Það er von að fólk skilji ekkert í þessu evrópusambandi.

Ég átti samræður í gufunni um evrópusambandsaðild í dag.

Ég og viðmælandi minn ræddum kosti þess og galla að ganga í ESB.

Rökin sem voru færð fram um galla þess að ganga í ESB voru þau að við Íslendingar hljótum alltaf að þurfa að tryggja að okkar eigin auðlindir haldist í okkar eign. Að við sjálf getum stjórnað því hvernig farið sé með þessar auðlindir og í hvers þágu þær séu nýttar.

Auðvitað kom landbúnaðurinn upp í umræðunni. Þar stóð uppúr að við búum við ákaflega sérstakar aðstæður - að hér á landi séu aðstæður sem ekki þekkist annarsstaðar.

Við eigum okkar eigið kúakyn sem framleiði nægjanlegt magn mjólkur til að metta þjóðina - og þar fyrir utan sé mjólkin íslenska ákaflega holl. Kýrnar séu landnámskýr og hafi lítið sem ekkert breyst - hafi því aðlagað sig því fóðri sem hér er á boðstólnum - og þekki lundarfar íslenskra bænda Smile

Íslenska sauðkindin sér einstök. Gefi af sér ull sem nýst hafi um aldir og skapi verðmæti. Kjötið sé ákaflega gott í ljósi þess að þær gangi um heiðar og fjöll - og staka vegakanta. Þetta sé auðlind sem verði að nýta betur.

Íslenski hesturinn - já maður þurfi nú ekkert að ræða hann. Hér sé einfaldlega um skepnu að ræða sem sé með drifi á öllum.

Og það sem þessi dýr okkar íslensku eigi sameiginlegt sé að þau séu ákaflega heilbrigð - við séum með lítið af dýrasjúkdómum samanborið við nágrannalönd og í reynd flest lönd.

Því megi ekki breyta með óheftum innflutningi á kjöti og kjötafurðum - svo ekki sé nefnt lifandi dýrum.

Sjávarútvegurinn sé auðvitað flóknari - því fiskurinn sé með sporð og syndi um heimsins höf. Við höfum jú Íslendingar elt hann um allt og hver þekkir ekki smuguna og ósátta Norðmenn sem sækja okkur til saka. En landhelgina verðum við að verja og hún sé okkar.

En burt séð frá þessu þá má telja víst að iðnaðurinn myndi sjálfsagt njóta góðs af - tollar og aðflutningsgjöld myndu lækka eða hverfa með öllu og ýmis samstarfsverkefni gætu blómstrað. Menntun myndi njóta góðs af - einfaldlega sökum ýmissa styrkja sem okkur yrðu aðgengilegir ásamt fleiri þáttum.

Líklegast myndu vaxtakjör batna - verða líkari því sem gerist hjá siðmenntuðum þjóðum - sem myndi auðvitað hjálpa okkur Íslendingum sem erum píndir af ótrúlegum vöxtum á útlánum. Ef til vill gæti maður leitað til nágrannalanda um tryggingar og slíkt - enda er ekki heilbrigð skynsemi í verði á slíkri þjónustu á Íslandi.

ESB er frumskógur styrkja og bitlinga og því myndi ný starfsstétt myndast - umsækjendur. Fjöldi fólks fengi vinnu við að sækja um styrki og vinna í regluverki tengdu ESB - það er alþekkt og á ég m.a. kunningja sem situr við Ráðhústorgið í Köben og vinnur í regluverki ESB fyrir hönd danskra iðnfyrirtækja.

Hvað varðar þjónustu - sem heilbrigðis og tryggingamál - það þekkti hvorugur okkar til að geta rætt.

Og þrátt fyrir að mikill hiti væri í umræðunni - sem kannski er eðlilegt í ljósi þess að hún fór fram í gufubaðinu  - þá vorum við þó sammála ég og ég sjálfur að frekari málefnaleg umræða yrði að eiga sér stað um málið.

Svo stóð ég upp og dreif mig í sturtu. Gott að vera svona einn í gufu og ræða málin. Þó engin niðurstaða hafi fengist - frekar en hjá flestum íbúum þessa lands.

En þangað til - eflum íslenskan iðnað - og já...kíkið endilega á Murr.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Þorleifur, vextir lána mótast af framboði og eftirspurn. Séu þeir háir hérlendis mótast það af því að þeir aðilar sem lána hérlendis komast upp með að hafa hærri vexti en erlendis. Ég sé nú ekki hvernig það á að breytast með aðild að ESB. Það þarf a.m.k. afar öflugan rökstuðning til. Hérlendis hafa lífeyrissjóðirnir haft mikið með vaxtastigið að gera, og þeim er stjórnað af verkalýðshreyfingunni.

Annars finnst mér þessi grein þín mjög góð, og svipar til þeirri umræðu sem er um ESB í þjóðfélaginu. Stuðningsmenn ESB virðast fyrirmunað að koma með rök fyrir inngöngu, nema að vera alþjóðlegir nútímalegir, og síðan þetta með vextina og verðtrygginguna sem stenst enga skoðun.

Sigurður Þorsteinsson, 25.7.2009 kl. 20:24

2 Smámynd: Gísli Ingvarsson

'Annars finnst mér þessi grein þín mjög góð, og svipar til þeirri umræðu sem er um ESB í þjóðfélaginu. Stuðningsmenn ESB virðast fyrirmunað að koma með rök fyrir inngöngu, nema að vera alþjóðlegir nútímalegir, og síðan þetta með vextina og verðtrygginguna sem stenst enga skoðun.'

Það er kannski dónalegt að koma inn í þessa umræðu en læt vaða. Ég tel mig vera stuðningsmann ESB af ástæðum sem getur verið erfitt að rökræða. T.d. Samvinna við aðrar þjóðir til hagsbóta fyrir almenning og atvinnulíf sem almenningurinn vill búa við. Hvernig á ég að sanna það að ESB sé réttur vettvangur fyrir slíkt. Bara afþví að ESB er eini vettvangur þjóða í heiminum sem býður uppá slíkt er kannski ekki nógu góð rök. Að ESB sé samstarfsverkefni evrópuríkja! Hvenær og hvernig urðu Íslendingar evrópuríki? Er ekki saga okkar grundvölluð á því að við víkingarnir flúðum ofríki evrópskrar kúgunar hingað í frjáls og óháð ríki frjálsborinna hvítra karlmanna. Síðan hefur náttúrlega ekkert breyst nema að við tókum upp peninga. Sem er þá enn eitt vandamálið. Af hverju að verja ekki okkar eigin mynt í stað þess að gangast undir ok og hörku ESB skilyrðanna sem jafnvel Svíar og Danir hafa veigrað sér við?

Hvernig á ég að geta rökstutt það að við höfum ekkert uppúr eigin krónu nema grímulaust arðrán íbúa þessa lands af hendi 'útflutningsatvinnuveganna'. Bankakerfið hefur verið galopið fyrir erlendum bönkum síðan EES en enginn vill við okkur líta þrátt fyrir 'hæstu vexti í Evrópu'.

Með verðtryggingum og allt hvað eina. Það hefur enginn trú á hagkerfi okkar enda hefur það sýnt sig að það stóðst ekki prófið. Þetta eru náttúrulega engin rök.

Svo er það framtíðarsýnin: Guð blessi Ísland. Ég er reyndar trúaður og tel að kathólska kirkjan hafi á sínum tíma verið það evrópubandalag sem bjargaði okkur frá algjöru ´hruni´árið 1000. Rökin þá voru að ein lög skyldu gilda í landinu. Til að halda friðinn. Voru það haldbær rök? En það var forsætisráðherra hrunsins sem þetta mælti og bætti því engu nýju við enda höfum við endurnýjað samning okkar við almættið reglulega. Svo guð blessi ísland verður að setja í búning raunverulegra aðstæðna einsog þeirra að fullveldi landsins hefur verið glutrað niður af okkur sjálfum með óarðbærum bankarekstri.

Ekki kenna EES um það, við gerðum það allt sjálf.

Því miður setja menn sig í þær skotgrafir að Íslendingur sé einungis sá sem kann þjóðsönginn, tungumálið og styður einokun fyrirtækja í sjávarútvegi framar réttlæti almennings óháð kynþætti og kynfærum hverskonar. ESB sé verkfæri djöfuls sem dragi út úr okkur íslendinginn með glóandi töngum og hafi yfirráðastefnu að sjúklegri nautn til að komast yfir auðlindir okkar. Á með hið eina rétta sé að Íslendingar eigi að sjálfsögðu að hafa fulla heimild til komast í fé og gæði ESB og allra annara landa og þjóða í heiminum.

Ég sé þetta bara ekki svona. Íslendingar munu vera það svo lengi sem þeir vilja og búa hér svo lengi sem þeir una sér. Það er algerlega á þeirra sjálfra valdi að gera það. ESB gerir ekkert svoleiðis fyrir neinn enda ekki markmið sambandsins að taka fæðingarréttindin af neinum. Að menn verði að fara að sameiginlegum reglum og skilja þær og skilgreina af kunnáttu er náttúrulega minnsta krafa og undan því getum við ekki gengist hvort sem er. Fyrir mér eru fiskimiðin ekki sú heilaga kýr að ég sjái henni ver ráðstafað innan ESB en innan íslenskrar hagsmunaklíku sem er á góðri leið með að afhenda téð fiskimið í veðsettum skuldum. Íslenskir bændur og kýr þeirra munu finna sínar leiðir. Fyrst einokunarbandalag Bónus og Krónunnar hafa ekki ráðið niðurlögum bænda nú þegar verður þeim ekki frekar hnikað innan ESB. En þetta eru ekki rök.

Það er rökleysa að halda því fram að Ísland sé nútímalegt evrópuríki sem vill þróast í sömu átt og eftir sömu lögmálum og þau. Að ísland sé ekki nógu fullburða, framsýnt og fjársterkt til að kosta og viðhalda slíku ferli af sjálfsdáðum þó að vilji væri fyrir hendi. Það er rökleysa að halda því fram að erlendar stofnanir geti verið okkur jafn hliðhollar og þær innlendu. Það er rökleysa að álykta að við getum orðið stærri og sterkari í samvinnu við aðrar þjóðir frekar en að gera allt sjálf jvafnvel það sem við vitum að við þjóðin hefur ekki bolmagn til. Að ESB er tilraun til að stilla saman krafta margra ólíkra þjóða. Að þetta er djarft og þarf árverkni stjórnmálaamanna á til frambúðar að heppnist. Þetta er ekki bandalag svefngengla. Að Ísland ræður ekki við stóriðjustefnumál, orkumál og mengunarmál eitt og sér er ekki heldur rök. Pólítík er ekki alltaf svo rökræn. Hún er bæði og. Ef hún heppnast þá koma rökin einsog eftirá. Þangað til er þetta bara tilgátur, trú von og kannski kærleikur.

Gísli Ingvarsson, 26.7.2009 kl. 14:02

3 Smámynd: Þorleifur Ágústsson

ÖLLUM ber skylda til að tjá sig í umræðunni um aðild að ESB. Við erum að tala um framtíð þjóðar - og við höfum nú séð á undanförnum misserum hvernig þögn og leynimakk er búið að koma okkur á kaldan klaka.

Jú - notið tækifærið og ræðum málin.

Takk fyrir komment.

Þorleifur Ágústsson, 26.7.2009 kl. 17:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband