Með himnaríkið á næstu grösum - hvert liggur leið?

Það er ekki á hverjum degi sem maður kemst í nána snertingu við guðdómleikann. En það gerðist nú samt hjá mér í gærkveldi.

Og það sem meira er - ég var sem Adam í Aldingarðinum forðum - nánast nakinn. Ég var nefnilega í gufu.

Og hvar ég sat í rólegheitum og hugsaði um líðandi stund - spáði í hver það væri sem á endanum myndi borga æseiv - hvort Davíð færi í Moggann eða hvort kindur kæmu af fjöllum líkt og framsóknarmennirnir sem smala þeim.

Í þessum þönkum mínum opnast dyrnar á gufunni. Inn stígur góðvinur minn - kaþólski presturinn á Ísafirði. Við tókum tal sama og ræddum stöðu lands og þjóðar. Ekki leið á löngu uns dyrnar opnuðust á ný og inn gekk prestur númer tvö. Sá var kaþólski presturinn á Akureyri - og taldi ég fullvíst að nú ætti að sauma að mér og setja mér fyrir endalausar maríubænir. Maður er jú búinn að syndga ótæpilega í gegnum árin. Nú síðast með því að koma ekki í veg fyrir bankahrunið.

Og ef ekki væri nóg að hafa tvo kaþólska presta með mér í gufunni þá birtist sá þriðji - og sá alla leið frá Ástralíu!

Ég svitnaði. Kóf svitnaði og hugsaði með mér að nú væri mér líklega borgið - að nú fengi ég fyrirgefningu syndanna og himnaríkið stæði  mér opið uppá gátt! Hallelúja.... 

Eftir dvölina í gufuklefanum gekk ég út í kuldann - mjúkar raddir prestanna og heilagur andinn úr gufubaðsofninum svifu um baðhúsið - ég taldi mig hólpinn og vart komast nær himnaríkinu.

En eins og lúður í þokunni þá gall úr sturtuklefanum: "ég sagði það fyrir tuttugu árum - að við eigum að fara í Evrópusambandið"!

Undir sturtunni stóð maður ljós á hörund - alíslenskur og rammvestfirskur - bandaði frá sér og las mér pistilinn - hátt og snjallt.

Svo hélt hann áfram: "þetta eru glæponar allt saman og eina lausnin er Evrópusambandið".

Raddir prestanna urðu að mjálmi við hlið þessa stóra manns - hann kunni að predíka - og var með lausnina á hreinu. Sú lausn hafði ekkert með himnaríki að gera - í það minnsta ekki án viðkomu í Brussel -  Nei - leiðin að lausninni var í austur - til Evrópu og í Evrópusambandið. Svo mætti fara þaðan til himna ef menn kysu svo.

Já Dóri Hermanns var auðveldlega þriggja presta maki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eins og Adam.. var það fyrir eða eftir eplaátið?
Eins gott að þú misstir ekki sápuna í gólfið.. ;)

DoctorE (IP-tala skráð) 23.9.2009 kl. 22:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband