Hvurslags stofnun er þessi kirkja - hefur hún eithvað með guð að gera?

Ég hef aldrei almennilega skilið kirkjuna sem slíka. Mér hefur ævinlega fundist þar allt loga stafnanna á milli út af málum sem snúast alls ekkert um guð. Ég trúi ágætlega á guð og veit að sá hinn sami hefur hjálpað mörgum - þó auðvitað aðrir virðast ekki eiga uppá pallborðið hjá honum. En þannig er það bara.

En kirkjan og kirkjunnar menn. Þeir rífast um allt og ekkert. Rífast um hverjir fái að vera í sóknarnefndum og ráðum - eru hátíðlegir á sunnudögum og ýlfrandi restina af vikunni. Í dag á að reka organistann og hinn daginn prestinn. Allt út af einhverju sem enginn skilur nema sóknarnefndin sem er æðri en nokkur annar uppréttur.

Og ef það er ekki nóg á þá fer kirkjan ránshendi um eigin eignir - það er ef þær eru staðsettar úti á landi. Hirðir í nafni vörslu muni og muni - sveitavarginum er ekki treystandi. Hökulinn skal frysta svo hann skemmist ekki og listaverkunum komið fyrir í geymslum svo þeirra verði ekki notið.

Ég var nefnilega um daginn staddur norður í Jökulfjörðum. Þar á bæ sem nefndur er Staður í Grunnavík er afskaplega falleg kirkja. Og kirkjunni atarna er vel við haldið og hún vöktuð af vökulum augum ferðabóndans á Sútarabúð. En viti menn. Í kirkjuna hafa komist sérfræðingar að sunnan - skrúfað ævafornt hliðið af predikunarstólnum til að sýna fyrir sunnan og geyma. Og eymdarlegar hjarir standa út í loftið líkt og þær teigi sig í átt að höfuðborginni - biðjandi: hurðina heim.

Já þetta er auðvitað engum til góðs né ánægju. Hvers vegna ferðamenn og gamlir Grunnvíkingar mega ekki njóta listilegrar hurðar sem var jú smíðuð akkúrat á þennan predikunarstól er mér hulin ráðgáta. Og þegar Sútarabúðarbóndinn kvartar er honum bent á að brátt verði restin sótt. En gervi sett í staðinn - fyrir varginn að njóta.

Og víurnar hafa þeir borið í 400 ára gamlan hökulinn sem þarna er. Sem þrátt fyrir að hafa vart á látið sjá í öll þessi ár - er sagður  "liggja undir skemmdum" af sérfræðingunum fyrir sunnan  - já og sem vilja setja hann í frysti til geymslu. Kannski ætti að benda þeim á að ekki sé nein hætta á rotnun...presturinn sé löngu kominn úr honum og greftraður samkvæmt lögum kirkjunnar.

En þrátt fyrir sérfræðiráðin og kunnáttuna þá stendur gamli prestbústaðurinn í fullkominni niðurníðslu og fæst ekki leyfi frá kirkjunni til að nýta hann í góða þágu - svo sem til gistingar fyrir þreytta ferðamenn og aðra sem langar að skoða sig um á þessum slóðum. Nei. Látið vera - kirkjan á.´

Já - það er kannski ekki skrítið þó Helgi heitinn Hóseasson hafi staðið vaktina með skilti af logandi kirkju. Því að til hvers eru þessar fallegu byggingar sem byggðar eru sem griðastaður okkar mannfólksins ef ekki til að njóta hvíldar og virða fyrir okkur falleg verk mannanna.

Ég bara spyr.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Sveinsson

Ef þeir trúa væri ekki væri ekkert vandamál í röðum presta því trúin myndi koma í veg firir vandamál þeirra að sjálfsögðu mín orð, Þeir nota trúna sem  FÉÞÚFU.

Jón Sveinsson, 8.9.2009 kl. 23:27

2 Smámynd:

Ja mikið assgoti er þetta vel mælt. Ef hræðslan við skemmdarvarga og þjófa er svona rík hvers vegna er kirkjan þá ekki með fólk í vöktun á kirkjumunum. Örugglega ekki dýrara en að forverja, flytja og frysta og hvað sem allt þetta erog skapar atvinnu í heimabyggð. Afleitt þegar mann langar að setjast aðeins inn í kirkjur á landsbyggðinni og þær eru bara læstar. Eða eins og í Grunnavík þar sem kirkjan er strípuð af fallegu mununum. Ætli þeir taki ekki altaristöfluna næst og hengi upp plakat úr Superstar

, 9.9.2009 kl. 00:01

3 Smámynd: Börkur Hrólfsson

Sá sem heldur að starfsemi kirkjunnar snúist um trú eða trúboð í nafni guðs, veður villu og reyk.

Kirkjan, hverju nafni sem hún nefnist, hefur alltaf snúist um peninga. Peningar = völd.

Það var einu sinni sagt um tamningamann, að hann sinnti ekki tamningum dögum saman, en fór reglulega út í hesthús, og pískaði hrossin... Bara til að minna þau á hver réði.

Sama gerir kirkjan, Sinnir sínu hlutverki illa og sjaldan, en sparkar reglulega í punginn á sóknarbörnunum, til að sýna hver það er sem ræður.

Börkur Hrólfsson, 9.9.2009 kl. 13:32

4 identicon

Kirkjan er stofnun sem tekur látna ástvini í gíslingu... lýgur að fólki að Sússi sé að passa látna fólkið og það sem á eftir að deyja.
Þetta er yfirnáttúrulegt nígeríusvindl... svindl sem flestir íslendingar hafa látið platast til að ganga í.

Annars... hvers vegna trúir þú á guð, skilgreindu guð... hvaða guð trúir þú á... hvaða grundvöll hefur þú til að trúa á master of the universe?

Þið þekkið mig og mitt Gudda tal ;)

DoctorE (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 14:08

5 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Gríðarlega er það oft sem bloggarar fá útrás gegn kristni og kirkju með misgóðum rökum. Þetta er samt skiljanlegar hugleiðingar. Kirkjan er hins vegar bara fólk eins og þú og ég með sína bresti og ófullkomleik - prestar líka. Ef þar væri allt fullkomið væri eitthvað skrýtið í gangi. Hins vegar ætti auðvitað kirkjunnar fólk að gefa gott fordæmi með kærleik, umburðarlyndi o.fl. en því miður er stundum misbestur á því. Ef sr. Gunnari á Selfossi þykir vænt um sóknarbörnin sín skilar hann hempunni þar og snýr sér að öðru eftir þetta siðferðisbrot (eins og það er skilgreint) sitt.

Svona er skilgreiningin kæri Doktor: Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. Guddi biður að heilsa þér.

Guðmundur St Ragnarsson, 9.9.2009 kl. 17:15

6 Smámynd: Þorleifur Ágústsson

Takk fyrir innlegg. Ekki hef ég nú talað gegn Guði (átti auðvitað að skrifa með stórum staf) og alls ekki tengdust þessi skrif séra Gunnari eða öðrum presti.

 En mér finnst þessi umræða þörf. Auðvitað biður Guð að heilsa mér eins og öllum öðrum.

Kirkjunnar menn eru breyskir líkt og aðrir - sama hvort þeir heita Gunnar eða ekki.

Þorleifur Ágústsson, 9.9.2009 kl. 19:01

7 identicon

Guðmundur minn, það er sannað mál að biblían er fölsuð frá a-ö, ótal NAFNLEYSINGJAR skrifuðu og skálduðu hana upp.

Aldrei mun ég skilja að menn geti sagt að guð(sússi) hafi boðað kærleika... boðkapur hans er: Submit or burn

Guð er hvað: Eitthvað X sem getur gefið þér extra líf í lúxus ef þú trúir og gengur í kirkju(Sem var sú kaþólska)

Enginn mátti lesa biblíu nema prestar... vegna þess að þeir vissu að allir heilvita menn myndu hlægja að henni.. Lúther var ekki alveg að átta sig á að það að lesa biblíu er besta ráðið til að hætta að trúa... þó þráast margir við eftir lestur hennar EN þeir vita í hjarta sér að þeir lifa í sjálfsblekkingu, þið vitið þetta vel drengir, það er ekkert extra líf.. ekki sóa eina lífi ykkar í þetta bull

Biblían er eins og tölvupóstur frá Nígeríu..

DoctorE (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 19:35

8 identicon

Ég er tiltölulega ungur prestur innan Þjóðkirkju Íslands. Þrátt fyrir að ég sé ekki vanur að tjá mig í bloggheimum langar mig að leggja hér orð í belg af góðum hug.

Mig langar að minna á að orðið "kirkja" merkir samfélag kristins fólks, þ.e. allra þeirra sem játa trú á Jesú Krist. Það er hin rétta merking orðsins. Því miður leggja alltof margir kirkjuna að jöfnu við presta. Það er ekki réttur skilningur. Prestar eru hluti af og hafa vissu hlutverki að gegna innan kirkjunnar. 

Vitanlega er kirkjan einnig stofnun í vissum skilningi og eins og allar manngerðar stofnanir er hún ófullkomin. Það á einnig við um presta rétt eins og aðra meðlimi kirkjunnar. Saga kirkjunnar sem stofnunar á sér slæmar hliðar og góðar eins og dæmin sýna. Að öllu eðlilegu myndi sérhver prestur fúslega viðurkenna að ýmislegt mætti betur fara innan kirkjunnar á hverjum tíma sem og í fari presta og annarra starfsmanna hennar. Sjálfum dylst mér það ekki. En þetta á auðvitað við hvar sem drepið er niður fæti í þjóðfélaginu. Prestarnir eru sannarlega mjög sýnilegur hluti kirkjunnar og því hefur framganga þeirra mikið að segja um viðhorf fólks til kirkjunnar sem stofnunar. Þeim verður á rétt eins og öðrum - og stundum alvarlega.

Hitt er annað mál að þegar misbresti kirkjunnar sem stofnunar og kristins fólks - þar á meðal presta - ber á góma, þá er mikilvægt að fólk greini á milli þeirra og innihalds og boðskaps kristinnar trúar og sannleiksgildis hennar. Þar er um ólíka hluti að ræða sem verða ekki lagðir að jöfnu. Því miður fara gjörðir "kristins fólks"og "kristin trú" ekki alltaf saman. Það er alltaf leitt. En þegar litið er hins vegar til mannsskilnings kristinnar trúar þá kemur þetta ekki á óvart.

Sú mynd sem þú dregur upp af prestum í færslu þinni er hvorki rétt né gagnleg fyrir kirkjulega umræðu. Vitanlega er þrasað innan kirkjunnar um eitt og annað eins og víðast hvar. En ég treysti mér til að segja að þrátt fyrir allt þá sinni prestar margþættu starfi af heilindum. Allt tal um ýlfur ber helst vitni um fordóma og vanþekkingu - og nóg er af þeim, eins og framkomnar athugasemdir við færslu þína sýna sumar hverjar mjög vel.

Að lokum vil ég minna á að allflestar sveitakirkjur eru aðeins að takmörkuðu leyti á forræði kirkjunnar. Þær eru flestar friðaðar og um þær gilda því tilteknar reglur og lög. Það á einnig við um muni þeirra og búnað. Staðarkirkja í Grunnavík er friðuð kirkja og er því meðhöndluð sem slík.

Með kveðju

Gunnar Jóhannesson

Gunnar Jóhannesson (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 22:21

9 Smámynd: Þorleifur Ágústsson

Sæll Gunnar,

svo að það sé nú alveg á hreinu - sem ég hélt að hægt væri að lesa út úr textanum - þá er ég ekki á nokkurn hátt að halla á presta. Ég á góða vini sem eru prestar og met þeirra starf almennt mjög. Fáir vinna ein óeigingjarnt starf og þeir.

Það sem ég er að ræða um eru sóknarnefndirnar. Í þeim sitja óbreyttir borgarar sem eru jú allt í einu orðnir valdafólk - og eins og dæmin sanna þá er á stundum óskiljanlegt hvernig fólk gjörsamlega umbreytist við að fara í slíka nefnd - hvort sem það er Langholtskirkju, íslendingakirkjunni í Oslo eða Guð má vita hvar.

Og þessar nefndir láta eins og "kirkjan" þeirra sé þeirra eign - þrátt fyrir að við sjálfsagt leggjum öll í púkkið.

Varðandi kirkjurnar - og kirkjuna á Stað - þá væri nú gaman að hurðinni væri skilað - svo dæmi sé tekið.

Gleymum því ekki að kirkjubyggingar eru mannanna verk - listilega smíðaðar og skreyttar og eiga að vera okkar að njóta - þar sem þær voru reistar en ekki geymdar í gám fyrir sunnan.

Gangi þér vel í hinu góða starfi - og trúðu mér þegar ég segi - að ég lít sóknarnefnd sem eitt og prestsstarfið allt annað.

Þorleifur Ágústsson, 9.9.2009 kl. 23:09

10 identicon

Heill og sæll Þorleifur.

Þakka þér fyrir.

Það var ekki heldur ætlun mín að leggja þér til skoðanir né heldur orð í munn heldur aðeins að benda á atriði sem ég tel almennt að rétt sé að hafa í huga. Ég vona að við séum ekki að misskilja hvor annan. 

Það má alltaf ræða og deila um það fyrirkomulag sem ríkir innan kirkjunnar sem stofnunar og hvað best fari í þeim efnum. Sóknarnefndarfólk og sóknarnefndir gegna tilteknu hlutverki innan kirkjunnar. Vitanlega geta og hafa skapast vandræði á vettvangi sóknarnefnda eins og annars staðar. En við skulum vona að það heyri til undantekninga fremur en annars. 

Kirkjuhúsin eru almennt eign viðkomandi safnaða. (Í víðari skilningi má segja að kirkjuhús séu almennt séð sameign kristins fólks - þó ekki sé það lögformlegur skilningur.) Segja má því að sóknarnefndin sé vörsluaðili viðkomandi kirkju og ber hún vissa ábyrgð á húsinu sem slík, viðhaldi þess o.s.frv. Um það er kveðið á í lögum og reglugerðum. Hafa ber í huga að sérhver safnaðarmeðlimur getur boðið sig fram til setu í sóknarnefnd. Hvað sem öðru líður þá starfar sóknarnefnd í umboði safnaðarins sjálfs og hefur mjög skilgreindu hlutverki að gegna.

Virðingarfyllst og með góðri kveðju

Gunnar Jóhannesson 

Gunnar Jóhannesson (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 23:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband