Færsluflokkur: Bloggar
Fimmtudagur, 26. júlí 2007
Andrés önd á Gardemoen í Oslo.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 26. júlí 2007
Tryggingafélög - peningaplokk eða öryggi?
Tryggingafélög hafa komið við sögu hjá mér í dag.
Fyrst hringir móðir mín í mig og segir að hún hafi loks heyrt frá tryggingafélaginu sínu (Verði á Akureyri) vegna tjóns sem hún og faðir minn lentu í 29.Júní sl. og sem næstum varð þeim og fleirum að aldurtila - að nú væri málið í hendi Sjóvár þar sem tjónvaldur (bjálfi frá Hólmavík sem reyndi stórhættulegan framúrakstur á flutningabíl með tengivagn) væri tryggður þar. Þau eiga semsagt að bíða lengur og líklegast að biðja til guðs að tryggingafélögin greiði þeim umsamdar bætur. Já það er magnað þegar tjónþoli er látinn bíða og bíða...og bíða. Nú ef Sjóvá neitar að borga þá teigist líklegast á þessum annars alltof langa lopa.
Ég spyr því - hversvegna er fólki ekki greiddar út bætur í stað þess að láta það bíða á meðan tryggingafélög karpa um hver eigi að bera skaðann - hvað kemur það tjónþolanum við? Ekki gerðu þau neinn samning um annað en að greiða iðgjald til Varðar..... í það minnsta dregst aldrei að senda út reikninga - rukkanir og þá stendur alveg klárt hver á að borga og hvenær!!
Nú seinni kynni mín af tryggingafélögum í dag var þegar ég ræddi við eiginkonu vinar míns sem liggur alvarlega veikur af alvarlegu krabbameini í höfði. Ég spurði hana út í hvort hann væri með sjúkdómstryggingar eða líftryggingu - nú bara af því að mér finnst varla líða sú vika sem manni er talið trú um ágæti slíkra trygginga.Og svarið var einfalt - NEI. Af hverju spyr ég - jú hann lenti í alvarlegu slysi fyrir mörgum árum og slasaðist á baki - jú og svo reykir hann. Semsagt hann er ekki hæfur í tryggingakerfið..... Og nú liggur hann sjúkur af krabbameini í höfði sem hvorki er hægt að rekja til bakáverka sem hann hlaut hér um árið né reykinga!
Ég spyr því - er þetta ekki eitthvað skrítið..... eru veikindi eða dauðsföll ekki metin út frá orsökum eða eru tryggingafélögin að "lágmarka skaðann" sem þau verða fyrir þegar greiða þarf út tryggingar..... Er ekki eitthvað að þessu kerfi - hjá þessum félögum sem að mér skilst liggja á milljörðum og milljörðum ofan.
Já það er eitthvað meiriháttar að - eða........?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 25. júlí 2007
Þríþraut fyrir Vestan - táknræn barátta byggðastefnu.
Á síðum bb.is má lesa að tveir vaskir menn ætla að mótmæla dapurri aðstöðu til sundiðkunar á Ísafirði og er það vel.
Ég tel að hér verði um fystu útgáfu af nýrri gerð þríþrautar - svona af því að mikil gróska er í allskyns þrekþrautum hér Vestra - hvort sem um íþróttir eða atvinnumál er að ræða.
Nú, þessi þríþraut byggir eins og nafnið gefur til kynna á þremur þrekraunum keppenda og ætla mennirnir ungu að byrja keppnina á því að "synda í hægðum sínum og annarra" en mér skilst að þeir muni ætla að þvera pollinn og hefja sundið við klóakúttakið við Menntaskólann - og til að áhorfendur geti ekki haft áhrif á hraða sundmannanna þá eru íbúar efri bæjar beðnir að sturta ekki niður úr klósettum á sundtímanum - nú til að skapa ekki ólöglegt meðstreymi. Annar hluti þríþrautarinnar verður væntanlega þegar keppendur "ganga í hægðum sínum" um bæinn og skoða starfsemi rækjuvinnslunnar og Marel á Ísafirði - ásamt fleiri ummerkjum um mikla og öfluga uppbyggingu á landsbyggðinni. Þriðji hlutinn verður síðan þegar keppendur munu grípa til fáka sinna og hjakka í sama farinu - ekki ólíkt byggðastefnu stjórnvalda.
Já ég held að þetta geti orði gríðarlega spennandi keppni og er óskandi að í hita leiksins fari menn ekki út í óþarfa skítkast né ati andstæðinginn (s)auri.
Svo er nú það og ég bíð úrslitanna spenntur - er eiginlega að "skíta" á mig úr spenningi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 24. júlí 2007
Vinur.
Á lífsleiðinni kynnist maður mörgum. Oft er það svo að þeir sem maður kynnist fyrst og eyðir uppvextinum í samneiti við eru þeir sem maður kallar bestu vini sína. Það er auðvitað í mörgum tilfellum rétt. En á stundum kynnist maður einhverjum sem maður tengir vel við og úr verður vinskapur sem þrátt fyrir tiltölulega stutt kynni er djúpstæður.
Kristján vinur minn er slíkur vinur. Við kynntumst hér fyrir Vestan og höfum haft mikil samskipti æ síðan. Það eru ekki margir sem eru gæddir þeim hæfileika að láta sig aðra varða - hag þeirra og heilsu. Kristján er einn af þeim. Af þeim sökum finnst mér gott að geta kallað hann vin minn. Vin sem hefur reynst mér vel.
Mig langar að deila með ykkur einstökum manni sem glímir við erfiðleika sem maður vill engum manni þurfa að upplifa - og það gerir hann af æðruleysi og einstökum lífsvilja - enda einstakur maður.
Ég hef í nokkrum bloggum minnst á að hann Kristján sem greindist fyrir að verða ári síðan með illkynja heilaæxli. Á þeim tíma sem liðinn er hefur Kristján vinur minn gengið í gegnum erfiðari meðferðir og aðgerðir en nokkur á að þurfa að gera - aldrei. Sá styrkur og það æðruleysi sem Kristján hefur sýnt á þessum erfiðu tímum er mér óskiljanlegt.
Aldrei bíður hann svo góðan daginn án þess að spyrja um leið hvernig ég og fjölskyldan höfum það - aldrei kvartar hann þó á stundum sé heilsan svo slæm að hann getur vart reist höfuð frá kodda - óskapleg þreyta og sjónin léleg. Aldrei. Kristján er bara ekki þannig gerður - fyrir honum er það mikilvægt að fólk hafi það gott - að ekkert ami að og mér er það minnisstætt nú fyrir skemmstu er ég sat á sjúkrabeði Kristjáns og hann sagði við mig "Tolli, ef það er eitthvað sem ég get gert fyrir þig láttu mig þá vita". Já svona er Kristján og ég er stoltur að þekkja hann.
Í dag keyrði ég hann á spítalann en honum fannst ómögulegt að vera að ræsa út sjúkrabíl - svo mikið vesen. Ég á ekki von á öðru en ég þurfi að keyra hann heim aftur - kannski ekki á morgun en vonandi fljótlega. Og það mun ég svo sannarlega gera með bros á vör því Kristján ætlar sér að kenna mér að kasta flugu - og ég verð að láta hann standa við það loforð!
Fyrir mér er Kristján holdgerfingur góðs vinar - vinar sem ég bið að fái að komast heim sem fyrst í faðm fjölskyldunnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Fimmtudagur, 5. júlí 2007
Í ljósblárri stuttermaskyrtu, drapplitum kakíbuxum og dönskum lakkskóm að skoða olíuhreinsistöðvar. Hópferð Vestfirskra sveitarstjórnarmanna.
Ég hef alltaf haft gaman af því þegar íslenskir sveitarstjórnarmenn fara í hópum út um heim að skoða. Óborganlegar ferðir sem auðvitað skila engu öðru en sólbrúnku, timburmönnum og dagpeningum í vasann.
Nú er hópurinn haldinn af stað - út í heim. Nú á að skoða olíuhreinsistöðvar - berja dýrðina með eigin augum - sannfærast af hreinleikanum og grænu svæðunum allt um kring. Allir í nýjum fötum - glansandi dönsku lakkskórnir virðast mattir samanborið við glæsilega strompa og glitrandi rör og pípur. Engin mengunarlykt nema kaupstaðarlyktin af sveitamönnunum sem hafa aldrei áður séð annað eins. Slá sér á lær og hvá. Sumt er auðvitað eins og heima - eða líkt og maðurinn sagði í sinni fyrstu ferð til útlanda "þetta er alveg eins og heima - bara öðruvísi".
Og ég spyr: Hverju á þessi ferð að skila? Mér vitanlega er enginn sérfræðingur með í ferðinni - enginn til að leggja faglegt mat á það sem fyrir augum ber - ENGINN.
Ég hef verið því fylgjandi að rannsaka þá möguleika að hefja slíka vinnslu hér - RANNSAKA. Það þýðir auðvitað ekki að ég ætli sjálfur að leigja mér spóluna með Steven Seagall þar sem hann berst við glæpona í olíuhreinsistöð í Alaska - nei það þýðir að fá til þess bæra einstaklinga - sem kunna að vega og meta - matreiða niðurstöður fyrir sveitarstjórnarmennina sem eru í þessum orðum skrifuðum í stuttermaskyrtum og kakíbuxum að skoða olíuhreinsistöðvar í útlöndum. Fá fram faglegt mat sem hægt er að vinna eftir. Ég veit að það er markmið þeirra sem kynntu þetta fyrir Vestfirðingum - þeir vilja vinna þetta fyrir opnum tjöldum.
Til að leggja okkar af mörkum þá höfðum við Ólína Þorvarðardóttir, sem sitjum í stjórn Vestfjarða akademíunnar, samband við fagaðila í olíuiðnaðinum í því markmiði að fá þá hingað til að ræða um málið - á ólhlutdrægan hátt. Niðurstaðan var sú að við vorum búin að fá jákvætt svar frá þessum aðilum - og svarið fylgir hér með.
Ég tel að í stað tilgangslausra ferða til útlanda - nokkuð sem er úrelt fyrirbæri og marklaust að mínum dómi þá væri nær að vera með opinn fund fyrir íbúa svæðisins - enda hefur bæjarstjórinn gefið út þá Hafnfirsku yfirlýsingu að um íbúakosningu verði að ræða. Nokkurskonar "Hafnafjarðaheilkenni" - guð forði mér frá því að taka óupplýstur ákvörðun af þessu mikilvægi.
Hér kemur afrit af tölvupósti frá Hafsteini Ágústssyni olíuverkfræðingi hjá Statoil:
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Mánudagur, 11. júní 2007
Fótboltaferð - ósanngjörn brottvísun Sölku af knattleikvangi.
Við áttum stórkostlega ferð um helgina. Eins og góðum ferðum ber byrjaði ferðin á því að reyna á þolrif bílstjóra og farþega - meta ógleðistuðul farþeganna. Í slíkri bílferð á sér samanþjöppun tilfinninga í lokuðu rými sem ekki má opna - í það minnsta á ferð - og alls ekki á ferð fyrir Vestan - þar sem vegir eru ennþá ómalbikaðir og vart annað en troðningar á stundum - allt myndi fyllast af ryki. Við ókum nefnilega sem leið lá suður í Brjánslæk - eftir kræklóttum og ósléttum slóða - yfir heiðar og uppá fjöll.
Ég var bílstjóri - dreng hnokkar og knattspyrnukappar tveir sátu í aftursæti og hundur í búri í farangursrýminu. Frúin í framsætinu - vopnuð þekkingu á réttu aksturslagi og leiðbeinandi mjög. Svo mjög að mér leið á tímabili sem hamri í hendi smiðs - hélt um stýrið og steig bensínið en fékk engu ráðið - frúin gall "beygðu hér" - "hægðu á þér þar" - setningar sem flestar voru snöggar - komu allt í einu og enduðu flestar á "guð minn góður" eða "hægðu á þér maður". En keyra sjálf vildi hún auðvitað ekki - nei ekki aldeilis - hún var að fara í frí og langaði að njóta útsýnisins - skoða landið. Mér fannst hún mest fylgjast með veginum - sá við hann og á honum ýmislegt sem ég veitti enga athygli - hættulegar beygjur sem ég kallaði aflíðandi - snarbratta og krókótta stíga. En svona er þetta bara - ekkert við því að gera fyrst við vorum komin af stað - ég bauð henni að verða eftir - fyrst á Flateyri svo á Hrafnseyri en hún þáði ekki boðið - sagði bara "hvað er þetta maður - ég er bara með leiðbeinandi skilaboð - ég er nú með í bílnum og kemur þetta við".
Bílstjórinn var því hvíldinni feginn þegar í Baldur var komið og svaf hrjótandi alla leið - að vísu í bíósalnum og átti hrotu-söngurinn ekki vel við rómantíska myndina sem sýnd var - drengirnir skömmuðust sín og breiddu jakka yfir höfuð þreytta bílstjórans - en það dempaði lítið sönginn.
Þegar komið var í Hólminn - þá var eins og maður væri að koma til annars lands - vegir malbikaðir - beinir og breiðir. Meira að segja frúin fækkaði athugasemdum niður í bara "leiðbeinandi aksturshraða" - og við ókum sem leið lá í Borgarnes.
Fyrri leikur 5.flokks BÍ var um kvöldið. Stemningin var magnþrungin - allir ætluðu að gera sitt besta. Foreldrarnir stóðu á hliðarlínunni - horfðu hver á sitt barn - sinn son - hvöttu og dáðust - og fengu sting fyrir hjartað þegar tæklingar voru harðar - bölvuðu dómaranum sem auðvitað var heimamaður - það bara skein af honum - hann dæmdi á strákana okkar - hefði allt eins getað verið í þeirra búning.
Of sein á leikinn komum við hjónin gangandi í glærum plast regnslám - svona eins og beint af hjólhýsastæðinu - vantaði bara sígarettu og bjór í höndina - sonurinn leit á okkur greyp fyrir andlit sér og dæsti - líklegast þreyttur eftir ferðina.
Og strákarnir stóðu sig eins og hetjur - voru yfir - voru á sigurbraut. Ég og frúin vorum ánægð - og Salka líka. Hitt liðið í fýlu - þoldi ekki álagið og okkur - en gátu ekkert gert. Í miðjum látunum snýr sér við maður - maður sem tilheyrði andstæðingunum - horfði á okkur - vissi ekki hvað hann gat gert til að skemma stemninguna - en hugsaði stíft - leitaði leiða. Segir svo snögglega "út af með hundinn" - ha, segi ég. "já, út af með hundinn - hann er bannaður". Er hundurinn bannaður spyr ég - af hverju? "Nú bara, hann er bara bannaður". Já nú átti að kenna Sölku um ófarirnar - það átti að negla hana líkt og þeir gerðu við aumingja DANANN um daginn sem hljóp inn á í leika við Svía - nema að Salka var edrú og hafði ekkert hlaupið inn á völlinn.
Ég mótmælti - sagði þetta brot á jafnréttisreglunni - að Salka væri eini hundurinn á svæðinu - að hún væri í minnihluta - væri nýbúin að skíta og því engin hætta. "Skiptir ekki máli" sagði kallinn - "hún gæti skitið á grasið" - Ekki séns sagði ég - hún væri nýbúin að skíta á gervigrasvellinum þeirra og því myndi hún ekkert skíta á grasvöllinn. Þá urðu þeir alveg sjóðandi vitlausir. Ég og Salka röltum í mestu rólegheitum út af leikvanginum. Okkar menn búnir að vinna leikinn. Okkur var skítsama. Salka hægði á sér og meig við hornfánann - leit við og tók létt spól líkt og hún gerir gjarnan eftir að hafa migið - eða skitið. Ekkert gat breytt því að strákarnir okkar unnu. Ekkert. Þetta var gott kvöld í Borgarnesi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 31. maí 2007
Kolólöglegur höfuðþvottur sem endar með ósköpum.
Ég lenti í hremmingum í morgun - alvarlegum hremmingum sem gætu ef ég reynist óheppinn haft í för með sér málaferli og þaðan af verra. Ég fór nefnilega í sturtu og braut allar reglur - sturtuupphengið og næstum því klósett skálina - komst við illan leik út af baðherberginu marinn á hendi og með sært stolt. Já það er óvíst hvort að ég sturti mig aftur - allsendis óvíst.
En þetta byrjaði allt þegar ég af gömlum vana ætlaði að sturta mig eldsnöggt áður en ég færi í vinnuna - nú svo að ekki væri ég óþveginn í vinnunni - væri meira svona hreinn sveinn.
Auðvitað hef ég farið margoft í sturtu - aleinn og án allrar hjálpar. Málið er ekki að fara í sturtuna sem slíka - það er ekkert mál að láta vatnið belja á sér og njóta - nei vandinn hefst þegar á að fara að löðra sig sápum og hreinsa sig upp - sjæna sig - þá kárnar gamanið.
Ég greyp flösku úr hillunni og hellti á hausinn - en ekkert gerðist - löðrið bara kom ekkert. Á flöskunni stóð eitthvað um klósett að mér sýndist - eitthvað au toilet - og mér leist ekki alveg á blikuna. Auðvitað var fullt af flöskum í hillunni - allar á útlensku og ómögulegt að átta sig á hvað væri ætlað sauðsvörtum almúgapilti að norðan - þetta var allt á frönsku að mér sýndist - og meira að segja ein flaskan hafði eitthvað með homma að gera því á henni stóð skýrum stöfum "homme" - mér fannst að mér vegið - að konan teldi mig vera veikan fyrir - nei ekki aldeilis. Ég leit ekki við flöskunni - hryllti við henni reyndar.
En á endanum ákvað ég að taka séns - það var nefnilega flaska í hillunni sem á stóð shampoo - þetta þekkti ég - en þegar ég var að fara að gusa því yfir mig þá sé ég mér til mikillar skelfingar að á flöskunni stendur "used by professionals" - þetta var sem sagt ekkert sjampó fyrir almenning - neibb - þetta var fyrir atvinnumenn í þvotti - löðurmeistara.
Klukkan var langt gengin í níu og ég var búinn að berjast um í sturtunni í að verða hálftíma - þetta gekk ekki lengur - hví í ósköpunum er ekki hægt að kaupa þvottaefni fyrir venjulegt fólk - ég bölvaði í hljóði - sem á stendur til dæmis "sápa til daglegra þvotta og sturtunnar" - ég tók sénsinn - helti yfir mig góðri slummu og löðrið lék um líkamann - en þá áttaði ég mig á að hugsanlega sæi einhver til mín - notandi á kolólöglegan hátt efni sem ekki var ætlað almenningi - það var nefnilega hálfdregið frá glugganum og forvitinn maður hefði getað kíkt inn - ef áhugi væri fyrir hendi. Ég tók þá því þá afdrifaríku ákvörðun að draga fyrir - sem ég hefði auðvitað ekkert átt að gera - allur löðrandi í sápu fyrir atvinnumenn.
Ég náttúrlega endastakkst út úr sturtunni - rann eftir gólfinu og skall með hausinn í dyrnar og sló hendinni í klósettið svo í söng. Sá ekki neitt fyrir sápu og fannst á tímabili ég vera komin til himna - allt hvítt og löðrandi. En í sturtuna hafði ég mig aftur - skolaði og kom mér í vinnuna - guð minn góður - það verður farið í Bónus í dag að kaupa almenningsþvottaefni til höfuðþvotta.
Og ég segi aldrei nokkrum manni frá þessum hremmingum mínum í sturtunni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fimmtudagur, 26. apríl 2007
Sé ég tár á hvarmi bæjarstjórans - Mugison vill byggja í Neðsta. Hvar er Mugison núna - er'ann farinn með öllum hinum?
Það hefur löngum þótt eftirsóknarvert að búa við sjóinn - en á Ísafirði virðist fólk ennþá leita upp í dali - kannski gamla heiðarbýlisgenið sem stýrir því - ekki veit ég. En ég man vel eftir því þega bæjarstjórinn og tónlistarmaðurinn Mugison skrifuðu undir plagg - kölluðu til fréttamenn og tókust í hendur - og svei mér þá ef ekki glitraði tár á hvarmi. Og efni fundarins var að Mugison ætlaði að byggja hús í Neðstakaupstað - íbúðarhús og búa í sátt og samlyndi við iðnaðinn í Neðsta. Nú býr Mugison í Súðavík - horfir úr stúdíó-bílskúr yfir fjörðinn - á fuglana og fiskana - kvíarnar og selina. Af því að skipulagið á Ísafirði leyfir líklegast engar íbúðabyggingar í Neðsta.
Já - nú er Neðsti með hellusteypu og slippstöð - og á milli er tún fyrir hunda að skíta. Og ég spyr ef ekki er hægt að koma fyrir íbúðabyggð í Neðsta - hvar á þá Háskóli Vestfjarða á rísa - hvar eiga stúdentarnir að sitja og fílósófera á fallegum vor og haust eftirmiðdögum - í slippnum eða á sandbing við hellusteypuna?
Auðvitað eru Ásels menn engir sóðar - en ég hefði talið að Neðsti væri dýrmætt byggingarsvæði fyrir íbúabyggð - að iðnaður ætti frekar heima í Engidal - að á fallegum sumarkvöldum gætu íbúar Neðsta notið nálægðar við sjóinn - heyrt öldurnar brotna í fjörunni - í stað þess að leggja þetta svæði undir iðnað og hundaskít.
Ég tala nú ekki um að beina umferð vörubifreiða alltaf í gegnum miðbæinn - það hlýtur að teljast "gamaldags" skipulag. Ég gleymdi allveg að spyrja vin minn skipulagsfræðinginn um þetta þegar hann var hér - það fór svo mikill tími í að bjarga honum uppúr holum á holóttum götum bæjarins - sem ekki einu sinni hellusteypan fær að framleiða hellur á - til að fegra.
Hún Salka mín kvartar ekki - Neðsti er hennar heimavöllur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 26. apríl 2007
Ömurleg blogg - óáhugaverð og drepleiðinleg.
Þetta er niðursta mín eftir að hafa lesið tvö síðustu bloggin mín - guð hjálpi mér fyrir skrifa svona drepleiðinlegan texta.
Skildu fleiri skrifa svona ömurleg blogg? tja maður spyr sig.... kannski kominn tími til að athuga sinn gang.
ja sveimérþá - þetta má ekki gerast aftur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 22. apríl 2007
Grískur guð í speglinum hjá mér!
Ég fékk bréf um daginn frá gamalli skólasystur - hún var að minna mig á að nú væru 20 ár frá því að við útskrifuðumst frá Verkmenntaskólanum á Akureyri - 20 ár - já það þurfti svo sannarlega að minna mig á það - enda held ég mér með eindæmum vel og líður oft eins og ég hafi verið að útskrifast í fyrra vor - í það minnsta þurfti ég að skoða passann til að minna mig hvað ég er orðinn gamall - eða eldri.
En auðvitað er því öðruvísi farið með skólasystkin mín - þau eru líklegast flest farin að láta á sjá - það geta ekki allir haldið sér í formi - verið eins og grískur guð. Nje, tæpast. En þetta er bara hluti af lífinu - að eldast - og sumir eldast bara mun hægar en aðrir - ég er einn af þeim. Er lygilega ungur á sál og sérstaklega líkama. Varla nokkur aukakíló nema bara svona rétt hér og þar - svona bara til að undirstrika mig og skerpa línurnar.
Og úthaldið - það er á sama "level" og það var þegar maður var upp á sitt besta með KA í fótboltanum - bara mjög svipað - var til að mynda með strákunum mínum tveim í fótbolta á laugardaginn - í um 10 mín og ég finn ekkert rosalega fyrir strengjum í dag - bara rétt í fótum og baki - já og í annarri öxlinn og niður hendina - já og svo skringilega líka í hársverðinum. Já svona getur maður haldið sér ótrúlega vel - ég nota sömu fótboltaskóna og þá - að vísu hafa buxurnar og bolurinn auðvitað hlaupið - enda margþvegið - en ég er í sömu skóstærð sem segir sína sögu - jahá.
Og af því að maður er Arsenal maður þá skellti ég mér í treyju merktri Henry - en það er alltaf verið að plata inná mann óvönduðum vörum í útlöndum - þegar ég var kominn í treyjuna þá sprungu stafirnir á bakinu og það stóð eiginlega bara "enr" á bakinu - Háið og Yið voru svo teigðir að maður sá ekkert hvað átti að standa - en það skiptir auðvitað engu máli - Henry er franskur og Háið er ekkert notað í framburðinum - mátti því allveg missa sín.
Já það verður spennandi að koma til Akureyrar og brosa að liðinu - þessum sem eru búin að eldast um 20 ár frá því að við útskrifuðumst - og til að svekkja liðið þá ætla ég að mæta í gráu jakkafötunum með svarta lakkrísbindið sem ég klæddist í útskriftinni - finn reyndar ekki skóna - allt þetta bara til að djóka í þeim - þetta er inni í skáp og ég hef verið að bíða eftir rétta tækifærinu - og nú er það komið. Djöfull verð ég flottur - nokkurn veginn viss um að konan fer að nöldra út af þessu - bara af því að hún er að drepast úr öfundsýki yfir því hvað ég held mér vel! - já svo mikið er víst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)