Færsluflokkur: Bloggar
Laugardagur, 7. apríl 2007
Að kunna að klæða sig og skíta.
Í dag ætla ég að segja frá nýjum hluta í lífi Sölku. Hún kastaði nefninlega samfellunni og spígsporar um eins og nýfædd í hlutverki tíkar úr Tangagötunni. Horfir yfirlætislega á ketti og aðkomufólk. En bærinn er fullur af hvoru tveggja. Og hún er búin að finna sér stað til að skíta. Á nýhlaðinn kant í garðinum - svona hálf inni í beði og hálf á stéttinni - þarf bæði að vera fim og frjálsleg í fasi til að skíta við slíkar aðstæður. Maður eiginlega fyllist stolti við að sjá aðfarirnar - þetta myndi sko enginn aðkomumaður á Ísafirði geta - ekki séns.
Og rétt í þessu sem Salka kastaði samfellunni fylltist bærinn af aðkomufólki - að mér sýnist mest úr Reykjavík. Og ég veit það því þetta fólk er allt öðruvísi en við landsbyggðarfólkið - og ég veit það vel því að ég hef oft komið söður. En það er alveg sama hvað ég fer oft söður - ég er einhvernveginn alltaf öðruvísi. Svona dálítið sveitó í nýrri Melka skyrtu og skinnjakka frá Gefjuni. Maður eiginlega er svona hálfgert eins og í sundbol á skíðum. Passar ekki - og það heima hjá sér. En Sölku gæti ekki verið meira sama - hún er nefnilega búin að prufa að dressa sig upp og fílaði það bara ekkert. Svo ég ætla að gera eins og hún - gefa þessu liði langt nef - fara bara aftur í Melkaskyrtuna mína - skvetta á mig kölnarvatni og keyra niðrá Ásgeirsbakka og fara á "Aldrei fór ég suður" hátíðina. Þó að það sé auðvitað ekkert langt heiman frá mér og á hátíðina - ekki svona á Reykjavíkurstórborgarskala - en halló, við erum fyrir Vestan og þar er dálítill spölur úr Tangagötunni niðrá Ásgeirsbakka - og ég fer á bílnum.
Og óíkt slæmri upplifun hér um daginn þá var gufan opin í dag. Meira að segja búið að kveikja á ofninum og hún var Heit - og ég fór. En í fyrsta skiptið síðan ég flutti vestur fyrir um 3 árum var hún full af fólki - ósköp venjulegum náungum - geðþekkum guttum að sönnan - hélt þeir væru hérna í tjaldferðalagi með pabba og mömmu - en varla,- það er svo kalt - og sumir voru nefnilega með einskonar skegg og aðrir með tattú. En ágætir strákar. Ég spjallaði helling við þá. Alltaf gaman að tala við fólk sem er í heimsókn - svona venjulegt fólk - og geta leiðbeint þeim um praktíska hluti - segja þeim hvar sjoppan er og búðin og svoleiðis. Svo fóru þeir allir í sturtu . En þegar þegar ég fór uppúr þá voru þeir allir farnir - þessu ljómandi góðu strákar. En fyrir utan Sundhöllina var aftur á móti fullt af einhverjum rokkurum að sönnan - allir eithvað svo kúl gaurar - í leðurjökkum og támjóum skóm - með svört spangargleraugu og reykjandi. Mér fannst ég eitthvað kannast við þá - svona eins og ég hefði hitt þá áður - en gat ómögulega komið fyrir mig hvar. Þeir kinkuðu kolli til mín - bara sison - en ég bara strunsaði framhjá í Melkaskyrtunni - djö... fer nú ekki að leggja lag mitt við svona lið -eins gott að passa sig á svona liði - gæti bara lagst uppámann með partý og allskonar. Leiðinlegt samt að geta ekki kvatt ungu mennina í gufunni.
Já það er svo.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 7. apríl 2007
Enn eitt áfall Frjálslyndra - hvað segir Lögmaður Magnússon núna?
já það er búið að sanna það vísindalega - það er enginn X-faktor í Íslendingum. Og nú þurfa þeir félagar fiskifræðingurinn og lögmaðurinn að kokka upp nýja varíasjón af innflytjenda grautnum sínum - sem leyfir útlendingum með X-faktor að flytja til landsins. Fara líklegast létt með það. Geta fengið í lið með sér líffræðinginn utangáttar sem búsettur er núna í mínum gamla heimabæ Akureyri.
En Færeyingurinn Jógvan sigraði með yfirburðum. Átti það líklegast skilið ef marka má 70% kosningafylgi. Hef heyrt hann syngja í einhverjum af þáttunum og fannst hann gera það vel. En ég er svo fyrirsjáanlegur og mikill landsbyggðarmaður að ég skil ekkert hvað þetta X-Faktor er eiginlega?? Bara ekki hugmynd. En auðvitað er það mér léttir að þurfa ekkert að hafa áhyggjur af því enda er þetta ekkert til á Íslandi. það er til í Færeyjum. Sem er náttúrulega til að rugla mig ennþá meira - þar eru víst samkynhneigðir ílla séðir og ekkert Gay-pride - það hefur mér nefnilega alltaf þótt eithvað svo mikið X-factor - en hvað veit ég?
En semsagt maður lærir alltaf eithvað nýtt. Ég var bara eins og allir aðrir hér á Ísafirði niður á Ásgeirsbakka í gærkveldi að horfa og hlusta á fjölda stórskemmtilegra hljómsveita spila tónlist af öllum gerðum - allt frá Franskri hljóð- og hreyfilist í þrælgóða stráka úr 10 bekk grunnskólans. En það er víst enginn X-faktor - enda engin Smáralind hér - bara Ásgeirsbakki með lágmenningarfólk.
Æji, mér finnst bara gott að vera svona einfaldur landsbyggðarlágmenningarlúði. Setjum bara X við landsbyggðina í ár!
það er mín skoðun.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 5. apríl 2007
Laxinn. Grein II
AÐ LIFA Í FERSKVATNI EÐA SÖLTUM SJÓ
Hvernig fer laxinn að því að laga sig að þessu ólíka umhverfi?Álitið er að fyrstu hryggdýrin hafi lifað í sjó og þessu til staðfestingar benda vísindamenn á steingervinga sem fundist hafa í setlögum þar sem áður voru hafsvæði. Jafnframt er talið að fyrir um 400 milljónum ára hafi fyrstu fiskarnir flutt sig í ferskvatn og að þeir fiskar sem í dag lifa í sjó hafi átt uppruna sinn í ferskvatni. Ástæða þessarar kenningar er sú að sjórinn inniheldur meira af söltum en blóð fiska sem þar lifa.
Þegar talað er um sölt í umhverfi og blóði fiska er átt við uppleyst næringar- og steinefni á formi sem kallast jónir. Í ferskvatni eru þessar jónir í mismiklum styrk allt eftir jarðveginum sem ferskvatnið kemst í snertingu við og getur styrkur því verið mismikill á milli vatnasvæða. Í sjó er styrkur jóna hins vegar mun jafnari frá einum stað til annars. Fiskar þurfa því stöðugt að halda jónum í blóði í réttum styrk og sú stjórnun sem laxar hafa á flæði jóna inn og út úr líkama sínum er lykillinn að velgengni þeirra og aðlögunarhæfni að missöltu umhverfi.
Þegar laxar eru í ferskvatni eiga þeir á hættu að vatn leiti inn í líkama þeirra þar sem styrkur jóna er mun hærri í blóði en í umhverfinu. Þetta skapar tvenns konar vandamál, annars vegar hættuna á að blása út af vatni og hins vegar að missa jónir út í umhverfið. Því má segja að lax þurfi að koma í veg fyrir upptöku vatns og útskilnað jóna. Þetta vandamál leysa laxar með því að sía nánast allar jónir úr þvagi yfir í blóðið áður en útþynnt þvagið er losað úr líkamanum. En hjá því verður aldrei komist að missa eitthvað af þeim jónum sem eru í blóðinu og eru laxinum lífsnauðsynlegar. Hins vegar fær laxinn sölt úr fæðunni og getur því bætt jónatapið ásamt því að drekka nánast ekkert vatn á meðan hann dvelst í ferskvatni.
Í sjó horfir málið öðru vísi við. Þar eru jónir í mun hærri styrk en í blóðinu og því er vandamálið það að halda í vatnið og þorna ekki upp. Þessu vandamáli mætir laxinn með því að drekka sjó og losa sig við umfram magn af jónum sem drykkjunni fylgir.
Hormónakerfið er brúin milli ytri umhverfisáreita, svo sem sjávarseltu, og innri líkamsstarfsemi sem fylgir aðlögun að breyttu umhverfi. Sú breyting á lífsferli laxa sem veldur hvað mestum breytingum á lífeðlisfræði laxins á sér stað í ferskvatni á vorin þegar laxinn fer að gera sig líklegan til að ganga til sjávar.
Laxar hafa þróað ákveðna tegund fruma í tálknum, þörmum og nýrum sem nefndar eru klóríðfrumur og eru þær búnar nokkurs konar jónapumpum sem hafa það hlutverk að halda jafnvægi á jónum í blóðinu.
Við sjóþroska hjá löxum hafa rannsóknir sýnt að styrkur vaxtarhormóns í blóðinu hækkar jafnhliða því að fjöldi og virkni þessara jónapumpa eykst til muna, jafnt í tálknum sem þörmum. Ef hins vegar lax gengur ekki til sjávar og verður um kyrrt í ánni gengur þessi breyting til baka en það á sér líklega stað í þeim tilfellum þegar laxar ganga í vötn í stað sjó.
Nýmyndun og virkni þessara jónapumpa er að mestu leyti undir stjórn vaxtarhormóns sem framleitt er í fremri hluta heiladinguls og hefur það hlutverk að framleiða hormón. Vaxtarhormónsfrumur geta geymt vaxtarhormón þar til þess er þörf og losa þá vaxtarhormón út í blóðið. Stjórnun á losn vaxtarhormóns er hamlandi, en þegar þörf er á vaxtarhormóni er hvetjandi stýrihormón losað úr aðlægum frumum í heiladingli og hömluninni létt af vaxtarhormónsfrumunum. Það er því nákvæmt samspil letjandi- og hvetjandi stýrihormóna að ræða.
Ljóslota, það er fjöldi klukkustund á sólarhring sem er birta, virðist vera það ytra áreiti sem mestu máli skiptir við framleiðslu vaxtarhormóns en einnig er hitastig mikilvægt þó ekki hafi verið sýnt fram á að hitastig eitt og sér hvetji til framleiðslu vaxtarhormóns. Rannsóknir sýna að ef laxinn upplifir ekki stutta ljóslotu, líkt og er á á dimmum vetrum áður en dag fer að lengja með lengri ljóslotum þá kemur ekki þessi aukning í styrk vaxtarhormóns fram sem leiðir af sér síðbúinn sjóþroska eða jafnvel engan sjóþroska. Þessi kenning hefur verið sannreynd með því að hafa laxa í stöðugu ljósi yfir veturinn og hefur þá engin aukning átt sér stað í losun vaxtarhormóns um vorið. Ef laxinn hins vegar upplifir stutta ljóslotu og jafna aukningu í ljóslotu að vori þá fer þetta ferli af stað; aukin framleiðsla á vaxtarhormóni, aukin losun vaxtarhormóns út í blóðið ásamt því að fiskurinn skiptir um útlit og fer í silfurgljáandi sjóbúning tilbúinn til að ganga til sjávar.
Sjóþroski laxa á sér stað þegar þeir eru í ferskvatni og því eykst hættan á að tapa jónum úr líkamanum þar sem jónapumpum fjölgar og þær verðar virkari. Þetta vandamál er leyst með aukinni framleiðslu og losun á hormóni sem nefnist prólaktín.
Prólaktín er náskylt vaxtarhormóni en hefur andstæð áhrif á virkni jónapumpa sem kemur í veg fyrir að virkni þeirra verði of mikil þegar lax er ennþá í ferskvatni. Það er því samspil þessara tveggja hormóna sem stýrir sjóþroska laxa annarsvegar (vaxtarhormón) og aðlögun að lífi í ferskvatni hinsvegar (prólaktín). Þegar lax hefur dvalið í sjó og gerir sig líklegan til að ganga upp í ár á ný, eykst framleiðsla á prólaktíni og virkni jónapumpa minnkar og þeim fækkar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 4. apríl 2007
Að koma út úr skápnum í krummaskuðspirringi.
Datt í hug að setja inn nýjan pistil um lax. Svona til að ná úr mér krummaskuðspirringnum. Ég nefninlega ætlaði að skreppa í gufu - þessa sem í nágrannalöndum kallas "sauna" og þykir sjálfsagður hlutur - enginn lúxus, bara normal þægindi. En ekki á Ísafirði. Það er nefninlega ekki bara það að í bænum sé einn saunaklefi - svona tréskápur með litlum ofni - nei málið er að þegar skápurinn á að vera opinn almennum karlpeningi - til að slappa af kófsveittur og nakinn eða í brók -þá þarf maður helst að hringja á undan sér til að starfsmennirnir muni eftir að ýta á "on" takkan. Líklegast stendur pé og a með bollu - svona skandínavíska. Og ég náttúrlega hringdi í kvöld til að kanna hvort að ekki væri opið - "jú ekkert mál, lokum klukkan níu" svaraði karlmannsrödd sem ég þekkti. Vörðurinn síkáti í Sundhöllinni - já höll - ekki laug heldur höll.
Ég tók sundbrók og handklæði og labbaði þessa 50 metra - jebb, bý rétt við höllina - lúxus. Skellti mér úr og í brókina - og inn í skápinn fór ég - eithvað svo tilbúinn til að svitna - mása og stynja af ánægju. EN - ískuldi streymdi á móti mér - ekki þessi þægilegi sauna ylur sem er svo góður á lyktina - jújú, saunað var opið - bara slökkt!!
Ja, hann var ekki hýr maðurinn sem kom út úr þessum skáp - nei hann var hundfúll. Já það kom yfir mig krummaskuðspirringur - hvurn andskotann er maður að gera hérna - maður kemur ekki einu sinni hýr út úr skápnum.
já það er vandlifað. Nú verð ég að horfa á björtu hliðarnar - fyrst ég fæ ekki að fækka fötum og koma hýr og sveittur út úr skápnum fer ég bara í bíó. Nei alveg rétt - það er ekkert bíó á Ísafirði í kvöld...eða? ætti ég að hringja...?
Æi ég geymi laxinn - nokkrir reyndar búnir að ráðleggja mér að fara aftur í hundana. Ætli kvöldið í kvöld sé ekki bara farið i hundana - mér sýnist það.
úff.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 27. mars 2007
Og allir saman nú.....gull...gulllll....guuuullllllll
Það er dálítið kómískt ástand fyrir Vestan - svona sorgleg-kómík. Það eru nefninlega allir að reyna að bjarga Vestfjörðum - menn að stinga saman nefjum hér og þar - jafnt kvölds og morgna. Allt er á fullu og allir taka þátt. Hálfgert gullgrafaraæði og allir, já allir ætla sér að ná sneið af kökunni. Og auðvitað er það vel - ja maður lifandi - allveg hreint stórfínt. En það er bara svo gaman að vita af þessum "grúpperingum". Ég sjálfur hef auðvitað "rætt við menn" og "spjallað við fólk". Og auðvitað hef ég ýmsar lausnir. Líkt og allir aðrir.
En málið er náttúrlega það að allar lausnir KOSTA PENINGA - sumar mikla - aðrar minni. En ALLAR KOSTA ÞÆR PENINGA. Og því spyr maður: "eru þessir peningar til" og afhverju eru þeir til núna en ekki áður allt fór í steik?
Ég tel mikilvægt að ríkið komi til hjálpar - flytji strörf Vestur, störf sem hentar að flytja og geta hæglega unnist fyrir vestan. Ég vil líka að ríkið komi með stuðning við fyrirtækin á svæðinu - það er líklegast ekki vanþörf á.
Og þetta með vegina.....úffffff þetta með vegina. Ég nefninlega keyrði frá Ísafirði til Reykjavíkur í gær - ef keyra er rétta orðið - ég hálf þræddi þessa slóð sem þó eru verst á Ströndum. Meira að segja þokkalega stolt rolla af Ströndum léti ekki bjóða sér svona lagað - nei hún myndi líklegast feta sína leið. En við mannfólkið - þurfum að láta bjóða okkur þetta ár eftir ár - og nú með tvöfaldri áhættu þar sem umferð stórra fluttningabíla er margföld - MARGFÖLD. Sem sagt, holur-skítur og fluttningabílar = uppskrift að vel heppnuðu dauðaslysi. Maður hreinlega skilur ekki hvernig hægt er að komast lifandi suður.
Ekki það að ég vorkenni ekki aumingja borgarbúunum með gatnakerfið þar á bæ - sem þó hópur skipulagsfræðinga vinnur dag og nótt við að útfæra - og góðvinur minn er einn - fór meira að segja til könudu til að stúdera - lærði víst í rangri borg - eða eithvað hlýtur það að vera.....vinstri-græn gatnamót og hægri mislæg, eða hvað þessar útfærslur heita allar...ekki skil ég það - ég er bara aungra manna að norðan. Nei þá kýs ég nú frekar Bolungarvík með ein götuljós - eða götuljósalíki því þau eru alltaf steindauð. Líklegast enginn bíll til að stoppa fyrir gangandi vegfarendum, eða öfugt - en hvað veit ég.....aungra manna að norðan.
En ég er sem sagt búinn að keyra suður eftir drulluslóð með dauðagildrum - aka um borgina í einskonar skipulögðu kaósi og ætla svo keyrandi norður annaðkvöld. Tja, ætli Bjössi lögga bíði mín ekki við Blönduós - úfff...það er vandlifað - í það minnsta undir stýri. Og auðvitað legg ég þetta á mig til að kynnast landi og þjóð af eigin raun. Maður veit náttúrlega ekki nema að maður skelli sér í forsetaframboð - kominn tími til að raunvísindamaður taki við embættinu - aungra manna að norðan.
já ég held það bara - skelli mér í framboð! Búinn að kynnast svo mörgu og mörgum. Konan talar frönsku - ég sænsku og ensku - sem sagt partýhæf í þremur löndum!
Svo er nú það, tja seisei já.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 25. mars 2007
Kvenmannslaus karl í þvottahúsi.
Ég er alinn upp með fjórum systrum. Næst yngstur og er því ekkert dekurdýr. Að vísu kvörtuðu systur mínar yfir því að mamma dekraði mig allt of mikið. Ekki fannst mér það. Ekki þega ég lá inni í rúmi og nennti ekki fram í eldhús að fá mér að borða morgunmat - kallaði bara fram og mamma kom með allt smurt inn til mín. Ekki heldur þegar við pabbi sátum inni í stofu og slöppuðum af eftir góðan mat á aðfangadagskvöld og biðum eftir að mamma og systur mínar gengju frá í eldhúsinu og kláruðu að þvo upp svo hægt væri að opna pakka. Já ég fann aldrei neitt að ráði fyrir því að vera eini strákurinn í hópnum. Ég tók svo sem til hendinni - setti í þvottavél þegar mamma var ekki heima - einu sinni - því ég tók eithvað vitlaust á takkanum og hann brotnaði - og ódýrar var að kaupa nýja þvottavél og mamma sagði að ég þyrfti ekkert að gera þetta aftur - stelpurnar myndu sjá um það fyrir mig.
Og ég hélt í barnaskap mínum að allar konur ættu að vera eins og mamma.
En þar sem ég er farinn að tala um þvott ætla ég að tala um þvott - því að í morgun sannreyndi ég húsráð sem mér var kennt ekki alls fyrir löngu - þ.e. hvernig meðhöndla skal skyrtur svo ég sleppi við að strauja þær (það sá mamma alltaf um líka - en ekki konan mín). Það sem er svo gaman við þetta húsráð að það var ekki konan mín sem sagði mér þetta heldur aðrar konur - og það tvær - allt aðrar konur. Og báðar eru þær giftar og hafa verið lengi - og eru náttúrlega að tala um skyrtur eiginmanna sinna - og viðurkenna þar með að hugsa um sína kalla - bognar í baki fyrir framan þvottavélina - og eru líka örugglega fyrir aftan eldavélina þegar í eldhúsið er komið.
Jæja, meira um húsráðið - En ég kom sem sagt heim glaður í bragði og sagði konunni minni frá þessum leyndarmáli - þessari gjörð sem gerir skyrturnar sléttar og fínar - og ég sagði þetta eins og ég væri kominn með eithvað sem myndi létta henni lífið - svo um munaði - En þá var svarið: "og?"! - OG, sagði ég, er þetta það eina sem þú hefur um málið að segja? "já" sagði hún, "ég skil ekki hvað þetta kemur mér við - ekki geng ég í þínum skyrtum". Ég lét eins og ég hefði ekki heyrt þetta - setti skyrturnar í óhreintaus körfuna og ákvað að bíða þar til þær kæmu svo hreinar upp í fataskápinn minn. Allveg handviss um að konan myndi sjá að sér - sinna sínum manni - því auðvitað hlaut hún að vera alin upp af mömmu sinni - sem hefur þá þvegið og straujað af pabba hennar...eða það hélt ég?
Og nú var ég semsagt að koma úr þvottahúsinu, búinn að prufa nýja trixið - jú af því að skyrturnar fóru aldrei sjálfar í þvottavélina - hvað þá að þær kæmu nýþvegnar og straujaðar í skápinn. Og konan búin að vera úti í Frakklandi í viku og kemur ekki heim fyrir en eftir viku. Ég varð semsagt sjálfur að sjá um þetta. Og hló dátt í þvottahúsinu yfir því hve auðvelt þetta er - í reynd gaman. Og ekki síst að kunna trixið. Trixið sem spara mér ótrúlegan tíma sem ég get nú varið fyrir framan sjónvarpið - missi ekki af neinu og geri ekki neitt á meðan - og skyrturnar sléttar og fínar. Og í réttum litum - enda var ég búinn að taka rauða sokkinn og setja í poka - hnýta fyrir og fela - svo að helvítið laumaði sér ekki með í vélina.
Og hvert er svo trixið? ..ha,ha - ef þið bara vissuð.
Mér líður eins og sjálfstæðum manni. Þarf ekki að fara með skyrturnar í hreinsun. Get þvegið þær sjálfur.
Já- í næsta bloggi er ég að spá í að fara í saumana á því hvernig maður verkar púnga - á Bolungarvíkurvísu.
Ég held ég geri það bara.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 24. mars 2007
Er lífið alvarlegasti sjúkdómurinn?
Einhverju sinni sagði einhver "lífið er alvarlegasti sjúkdómurinn - enginn hefur lifað það af". Í það minnsta styttist það með hverjum deginum sem líður og það er kannski einmitt sú staðareynd sem gerir það svo dýrmætt. Og þá er líka mikilvægt að fá að lifa því eins og maður kýs sjálfur - auðvitað innan skynsamlegra marka og án þess að skaða aðra - um ókomna tíð.
Ég og sonur minn Ísak vorum að koma úr matarboði hjá vinafólki mínu. Það var gaman að sjá hvað Ísak varð stoltur þegar hann hitti litla prinsinn á heimilinu sem heitir líka Ísak - eitt sólskinsbros.
En það var húsfreyjan, Anna sem sá um matinn og gerð listavel. Venjulega hefði nú heimilisfaðirinn gert það en hann er búinn að ganga í gegnum ansi erfiðan tíma eftir að hafa greinst með heilaæxli sl.haust - í kjölfar heilablóðfalls. Margir hefðu líklegast lagst niður og gefist upp - en ekki hann Stjáni - nei, það er bara ekkert í boði hjá mönnum eins og Stjána.
Við Stjáni reynum að hittast á hverju degi - skreppa saman í gufu og ræða málin. Og það er mér svo sannarlega gefandi að ræða dagleg líf við mann sem tekur veikindum sínum af slíku æðruleysi að slíku hef ég aldrei kynnst áður. Aldrei. Það er nefninlega svo einkennilegt hve mikilli orku maður eyðir í hluti sem ekki skipta nokkru einasta máli - engu. Í það minnsta á ég það til. Og þess vegna er það svo gott að kynnast því hvað skiptir máli í lífinu - sem er að lifa lífinu lifandi og njóta þess sem það hefur uppá að bjóða.
Það er nefninlega ekkert sjálfgefið að við verðum hér á morgun - hver veit. En auðvitað þýðir ekkert að velta því fyrir sér.
Um daginn þegar Stjáni vinur minn var búinn að vera í rannsókn á Landspítalanum - og ég vissi að hann var að fara á fund hjá lækninum morguninn eftir til að ræða niðurstöður og framhald þá auðvitað kraumaði í mér kvíði. Á leiðinni í vinnuna morguninn eftir þá kom yfir mig sterk ánægjutilfinning - vellíðan og Stjáni kom ósjálfrátt upp í hugann. Svo kom í ljós þegar hann hringdi í mig eftir fundinn með lækninum að átt hefðu sér stað framfarir - miklar framfarir sem ekki var sjálfgefið að ættu sér stað. Það var ánægja - ekta ánægja.
Ef maður setur þessar aðstæður sem eru að eiga sér stað í lífi fólks sem glímir við svipuð vandamál og hann Stjáni vinur minn - og spyr sig: Hvernig stendur á því að ég þarf að eyða svo miklum tíma og orku í að berjast fyrir því að geta búið þar sem ég vil? Hvernig stendur á þvi að alvarleg mismunun á sér stað í þjóðfélagi sem auðveldlega ætti að geta sinnt öllum þegnum sínum vel og af samviskusemi? Ég bara skil það ekki.....
Getur það verið að fólk sé verðlagt mismunandi eftir því hvar það býr - eiga ekki allir sama rétt hvað varðar búsetu sama hvar á landinu þeir kjósa að búa? Ég bara spyr!?
Hver ætlar að taka af skarið og laga þetta ástand - ég bara spyr? Hvað skiptir það okkur máli hvort nýr flokkur nagi af Effi eða VaffGéi - Málið er að tekin sé ákvörðun um að gera landið byggilegt fyrir ALLA sem í landinu búa.
Það er mín skoðun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 21. mars 2007
Ílla eða ómerkt hús - ávísun á vandræði.
Ég tók svo sannarlega kipp þegar ég sá viðtal við slökkviliðsmann er sagði farir sínar ekki sléttar og kvartaði sáran yfir því hve slæmt og jafnvel stórhættulegt það væri að merkja ekki húsin. Ég þekki þetta. Ekki af því að ég sé á ferðinni við að slökkva elda - nei ég ætlaði bara að kaupa bók.
En þannig var mál með vexti að mér og öðrum líffræðinemum var á sínum tíma gert að kaupa okkur bók um pöddur - að mig minnir. Og þessi ágæta bók átti að fást á skrifstofu Náttúruverndar - sem var á Skólavörðustígnum. Nú, ég bruna þangað - í norðan slagviðri - slyddu og barasta drullu veðri. Svona eins og er svo oft í Reykjavík. Þegar ég er kominn á móts við húsnæði Náttúruverndar þá legg ég bílnum - ekki fullkomlega löglega - enda að flýta mér. Stekk út - í poll - og sem leið liggur innum dyr Náttúruverndar - eða svo hélt ég. Fyrir innan dyrnar er gangur og á ganginum stendur píanó - og við píanóið situr ungur maður og spilar - í náttslopp einum klæða. Ég sem var á hraðferð var svo sem ekkert að spá í þetta enda kom það mér ekkert við hvort fólk væri yfir höfuð spilandi á píanó - reyndar fannst mér klæðaburðurinn dálítið skrítinn - en í fjölmenningarþjóðfélagi á maður auðvitað von á öllu. Aðeins innar kom ég í ákaflega heimilislegt hol - setustofu með huggulegum húsgögnum og dagblöðum á borði. Ég fékk mér sæti - gríp blað og glugga í það. Í því birtist annar ungur maður út úr herbergi og nemur staðar þegar hann sér mig - setur upp hálfgerðan undrunarsvip - svona eins og hann væri að velta því fyrir sér hver ég væri. Ég horfi á manninn á móti - augu okkar mætast - og ég segi stundarhátt "þarf maður að bíða lengi eftir því að fá afgreiðslu hér"? - ekki var þetta nú til að minnka undrunarsvipinn á manninum unga - en hann segir á móti "tja, það fer nú eftir því eftir hverju þú leitar" - "tja, segi ég - ég er nú bara að spá í pöddur og vantar bók til að geta greint þær í réttar ættir". Píanistinn hættir að spila - bætist í hópinn og þarna standa þessir tveir ungu menn - annar í ökklasíðum náttslopp og hinn hálfklæddur í stuttermabol sem á stendur "pornstar". Þá allt í einu rennur upp fyrir mér að líklega eiga þessir menn enga bók um pöddur og líklegast sé ég bara alls ekkert á réttum stað. Ég stend því hægt upp - legg frá mér blaðið og tek um leið eftir stórum polli sem verður eftir við sófann -slyddan hafði lekið af skónum - geng í hægðum mínum fram ganginn og framhá píanóinu. Lít við og segi kæruleysislega "þið getið kannski sagt mér hvar Náttúruvernd er með skrifstofu"? - Þeir horfa á mig um stund - "það er hérna í bakhúsi - út til hægri" - og með það hvarf ég út í slydduna.
Já - ílla merkt eða ómerkt hús geta verið til bölvaðra vandræða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 21. mars 2007
Djöfull ertu vitlaus Tolli....ótrúlegt!
Ég hef alltaf gaman af málefnalegum umræðum. Sérstaklega þegar menn hafa eithvað að segja. Ég skrifaði stutt blogg um Monu Sahlin og ræðuna sem hún hélt sem nýr formaður jafnaðarmanna í Svíþjóð - og sem fór svona fyrir brjóstið á "óskráðum" - EN sem hann nennti að kommentera á með þessu líka snilldar kommenti sem ég nota í fyrirsögninni.
Já það er auðvitað vandlifað og það þekkir auðvitað Mona Sahlin ákaflega vel - reyndar eins og vinkona hennar Gudrun Schyman líka.
En það er Göran Persson sem fer á kostum - sá sem laug því að vera með próf í viðskiptafræði - sem hann var ekki með - hann var að vísu búinn að vera í skóla - átti bara eftir að klára prófin. En nú er semsagt kallinn alveg að spila út og lætur ekki nægja að ráðast á Carl Bildt heldur er hann eins og naut í flagi. Hann hreinlega fer hamförum í yfirlýsingum um hina og þessa - þverpólítískt og ópólítískt. Kannski er Göran í fráhvarfi eftir hrun jafnaðarmanna í síðustu kosningum. Verst að ekki skuli vera sama kerfið í Svíþjóð og hér - þar sem mönnum er bara skúbbað í Seðlabankann til að þeir þegi - eða eigi í það minnsta að þegja.
Já svona getur verið erfitt að sætta sig við tap - að vera tapari - lúser eins og unglingarnir segja. Og nú verður spennandi að sjá hver tapar í vor - og hvað gerist þá - hver fer verður fúll á móti - hver endar í Seðlabankanum.....hér fyrir Vestan.
En í það minnsta - "óskráður" takk fyrir að koma svona fyrir mig vitinu. Nú sé ég ljósið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 20. mars 2007
Býr Íslendingur hér?
Ég var reyndar búinn að blogga um þessa hugmynd mín sem hér fer á eftir - en ég læt þetta samt flakka - því nú er nefndin að störfum......
Í mínum huga felst framtíð landsbyggðarinnar í uppbyggingu þeirra fjölmörgu fyrirtækja og rannsóknastofnana sem starfa á landsbyggðinni. Því miður er staðreyndin sú að þessi fyrirtæki og rannsóknastofnanir eiga oft á tíðum erfitt uppdráttar einkum og sér í lagi vegna skorts á hæfu starfsfólki, menntuðu starfsfólki sem fær næga atvinnu á höfuðborgarsvæðinu. En hér komum við einmitt að merg málsins. Hvernig fáum við þetta unga menntafólk út á landsbyggðina í störf sem henta þeirri menntun sem þau stunda og sem skilar sér í vexti landsbyggðarfyrirtækja óháð því hvort búið sé að þvera fjörð eða bora fjall. En áður en lausnin kemur verðum við að spyrja okkur spurninga:
- Hverjar eru þarfir fyrirtækja á landsbyggðinni?
- Hvernig er hægt að gera landsbyggðina að spennandi kosti fyrir nemendur á háskólastigi?
- Hvernig gerum við menntafólki kleift að fara til starfa út á landsbyggðina?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)