Af röngum erlendum óþægindum.

Ég skrapp í gufubað um daginn. Ætlaði að ná úr mér icesave óþægindum og annarri ólíðan.

En viti menn - þegar ég kem í sakleysi mínu inn í búningsherbergin þá liggja þar bakpokar af erlendum uppruna líkt og hráviði um allt. Að sjálfsögð dró ég þá ályktun að hér væru komnir Bretar í slagtogi við Hollendinga að sækja að okkur Íslenskum.

Ég bölvaði hátt og nánast hrækti frá mér óhreinu.

Alltaf skal það vera þannig að þessir bölvaðir útlendingar vaði yfir okkur á skítugum skónum og skilji svo allt eftir í gangveginum - mér og öðrum baðgestum til mikillar mæðu. Sérstaklega mér þó.

Ég settist inn í heitan klefann og svitinn rann. Samt náði ég ekki slökun og hugsaði stíft um hve óþolandi þetta væri og hverslags frekju þessir Bretar - hollendingar og sennilega þjóðverjar sýndu okkur - troðandi sínum skítugu pokum í gangveginn og hengjandi svitastorkin gönguföt á alla snaga og ofna. Aldrei, Aldrei - myndi nokkur íslendingur hegða sér svona á erlendri grundu.

Já...og voru það Bjöggarnir sem neyddu þá til að leggja inn - ha...NEI. Þó Bjöggi sé glæpon þá er þetta nú einum of langt gengið. Það rauk upp af mér og ég fékk áköf svimaköst. Staulaðist út úr klefanum blindaður af svita og reiði - rak tána í Tupperver dollu sem hékk utan á einum pokanum og magalenti inni á sturtugólfi. Sem betur fer var gólfið hált og sápan flæddi - annars hefði ég fengið brunasár á belginn.

Djöfuls andskoti hugsaði ég og skrúfaði frá sturtunni - búinn að gleyma því að ég hafi stillt hana á ískalt áður en ég fór inn í klefann. Ég saup hveljur og hjartað nánast stoppaði. Andskotinn.

Svo settist ég inn í gufuna aftur. Róa sig hugsaði ég. Ég hendi helvítis pokunum út um gluggann - eða brenni þá. Andskotinn.

Svo sé ég út um gluggann á klefadyrunum að bansettir karlarnir eru að koma í gufu. Á að drepa mig hugsaði ég....

Inn koma þeir og setjast.

Svo lítur einn þeirra á vin sinn og segir "va jätte skönt". Og þá var sem þungu fargi væri af mér létt. Svíar - oh það fallega land og góða fólk hugsaði ég - enda búsettur þar til margra ára. Auðvitað voru þeir þreyttir eftir langa göngu um Hornstrandir í misgóðu veðri. Þó það nú væri að þeir slöppuðu af í sundi og gufu - já og notuðu tækifærið til að þurrka regnblaut fötin. Ræfils mennirnir - líklegast dauðþreyttir. Og þjónustuleysið að koma nú ekki með kaldan öllara handa þeim. Æi bara að ég hefði nú vitað þetta......ansk...klaufi var ég.

Og hvernig ég tróðst um pokana þeirra.... sparkandi í matarílátin og þaðan af verra. Tillitsleysi mitt algjört. ´

Mér leið eins og Georg Bjarnfreðarsyni í sænskri kommúnu.

Ég kvaddi þá með virktum.

Mikið var ég feginn að þetta voru ekki þessir andsk...Bretar og Hollendingar...já eða Þjóðverjar...þeir kunna ekki að skammast sín með frekjuna og yfirganginn.....fuss.

Ég gekk heim.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband