Bloggfærslur mánaðarins, september 2009
Miðvikudagur, 30. september 2009
Bankahrunið er það besta sem gat gerst.....
Mér féllust hendur þegar ég las viðtal við Björk Guðmundsdóttur og Höllu Tómasdóttur hjá Auði Capital í sænsku dagblaði.
En þar segir hún þetta orðrétt "Krisen är det bästa som hänt"!!
Mér féllust svo hendur að ég nenni ekki að skrifa um það og bendi bara á það - lesið og metið nú aðeins stöðuna.
Úff.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 29. september 2009
Þetta blogg er hætta því þettar er blogg um að hætta. Hætta við að hætta eða bara hætta.
Ég hef verið að spá í að hætta að blogga á mogganum.
Ég ætla reyndar líka að hætta að borða nammi. Hætta að senda stoðsendingar á Palla Hólm í fótboltanum. Ég ætla að hætta að fara hjálmlaus út að hjóla. Hætta að hætta mér á hættulegar brautir. Hætta að keyra of hratt. Ég ætla svo sannarlega að hætta að klóra mér á bak við vinstra eyrað. Og ég er steinhættur að drekka mjólk.
Nú svo hef ég verið að spá í að hætta að lesa DV. Hætti því reyndar um árið en stalst til þess aftur. Er hættur því. Ég ætla að hætta við að hætta hinu og þessu. Maður hættir nefnilega aldrei alveg því það er sjálfhætt. Byrjar alltaf aftur. Hættir við að hætta við að taka sér pásu eða hætta alveg.
Og að vandlega athuguðu máli þá ætla ég ekkert að hætta. Í það minnsta ætla ég ekki að hætta að blogga hér á mogganum. Ég hef aldrei bloggað annarstaðar. Get ekki hætt hér því þá er ég hættur. Og hætta vil ég ekki.
Man ekkert af hverju ég ætlaði að hætta. Kannski af því að það er kominn nýr ritstjóri á moggann. Man það ekki. Er allavega hættur að pæla í því. Ætla bara að hætta á að hætta ekki.
Nú er allavega kominn tími til að hætta.
Í kvöld.
Ég er hættur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mánudagur, 28. september 2009
Ánægjuleg og málefnaleg umfjöllun um Murr og Urr.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 25. september 2009
Hver ræður því hvort MS sjúklingar geti lifað góðu lífi...Ögmundur Jónasson....essasú?
Ég var á fundi með MS félaginu í dag hér á Ísafirði.
Afskaplega fróðlegur fundur og vel sóttur af þeim er málið varðar.
Líklegast getur enginn gert sér í hugarlund hvernig það er að glíma við sjúkdóm þar sem enginn þekkir orsökina né hvernig hann mun ráðast á viðkomandi. Ég segi ráðast - því auðvitað ráðast sjúkdómar á fólk - þeir slá það niður og á stundum getur fólk ekki staðið upp aftur. Þarf hjálp. Frá þeim sem ráða.
Enginn. Ekki ég. Ekki þú. Ekki neinn. Enginn veit hver verður næstur.
En eitt eigum við þó sameiginlegt - í það minnsta flest okkar. Við viljum að fólk fái bata. Að fólk nái heilsu í einhverri mynd og helst þeirri sem fullkomin er.
Og ef það er ekki hægt - þá í það minnsta sé fólki leyft að halda í vonina. Að vonin sé yfir allt annað hafin - allan vafa - allt þras og alla pólítík. Allt.
Við erum jú fólk - manneskjur - með jafnan rétt.
Og nú er það svo að þeir sem glíma við MS sjúkdóminn eiga sér von. Og sú von er fólgin í nýju lyfi sem kallast TYSABRI. Þetta lyf er líkt og ÖLL önnur lyf ekki án galla. Enginn og ekkert er án galla. En þetta lyf er samt sem áður með margfalt fleiri kosti en nokkru sinni gallarnir. Hefur ekkert meira eða stærra hlutfall neikvæðra áhrifa en önnur lyf - en 13 af 60.000 notendum hafa fengið slæm hliðaráhrif. Enda væri þetta lyf ekkert á markaðnum ef það teldist hættulegt eða skaðlegt heilsu manna.
Og það sem meira er - þetta lyf er fyrirbyggjandi. Kemur í veg fyrir skemmdir sem valda þeim slæmu afleiðingum og við köllum MS sjúkdóm.
Það læknar ekki skemmdirnar - en gerir það að verkum að fólk nær ótrúlegum bata - fær annan séns - að vera með í lífinu á nýjan leik - FÆR ANNAÐ TÆKIFÆRI - að segja skilið við hjólastólinn og hræðsluna - kvíðann og þreytuna.
Stendur upp og horfir brosandi framan í lífið!
Og það sem er svo stórkostlegt er að þeir sem eru nýlega greindir sjá fram á heilbrigt líf - án nokkurrar fötlunar. AF ÞVÍ AÐ TYSABRI ER FYRIRBYGGJANDI - KEMUR Í VEG FYRIR AÐ SKEMMDIR GETA MYNDAST!!
En samt er mótstaða. Mótstaða sökum "kostnaðar". Þessi kostnaður - jú hann er til staðar. En hann er svo lítill að vart tekur að nefna. Auðvitað heldur fólk núna að þetta hlaupi á milljónum fyrir hvern sjúkling - en NEI. Hann hleypur hugsanlega á EINNI milljón fyrir hvern sjúkling - á ári! EINNI MILLJÓN MEIRA EN LYF SEM ER GEFIÐ Í DAG OG HEFUR MJÖG TAKMÖRKUÐ ÁHRIF - EF NOKKUR!!
Og í staðinn - jú færri veikir - færri fatlaðir. Betra líf. Meiri möguleikar. Og fjöldinn - líklegast um 400 manns - ÞETTA FÓLK Á SKILIÐ AÐ LIFA GÓÐU LÍFI - EINS OG ÞÚ - EINS OG ÉG....EKKI SATT?
Engir milljarðar - ekki einn. Nei - líklegast þurfa um 200 MS sjúklingar þetta lyf.
Erum við Íslendingar ekki sammála um að veita MS greindu fólki þennan möguleika á eðlilegu lífi?
Ég bara spyr?
Ég vona svo sannarlega að heilbrigðisráðherrann lesi þennan pistil - því ekki hefur hann haft bein í nefinu að taka á vandanum.
Vandanum sem er heimatilbúinn á skrifstofu heilbrigðisráðherra!
Eða hvað finnst þér?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 24. september 2009
Og svo kom Urrið.....
Fyrst kom Murr ehf.með Murr kattamat - heilfóður sem er hreint frábært fyrir alla ketti og á afskaplega góðu verði. Engin eyðsla á gjaldeyri - og skapar störf í erfiðu árferði.
Nú komum við með Urr smáhundamat. Hreint frábær matur fyrir alla hunda - þó við kjósum að kalla hann smáhundamat.
Hér er því um raunverulegan og ódýran kost fyrir katta og hundaeigendur!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 23. september 2009
Með himnaríkið á næstu grösum - hvert liggur leið?
Það er ekki á hverjum degi sem maður kemst í nána snertingu við guðdómleikann. En það gerðist nú samt hjá mér í gærkveldi.
Og það sem meira er - ég var sem Adam í Aldingarðinum forðum - nánast nakinn. Ég var nefnilega í gufu.
Og hvar ég sat í rólegheitum og hugsaði um líðandi stund - spáði í hver það væri sem á endanum myndi borga æseiv - hvort Davíð færi í Moggann eða hvort kindur kæmu af fjöllum líkt og framsóknarmennirnir sem smala þeim.
Í þessum þönkum mínum opnast dyrnar á gufunni. Inn stígur góðvinur minn - kaþólski presturinn á Ísafirði. Við tókum tal sama og ræddum stöðu lands og þjóðar. Ekki leið á löngu uns dyrnar opnuðust á ný og inn gekk prestur númer tvö. Sá var kaþólski presturinn á Akureyri - og taldi ég fullvíst að nú ætti að sauma að mér og setja mér fyrir endalausar maríubænir. Maður er jú búinn að syndga ótæpilega í gegnum árin. Nú síðast með því að koma ekki í veg fyrir bankahrunið.
Og ef ekki væri nóg að hafa tvo kaþólska presta með mér í gufunni þá birtist sá þriðji - og sá alla leið frá Ástralíu!
Ég svitnaði. Kóf svitnaði og hugsaði með mér að nú væri mér líklega borgið - að nú fengi ég fyrirgefningu syndanna og himnaríkið stæði mér opið uppá gátt! Hallelúja....
Eftir dvölina í gufuklefanum gekk ég út í kuldann - mjúkar raddir prestanna og heilagur andinn úr gufubaðsofninum svifu um baðhúsið - ég taldi mig hólpinn og vart komast nær himnaríkinu.
En eins og lúður í þokunni þá gall úr sturtuklefanum: "ég sagði það fyrir tuttugu árum - að við eigum að fara í Evrópusambandið"!
Undir sturtunni stóð maður ljós á hörund - alíslenskur og rammvestfirskur - bandaði frá sér og las mér pistilinn - hátt og snjallt.
Svo hélt hann áfram: "þetta eru glæponar allt saman og eina lausnin er Evrópusambandið".
Raddir prestanna urðu að mjálmi við hlið þessa stóra manns - hann kunni að predíka - og var með lausnina á hreinu. Sú lausn hafði ekkert með himnaríki að gera - í það minnsta ekki án viðkomu í Brussel - Nei - leiðin að lausninni var í austur - til Evrópu og í Evrópusambandið. Svo mætti fara þaðan til himna ef menn kysu svo.
Já Dóri Hermanns var auðveldlega þriggja presta maki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 20. september 2009
Urr smáhundamaturinn fellur vel í kramið!
Það er alltaf ánægjulegt að fá skemmtileg viðbrögð við framleiðslunni hjá okkur í Murr. Þetta bréf sendi ánægður neytandi;
Hæ hæ mig langaði bara að þakka ykkur fyrir að framleiða þennan frábæra smáhundamat. Ég á 4 ára Chihuahua tík sem er alveg SJÚK í matinn! Við prófuðum að láta saman á disk Urr matinn og síðan blautmatinn sem hún borðaði áður en Urr kom á markaðinn, hún hakkaði í sig Urr matinn og sleikti diskinn þar sem maturinn var en fussaði og sveijaði yfir hinum blautmatnum. En já, til hamingju með þennan frábæra árangur!
Kv. Ragnheiður og Sunna (Urr aðdáandi).
Við þökkum fyrir það og hvetjum fólk til að prufa þessa nýju framleiðslu okkar!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 17. september 2009
Ráðabrugg ríkistjórnarinnar - hverjum á að hjálpa og hverjum ekki.....
Ég bý á landsbyggðinni. Ég tala því oftar við fólk á landsbyggðinni en ég geri við fólk búsett í Reykjavík.
Og fólkið á landsbyggðinni á það sammerkt að hafa keypt sér ódýrari hús - skuldsett sig minna en þeir sem búa í höfuðborginni.
En lansbyggðinni berast fréttir um að ríkisstjórnin ætli að koma þeim til hjálpar sem nú eru yfirskuldsettir vegna íbúðakaupa og húsabygginga. Og landsbyggðarfólkinu sem ég hef spjallað við finnst þetta á margan hátt undarlegt - einkum í ljósi þess að lánin sem á landsbyggðinni hvíla hafa auðvitað hækkað í sama hlutfalli. Munurinn sé bara sá að enginn fengi nokkurtíma lán til að byggja 100 milljóna hús - eða jafnvel bara 50 milljón króna hús - á landsbyggðinni. Bara í Reykjavík og nágrenni. Það fengist aldrei lán - púnktur. Af hverju?... jú vegna þess að það hefur aldrei þótt nein "gáfuleg fjárfesting" að byggja hús á landsbyggðinni.
En fólk hefur samt gert það. Notað sömu steypu og sama járn - sama tré og sömu gler. En allt bara svo mikið minna í sniðum og enginn lúxus með tveim amerískum ískápum og fjórum ofnum í eldhúsi líkt og þarf fyrir sunnan.
Þetta flokka margir sem óráðsíu. Kerfisvillu - því bankarnir lánuðu og hvöttu fólk til dáða.
En ekki á landsbyggðinni.
Fyrr en núna. Nú á landsbyggðarfólkið að taka þátt í að borga fyrir hina. Þessa sem bjuggu fyrir sunnan eða flutt þangað - keyptu stórt eða byggðu flott.
Með niðurfellingu á skuldum umfram veð - er auðvitað verið að koma á móts við fólk sem ekki getur greitt af lánum. Það er vel. En hinum er algjörlega gleymt - sem taka á sig byrðar - skulda og skulda meira en fyrir bankahrun. Hví eru skuldir á íbúðarhúsnæði ekki fært niður hjá þeim líka - um sama hlutfall?
Það skil ég ekki. Og það skilja fæstir. Við megum ekki láta þannig að í landinu búi tvær þjóðir - höfuðborgarsvæðið og svo hinir.
Ég er einn af hinum - sem skulda - bílalán og önnur lán. Ég vil njóta sömu fyrirgreiðslu þó ég búi á landsbyggðinni.
En þú?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Mánudagur, 14. september 2009
Gormur frá Súðavík gefur Urr smáhundamat hæstu einkunn! - ný viðbót frá Murr ehf.
Í þessari viku kemur frábær hundamatur frá Murr- en það er Urr smáhundamatur.
Hér er um fullkomna blöndu að ræða - unna úr hreinu íslensku hráefni. Frábær matur fyrir alla hunda!
Söluaðilar eru þeir sömu og selja Murr kattamat - sjáið frekar á heimasíðu Murr ehf.
Hér er ánægður neytandi - hann Gormur í Súðavík.... og hann er sko ekki að líta upp á meðan hann rífur í sig dagskammtinn af Urr hundamat!
Og nú kemur Urr í verslanir Bónus strax á morgun!
Bloggar | Breytt 15.9.2009 kl. 20:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 8. september 2009
Hvurslags stofnun er þessi kirkja - hefur hún eithvað með guð að gera?
Ég hef aldrei almennilega skilið kirkjuna sem slíka. Mér hefur ævinlega fundist þar allt loga stafnanna á milli út af málum sem snúast alls ekkert um guð. Ég trúi ágætlega á guð og veit að sá hinn sami hefur hjálpað mörgum - þó auðvitað aðrir virðast ekki eiga uppá pallborðið hjá honum. En þannig er það bara.
En kirkjan og kirkjunnar menn. Þeir rífast um allt og ekkert. Rífast um hverjir fái að vera í sóknarnefndum og ráðum - eru hátíðlegir á sunnudögum og ýlfrandi restina af vikunni. Í dag á að reka organistann og hinn daginn prestinn. Allt út af einhverju sem enginn skilur nema sóknarnefndin sem er æðri en nokkur annar uppréttur.
Og ef það er ekki nóg á þá fer kirkjan ránshendi um eigin eignir - það er ef þær eru staðsettar úti á landi. Hirðir í nafni vörslu muni og muni - sveitavarginum er ekki treystandi. Hökulinn skal frysta svo hann skemmist ekki og listaverkunum komið fyrir í geymslum svo þeirra verði ekki notið.
Ég var nefnilega um daginn staddur norður í Jökulfjörðum. Þar á bæ sem nefndur er Staður í Grunnavík er afskaplega falleg kirkja. Og kirkjunni atarna er vel við haldið og hún vöktuð af vökulum augum ferðabóndans á Sútarabúð. En viti menn. Í kirkjuna hafa komist sérfræðingar að sunnan - skrúfað ævafornt hliðið af predikunarstólnum til að sýna fyrir sunnan og geyma. Og eymdarlegar hjarir standa út í loftið líkt og þær teigi sig í átt að höfuðborginni - biðjandi: hurðina heim.
Já þetta er auðvitað engum til góðs né ánægju. Hvers vegna ferðamenn og gamlir Grunnvíkingar mega ekki njóta listilegrar hurðar sem var jú smíðuð akkúrat á þennan predikunarstól er mér hulin ráðgáta. Og þegar Sútarabúðarbóndinn kvartar er honum bent á að brátt verði restin sótt. En gervi sett í staðinn - fyrir varginn að njóta.
Og víurnar hafa þeir borið í 400 ára gamlan hökulinn sem þarna er. Sem þrátt fyrir að hafa vart á látið sjá í öll þessi ár - er sagður "liggja undir skemmdum" af sérfræðingunum fyrir sunnan - já og sem vilja setja hann í frysti til geymslu. Kannski ætti að benda þeim á að ekki sé nein hætta á rotnun...presturinn sé löngu kominn úr honum og greftraður samkvæmt lögum kirkjunnar.
En þrátt fyrir sérfræðiráðin og kunnáttuna þá stendur gamli prestbústaðurinn í fullkominni niðurníðslu og fæst ekki leyfi frá kirkjunni til að nýta hann í góða þágu - svo sem til gistingar fyrir þreytta ferðamenn og aðra sem langar að skoða sig um á þessum slóðum. Nei. Látið vera - kirkjan á.´
Já - það er kannski ekki skrítið þó Helgi heitinn Hóseasson hafi staðið vaktina með skilti af logandi kirkju. Því að til hvers eru þessar fallegu byggingar sem byggðar eru sem griðastaður okkar mannfólksins ef ekki til að njóta hvíldar og virða fyrir okkur falleg verk mannanna.
Ég bara spyr.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)