Kvenmannslaus karl í þvottahúsi.

Ég er alinn upp með fjórum systrum. Næst yngstur og er því ekkert dekurdýr. Að vísu kvörtuðu systur mínar yfir því að mamma dekraði mig allt of mikið. Ekki fannst mér það. Ekki þega ég lá inni í rúmi og nennti ekki fram í eldhús að fá mér að borða morgunmat - kallaði bara fram og mamma kom með allt smurt inn til mín. Ekki heldur þegar við pabbi sátum inni í stofu og slöppuðum af eftir góðan mat á aðfangadagskvöld og biðum eftir að mamma og systur mínar gengju frá í eldhúsinu og kláruðu að þvo upp svo hægt væri að opna pakka. Já ég fann aldrei neitt að ráði fyrir því að vera eini strákurinn í hópnum. Ég tók svo sem til hendinni - setti í þvottavél þegar mamma var ekki heima - einu sinni - því ég tók eithvað vitlaust á takkanum og hann brotnaði - og ódýrar var að kaupa nýja þvottavél og mamma sagði að ég þyrfti ekkert að gera þetta aftur - stelpurnar myndu sjá um það fyrir mig.

Og ég hélt í barnaskap mínum að allar konur ættu að vera eins og mamma.

En þar sem ég er farinn að tala um þvott ætla ég að tala um þvott - því að í  morgun sannreyndi ég húsráð sem mér var kennt ekki alls fyrir löngu - þ.e. hvernig meðhöndla skal skyrtur svo ég sleppi við að strauja þær (það sá mamma alltaf um líka - en ekki konan mín). Það sem er svo gaman við þetta húsráð að það var ekki konan mín sem sagði mér þetta heldur aðrar konur - og það tvær - allt aðrar konur. Og báðar eru þær giftar og hafa verið lengi - og eru náttúrlega að tala um skyrtur eiginmanna sinna - og viðurkenna þar með að hugsa um sína kalla - bognar í baki fyrir framan þvottavélina - og eru líka örugglega fyrir aftan eldavélina þegar í eldhúsið er komið.

Jæja, meira um húsráðið - En ég kom sem sagt heim glaður í bragði og sagði konunni minni frá þessum leyndarmáli - þessari gjörð sem gerir skyrturnar sléttar og fínar - og ég sagði þetta eins og ég væri kominn með eithvað sem myndi létta henni lífið - svo um munaði - En þá var svarið: "og?"! - OG, sagði ég, er þetta það eina sem þú hefur um málið að segja? "já" sagði hún, "ég skil ekki hvað þetta kemur mér við - ekki geng ég í þínum skyrtum". Ég lét eins og ég hefði ekki heyrt þetta - setti skyrturnar í óhreintaus körfuna og ákvað að bíða þar til þær kæmu svo hreinar upp í fataskápinn minn. Allveg handviss um að konan myndi sjá að sér - sinna sínum manni - því auðvitað hlaut hún að vera alin upp af mömmu sinni - sem hefur þá þvegið og straujað af pabba hennar...eða það hélt ég?

Og nú var ég semsagt að koma úr þvottahúsinu, búinn að prufa nýja trixið - jú af því að skyrturnar fóru aldrei sjálfar í þvottavélina - hvað þá að þær kæmu nýþvegnar og straujaðar í skápinn. Og konan búin að vera úti í Frakklandi í viku og kemur ekki heim fyrir en eftir viku. Ég varð semsagt sjálfur að sjá um þetta. Og hló dátt í þvottahúsinu yfir því hve auðvelt þetta er - í reynd gaman. Og ekki síst að kunna trixið. Trixið sem spara mér ótrúlegan tíma sem ég get nú varið fyrir framan sjónvarpið - missi ekki af neinu og geri ekki neitt á meðan - og skyrturnar sléttar og fínar. Og í réttum litum - enda var ég búinn að taka rauða sokkinn og setja í poka - hnýta fyrir og fela - svo að helvítið laumaði sér ekki með í vélina.

Og hvert er svo trixið? ..ha,ha - ef þið bara vissuð.

Mér líður eins og sjálfstæðum manni. Þarf ekki að fara með skyrturnar í hreinsun. Get þvegið þær sjálfur.

Já- í næsta bloggi er ég að spá í að fara í saumana á því hvernig maður verkar púnga - á Bolungarvíkurvísu.

Ég held ég geri það bara.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arna Lára Jónsdóttir

Það eru stigin mörg framfaraskref í Tangagötunni þessa daganna. Skyrtur og púngar, hvað næst?

Arna Lára Jónsdóttir, 25.3.2007 kl. 21:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband