Laugardagur, 25. júlí 2009
Það er von að fólk skilji ekkert í þessu evrópusambandi.
Ég átti samræður í gufunni um evrópusambandsaðild í dag.
Ég og viðmælandi minn ræddum kosti þess og galla að ganga í ESB.
Rökin sem voru færð fram um galla þess að ganga í ESB voru þau að við Íslendingar hljótum alltaf að þurfa að tryggja að okkar eigin auðlindir haldist í okkar eign. Að við sjálf getum stjórnað því hvernig farið sé með þessar auðlindir og í hvers þágu þær séu nýttar.
Auðvitað kom landbúnaðurinn upp í umræðunni. Þar stóð uppúr að við búum við ákaflega sérstakar aðstæður - að hér á landi séu aðstæður sem ekki þekkist annarsstaðar.
Við eigum okkar eigið kúakyn sem framleiði nægjanlegt magn mjólkur til að metta þjóðina - og þar fyrir utan sé mjólkin íslenska ákaflega holl. Kýrnar séu landnámskýr og hafi lítið sem ekkert breyst - hafi því aðlagað sig því fóðri sem hér er á boðstólnum - og þekki lundarfar íslenskra bænda
Íslenska sauðkindin sér einstök. Gefi af sér ull sem nýst hafi um aldir og skapi verðmæti. Kjötið sé ákaflega gott í ljósi þess að þær gangi um heiðar og fjöll - og staka vegakanta. Þetta sé auðlind sem verði að nýta betur.
Íslenski hesturinn - já maður þurfi nú ekkert að ræða hann. Hér sé einfaldlega um skepnu að ræða sem sé með drifi á öllum.
Og það sem þessi dýr okkar íslensku eigi sameiginlegt sé að þau séu ákaflega heilbrigð - við séum með lítið af dýrasjúkdómum samanborið við nágrannalönd og í reynd flest lönd.
Því megi ekki breyta með óheftum innflutningi á kjöti og kjötafurðum - svo ekki sé nefnt lifandi dýrum.
Sjávarútvegurinn sé auðvitað flóknari - því fiskurinn sé með sporð og syndi um heimsins höf. Við höfum jú Íslendingar elt hann um allt og hver þekkir ekki smuguna og ósátta Norðmenn sem sækja okkur til saka. En landhelgina verðum við að verja og hún sé okkar.
En burt séð frá þessu þá má telja víst að iðnaðurinn myndi sjálfsagt njóta góðs af - tollar og aðflutningsgjöld myndu lækka eða hverfa með öllu og ýmis samstarfsverkefni gætu blómstrað. Menntun myndi njóta góðs af - einfaldlega sökum ýmissa styrkja sem okkur yrðu aðgengilegir ásamt fleiri þáttum.
Líklegast myndu vaxtakjör batna - verða líkari því sem gerist hjá siðmenntuðum þjóðum - sem myndi auðvitað hjálpa okkur Íslendingum sem erum píndir af ótrúlegum vöxtum á útlánum. Ef til vill gæti maður leitað til nágrannalanda um tryggingar og slíkt - enda er ekki heilbrigð skynsemi í verði á slíkri þjónustu á Íslandi.
ESB er frumskógur styrkja og bitlinga og því myndi ný starfsstétt myndast - umsækjendur. Fjöldi fólks fengi vinnu við að sækja um styrki og vinna í regluverki tengdu ESB - það er alþekkt og á ég m.a. kunningja sem situr við Ráðhústorgið í Köben og vinnur í regluverki ESB fyrir hönd danskra iðnfyrirtækja.
Hvað varðar þjónustu - sem heilbrigðis og tryggingamál - það þekkti hvorugur okkar til að geta rætt.
Og þrátt fyrir að mikill hiti væri í umræðunni - sem kannski er eðlilegt í ljósi þess að hún fór fram í gufubaðinu - þá vorum við þó sammála ég og ég sjálfur að frekari málefnaleg umræða yrði að eiga sér stað um málið.
Svo stóð ég upp og dreif mig í sturtu. Gott að vera svona einn í gufu og ræða málin. Þó engin niðurstaða hafi fengist - frekar en hjá flestum íbúum þessa lands.
En þangað til - eflum íslenskan iðnað - og já...kíkið endilega á Murr.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 22. júlí 2009
Hvað veit ég?
En undir snyrtilegu yfirborðinu leyndist svo sóðalegur karl - sem vaðið hefur yfir okkur Íslendinga með lygum og ógeði. Sér til halds og trausts hefur hann svo haft aðstoð af syni sýnum sem rekinn er áfram af "hefndarhug" skv. honum sjálfum. En karlinn er ekki í fyrsta sinn að sína sitt rétta andlit - hann er jú dæmdur sakamaður.
Og ekki bætir úr skák að þeir hafa haft aðgang að gjörspilltum Íslenskum bankamönnum og að virðist stjórnmálamönnum líka.
Mér er flökurt þegar ég hugsa um þetta.
En hvað veit ég. Ég er bara einn af þeim sem á víst að borga brúsann.
Æi hressið ykkur við og fáið ykkur Murr!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 22. júlí 2009
Feitir bissnessrefir rífa í sig eggin og skilja hænurnar steingeldar eftir.
Fréttirnar af þeim Wernerbræðrum - Samsonum og þaðan af meiri bisnessrefum sem fara inn í fyrirtæki "taka til" og láta sig svo hverfa minnti mig á barnæsku mína.
Já ég stundaði "sambærileg viðskipti".
Í þá daga var ég ávalt með föður mínum í vitjunum á sveitabæjum um sveitir Eyjafjarðar. Ég var ekki hár í loftinu en þeim mun kraftmeiri. Eitt af áhugamálum mínum var að þefa uppi hænsnakofann á bænum og taka svo til hendinni við að þvo og þrífa hænurnar. Það hjálpaði mér að ég var ekki hár í loftinu og gat því auðveldlega smeygt mér innum þröngt gatið á hænsnakofanum.
Hófst svo böðunin - eða "tiltektin" eins og það heitir á bissness máli nútímans. Sjálfsagt hef ég talið þessar aðgerðir mínar til þess fallnar að auka afurðir hænsnanna - svona "chickensave".
Auðvitað voru hænurnar ekki ánægðar með slíkar heimsóknir og voru ansi mikil læti á meðan á tiltektinni stóð - og alls ekki var þeim eðlilegt að vera baðaðar. Þær flögruðu því brjálaðar um kofann í viðleitni sinni við að komast undan þessum skaðræðis ref sem þarna var kominn. Og sem sjálfur var auðvitað út ataður í hænsnaskít og fiðri - þó með bros á vör og fullur áhuga. Barnslegum áhuga.
Og eigendurnir - bændurnir - voru auðvitað vonsviknir - enda lagðist varp niður um langt skeið og sumar gáfust hreinlega upp - urðu steingeldar. Segja má að slíkar heimsóknir hafi í raun verið skelfingin ein fyrir afkomu viðkomandi hænsnakofa - og hreint eggja-gjaldþrot legið í loftinu - með öllu fiðrinu og gagginu.
En það varð þó hænsnaræktinni og eggjaframleiðslunni til lífs að ég óx - stækkaði og á endanum komst ég ekkert inn um þröngt hænsnagatið. Þá tóku önnur "viðskipti" við og sem fjallað verður um seinna.
En því miður stóðu bankarnir galopnir fyrir bissnessrefina- sem þangað tróðu sér inn - spikfeitir og gráðugir sem létu sér þó ekki nægja að "taka til" heldur átu þeir eggin og skildu hænurnar geldar eftir - og okkur bændurna með sárt ennið og kostnaðinn við að byggja upp nýjan stofn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 21. júlí 2009
Hryllilegir atburðir sem aldrei mega gleymast.
Ég horfði á mjög áhrifaríkan þátt á Stöð 2 og sem fjallaði um árásir Bandaríkjamanna á Hiroshima og Nagasaki sem mörkuðu endalok stríðsins við Japani - afleiðingar og líf þeirra þúsunda Japana sem lifðu af þessar hörmungar.
Ég hef sjálfur komið til Hiroshima og aðeins kynnst í gegnum fyrrum samstarfsmann afleiðingum þessarar árásar.
Þeir sem hafa komið til Japan og ferðast um landið vita sem er að þar er stundvísi í hávegum höfð og þó maður kunni ekki stakt orð í japönsku þá er nóg að fylgjast með klukkunni - japanskar lestir eru ávalt upp á sekúndu - ekki mínútu heldur sekúndu. Svo stendur maður bara á réttum stað á brautarpallinum og þær stoppa. Ekki of aftarlega eða framarlega - nei á réttum stað á réttum tíma.
Í seinni ferð minni til Japan - þegar ég var að fara að starfa við háskólann í Hiroshima þá nýtti ég mér þessa vitneskju og komst á leiðarenda. En mér til mikillar undrunar þá þurfti ég að bíða í 30 mínútur eftir samstarfsmanni mínum. Það var mér óskiljanlegt og eitthvað mjög alvarlegt hlaut að að hafa gerst. Enda kom á daginn þegar hann loks kom að hann hafði komið beint af dánarbeði föður síns sem hafði látist úr krabbameini. Afleiðingum kjarnorkuárásarinnar á Hiroshima.
Ég taldi auðvitað að nú yrði ekkert úr fyrirhugaðri dvöl minni á háskólanum en því var víðs fjarri - Japaninn bað mig afsökunar á að láta mig bíða - og svo var haldið beinustu leið á rannsóknastofuna að undirbúa vinnunna. Og þetta var á laugardegi.
Háskólinn í Hiroshima er reyndar ekki í borginni sjálfri heldur litlum bæ í hlíðunum fyrir ofan Hiroshima, Higashi-Hiroshima. En það eru einmitt þessar hlíðar sem skiptu svo miklu máli um staðarval sprengingarinnar - auk þess að um borgina rennur á sem klofnar á ákveðnum stað og myndar því gott "skotmark".
Þegar ég var þarna á vordögum var ekki margt sem minnti á sprenginguna - hlíðarnar skörtuðu sínu fegursta í bleikum lit kirsuberjatrjánna og fólk var úti og naut þess að halda upp á Hanami sem er í tilefni þess að kirsuberjatrén blómgast. Afskaplega fallegt og ekkert sem benti til þess að stór hluti borgarbúa hefði misst bæði sína nánustu og hlotið sjálft varanlegan skaða af.
En í borginni sjálfri er minningin um daginn örlagaríka er í hávegum höfð - en minningargarður og safn í miðri borg - "Peace-park" er manni hörð áminning um mannvonsku og lítilsvirðingu fyrir lífinu. Að heimsækja þann garð - minnisvarða - er upplifun sem fylgir manni það sem eftir lifir ævinnar. Af mörgum hryllilegum minnisvörðum held ég að tröppurnar þar sem útlínur ungs manns er að sjá sem brann upp við sprenginguna séu minnisstæðastar - enda ógnar hiti sem fylgdi eða yfir 5000 gráður. Þarna sat hann og beið elskunnar sinnar og nú er ekkert að sjá nema útlínurnar.
Á meðan á dvöl minni stóð kynntist ég menningarheimi sem er gjörólíkur sem við eigum að venjast. Nú var til að mynda samstarfsaðili minn orðinn höfuð fjölskyldunnar og átti í raun allt sem faðir hans skyldi eftir- hús, bíl og það var hans hlutverk að sjá til þess að grafhýsið sem geymdi jarðneskar leifar föðurins væri samkvæmt hefðum. Móðir hans var upp á hann komin og hann þurfti að taka ákvarðanir um hvað gera ætti við t.d. bifreið fjölskyldunnar. Ekki hafði móðir hans bílpróf og ekki var inni í myndinni að selja bílinn og láta hana fá peninginn - það bara tíðkaðist ekki. Eins fannst honum símreikningur móðurinn orðinn óhóflegur - hún hringdi mikið í vini og ættingja - kannski vegna dauða eiginmannsins - en of mikið að hans mati. Já þetta var mér framandi hugsunarháttur.
Hiroshima er merkileg borg - í raun nýrisin upp úr öskustóði kjarnorkusprengjunnar og ekkert hús eldra en frá árinu 1945. Fegurðin blasir við um allt og fjörðurinn er þekktur fyrir mikla ostrurækt - sannkallað hnossgæti og ólíkar því sem ég hef bragðað annarsstaðar.
Þetta var merkileg heimsókn og lærdómsrík dvöl - í landi þar sem maður segir aldrei "já..þetta er eins og heima".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 16. júlí 2009
Átt þú kettlingafulla læðu eða hvolpafulla tík?
Allir þekkja vel að járn er mikilvægt konum sem hafa börn á brjósti og alls ekki óalgengt að þeim sé ráðlagt að fá sér járntöflur.
Þessu er ekkert öðruvísi farið hjá hundum og köttum. Járn er mikilvægt og járnskortur algengur hjá dýrunum okkar.
Járnskortur er ennfremur mjög algengur hjá dýrum sem eiga mörg afkvæmi en járn fæst að mestu leyti úr fæðunni og þau geta ekki geymt járn. Því er alltaf mikil hætta á að dýr sem eignast mörg afkvæmi líkt og kettir og hundar. Hjá svínum er það t.d. svo að grísir eru sprautaði með járni.
Járn er því mikilvægt í fóðrinu og nýtist dýrunum best úr kjöti - en þau eiga erfitt að nýta sér það sem er í korni.
Í gær hafði Elfa Ágústsdóttir dýralæknir á Dýraspítalanum í Lögmannshlíð á Akureyri samband og sagði okkur að hún ráðlegði ekki bara kattaeigendum að gefa þeim Murr kattamat - heldur líka eigendum hvolpafullra eða mjólkandi tíka. Ef um er að ræða stóra hunda þá er Murr kattamatur hentugur með því hundafóðri sem þeir éta annars.
Ástæðan væri sú að Murr er unnið úr hágæða kjöti og innihéldi þ.a.l. mikið járn.
Það sýnir sig einfaldlega að Murr kattamatur er afskaplega hollur og góður.
Ert þú búin(n) að prufa?
Og verðið - 98 krónur í Bónus per poki sem er dagskammtur fyrir 2 kg kött - eða 196kr fyrir 4 kg kött - gerðu verðsamanburð - láttu ekki kílóverðið plata þig - við erum nefnilega ekki að selja neitt óþarfa vatn - Murr inniheldur aðeins hágæða kjöt og kjötafurðir sem kisu er eðlilegt að borða.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 15. júlí 2009
Á Ford Bronco '74.
Það var spenningur í loftinu veturinn 1974 þegar pabbi kom keyrandi á glænýjum Ford Bronco sport - V8 og eiturgrænn að lit. Krómpakkinn fólst í krómlistum umhverfis gluggana. Rosa flottur bíll og ég sat uppi á háum ruðning í götunni heima ásamt Pálma vini mínum og beið. Man þetta eins og hefði gerst í gær. Þetta var mikill snjóavetur og þegar pabbi keyrði framhjá okkur horfði maður niður í þakið á Bronconum - svo háir voru snjóruðningarnir sem Óli B hafði rutt á jarðýtunni.
Já snjórinn var ruddur á jarðýtu í þá daga.
Og Broncoinn var flottur. Að vísu var afturbekkurinn ansi þröngur og ekki hægt að opna glugga nema frammí. Við systkinin slógumst um hver fengi að sitja við gluggann og úr varð að þær tvær elstu og frekustu fengu gluggasæti og við yngri vorum í miðjunni - 5 stykki sátu á bekk sem rúmaði í reynd vart nema tvo fullorðna.
Og svo var haldið í fyrsta ferðalagið. Farangrinum var auðvitað komið fyrir í risastórum plastpoka á toppgrindinni - líkt og tíðkaðist í þá daga - til að verja fyrir rigningu og skít. Þetta þótti magnaður möguleiki og enginn maður með mönnum nema með risapoka á þakinu.
Við systkinin tróðum okkur í aftursætið. Elsta systirin náttúrlega orðin gelgja og leið vítiskvalir að þurfa að ferðast með þessu fólki - skammaðist sín fyrir okkur og gerir líklegast enn. Sú næst elsta einnig að skríða inn á gelgjuna - en mér var skítsama - ég var í Bronconum sem ég reiknaði með að erfa og var búinn að ljúga Pálma fullan um að hann gæti flogið.
Svo var ekið af stað. Eftir skamma stund kveikti gamli sér í pípu og bíllinn fylltist af pípureyk. Enginn mátti opna glugga enda var þeim svosem ekkert til að fara opnanlegu gluggunum. Að vísu setti hann smá rifu á sinn glugga til að hleypa mesta reyknum út - svona til að hann sæi fram veginn og dræpi okkur ekki með tölu.
En þá kom í ljós galli á gjöf Njarðar - en Broncoinn var gæddur þeirri náttúru að ef gluggi var opnaður á ferð þá pompaði þakið - eða fóðringin í þakinu niður og allir sátu líkt og með húfu á höfði. Og bílstjórinn blótaði - lyfti upp þakinu með annarri hendi og stjórnaði akstrinum með hinni og reykti eins og skorsteinn - en við systkinin hnakkrifumst í aftursætinu því að um leið og einn hreyfði sig þá þurftu allir að hreyfa sig og allt fór úr skorðum. Ekki bætti úr skák að Broncoinn var mjór og hár - gaf vel eftir í beygjum og maður hentist til á frá - ef við ekki héldum okkur fast.
Erum við ekki að verða komin. Þetta var algengasta setningin sem ég man úr þessum ferðum og mátti þá einu gilda hvort verið var að fara langt eða stutt. En um landið þvert og endilangt var farið með okkur í Bronconum og skil ég ekki ennþá hvernig foreldrar mínir héldu geðheilsu sinni í þokkalegu standi.
Já Ford Bronco '74 - það var bíllinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Þriðjudagur, 14. júlí 2009
Frábærar kisusögur komnar á Murr heimasíðuna - kíktu á - kannski lumar þú á einni?
Alveg frábært að lesa þessar kisusögur - enda vita allir kisueigendur að þetta eru miklir karakterar!
Kíktu á heimasíðu Murr ehf.
Ef þú hefur sögu af kisu þá sendu endilega á murr@murr.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 13. júlí 2009
Í næfurþunnum náttkjól gaf hún góð ráð um hljóðlátt göngulag.
Að búa í fjölbýlishúsi eða nábýli við aðra krefst þess að kunnátta sé í umgengni. Stór hluti er að kunna að ganga.
Þetta veit ég og hef hlotið sérstaka þjálfun þar að lútandi.
Þannig er mál með vexti að á námsárum mínum í Gautaborg bjó ég í lítilli íbúðarblokk skammt frá hinu þekkta sjúkrahúsi Sahlgrenska þar sem ófáir Íslendingar hafa látið setja í sig líffæri eða tvö. Í sama stigagangi og ég bjó gömul kona. Hún var svo sem ekkert ólík öðrum gömlum konum nema fyrir þær sakir að hún var ákaflega vönd að virðingu sinni. Segja má að hún hafi skammast sín fyrir að búa í blokk - og ef ekki væri fyrir að hún væri öldruð ekkja þá byggi hún í einbýli.
Já hún var nefnilega af fínni fjölskyldu og maðurinn hennar sálugi hann hafði verið í góðri stöðu og menn þéruðu hann. Hún sjálf hafði flutt ung til Gautaborgar - gift sig og breyst í fína frú. Ekki hafði til dæmis hvarflað að henni að ferðast um á reiðhjóli - enda alls ekki fararskjóti heldra fólks. Og eitt sinn þegar lögreglumaður hafði ávarpað hana á almannafæri þá var henni allri lokið - hvílík ókurteisi við fína frú. Fólk hefði getað túlkað gjörninginn sem svo að hún væri annarflokks. Fuss sagði hún við mig þegar hún rifjaði upp þessa minningu.
Og auðvitað tók hún eftir glannalegu göngulagi mínu um stigaganginn. Og sat svo eitt sinn fyrir mér þegar ég kom þreyttur heim - þungstígur á kuldaskóm. Trampaði svo óskaplega að heyra mátti inn í nærliggjandi íbúðir. Sú gamla stóð í dyragættinni og heilsaði mér. "Gott kvöld herra Ágústsson" sagði hún. Gott kvöld sagði ég horfði upp í loftið. En sú gamla var nefnilega ansi léttklædd. Í næfurþunnum náttkjöl stóð hún þarna í rökkrinu.
"Ég heyri að þú hefur aldrei búið í íbúðarblokk áður", segir hún. Nja, jú reyndar svara ég. "Mér heyrist að þú sért alinn upp í einbýli" segir hún og ég játa því. "Ég líka" bætir hún við "er hér bara af illri nauðsyn" - "er orðin ekkja - en þegar maðurinn minn sálugi lifði þá bjuggum við í einbýli". Vandræðin ágerðust - og mig langaði að halda áfram heim.
"Heyrðu mig" segir hún svo - "mig langar að fara yfir nokkur atriði með þér". Nú segi ég í forundran - hvað er það? "Jú sjáðu til, það er kúnst að ganga rétt svo maður trufli ekki nágrannana". Nú jæja, ekki vissi ég nú til þess að ég væri þungstígur - eða í það minnsta þungstígari en aðrir. Svo dregur sú gamla fram þrenn skópör af mismunandi gerðum og hefur mikla sýnikennslu í hvernig best sé að stíga til jarðar - auka hraða og hægja á sér - allt eftir gerð hæla og sóla. "Ef maður til að mynda er að flýta sér - þá er gott láta sólana renna létt yfir flötinn og leyfa iljunum að leika við gólfið - ekki skella hælum" segir hún og svífur eftir ganginum á gegnsæjum náttkjólnum. Er ég orðinn klikkaður hugsaði ég þorði ekki að líta á hana.
Svo hélt námskeiðið áfram í dágóða stund. Á endanum dró hún fram fallega loðinniskó og mæltist til að ég fengi mér slíka - færi vel með fætur og nýru.
Hvílíkt námskeið hafði ég aldrei áður fengið - í það að minnsta mér að kostnaðarlausu!
Þegar við kvöddumst spurði hún mig hvað ég væri að mennta mig. Ég sagði henni það og þá fylltist hún lotningu - heilsaði mér ávalt "herra doktor" eftir það - full lotningar.
Ekki veit ég hvort hún er lífs mín ágæta kennslukona - en kennslustundin líður mér seint úr minni. Mér finnst líka konur í dag glannalegar á þessum reiðhjólum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 9. júlí 2009
Lumar þú á skemmtilegri ljósmynd af kettlingum?
Við hjá Murr erum að klára þróun á fóðri fyrir kettlinga og ungketti. Við leitum því að fallegri ljósmynd í góðri upplausn af kettlingi - eða kettlingum.
Langar þig að eiga mynd sem skreytir umbúðir Murr kattamats?
Sendu okkur mynd á netfangið murr@murr.isog að sjálfsögðu færðu Murr kattamat að þökkum!
ATH! - aðeins eina mynd frá hverjum sendanda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 9. júlí 2009
Murr kattamatur fæst orðið....
....í fleiri verslunum.
Nú fæst Murr kattamatur í verslunum Bónus um allt land - í verslunum Samkaupa - 10/11 - Krónunni - Fjarðarkaupum - Hagkaupum - Melabúðinni - Kaupfélagi Skagfirðinga á Sauðarkróki -Kaupfélagi Steingrímsfjarðar á Hólmavík og versluninni Albínu á Patreksfirði.
Auk þess á Dýraspítalanum í Lögmannshlíð á Akureyri - en Elfa dýralæknir mælir með Murr kattamat - enda frábær vara.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)