Feisbókin drap í mér karlmanninn - að einhverjum hundraðshluta.

Hjá Murr efh. í Súðavík starfa bara kvenmenn. Ekki konur - heldur kvenmenn. Segja þær sjálfar. Og svo gerist það að ég fer á feisbókina og tek eitt af þeim fjölmörgu prófum sem þar eru á sveimi. Ég tók prófið - hversu mikill karlmaður ertu.

Kannski má segja að það sem slíkt ætti það ekki að valda mér áhyggjum. Þyki þokkalega kynvís og mér vex skegg - að mestu leyti í það minnsta.

En svo kemur í ljós að í mér blundar kerling ein - sem prófið á feisbókinni mat til einhverra prósenta. Og þau prósent eru auðvitað á kostnað karlmennskunnar. Og nú eru góð ráð dýr. Ekki þori ég með nokkru móti að segja mömmu frá þessu enda gladdist hún mjög þegar ég fæddist - loksins kom drengur eftir þrjár systur - og skil ég hana vel. Hvað þá að ég þori að segja öldruðum föður mínum þetta sem alinn er upp í Hrísey og í þá daga var kynvilla ekki til.

En ég er ekkert endilega að segja að ég sé einhver kerling - nei ég er bara svona mjúkur maður. Hlusta á Cold Play sem þykir víst dulítið hinsegin skv. feisbókinni og hef gaman af þáttunum um húsmæðurnar í öngum sínum - og á það meira að segja til að fella tár yfir extreme makeover - home edition.

Og viðurkenni það.

En - ég þarf að horfast í augu við kvenmennina hjá Murr á hverjum degi - sem brosa og biðja mig að færa mig í hvert sinn sem þarf að lyfta þungum hlut.

Já fjandans feisbókin er búin að drepa í mér karlmennskuna - svona að vissu leyti.


Feðgar kaupa sér belju - sorgarsaga úr íslenskri sveit.

Það brá svo við að feðgar nokkrir íslenskir höfðu flutt búferlum í austurveg. Þeir höfðu sest að á samyrkjubúi í Rússlandi og lært þar allt um búskap og ölgerð.

En heim vildu þeir þegar fréttist að til stæði að selja ríkisbeljuna. Auðhumlu sem mjólkað hafði vel um áratuga skeið. Já beljan atarna bara jók mjólkina ef eitthvað var og því hugsuðu þeir feðgar sér gott til glóðarinnar - slíka belju urðu þeir að eignast.

Er heim var komið var auðvitað nærtækast að tala beint við fjósameistarann sem var vinur þeirra frá fyrri tíð. Honum var boðið gull og grænir skógar ef hann léti þeim í té beljuna góðu. Og við þeirri bón varð hann að sjálfsögðu - og ef það var ekki nóg þá lánaði hann þeim peninga til að borga fyrir beljuna - bara svona uppá gamla tíma.

Svo byrjuðu feðgar að mjólka. Þeir mjólkuðu og mjólkuðu. Beljan sem var full af mjólk til að byrja með gaf vel af sér og hver brúsinn fylltist á fætur öðrum. Annað eins hafði aldrei sést. Mjólkin flóði yfir tún og engi. Feðgarnir keyptu sér fleiri beljur og sáu að ekki nokkur maður gæti annað því að mjólka af slíkum krafti án hjálpar. Þeir tóku því til sinna ráða og fengu sér mjaltaþjón. Sá mjólkaði dag og nótt - spurði einskis um ástand belju eða líðan. Hann hugsaði bara vélrænt um framleiðslu og framlegð.

Beljan tók að tæmast. Nýi fjósameistarinn - gildur og sver sá að nú yrði að auka fóðurgjöfina til að standa undir allri mjólkurframleiðslunni. Hann fór því að auglýsa um heimsbyggðina alla að á Íslandi væri belja ein sem mjólkaði betur en allar aðrar beljur í henni veröld. Og sá sem vildi bragða á mjólkinni yrði að leggja inn fóður í hlöðuna og svo fengi sá hinn sami arðinn greiddan í mjólk. Dýrindis mjólk.

En ræfils beljan. Hún stóð auðvitað ekki undir þessum gríðarlegu væntingum. Sama hvað hún át af fóðrinu - mjólkin tæmdist. Feðgarnir gerðust hræddir. Þeir óskuðu afurðalána út á beljuna. Hagræddu tölum og sögðu hana mjólka mun meira en raun bar vitni. Þeir voru meira að segja svo óforskammaðir að þeir lugu til um fjölda spena - sögðu þá orðna vel á annan tuginn á beljunni  en það fór svo ansi vel á pappírunum sem afhentir voru afurðadeildinni og lífeyrissjóðunum sem lánuðu - og lánuðu.

En svo kom að því - mjólkin kláraðist.

En feðgarnir gáfust ekki upp. Þeir höfðu fleytt rjómann allan tímann - sátu á smérfjalli sem fljótt bráðnaði undan rassinum á þeim en almenningur sem taldi sig vera með dýrindis mjólk í flöskunum komst að því að ekkert var þar nema undanrenna og mysa. Já mjólkin var súr. Hún var gallsúr.

Ræfils beljan lagðist í flórinn og fjósameistarinn flúði. Faldi sig fjarri mannabyggðum og lét ekki sjá sig. Sendi að vísu tilkynningar og mótmæli úr laumi - sagði þetta ekki sér að kenna. Hann hefði lært þetta af feðgunum og þeir af rússneskum landbúnaðarspekúlöntum - svokölluðum olígorkum.

Ræfils beljan - ekkert kom úr spenunum nema blóðið - og það rann í stríðum straumum. Að lokum kom eftirlitsmaður ríkisins og tók beljuna í sína vörslu. Nú skildi blásið líf í skepnuna og henni komið á fætur sama hvað slíkar aðgerðir myndu kosta. Nóg var til af fátækum og gamlingjum á Íslandi til að borga brúsann. Ef þeir duga ekki til - þá verður leitað leiða til að ná fé af fötluðum og þaðan af ver stöddum.

En nú líkur þessari sorgarsögu úr íslenskri sveit - og er sagan öll.


Engir kettlingar í heimsókn í verksmiðju Murr.

Við höfum ávalt gaman af að fá góða gesti. Og ekki var þeim fysjað saman sem kíktu við hjá okkur hér um daginn - en þá birtust hvorki meira né minna en nokkur tonn af vöðvum....tja í það minnsta hátt á annað.DSC00235

Og léttklæddir voru þeir enda spánarveður hér á Vestfjörðum. Um var að ræða keppendur í Vestfjarðavíkingnum 2009.DSC00249

Það sem gerði þessa heimsókn sérstaklega skemmtilega var sú staðreynd að fáir hugsa eins vel um mataræðið og þeir sem þurfa á öllum sínum líkamlega styrk að halda - og það þurfa þessir kappar svo sannarlega. Og fróðleik fengu þeir um mataræði og prótein át - og hlustuðu af áhuga.DSC00241Sannarlega frábærir strákar - áhugasamir og fóru að sjálfsögðu heim með prufur - bæði fyrir sig og kisurnar.

Takk fyrir heimsóknina!

 


Vissir þú þetta um ketti?

Að kettir eru sérhæfðar kjötætur - sem þýðir að meltingarkerfið hjá þeim er sérhannað til að melta prótein! 

 

Megin hlutar meltingarkerfisins eru:

Beittar tennur sem rífa bráðina og tæta.

Hafa ekki sérstök niðurbrotsefni í munnvatninu líkt og t.d. við og hundar - vegna þess að kisum er ekki eðlilegt að borða kolvetni. 

Ensím til að brjóta niður sterkju eru af mjög skornum skammti - einfaldlega af því að kisum er ekki eðlilegt að borða kolvetnaríkan mat! Hjá okkur og hundum framleiðir brisið slík ensím.

Kisur hafa öðruvísi bragðlauka - þær nema ekki sætubragð - og eru því mjög ólíkar okkur og hundum - þ.e. "engar sykurtennur" 

Mjög stuttur meltingarvegur þýðir að fæða meltist hratt - og því mikilvægt fyrir kisu að velja sér rétt fæði. 

Lifrin hjá kisu getur ekki geymt sykrur líkt og hjá okkur og hundum - og því er hætta á að lifrarskemmdir geti átt sér stað ef maturinn er ekki rétt samsettur. 

Niðurbrot næringarefna er stjórnað af magni próteins sem étið er - en þetta þýðir að hjá kisum er það ekki sykurmagn í blóði sem stýrir losun insulins - heldur styrkur próteina. Passa verður því upp á að kisa fá góð prótein.

Eru ekki hrifnar af "gömlum" mat - þetta þekkja allir kattareigendur - kisa er vandlát og vill fá "ferskan" mat. 

Eru ótrúlega vandlátar og láta ekki bjóða sér neitt minna en það ferskasta og besta - þetta ræðst að stórum hluta vegna mjög næms lyktarskyns.

Kattarskíturinn inniheldur yfirleitt lykt sem kisa gefur frá sér sjálf og hefur ekkert með matinn að gera - þetta gera kisurnar til að merkja sér svæði - það er kirtill við endaþarmsopið sem gefur frá sér þessa lykt.

Já kisa er merkilegt dýr sem okkur ber að hugsa vel um. Þetta vitum við hjá Murr og hönnum fóðrið með þetta að leiðarljósi.

NÚ FÆST MURR KATTAMATUR Í VERSLUNUM BÓNUSS - SAMKAUPA - NETTÓ - 10/11 OG VÍÐA Á LANDSBYGGÐINNI.


Kórstýrurnar kunna sitt fag.

Líklegast verða foreldrar mínir að teljast daprir fjárfestar. Ekki það að þau hafi fjárfest í bönkunum eða díkód - nei ekki aldeilis. En lélega fjárfestu þau samt - og það kemur æ betur í ljós.

Mamma og pabbi sendu mig nefnilega í dansskóla. Og það margoft - að mig minnir. Í gamla Allanum á Akureyri. Þar mætti maður á sínum terlínbuxum og spánýjum lakkskóm og þóttist vera að læra að dansa.

Svo kemur bara í ljós að ég virðist ekkert hafa lært að dansa. Lét bara eins og fífl í dansskólanum - tók ekki eftir neinu og man rétt eftir einhverju sem kallað var "hliðar saman hliðar".

Bara að ég hefði nú kunnað betur með þessa fjárfestingu foreldra minna að fara. En ég hegðaði mér eins og bankastjórar nútímans - lét eins og fífl og er svo með allt niður um mig á dansgólfinu. Konan löngu hætt að nenna að tjónka við mér og trúir mér þegar ég segi "nei elskan - ég nenni ekki að dansa".

En í kvöld komst ég í hann krappann. Fór í Edinborgarhúsið í saltfiskveislu Byggðasafns Vestfjarða. Ágætis kvöld - meðalaldurinn dálítið í takt við titilinn á veisluhaldaranum - svona safnaútlit á fólki. En hvað um það - ég glerfínn á lakkskóm líkt og forðum.

Sat auðvitað mest við borðið og spjallaði gáfulega um daginn og veginn við þá sem nenntu við mig að ræða. Við og við spurði frúin hvort ég vildi taka snúning en ég veifaði því frá mér og sagðist ekki kunna að dansa. Sagði bara nei.

En ekki var Adam lengi í paradís - frekar en Björgólfur í icesave. Aðvífandi kom fyrri af tveimur kórstjórum bæjarins sem kann að telja í taktinn og tók ekkert mark á mér þegar ég sagði nei. Svona konur láta ekkert lærling eins og mig segja sér fyrir verkum og á dansgólfið var ég drifinn. Svo taldi hún í - og ég fylgdi. Og það var eins og við manninn mælt - hræðslan og hlýðnin var slík að ég sveif um gólfið líkt íslenska krónan í fljótandi gengi. Að mér fannst í það minnsta - man voða lítið eftir laginu - fannst það hljóma mest sem "1,2...1,2,3...koma svo".

Það var þreyttur og nokkuð sáttur maður sem settist við borðið aftur. Dró djúpt andann og vonaði að enginn hefði slasast - maður sveiflaðist jú töluvert.

Og viti menn - þá birtist hinn kórstjórinn - eða kórstýran. Og það var eins og við manninn mælt - ég var skyndilega kominn í slíka sveiflu að við lá að maður yrði að skjóta á sig sjóveikistöflu......

Já - það gaf á bátinn í salfiskveislunni. Stórkostleg upplifun og mér líður sem aðeins eitt lag hafi verið sungið undir suðrænni sveiflu ...1,2....1,2,3...og koma svo!!

Já kórstýrurnar kunna sitt fag.


Hversvegna framleiðir Murr blautfóður - en ekki þurrfóður?

Svarið er einfalt - kettir þola illa hátt hlutfall kolvetna. 

Þurrfóður inniheldur yfirleitt frekar hátt hlutfall kolvetna (of 10 % eða meira) og það eykur líkur á að kettir fitni um of og fái sykursýki með aldrinum.

Náttúrulegt fóður katta (yfirleitt mýs og lítil nagdýr) inniheldur um 10-13% prótein, 7-10% fitu og aðeins 4-5% kolvetni.

Þurrfóður þarf að innihalda frekar hátt hlutfall kolvetna til þess að binda saman og mynda töflurnar (köglana). Blautfóður er hinsvegar með mun lægra hlutfall kolvetna.

Murr kattamatur inniheldur 13% prótein, 7,5% fitu og um 3% kolvetni. Að auki er mjög mikilvægt fyrir fólk að athuga að Murr inniheldur 75% vatn - meðan flestar aðrar sambærilegar blautfóðurstegundir innihalda 82% vatn.

Við hjá Murr erum því ekki að selja vatn!!

Með því að gefa köttum Murr kattamat er því náttúruleg leið til að tryggja rétta næringarsamsetningu og um leið að tryggja rétt holdafar á kisu!

Ef þið hafið spurningar - sendið endilega fyrirspurnir á murr@murr.is

 

Murrað á markaðinn.

Það er alltaf gaman að fá umfjöllun um verkefni sem efla eiga atvinnu og möguleika. Murr er eitt af þeim fyrirtækjum. Staðsett á landsbyggðinni - vandað til framleiðslu og nýsköpun.

 


mbl.is Murrað á markaðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kúlaður steinbítur.

Ég ákvað að skíra bloggið mitt kúlaðan steinbít. Ástæðan var sú að ég hafði aldrei heyrt á þessa verkun steinbíts minnst fyrr en ég kynnist miklum öndvegismanni hér fyrir vestan.

Og í gær var hann borinn til grafar hann Kjartan Sigmundsson. Við kynntumst niður á bryggju þar sem hann stóð við löndunarkranann og aðstoðaði son sinn við löndun. Og þar áttum við oft eftir að hittast og spjalla saman um daginn og veginn. Og frá mörgu hafði hann að segja hann Kjartan - enda upplifað meira á sinni löngu æfi en flestir okkar hinna munum líklegast nokkurn tímann gera.

Ég hafði óskaplega gaman af að spjalla við Kjartan og hlakka mikið til þegar æviminningarnar verða komnar á prent en mér er tjáð að verið sé að klára þau skrif. Hann ku þó hafa ætlað sér að bíða með brottförina þangað til bókin væri komin út - en eins og hann sagði mér þá hafði hann um árabil verið að punkta hjá sér minningarbrot. Og það er vel. Okkur er nefnilega mikilvægt að fært sé í letur frásagnir slíkra manna. Sem byggt hafa landið og lagt grunninn að því sem við ungafólkið í dag tökum sem gefnum hlut.

Það var svo einn góðviðrisdag að ég skrapp með honum í hjallann við Hnífsdalsveginn og fylgdist með honum hengja upp kúlaðan steinbít - sem nafninu á blogginu sló þessu niður í huga. Þetta var nafnið. 

Kúlaður steinbítur er nefnilega eins Vestfirskt og hægt er. Alveg eins og Kjartan heitinn. Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að smakka hjá honum svartfuglsegg og fyrir stundirnar á bryggjunni.


Murr kattamatur á boðstólnum í Kattholti.

Það var okkur ánægjuefni hjá Murr að Kattholt sé búið að setja Murr kattamatinn á matseðilinn. Kisurnar sem prufuðu voru hæstánægðar og í Fréttablaðinu í dagmátti sjá að Sigríður Heiðberg mun bjóða uppá Murr kattamat fyrir þær kisur sem dvelja á kattahótelinu.

Fyrir okkur hjá Murr er þetta gæðastimpill á okkar framleiðslu - því allir vita að Sigríður og samstarfsfólk hennar vinnur gríðarlega merkilegt og óeigingjarnt starf á Kattholti

Það er nokkuð ljóst að við Íslendingar stæðum ekki í þessum sporum ef fleiri hugsuðu eins.


Lumar þú á skemmtilegri kattarsögu?

Við hjá Murr ætlum að fara að taka saman sögur um og af kisum. Sögurnar verða birtar á heimasíðu Murr ehf. 

Sendið okkur endilega skemmtilega sögu á murr@murr.is

 

http://www.murr.is

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband