Grískur guð í speglinum hjá mér!

Ég fékk bréf um daginn frá gamalli skólasystur - hún var að minna mig á að nú væru 20 ár frá því að við útskrifuðumst frá Verkmenntaskólanum á Akureyri - 20 ár - já það þurfti svo sannarlega að minna mig á það - enda held ég mér með eindæmum vel og líður oft eins og ég hafi verið að útskrifast í fyrra vor - í það minnsta þurfti ég að skoða passann til að minna mig hvað ég er orðinn gamall - eða eldri.

En auðvitað er því öðruvísi farið með skólasystkin mín - þau eru líklegast flest farin að láta á sjá - það geta ekki allir haldið sér í formi - verið eins og grískur guð. Nje, tæpast. En þetta er bara hluti af lífinu - að eldast - og sumir eldast bara mun hægar en aðrir - ég er einn af þeim. Er lygilega ungur á sál og sérstaklega líkama. Varla nokkur aukakíló nema bara svona rétt hér og þar - svona bara til að undirstrika mig og skerpa línurnar.

Og úthaldið - það er á sama "level" og það var þegar maður var upp á sitt besta með KA í fótboltanum - bara mjög svipað - var til að mynda með strákunum mínum tveim í fótbolta á laugardaginn - í um 10 mín og ég finn ekkert rosalega fyrir strengjum í dag - bara rétt í fótum og baki - já og í annarri öxlinn og niður hendina - já og svo skringilega líka í hársverðinum. Já svona getur maður haldið sér ótrúlega vel - ég nota sömu fótboltaskóna og þá  - að vísu hafa buxurnar og bolurinn auðvitað hlaupið - enda margþvegið  - en ég er í sömu skóstærð sem segir sína sögu - jahá.

Og af því að maður er Arsenal maður þá skellti ég mér í treyju merktri Henry - en það er alltaf verið að plata inná mann óvönduðum vörum í útlöndum - þegar ég var kominn í treyjuna þá sprungu stafirnir á bakinu og það stóð eiginlega bara "enr" á bakinu - Háið og Yið voru svo teigðir að maður sá ekkert hvað átti að standa - en það skiptir auðvitað engu máli - Henry er franskur og Háið er ekkert notað í framburðinum - mátti því allveg missa sín.

Já það verður spennandi að koma til Akureyrar og brosa að liðinu - þessum sem eru búin að eldast um 20 ár frá því að við útskrifuðumst - og til að svekkja liðið þá ætla ég að mæta í gráu jakkafötunum með svarta lakkrísbindið sem ég klæddist í útskriftinni - finn reyndar ekki skóna - allt þetta bara til að djóka í þeim - þetta er inni í skáp og ég hef verið að bíða eftir rétta tækifærinu - og nú er það komið. Djöfull verð ég flottur - nokkurn veginn viss um að konan fer að nöldra út af þessu - bara af því að hún er að drepast úr öfundsýki yfir því hvað ég held mér vel! - já svo mikið er víst.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Gunnarsson

Þorsteinn Gunnarsson, 23.4.2007 kl. 00:47

2 Smámynd: Sigfús Sigurþórsson.

Já þú ert einn af þeim, asskoti vildi ég geta sagt það sama, og þora að byrta það.

Sigfús Sigurþórsson., 23.4.2007 kl. 13:02

3 Smámynd: Skafti Elíasson

Já einusinni moli alltaf moli !

Skafti Elíasson, 23.4.2007 kl. 20:59

4 identicon

Ellin herðir átök sín
á því sé ég litinn.
Fótbolta-ensku fötin þín
fara að verða slitin.

Hallgrímur Óskarsson (IP-tala skráð) 28.4.2007 kl. 21:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband