Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Er uppreisn á skútunni Frjáslyndu? Fær Ómar sjálfstæða skoðun? Fer Jón að brosa og hættir Ingibjörg að hlægja? Verða Geir og Steingrímur dús?

Það var einkar áhugavert að fylgjast með umræðum í sjónvarpinu í gær. Ekki það að umræðurnar hafi verið á sérstaklega háu plani - nei það var bara svo gaman að sjá hvaða stefnu og stíl þeir eru að marka sér.

Ómar var sjálfum sér líkur - ekki með neitt á takteinum nema baráttuna gegn álverum og var því miður eithvað svo sammála síðasta ræðumanni - nema Jóni - sem ræskti sig, kipptist til, glennti sig og hallaði sér að Geir Haarde sem sat þungbúinn og pirraður undir þessari pirrandi umræðu að manni fannst og brosti aldrei - ólíkt Ingibjörgu sem brosti þessu yfirlætislega brosi sem fer í taugarnar á landanum og hló hæðnislega á stundum enda er hún orðin óvinsæl og óviss um stefnu Samfylkingarinnar - líkt og Addikittagau sem er orðinn valdlaus á eigin skútu og eltir hugmynda(leysis)fræði öfgamannanna í flokknum eins og Sverrir Hermanns spáði fyrir um. Og svo voru það VG þar sem hörð vinstri pólítík ræður ríkjum og aðeins er farið að sljákka í foringjanum enda virðist hann hafa toppað of snemma - og hann farinn að sýna gamla góða reiðisvipinn - hlýðið mér annars fer allt til helvítis.

En hvað var rætt? Það bar í raun tvennt á góma - álver og innflytjendur. Álver til að bjarga landinu eða eyðileggja landið og innflytjendur til að reysa álver og eyðileggja þjóðfélagið. Hafa þessir ágætu formenn ekki um mikilvægari hluti að ræða - hvað með ungafólkið og skuldsetningu - miðaldrafólkið og skattana - gamla fólkið og áhyggjulausa ævikvöldið - og allt þar á milli sem skiptir okkur máli þessi fáu ár sem mannskepnan lifir. Það eru nefninlega ótrúlega mörg málefni sem snerta daglegt líf fólks og enginn virðist ætla að ræða af nokkru viti. Ég vona að við lendum ekki í sömu vandamálum og t.d. Japanir þar sem nánast engir skattar eru - en þar er heldur engin þjónusta við eldriborgara og fólk byrjar að safna fyrir eigin útför strax og það er vinnufært. Það er engin framtíð.

Og kvótinn - fiskveiðarnar - hver má veiða - hvar og hvenær? Er rétt að halda úti ríkisstofnun er stundar fiskrannsóknir? Er rétt að þegar rætt er um hvað má veiða þá sé talað við sérfræðing hjá hagsmunasamtökum líkt og LÍÚ? Er ekki rétt að gera eithvað í þessum efnum svo þjóðarsátt geti ríkt um málið? Það er deginum ljósara að þorskgöngur og nýliðun fer ekki eftir veiðipólítík íslendinga - sem getur bara snúist um það hverjir mega veiða fiskinn sem syndir umhverfis landið. Mér sýnist að kominn sé tími til að ræða þetta mál og finna lausn sem gerir það að verkum að fleiri geti stundað þann búskap sem fiskveiðar eru. Og umhverfismálin - á ekkert að ræða þau af skynsemi? Á ekki að taka þátt í að vernda hið ósnortna taka ábyrgar ákvarðanir um heildstæða náttúrvernd á Íslandi?

Þetta eru allt spurningar sem ég bíð spenntur eftir að menn ræði af skynsemi fyrir komandi kosningar - málefni sem eru margfallt stærri í sniðum en málefni innflytjenda -  sem er ekkert mál.

Er lausn byggða landsins ef til vill sú að skila kvótanum sem hvarf - þessum 20.000 þorskígildistonnum sem t.d. voru eitt sinn hér fyrir Vestan?

Já það verður spennandi að fylgjast með þróun mála í landspólítíkinni.


Lausn á kanínuvanda Eyjamanna.

Ég er kominn með hugmyndina að lausn Eyjamanna á kanínuvandanum í lundaholunum. Þeir ættu að taka sér til fyrirmyndar páskaleik þjóðverja - að vísu er þar notaður héri - en getur vart skipt máli. Meðfylgjandi mynd útskýrir allt:

Kanínuleit


Forsetinn og gróðurhúsaáhrifin.

Mér fannst einkar athyglisvert að sjá að forseti Íslands er farinn að semja fyrirlestur um hlýnun jarðar-gróðurhúsaáhrifin - og hvernig Íslendingar hafa lagt sitt af mörkum í þeim efnum - ég geri að minnsta kosti ráð fyrir því. En þannig hljómar það - en hann ætlar að kynna fyrir umheiminum hvernig hægt er að nota Ísland sem "litla rannsóknarstofu" í þeim fræðum - enda hafa Íslendingar auðvitað gert allt sem hægt er að gera til að taka þátt í þeirri þróun.

Íslendingar hafa nefninlega verið þjóða duglegastir við að þurrka upp það votlendi sem til er í landingu og nú er staðan einfaldlega sú að lítið sem ekkert er eftir af votlendi landsins - með tilheyrandi sinubrunum og eyðimerkurmyndunum. Ætli þar hafi ekki farið fremstir í flokki íslensku bændurnir sem vildu yrkja jörðina - grófu skurði um allar jarðir til að drena landið - ætluðu sér að gera tún - rækta jörðina - en eftir stendur örótt land með fækkandi búfénaði - staðreyndin er nefninlega sú að minnstur hluti þess lands sem vatni var hleypt úr var nokkurtíma ræktað. 

En hvað þýðir þetta - jú auðvitað það að gríðarlegt magn kolefnis hefur losnað út í andrúmsloftið - kolefni sem annars var bundið í jarðveginum - og nýtist núna til að taka þátt í að gleypa geisla sólar og hækka hitastigið í umhverfinu.

Og ekki má gleyma bílaeign landsmanna - sem ku vera númer eitt eða tvö í heiminum sé miðað við höfðatölu. Já þar höfum við Íslendingar svo sannarlega ekki setið hjá - nei. Enginn er maður með mönnum nema að eiga nokkra - og nú síðast vera með bílstjóra svo ekki þurfi að drepa á bílnum þó maður skreppi í óperuna eða kokteil.

En bisness menn sjá nú yfirleitt monnípeninga í flestu - og er mengunin ekki undanskilin. Jú nú er skógrækt orðin að iðnaði - þar er víst hægt að selja mengunarkvóta - nýjasta kvótabraskið. já ekki er nú öll vitleysan eins.

Já við erum svo sannarlega lítil rannsóknastofa í þessum efnum - og ég hreinlega get ekki beðið eftir því að forseti Íslands birti fyrirlesturinn á netinu - svo að við - lýðurinn í landinu - fáum notið viskunnar eða í það minnsta fengið upplýsingar um hvað hann er að tjá sig um - nema að hann sé náttúrlega að gera þetta til að hífa upp annars lélega laun - ná sér í smá bitling - aukatíma - og noti sinn prívat tíma til þess. Forsetinn er nefninlega Íslendingur og Íslendingar eru tækifærissinnar. Meira að segja forsetafrúin er orðin Íslensk - notaði áreksturinn við skyltið til agítera fyrir skíðahjálmum - það er vel.

 http://www.visir.is/article/20070409/FRETTIR01/70409022

tja, ég bíð spenntur.


Að kunna að klæða sig og skíta.

Í dag ætla ég að segja frá nýjum hluta í lífi Sölku. Hún kastaði nefninlega samfellunni og spígsporar um eins og nýfædd í hlutverki tíkar úr Tangagötunni. Horfir yfirlætislega á ketti og aðkomufólk. En bærinn er fullur af hvoru tveggja. Og hún er búin að finna sér stað til að skíta. Á nýhlaðinn kant í garðinum - svona hálf inni í beði og hálf á stéttinni - þarf bæði að vera fim og frjálsleg í fasi til að skíta við slíkar aðstæður. Maður eiginlega fyllist stolti við að sjá aðfarirnar - þetta myndi sko enginn aðkomumaður á Ísafirði geta - ekki séns.

Og rétt í þessu sem Salka kastaði samfellunni fylltist bærinn af aðkomufólki - að mér sýnist mest úr Reykjavík. Og ég veit það því þetta fólk er allt öðruvísi en við landsbyggðarfólkið - og ég veit það vel því að ég hef oft komið söður. En það er alveg sama hvað ég fer oft söður - ég er einhvernveginn alltaf öðruvísi. Svona dálítið sveitó í nýrri Melka skyrtu og skinnjakka frá Gefjuni. Maður eiginlega er svona hálfgert eins og í sundbol á skíðum. Passar ekki - og það heima hjá sér. En Sölku gæti ekki verið meira sama - hún er nefnilega búin að prufa að dressa sig upp og fílaði það bara ekkert. Svo ég ætla að gera eins og hún - gefa þessu liði langt nef - fara bara aftur í Melkaskyrtuna mína - skvetta á mig kölnarvatni og keyra niðrá Ásgeirsbakka og fara á "Aldrei fór ég suður" hátíðina. Þó að það sé auðvitað ekkert langt heiman frá mér og á hátíðina - ekki svona á Reykjavíkurstórborgarskala - en halló, við erum fyrir Vestan og þar er dálítill spölur úr Tangagötunni niðrá Ásgeirsbakka - og ég fer á bílnum.

Og óíkt slæmri upplifun hér um daginn þá var gufan opin í dag. Meira að segja búið að kveikja á ofninum og hún var Heit - og ég fór. En í fyrsta skiptið síðan ég flutti vestur fyrir um 3 árum var hún full af fólki - ósköp venjulegum náungum - geðþekkum guttum að sönnan - hélt þeir væru hérna í tjaldferðalagi með pabba og mömmu - en varla,- það er svo kalt  - og sumir voru nefnilega með einskonar skegg og aðrir með tattú. En ágætir strákar. Ég spjallaði helling við þá. Alltaf gaman að tala við fólk sem er í heimsókn - svona venjulegt fólk - og geta leiðbeint þeim um praktíska hluti - segja þeim hvar sjoppan er og búðin og svoleiðis. Svo fóru þeir allir í sturtu . En þegar þegar ég fór uppúr þá voru þeir allir farnir - þessu ljómandi góðu strákar. En fyrir utan Sundhöllina var aftur á móti fullt af einhverjum rokkurum að sönnan - allir eithvað svo  kúl gaurar - í leðurjökkum og támjóum skóm - með svört spangargleraugu og reykjandi. Mér fannst ég eitthvað kannast við þá - svona eins og ég hefði hitt þá áður - en gat ómögulega komið fyrir mig hvar. Þeir kinkuðu kolli til mín  - bara sison - en ég bara strunsaði framhjá í Melkaskyrtunni - djö... fer nú ekki að leggja lag mitt við svona lið -eins gott að passa sig á svona liði - gæti bara lagst uppámann með partý og allskonar. Leiðinlegt samt að geta ekki kvatt ungu mennina í gufunni.

Já það er svo.


Enn eitt áfall Frjálslyndra - hvað segir Lögmaður Magnússon núna?

já það er búið að sanna það vísindalega - það er enginn X-faktor í Íslendingum. Og nú þurfa þeir félagar fiskifræðingurinn og lögmaðurinn að kokka upp nýja varíasjón af innflytjenda grautnum sínum - sem leyfir útlendingum með X-faktor að flytja til landsins. Fara líklegast létt með það. Geta fengið í lið með sér líffræðinginn utangáttar sem búsettur er núna í mínum gamla heimabæ Akureyri.

En Færeyingurinn Jógvan sigraði með yfirburðum. Átti það líklegast skilið ef marka má 70% kosningafylgi. Hef heyrt hann syngja í einhverjum af þáttunum og fannst hann gera það vel. En ég er svo fyrirsjáanlegur og mikill landsbyggðarmaður að ég skil ekkert hvað þetta X-Faktor er eiginlega?? Bara ekki hugmynd. En auðvitað er það mér léttir að þurfa ekkert að hafa áhyggjur af því enda er þetta ekkert til á Íslandi. það er til í Færeyjum. Sem er náttúrulega til að rugla mig ennþá meira - þar eru víst samkynhneigðir ílla séðir og ekkert Gay-pride - það hefur mér nefnilega alltaf þótt eithvað svo mikið X-factor - en hvað veit ég?

En semsagt maður lærir alltaf eithvað nýtt. Ég var bara eins og allir aðrir hér á Ísafirði niður á Ásgeirsbakka í gærkveldi að horfa og hlusta á fjölda stórskemmtilegra hljómsveita spila tónlist af öllum gerðum - allt frá Franskri hljóð- og hreyfilist í þrælgóða stráka úr 10 bekk grunnskólans. En það er víst enginn X-faktor - enda engin Smáralind hér - bara Ásgeirsbakki með lágmenningarfólk.

Æji, mér finnst bara gott að vera svona einfaldur landsbyggðarlágmenningarlúði. Setjum bara X við landsbyggðina í ár!

það er mín skoðun.


Pólítíska argaþrasið fyrir Vestan.

Nú ganga hnútuköstin á víxl - allir vilja eigna sér málefnalega umræðu en enginn kannast við að taka þátt í pólítísku argaþrasi - enda allir að vinna við að bjarga Vestfjörðum. Það er auðvitað gott að menn leggi sitt af mörkum í þeim efnum. Hvort sem það er á borgarafundi í Hömrum þar sem sjálfstæðismenn sáu sér ekki fært að mæta -en aðrir stjórnmálaflokkar mættu í staðinn. Stundum er það bara svo - en um það snýst náttúrlega ekki þetta mál.

Málið snýst um lausnir. Lausnir á vanda Vestfjarða og á tímum fjarnáms þá ættu þeir sem ekki mættu vel að geta unnið vinnuna annarstaðar. Ég mun í það minnsta ekki kjósa þann er þrasar mest - ég mun kjósa þann er gerir best.

Ég talaði á fundinum - ekki sem pólítískt valinn maður - ég talaði vegna þess að ég sé möguleika hér fyrir Vestan - möguleika sem menn eiga að koma sér saman um að nýta - möguleika sem ýtt var úr vör m.a. af ráðherrum úr Sjálfstæðisflokki. Ekki má gleyma því. En auðvitað hefðu ráðherrar úr öðrum flokkum gert hið sama ef þeir hefðu verið við völd - ekki spurning - enda framtíða Vestfjarða málefni sem ekki á að kafna í pólítísku argaþrasi.

Gerum eins og hinn ágæti maður Einar Hreinsson benti á: "förum heim að læra" og komum með lausnir. En þangað til - hættum þessum pólítíska argaþrasi sem ENGU skilar fyrir framtíð Vestfjarða.

Það er mín skoðun. 


Laxinn. Grein II

AÐ LIFA Í FERSKVATNI EÐA SÖLTUM SJÓ

Hvernig fer laxinn að því að laga sig að þessu ólíka umhverfi? 

Álitið er að fyrstu hryggdýrin hafi lifað í sjó og þessu til staðfestingar benda vísindamenn á steingervinga sem fundist hafa í setlögum þar sem áður voru hafsvæði. Jafnframt er talið að fyrir um 400 milljónum ára hafi fyrstu fiskarnir flutt sig í ferskvatn og að þeir fiskar sem í dag lifa í sjó hafi átt uppruna sinn í ferskvatni. Ástæða þessarar kenningar er sú að sjórinn inniheldur meira af söltum en blóð fiska sem þar lifa.

Þegar talað er um sölt í umhverfi og blóði fiska er átt við uppleyst næringar- og steinefni á formi sem kallast jónir. Í ferskvatni eru þessar jónir í mismiklum styrk allt eftir jarðveginum sem ferskvatnið kemst í snertingu við og getur styrkur því verið mismikill á milli vatnasvæða. Í sjó er styrkur jóna hins vegar mun jafnari frá einum stað til annars. Fiskar þurfa því stöðugt að halda jónum í blóði í réttum styrk og sú stjórnun sem laxar hafa á flæði jóna inn og út úr líkama sínum er lykillinn að velgengni þeirra og aðlögunarhæfni að missöltu umhverfi.

Þegar laxar eru í ferskvatni eiga þeir á hættu að vatn leiti inn í líkama þeirra þar sem styrkur jóna er mun hærri í blóði en í umhverfinu. Þetta skapar tvenns konar vandamál, annars vegar hættuna á að blása út af vatni og hins vegar að missa jónir út í umhverfið. Því má segja að lax þurfi að koma í veg fyrir upptöku vatns og útskilnað jóna. Þetta vandamál leysa laxar með því að sía nánast allar jónir úr þvagi yfir í blóðið áður en útþynnt þvagið er losað úr líkamanum. En hjá því verður aldrei komist að missa eitthvað af þeim jónum sem eru í blóðinu og eru laxinum lífsnauðsynlegar. Hins vegar fær laxinn sölt úr fæðunni og getur því bætt jónatapið ásamt því að drekka nánast ekkert vatn á meðan hann dvelst í ferskvatni.

Í sjó horfir málið öðru vísi við.  Þar eru jónir í mun hærri styrk en í blóðinu og því er vandamálið það að halda í vatnið og þorna ekki upp. Þessu vandamáli mætir laxinn með því að drekka sjó og losa sig við umfram magn af jónum sem drykkjunni fylgir.

Hormónakerfið er brúin milli ytri umhverfisáreita, svo sem sjávarseltu, og innri líkamsstarfsemi sem fylgir aðlögun að breyttu umhverfi. Sú breyting á lífsferli laxa sem veldur hvað mestum breytingum á lífeðlisfræði laxins á sér stað í ferskvatni á vorin þegar laxinn fer að gera sig líklegan til að ganga til sjávar.

Laxar hafa þróað ákveðna tegund fruma í tálknum, þörmum og nýrum sem nefndar eru klóríðfrumur og eru þær búnar nokkurs konar jónapumpum sem hafa það hlutverk að halda jafnvægi á jónum í blóðinu.

Við sjóþroska hjá löxum hafa rannsóknir sýnt að styrkur vaxtarhormóns í blóðinu hækkar jafnhliða því að fjöldi og virkni þessara jónapumpa eykst til muna, jafnt í tálknum sem þörmum. Ef hins vegar lax gengur ekki til sjávar og verður um kyrrt í ánni gengur þessi breyting til baka en það á sér líklega stað í þeim tilfellum þegar laxar ganga í vötn í stað sjó.

Nýmyndun og virkni þessara jónapumpa er að mestu leyti undir stjórn vaxtarhormóns sem framleitt er í fremri hluta heiladinguls og hefur það hlutverk að framleiða hormón. Vaxtarhormónsfrumur geta geymt vaxtarhormón þar til þess er þörf og losa þá vaxtarhormón út í blóðið. Stjórnun á losn vaxtarhormóns er hamlandi, en þegar þörf er á vaxtarhormóni er hvetjandi stýrihormón losað úr aðlægum frumum í heiladingli og hömluninni létt af vaxtarhormónsfrumunum. Það er því nákvæmt samspil letjandi- og hvetjandi stýrihormóna að ræða.

Ljóslota, það er fjöldi klukkustund á sólarhring sem er birta, virðist vera það ytra áreiti sem mestu máli skiptir við framleiðslu vaxtarhormóns en einnig er hitastig mikilvægt þó ekki hafi verið sýnt fram á að hitastig eitt og sér hvetji til framleiðslu vaxtarhormóns. Rannsóknir sýna að ef laxinn upplifir ekki stutta ljóslotu, líkt og er á á dimmum vetrum áður en dag fer að lengja með lengri ljóslotum þá kemur ekki þessi aukning í styrk vaxtarhormóns fram sem leiðir af sér síðbúinn sjóþroska eða jafnvel engan sjóþroska. Þessi kenning hefur verið sannreynd með því að hafa laxa í stöðugu ljósi yfir veturinn og hefur þá engin aukning átt sér stað í losun vaxtarhormóns um vorið. Ef laxinn hins vegar upplifir stutta ljóslotu og jafna aukningu í ljóslotu að vori þá fer þetta ferli af stað; aukin framleiðsla á vaxtarhormóni, aukin losun vaxtarhormóns út í blóðið ásamt því að fiskurinn skiptir um útlit og fer í silfurgljáandi sjóbúning tilbúinn til að ganga til sjávar.

Sjóþroski laxa á sér stað þegar þeir eru í ferskvatni og því eykst hættan á að tapa jónum úr líkamanum þar sem jónapumpum fjölgar og þær verðar virkari. Þetta vandamál er leyst með aukinni framleiðslu og losun á hormóni sem nefnist prólaktín.

Prólaktín er náskylt vaxtarhormóni en hefur andstæð áhrif á virkni jónapumpa sem kemur í veg fyrir að virkni þeirra verði of mikil þegar lax er ennþá í ferskvatni. Það er því samspil þessara tveggja hormóna sem stýrir sjóþroska laxa annarsvegar (vaxtarhormón) og aðlögun að lífi í ferskvatni hinsvegar (prólaktín). Þegar lax hefur dvalið í sjó og gerir sig líklegan til að ganga upp í ár á ný, eykst framleiðsla á prólaktíni og virkni jónapumpa minnkar og þeim fækkar.

         

Að toppa of snemma - ekki bara vandamál hjá rúsínupúngum.

Það var alþekkt í "draumalöndum" Steingríms Joð að íþróttamenn pumpuðu í sig allskyns lyfjan og ólyfjan til að efla þrek og bæta árangur. Og þar sem eftirliti var ábótavant þá auðvitað komst þetta aldrei upp - þrátt fyrir að konur væru skeggjaðar og karlar með rúsínupúng - líkt og ónefndur læknir fyrir norðan orðaði svo skemmtilega og fékk bágt fyrir. En það er önnur saga.

Svo féll járntjaldið - og eftirlitið batnaði. Þá fór nú að kárna gamanið hjá skeggjuðu konunum og getulausu körlunum. Einn af öðrum hurfu þeir af sjónarsviðinu - bæði íþróttamennirnir og hrossalæknarnir sem sáu um sprauturnar - sem betur fer. Að vísu var auðvitað einn og einn sem komst í gegn - ekki geta allir mígið í einu. Tækninni fleytti fram og ný efni - preparöt - komu fram - sum ætluð öðrum dýrategundum en mönnum - en hvað um það - enginn munur á hlaupandi rúsínupúng og veðhlaupahesti.

Og allt snérist þetta um að toppa á réttum tíma - þegar áhrifin voru sem mest.

Í pólítíkinni í dag má segja að svipað sé uppi á teningnum - það er að toppa á réttum tíma - láta ekki hanka sig of snemma - ná markmiðinu og svo má hitt koma á eftir. ´

Og þetta sýnist mér vera að gerast hjá þeim Vinstri-grænum  - ÞEIR ERU AÐ TOPPA OF SNEMMA - almenningur er að átta sig á því að það gengur auðvitað ekki að kjósa yfir sig einhverja austantjalds vinstri-stjórn - sem segir hvað má og hvað ekki - og hverjir mega og hverjir ekki. Nje, fjandinn hafi það. Ég held að Húsvíkingarnir vilji fá að ráða því hvort og hvernig orka og auðlindir í þeirra landi sé ráðstafað.

það er svo.

 


Að koma út úr skápnum í krummaskuðspirringi.

Datt í hug að setja inn nýjan pistil um lax. Svona til að ná úr mér krummaskuðspirringnum. Ég nefninlega ætlaði að skreppa í gufu - þessa sem í nágrannalöndum kallas "sauna" og þykir sjálfsagður hlutur  - enginn lúxus, bara normal þægindi. En ekki á Ísafirði. Það er nefninlega ekki bara það að í bænum sé einn saunaklefi - svona tréskápur með litlum ofni - nei málið er að þegar skápurinn á að vera opinn almennum karlpeningi - til að slappa af kófsveittur og nakinn eða í brók -þá þarf maður helst að hringja á undan sér til að starfsmennirnir muni eftir að ýta á "on" takkan. Líklegast stendur pé og a með bollu - svona skandínavíska. Og ég náttúrlega hringdi í kvöld til að kanna hvort að ekki væri opið - "jú ekkert mál, lokum klukkan níu" svaraði karlmannsrödd sem ég þekkti. Vörðurinn síkáti í Sundhöllinni - já höll - ekki laug heldur höll.

Ég tók sundbrók og handklæði og labbaði þessa 50 metra - jebb, bý rétt við höllina - lúxus. Skellti mér úr og í brókina - og inn í skápinn fór ég - eithvað svo tilbúinn til að svitna - mása og stynja af ánægju. EN - ískuldi streymdi á móti mér - ekki þessi þægilegi sauna ylur sem er svo góður á lyktina - jújú, saunað var opið - bara slökkt!!

Ja, hann var ekki hýr maðurinn sem kom út úr þessum skáp - nei hann var hundfúll. Já það kom yfir mig krummaskuðspirringur - hvurn andskotann er maður að gera hérna - maður kemur ekki einu sinni hýr út úr skápnum.

já það er vandlifað. Nú verð ég að horfa á björtu hliðarnar - fyrst ég fæ ekki að fækka fötum og koma hýr og sveittur út úr skápnum fer ég  bara í bíó. Nei alveg rétt - það er ekkert bíó á Ísafirði í kvöld...eða? ætti ég að hringja...?

Æi ég geymi laxinn - nokkrir reyndar búnir að ráðleggja mér að fara aftur í hundana. Ætli kvöldið í kvöld sé ekki bara farið i hundana - mér sýnist það.

úff.


LAXINN: GREIN I.

LAXINN OG LÍFEÐLISFRÆÐIN SEM STJÓRNAR LÍFSFERLINUM. 

Atlantshafslaxinn hefur ávallt vakið áhuga fólks og ófáar eru sögurnar af laxveiðiferðum þegar “sá stóri” slapp. Ástæða þessa áhuga felst etv. í því hversu tignarlegur fiskur laxinn er þegar hann á ferð sinni upp árnar til hrygningar lætur fátt stoppa sig og stekkur upp flúðir og fossa.

Vísindamenn hafa heillast af laxinum sökum þess flókna lífsferil sem laxinn lifir og gífurlegrar aðlögunarhæfni að lífi jafnt í sjó og fersku vatni. Atferli laxins, að færa sig úr ánni í sjó, ferðast um langan veg áður en að hann leytar uppi fæðingará sína til að hrygna sem kynþroska fiskur hefur lengi verið mönnum umhugsunar og rannsóknarefni.

Í nokkrum pistlum verður fjallað einstök atriði í lífsferli laxfiska og reynt að svara hinum ýmsu spurningum sem vakna þegar líf þessa merkilega fisks er skoðað. Fyrsti pistillinn fjallar um lífsferil laxins en síðan verður í nokkrum pistlum þar á eftir farið nánar í einstaka lífeðlisfræðilega þætti er skipta veigamiklu máli í lífsferli laxanna.

  LAXFISKAR – YFIRLIT YFIR LÍFSFERIL.  Laxfiskar eru forn fylking beinfiska (latneskt heiti er Protacanthoptergii) sem talið að hafi myndast fyrir um 180 milljón árum og tilheyrir laxfiskaættin (Salmonidea) henni. Laxfiskaættin skiptist í þrjár undirættir, mallar (Thymallinae), karpafiskar (Corigoninae) og laxfiskar (salmoniae). Til laxfiska teljast fimm ættkvíslir, þ.m.t. Atlantshafslax, nokkrar tegundir af Kyrrahafslaxi, nokkrar tegundir Urriða og Bleikju.

Helsta búsvæði laxfiska er á norðlægum slóðum. Þó er einnig að finna laxfiska á suðlægum slóðum sem líklega hafa verið innfluttir af mönnum en sloppið úr haldi og náð að fjölga sér í náttúrunni.

Laxinn eyðir ýmist allri ævinni í ferskvatni eða hluta í ferskvatni og hluta í sjó.

Þar sem laxinn eyðir allri ævinni í ferskvatni verða oft stór vötn í hlutverki sjávar og ganga fiskarnir í  þær ár sem í vötnin renna.

Líklegt þykir að laxfiskar eigi uppruna sinn í ferskvatni þar sem þeir leita upp í ferskvatn til að hrygna og jafnframt sú staðreynd að hrognin þola ekki seltu.

Við kynþroska á sér stað útlitsbreyting hjá laxinum, frá silfurgljáandi áferð í litríkan riðabúning og er það merki um að laxinn sé að verða tilbúinn til að ganga upp í heimaá sína til hrygningar, sem yfirleitt á sér stað seint á haustin. Hængarnir koma fyrr á hrygningarsvæðin en hrygnurnar sem lenda inná þeim svæðum sem hængarnir hafa helgað sér. Þar grafa hrygnurnar holur og gjóta eggjum sínum, atferli sem hrygnur geta endurtekið nokkrum sinnum. Hængarnir sprauta síðan sviljum yfir hrognin áður en þau eru hulin möl á árbotninum. Því er staðarval fyrir got mjög mikilvægt til að tryggja afkomu hrognanna. Á þessum tíma étur laxinn ekkert og er því af skiljanlegum ástæðum mikið um afföll. Þeir fiskar sem lifa af til vors ganga þá niður til sjávar á ný og dvelja í sjó yfir sumarið, eða jafnvel lengur, áður en þeir ganga upp í árnar á ný til að hrygna.

Hrognin eru grafin í möl á árbotninum yfir veturinn og klekjast eftir 6-8 mánuði og er klak háð hitastigi árinnar (um 400 daggráður þarf til klaksins). Fyrst eftir klak kallast seiðin kviðpokaseiði, eru um 2,5 sm að lengd og dvelja niðurgrafin í mölinni á árbotninum þar til forðanæringin er á þrotum og laxarnir verða að finna sér fæðu. Fyrsta sumarið tvöfalda seiðin líkamslengd sína og dvelja í ánni allt að 4 árum, algengast er 3 – 4 ár en 2 – 8  ár er einnig þekkt, eða þar til að þau hafa náð göngustærð sem er á bilinu 12-18 sm. Í Kálfá, þverá Þjórsár hafa rannsóknir sýnt að laxagönguseiði eru á bilinu 10 – 16 cm. Þegar sá tími rennur upp sem seiðin fara að ganga til sjávar hafa þau tekið miklum breytingum, bæði innra sem ytra. Þegar þessir ungu laxar hafa náð til sjávar fara þeir að vaxa hratt og þeir hundraðfaldað þyngd sína á einu ári í sjó ásamt því að útlitið breytist og þeir fá silfurgljáandi áferð (göngubúningur). 

Afföll í sjó eru hinsvegar mikil enda lífsbaráttan hörð og þegar þau skila sér uppí árnar á ný er talið einungis á bilinu 1-30% nái til baka. Í ánum taka svo veiðimenn við og fækkar það ennfrekar þeim löxum sem ná að hrygna á komandi hausti.

Því lengur sem laxar dvelja í sjó þeim mun stærri verða þeir og er þar Grímseyjarlaxinn etv. þekktastur. En lífsferill hans var á þá vegu að hann mun hafa dvalið fjögur ár í ferskvatni, tvö ár í sjó og hrygndi eftir það, gekk til sjávar og dvaldi þar í tvö ár til viðbótar áður en hann hrygndi á ný og svo á annað ár í viðbót í sjó. Þetta er uppskrift að risalaxi stangveiðimannsins!!   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband