rekstarmöguleika fyrirtækja, sérmenntun nema og ekki síst auknum líkum á því að þeir kjósa að nota þetta tækifæri til að kynnast landsbyggðinni, ílengist eða jafnvel setjist að á viðkomandi stað. Þetta er því landsbyggðarmál sem ætti að vera þverpólitískt og í raun samtarf ríkis og sveitarfélaga sem stofna ættu sérstakan sjóð til úthlutunar í þetta verkefni. Vestfirðir eru ákjósanlegur fyrsta tilraun – eini landshlutinn þar sem stóriðja hefur ekki komið til tals.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband