Ílla eða ómerkt hús - ávísun á vandræði.

Ég tók svo sannarlega kipp þegar ég sá viðtal við slökkviliðsmann er sagði farir sínar ekki sléttar og kvartaði sáran yfir því hve slæmt og jafnvel stórhættulegt það væri að merkja ekki húsin. Ég þekki þetta. Ekki af því að ég sé á ferðinni við að slökkva elda - nei ég ætlaði bara að kaupa bók.

En þannig var mál með vexti að mér og öðrum líffræðinemum var á sínum tíma gert að kaupa okkur bók um pöddur - að mig minnir. Og þessi ágæta bók átti að fást á skrifstofu Náttúruverndar - sem var á Skólavörðustígnum. Nú, ég bruna þangað - í norðan slagviðri - slyddu og barasta drullu veðri. Svona eins og er svo oft í Reykjavík. Þegar ég er kominn á móts við húsnæði Náttúruverndar þá legg ég bílnum - ekki fullkomlega löglega - enda að flýta mér. Stekk út - í poll - og sem leið liggur innum dyr Náttúruverndar - eða svo hélt ég. Fyrir innan dyrnar er gangur og á ganginum stendur píanó - og við píanóið situr ungur maður og spilar - í náttslopp einum klæða. Ég sem var á hraðferð var svo sem ekkert að spá í þetta enda kom það mér ekkert við hvort fólk væri yfir höfuð spilandi á píanó - reyndar fannst mér klæðaburðurinn dálítið skrítinn - en í fjölmenningarþjóðfélagi á maður auðvitað von á öllu. Aðeins innar kom ég í ákaflega heimilislegt hol - setustofu með huggulegum húsgögnum og dagblöðum á borði. Ég fékk mér sæti - gríp blað og glugga í það. Í því birtist annar ungur maður út úr herbergi og nemur staðar þegar hann sér mig - setur upp hálfgerðan undrunarsvip - svona eins og hann væri að velta því fyrir sér hver ég væri. Ég horfi á manninn á móti - augu okkar mætast - og ég segi stundarhátt "þarf maður að bíða lengi eftir því að fá afgreiðslu hér"? - ekki var þetta nú til að minnka undrunarsvipinn á manninum unga - en hann segir á móti "tja, það fer nú eftir því eftir hverju þú leitar" - "tja, segi ég - ég er nú bara að spá í pöddur og vantar bók til að geta greint þær í réttar ættir". Píanistinn hættir að spila - bætist í hópinn og þarna standa þessir tveir ungu menn - annar í ökklasíðum náttslopp og hinn hálfklæddur í stuttermabol sem á stendur "pornstar". Þá allt í einu rennur upp fyrir mér að líklega eiga þessir menn enga bók um pöddur og líklegast sé ég bara alls ekkert á réttum stað. Ég stend því hægt upp - legg frá mér blaðið og tek um leið eftir stórum polli sem verður eftir við sófann -slyddan hafði lekið af skónum - geng í hægðum mínum fram ganginn og framhá píanóinu. Lít við og segi kæruleysislega "þið getið kannski sagt mér hvar Náttúruvernd er með skrifstofu"? - Þeir horfa á mig um stund - "það er hérna í bakhúsi - út til hægri" - og með það hvarf ég út í slydduna.

Já - ílla merkt eða ómerkt hús geta verið til bölvaðra vandræða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband