Á Ford Bronco '74.

Það var spenningur í loftinu veturinn 1974 þegar pabbi kom keyrandi á glænýjum Ford Bronco sport - V8 og eiturgrænn að lit. Krómpakkinn fólst í krómlistum umhverfis gluggana. Rosa flottur bíll og ég sat uppi á háum ruðning í götunni heima ásamt Pálma vini mínum og beið. Man þetta eins og hefði gerst í gær. Þetta var mikill snjóavetur og þegar pabbi keyrði framhjá okkur horfði maður niður í þakið á Bronconum - svo háir voru snjóruðningarnir sem Óli B hafði rutt á jarðýtunni.

Já snjórinn var ruddur á jarðýtu í þá daga.

Og Broncoinn var flottur. Að vísu var afturbekkurinn ansi þröngur og ekki hægt að opna glugga nema frammí. Við systkinin slógumst um hver fengi að sitja við gluggann og úr varð að þær tvær elstu og frekustu fengu gluggasæti og við yngri vorum í miðjunni - 5 stykki sátu á bekk sem rúmaði í reynd vart nema tvo fullorðna.

Og svo var haldið í fyrsta ferðalagið. Farangrinum var auðvitað komið fyrir í risastórum plastpoka á toppgrindinni - líkt og tíðkaðist í þá daga - til að verja fyrir rigningu og skít. Þetta þótti magnaður möguleiki og enginn maður með mönnum nema með risapoka á þakinu.

Við systkinin tróðum okkur í aftursætið. Elsta systirin náttúrlega orðin gelgja og leið vítiskvalir að þurfa að ferðast með þessu fólki - skammaðist sín fyrir okkur og gerir líklegast enn. Sú næst elsta einnig að skríða inn á gelgjuna - en mér var skítsama - ég var í Bronconum sem ég reiknaði með að erfa og var búinn að ljúga Pálma fullan um að hann gæti flogið.

Svo var ekið af stað. Eftir skamma stund kveikti gamli sér í pípu og bíllinn fylltist af pípureyk. Enginn mátti opna glugga enda var þeim svosem ekkert til að fara opnanlegu gluggunum. Að vísu setti hann smá rifu á sinn glugga til að hleypa mesta reyknum út - svona til að hann sæi fram veginn og dræpi okkur ekki með tölu.

En þá kom í ljós galli á gjöf Njarðar - en Broncoinn var gæddur þeirri náttúru að ef gluggi var opnaður á ferð þá pompaði þakið - eða fóðringin í þakinu niður og allir sátu líkt og með húfu á höfði. Og bílstjórinn blótaði - lyfti upp þakinu með annarri hendi og stjórnaði akstrinum með hinni og reykti eins og skorsteinn - en við systkinin hnakkrifumst í aftursætinu því að um leið og einn hreyfði sig þá þurftu allir að hreyfa sig og allt fór úr skorðum. Ekki bætti úr skák að Broncoinn var mjór og hár - gaf vel eftir í beygjum og maður hentist til á frá - ef við ekki héldum okkur fast.

Erum við ekki að verða komin. Þetta var algengasta setningin sem ég man úr þessum ferðum og mátti þá einu gilda hvort verið var að fara langt eða stutt. En um landið þvert og endilangt var farið með okkur í Bronconum og skil ég ekki ennþá hvernig foreldrar mínir héldu geðheilsu sinni í þokkalegu standi.

Já Ford Bronco '74 - það var bíllinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Gunnarsson

:-) Já Bronco-inn var skelfilegur vagn. Er mest hissa að sjá einn og einn enn á götunni... helst upphækkaðan á 38-44". Geðslegi andskotin að burra á því ógeðinu... nógu dapurt var þetta nú til aksturs orginal:-)

Búinn að eiga nokkrum tugum fleira af þessum kvikindum en ég kæri mig um að muna:-)

Þorsteinn Gunnarsson, 15.7.2009 kl. 16:46

2 Smámynd: Walter Ehrat

Topp bílar og á undan sinni samtíð enda samkeppnin ekki merkileg, LandRover, Austin Gypsi, Wyllis og Rússa Gaz.

Man hvað var fussað og sveiað yfir því að hafa þá á gormum, menn jafnvel breyttu þeim og settu á fjaðrir að framan. Nú til dags eru allir almennilegir jeppar á gormum (eða loftpúðum). V8 302 eða 289cid bílarnir voru þrælöflugir og auðvelt að breyta og setja jafnvel á Lapplander dekk sem þótti alveg svakalegir risahjólbarðar :) Þeir voru með 2 bensin tanka sem var sniðugur fídus og sterka afturhásingu ef öxlarnir voru af sverari gerðinni en það gat brugðið til beggja átta á hvaða öxlum bílarnir voru. Framhásingin var svona frekar veik fyrir stærri dekk nema held ég í ´76-´77 árg.

Annars hef ég keyrt marga 38" breytta Bronco og ef það var vel gert, réttur spindilhalli o.s.frv þá var fínt að keyra þá. menn voru að keyra þá útaf í unnvörpum á þessum árum en það var nú helst vegna þess að þeir voru svo lungamjúkir að fólk keyrði þá alltof hratt miðað við vegina á þeim tíma.

Einu bílarnir sem voru samkeppnishæfir voru líka mun dýari en það voru Range Rover og Blazer.

Walter Ehrat, 15.7.2009 kl. 21:15

3 Smámynd: Þorsteinn Gunnarsson

Það má kannski segja að "66 hafi þeir verið bylting,,, en engin bylting varir að eilífu og að jafna 74 Bronco við Blazer 74, og/eða Range og þess vegna Wagoneer er ekki sanngjart gagnvart Bronconum enda voru hinir bílarnir þó ökufærir og fólki bjóðandi þegar þeir komu á götuna en þurftir að byrja á því að skera úr hjólskálum og setja í þá sæti og/eða koma fyrir öflugri dempurum svo þessar beyglur yrðu ökufærar:-) Þess utan voru þessir bílar með klæðningu en ekki bara hráefni fyrir bólstrara, blikksmiði og bifvélavirkja(allavega ekki strax):-)

Þorsteinn Gunnarsson, 15.7.2009 kl. 21:27

4 Smámynd: Þorleifur Ágústsson

Þessi var V8 302 - rosalega öflugur. Ekki þótti manni verra þegar maðru var að koma upp kaupfélagsgilið og gaf vel í beygjunni hjá Sjöfn.....þá nánast stoppaði hann og reykspólaði......svo mjúkur var hann í beygjum!!

Og vökvastýrið var einkar létt - nánast ótrúlega - maður fékk fína þjálfun í að aka þessum bíl!

Þorleifur Ágústsson, 15.7.2009 kl. 21:45

5 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

Prjónandi snilld. Pabbi átti einn, einmitt '74 ef ég man rétt. Glæsilegri litur ekki litið dagsins ljós, fyrr eða síðar.

Páll Geir Bjarnason, 15.7.2009 kl. 22:34

6 Smámynd: Jón Snæbjörnsson

góð saga hjá þér Þorleifur, eignaðist '74 model af Bronco Sport V8 302 cub - var fljótlega breitt fyrir 33" white spoke - gaman að ferðast á honum til fjalla en frekar plásslítill og því komin á hann góð toppgrind sem bar mestallan farangurinn.

Jón Snæbjörnsson, 15.7.2009 kl. 22:44

7 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Mikil nostalgía í þessu hjá þér og ég man enn hvað mér fannst Broncoinn hans pabba flottur. Ég var hins vegar búinn að gleyma göllunum við bílinn!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 16.7.2009 kl. 10:22

8 Smámynd: Einar Steinsson

Einn af bloggurunum á moggablogginu á einn fallegan sem hann er einmitt með sem hausmynd á blogginu: http://hlynurs.blog.is .

Það er ýmislegt hægt að segja um þessa bíla bæði gott og slæmt, en það er enginn spurning að þetta voru tímamótabílar í sögu fjórhjóladrifsbíla. Það voru til betri bílar en Bronco og það má færa rök fyrir því að hann hafi verið eftirlíking af öðrum amerískum jeppa sem samt náði aldrei sömu útbreiðslu (International Scout 80/800) en engin frá þessum tíma hafði viðlíka áhrif hönnun og úbreiðslu fjórhjóladrifsbíla. Ef ég ætti að nefna þrjá mikilvægustu bílana í sögu fjórhjóladrifsbíla þá væru það upprunalegi Willis/Jeep, Ford Bronco og Range Rover.

Og hljóðið maður minn lifandi!! Hljóðið í Bronco V8 289/302 með rétt uppsettu pústkerfi sem ekur framhjá á léttri inngjöf er nánast fullkomnun......

Einar Steinsson, 16.7.2009 kl. 16:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband