Færsluflokkur: Bloggar

Það sagði við mig kona...

.....að hún gæfi kettinum sínum þurrmat vegna þess að þá lyktaði minna úr kattarsandinum.

Þetta er um margt rétt.

En það sem skiptir öllu máli er að fóðrinu séu auðmeltanleg prótein. Innihald kattafóðurs er því miður mjög misjafnt og á stundum gjörsamlega ómögulegt að gera sér á nokkurn hátt grein fyrir því hve mikið þarf að gefa kisu af viðkomandi fóðri.

Einu getur þú treyst - og það er að kattafóðrið frá Murr er unnið úr besta fáanlega hráefni - þ.e. kjöti - sem inniheldur hárrétta samsetningu próteina og fitu.

Og þess vegna meltir kisa þessi prótein fullkomlega - og lyktin minnkar - ásamt því að kisa mun fá glansandi fínan feld!

  


Að selja vatn sem fóður - mikilvægi þess að láta ekki plata sig!

Ég hitti mann í dag sem var að koma úr Bónus. Hann var ákaflega ánægður með að sjá Murr í hillum verslana Bónus.

En eitt fannst honum skrítið - og það var að sjá að Murr væri með hæsta kílóverð af blautfóðri í pokum.

Ég var sammála því að við værum með hæsta kílóverð miðað við pakkningu.

EN hinsvegar yrði það að vera ljóst að við værum ekki að rukka fyrir vatnið í fóðrinu - því að þegar mínusað væri vatnsinnihaldið og aðeins skoðuð hin raunverulega næring - þ.e. þurrefnin (prótein, fita og kolvetni) þá værum við með sambærilegt verð og ódýrasta fóðrið í Bónus.

Svo væri reyndar hægt að skoða þetta frá enn öðru sjónarhorni - og það er að köttur sem vegur 4 kíló þarf 2 poka af murr - sem þýðir undir 200 krónum fyrir dagskammtinn. En ef sami köttur keypti það sem hefur lægsta kílóverðið þá þyrfti hann 4 poka - og þeir kosta vel yfir 200 krónur!!

VIÐ HJÁ MURR LEGGJUM METNAÐ OKKAR Í AÐ FRAMLEIÐA FÓÐUR MEÐ ÞARFIR KATTARINS Í HUGA - Á ÍSLANDI ER HEIMSINS BESTA VATN - OG ÞAÐ ÓKEYPIS - HVÍ ÞÁ AÐ FLYTJA ÞAÐ INN OG SELJA SEM FÓÐUR?


Kreppan er komin í gufuna fyrir Vestan.

Fátt þykir mér yndislegra en að skella mér í gufu eftir langan vinnudag. Það er bara eitthvað svo afslappandi og róandi. Nú er maður öruggari með sig eftir að speglarnir minnkuðu í sturtunni og enginn sér mann lengur - og já, maður sem er í eins og grískur guð í sumarfríi hann vekur auðvitað eftirtekt.

En ástandið er ekki gott. Nei það er alls ekki gott. Það er svo slæmt að þeir fjarlægðu ekki speglana alveg - heldur minnkuðu þá. Já og það er svo slæmt að Mummi Þór kom með sinn eigin ofn í gufuna!

Bærinn skaffar semsagt lítið herbergi með viðarklæðningu og bekkjum - vatn og gamla ausu. En ofninn bilaði og því hefði orðið kalt í klefanum ef hann Mummi minn hefði nú ekki barasta komið með ofninn með sér.

Og fyrir þetta tók bærinn gjald - og Mummi blessaður fékk ekki krónu.....

Þetta er farið að minna mann á gamla daga þegar sá sem átti boltann réð öllu. Spurning hvort að Mummi hendi manni út ef maður er ekki sammála honum?

 

Tja...það myndi ég gera.....


Þetta er alþekkt í gæludýrafóðrinu! Hefur þú lesið hvað stendur á umbúðunum? Við hjá MURR vitum nákvæmlega hvað kötturinn þinn þarf!

Það er nefnilega svo að verðið á pakkningunni segir ekki nema brot af sögunni. Mjög oft er það svo að margfalda þarf með fjórum til að fá verð á dagskammti fyrir meðalköttinn (sem er 4 kg).

Hjá Murr höfum við farið þá leið að setja saman fóðrið þannig að tvær pakkningar eru nákvæmur dagskammtur fyrir meðalköttinn. Gott er þó að muna að hér er átt við kött sem er í "eðlilegum" holdum - og því er Murr mjög gott til að ná fram góðu holdafari á kisu.

Við notum ennfremur aðeins prótein sem kisa getur nýtt sér - sem leiðir af sér betri meltingarstarfsemi og sem skilar sér í minni lykt úr sandkassanum.

Lestu vel aftan á umbúðirnar næst þegar þú ferð í búðina - og mundu að kanna hve margar pakkningar þarf til að uppfylla dagskammtinn!!

bakhliðframhlid


mbl.is Mikill verðmunur í verslunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Válegir atburðir fyrir Vestan - allir liggja undir grun.

Fyrst var það sjóðvélin. Í skjóli nætur braust hann inn - þjófurinn sá. Í gegnum stálhurðina komst hann - braut upp lás sem hafði dugað um árabil. Hann vissi hvar Bragi geymdi gríðarlega fjármuni í gömlum og beygluðum vindlakassa - inni á kontór. Um það var Bragi viss. Atvinnumenn hér að verki og ekki ólíklegt að sjálf mafían stjórni atgerðum.

Og nú var það Maggi Jóns. Á bjartri sumarnótt lá hann við bryggju - tilbúinn til veiða og karlarnir búnir að gera klárt. Enginn, enginn átti von á slíkri uppákomu. Um vor. Á bjartri sumarnóttu. Allt tekið sem verðmæti var í. Önglar. Línur. Veiðarfæri. Bragi og Elli Bússa voru búnir að eyða ófáum stundum í að gera klárt. Eyða kvöldum og helgum um borð í Magga Jóns við að gera klárt. Allt farið. Líklegast má teljast hrein heppni að þeir hafi ekki verið um borð. Þeir hefðu verið teknir. Fluttir af mafíunni til fjarlægra landa og krafist lausnargjalds. Tveir fyrir einn hefði samningurinn hljóðað uppá - enda báðir nokkuð við aldur - og kreppa í heiminum.

Bíræfnir þessir þjófar. Og svo leggjast þeir á eina sort líkt og illa upp alinn veislugestur í fermingaveislu. Stela bara frá Braga.

En kannski er það ekki skrítið. Allir vita jú að Bragi er gull af manni - ríkur mjög.

En hver er þessi þjófur?

Allir liggja undir grun. Allir. Og nú er stemningin þung á kaffistofunni. Menn horfa í gaupnir sér - enginn þorir að horfa framan í Braga sem pírir augun svo manni svíður undan.

Er það tilviljun að Óli frá Gjögri er búinn að fara norður í tvígang síðan þetta gerðist. Og nú í seinn skiptið að gera klárt! ´

Í það minnsta er Magnús ekki í vafa. Helvítið hann Óli frá Gjögri. Og svo botnar hann "hann gerði það - þó ég hafi ekki hugmynd um það".

Já - það eru válegir atburðir að eiga sér stað í bæ fyrir vestan.


Murr kattamatur er kominn í verslanir Bónus - um allt land!

Loksins segja sumir - í það minnsta við sem að þessu stöndum. En í dag ætti að vera hægt að nálgast Murr kattamatinn í öllum verslunum Bónus.

Ennfremur er hægt að kaupa Murr í Fjarðarkaupum, Kaupfélagi Steingrímsfjarðar á Hólmavík og Fjölvali á Patreksfirði.

Og enginn ætti að verða svikinn af gæðum vörunnar enda er kattamaturinn unninn úr besta fáanlega hráefni - Íslensku hráefni!

Prufið endilega að gefa kettinum ykkar Murr kattamat!

myndir fyrri vef 3


Afi á skódanum - við fyrir utan kirkjuna - spennan var magnþrungin - nær hann beygjunni....

Nú styttist óðfluga í að fóstursonurinn fermist. Og það er kostulegt að fylgjast með þeim undirbúningi - ekki bara þetta með að skyndilega verða trúaðri en Móses heitinn heldur hitt veraldlega - fötin og það allt.

Ekki minnist ég þess að ég hafi neitt sérstaklega verið upptekinn af því í hvernig fötum ég væri. Ég lét það eftir mömmu að velja - mátaði bara og var ánægður. Ekki ætla ég neitt sérstaklega að ljóstra uppi um í hverju ég var - en buxurnar voru terlínbuxur og ég var í köflóttu vesti. Stolnu köflóttu vesti. Já - ég skrifaði það. Það var nefnilega svo að við fórum á markað ég og mamma og þar var þetta fína vesti - nánast ókeypis og við að flýta okkur. Mamma greip það og við biðum og biðum. En það var svo mikið að gera og vestið svo ódýrt að mamma sagðist bara koma við seinna og borga. Sem ég held að hún hafi aldrei gert. Amen.

Svo að nú átti að ferma mig berandi syndina utan á mér. Köflótta synd úr Kaupfélaginu. Ég held nú samt að vestis málið mikla hafi riðið baggamuninn um gjaldþrot KEA. Ég vona ekki  - guð hjálpi mér.

En svo rann dagurinn upp og sól skein í heiði. Í það minnsta í minningunni. Búið var auðvitað að æfa okkur og allir vissir um hvenær átti að segja hvað. Við vorum mætt fjölskyldan tímanlega fyrir utan afa og ömmu. Afi fór nefnilega ekki til kirkju nema á sínum skóda. Það var líka gott fyrir skódann að vera í nánd við almættið á meðan á athöfn stóð. Losa um stíflur og svoleiðis.

Í þá daga var keyrt að kirkjunni þar sem safnaðarheimilið stendur núna - semsagt hægt að koma niður Eyrarlandsveginn og beint inn á stæðið. Og í því sem stöndum ásamt öllum hinum fermingarbörnunum og fjölskyldum þeirra baka til við kirkjuna þá sjáum við hvar skódinn birtist í Eyrarlandsveginum. Og niður götuna kom hann brunandi - jók ferðina eftir því sem nær dró og mér er minnisstæður svipurinn á ömmu gömlu í framsætinu. Enginn hátíðarsvipur - meira svona skelfingarsvipur. Og það fór kurr um hópinn þegar fólk gerði sér grein fyrir að sá gamli var á leiðinni. En á síðustu stundu hætti afi við að sveigja inn á bílastæðið og hélt áfram á fullri ferð sem leið lá framhjá kirkjunni og upp kaupfélagsgilið og hvarf upp með sundlauginni. Horfinn.

Við litum hvert á annað í þögninni. Úff, stundi pabbi og hristi hausinn. Þá kallar einhver "hei, hann kemur".... mér varð litið upp Eyrarlandsveginn - og viti menn þar kom sá gamli á skódanum. Og ný atrenna var gerð. Við stóðum sem frosin. Hann kom nær og eins og fyrr jók hann ferðina til muna. Og í því sem við grípum um höfuð okkar og byrjum að ókyrrast tekur hann sveiginn sem fyrr og hverfur sömu leið.

Ja tíminn leið og athöfnin átti að fara að byrja. Og afi ennþá ósýnilegur. En viti menn - afi birtist í þriðju tilraun - brunandi niður Eyrarlandsveginn og í þetta sinn náði hann að hægja á sér - sveigði inn á stæði og parkeraði við kirkjuna - steig út og dæsti. Gekk sem leið lá með ömmu inn og settist. Ekki orð var rætt um þetta.

Já fermingin er eftirminnileg.


Byggjum nýtt Ísland á lýðræðislegum grunni. Þröngsýni er engum til framdráttar.

Ég fagna því þegar talað er um jöfnuð og kærleika í þjóðfélaginu. Ég fagna því að standa eigi vörð um grunnstoðir þjóðfélagsins og gera öllum kleift að lifa mannsæmandi lífi á Íslandi. Ég fagna því að náttúran eigi að njóta vafans. Ég fagna því að það eigi að standa vörð um grunn atvinnuvegina - sem eru sjávarútvegur og landbúnaður. Og ég fagna því að stjórnlaus græðgi eigi ekki lengur lífs von.

EN, ég hef áhyggjur af fyrirframákveðnum skoðunum sem lýsa þröngsýni - áhugaleysi og smáborgaralegum hroka. En þar á ég við um yfirlýsingu nýs Landbúnaðar-og Sjávarútvegsráðherra og hans flokkfélaga. Mér finnst það í reynd undarlegt að ekki skuli borin meiri virðing fyrir lýðræðinu - að ekki verið svo búið um hnútana að fólkið sem byggir þetta land skuli fá að hafa um það að segja hvert við stefnum. Hér búa nefnilega ekki bara hálfvitar....

Þeir eru flestir flúnir til útlanda eftir bankahrunið.

Nei á Íslandi býr fólk. Fólk sem hefur fullan rétt á að fá upplýsingar sem ekki eru byggðar á getgátum

Ég fer fram á það við þetta ágæta fólk að fá að velja eftir minni sannfæringu. Stöndum vörð um lýðræðið - ekki koma í veg fyrir eðlilega umfjöllun um Evrópumálin. Gerum það líka með sjávarútvegs og landbúnaðarmálin.

Byggjum nýtt Ísland á sterkum grunni lýðræðis.


Róm var ekki byggð á hverjum degi - hvað þá seld!

Róm var ekki byggð á einum degi. Þetta ku hafa verið sagt um Rómarveldið hið forna - enda mikið ríki og átti sér langa sögu.

Svo víkur sögunni til Íslands. Þar komu fram miklir spekúlantar sem minntust Rómar þó svo að þá minnti að Róm hefði verið seld á hverjum degi. Og hófst þá svindlið og svínaríið - því þeir töldu að með lánum væri hægt að byggja stórveldi - að peningar yrðu til úr engu og því væri leikurinn auðveldur.

Margir tóku þátt í leiknum enda Íslendingar með eindæmum grunnhyggnir á köflum - nýkomnir uppúr jörðinni - jú við skulum muna að á meðan byggðar voru hallir í löndunum í kring þá höfðust Íslendingar við í moldarkofum.

Og nú hefur þessum kónum tekist að koma okkur vel áleiðis í moldarkofana og heiðarbýlin á ný. Til að kóróna nú smekkleysuna þá sendir björgólfur með litlu béi frá sér blaðsnepil sem hann kallar yfirlýsingu um eignastöðu .... dulítið merkingarlaust skjal um allt sem hann er búinn að tapa - en hafði þó tekið að láni áður.

Og ekki vantar nú hrokann og fádæma heimskuna í þann mann - segist vera ungur að árum og horfa björtum augum til framtíðar. Ætla að bera ábyrgð á sínum gjörðum - vera víti til varnaðar.

(nú fæ ég mér kalt vatn að drekka og jesúa mig pínulítið enda maður ótrúlegt fyrirbæri).

Og til að kóróna allt þá er hann í persónulegri ábyrgð fyrir 58 þúsund milljónum. FIMMTÍUOGÁTTAÞÚSUND.

Ekki er til tafla - eða töflur - sprauta eða sprautur - sem geta hjálpað þessum manni. Ef væri hann skepna yrði honum samstundis lógað.

Er nú ekki kominn tími til að gera eitthvað í málum þessara manna. Nei - því miður er meiri áhugi hjá bönkum að elta fimm barna föður sem neitar að borga skuldir þessara kóna.

Og björgólfur - þú er ekki ungur - þú ert gamall - fúinn og rúinn trausti og trúnaði.

Fluttu nú til hans magnúsar í rússlandi og bruggaðu nýjan bjór.

 

 


Að neyta að borga getur verið lögbrot....segir forsætisráðherra.

En auðvitað skilur maður alla þá sem svona hugsa. Því búið er að taka þjóðina gjörsamlega í afturendann og vaða yfir okkur í þokkabót á skítugum skónum.

Og svo veit maður af þeim sem mesta ábyrgðina búandi í lúxus í útlöndum eða á ofurlaunaeftirlaunasamningum.

Og hvað hefur gerst síða allt fór til helvítis. Nú svarið er einfalt. Ekkert. Vextir eru gjörsamlega fáránlegir og bankarnir senda út hótunarbréfin í sama takti og áður. Ekkert slegið af.

Eða jú - bílalánin getur maður fengið lengt og húsnæðislánin líka. En er það lausn? NEI.

Svo ef einhverju leyfist að tala um niðurfellingu skulda þá er það auðvitað ekki hægt - þrátt fyrir að öll hækkunin á skuldum sé engan vegin skuldaranum að kenna.

Já Íslenskt þjóðfélag er gjaldþrota - það sér hver maður. Og til á að kóróna allt saman þá kemur ekkert nema froðusnakk úr þingsölum alþingis - sem ég nenni ekki einu sinni að skrifa með stórum staf - svo lítið álit hef ég á þessum plöntum sem margar hverjar virðast rótfastar þar.

Ég held að þessi svokölluðu stjórnvöld ættu að reyna að fara að gera eitthvað af viti. Formenn flokkana búnir að draga okkur á asnaeyrunum við einhverskonar stjórnarmyndun - sem er auðvitað ekkert annað en að rífast um hver gerir hvað og hver fær hvað.

Vil minna þau á að enginn munur er á kúk og skít.

Látið verkin tala og hættið þessu endalausa þvaðri.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband