Í næfurþunnum náttkjól gaf hún góð ráð um hljóðlátt göngulag.

Að búa í fjölbýlishúsi eða nábýli við aðra krefst þess að kunnátta sé í umgengni. Stór hluti er að kunna að ganga.

Þetta veit ég og hef hlotið sérstaka þjálfun þar að lútandi.

Þannig er mál með vexti að á námsárum mínum í Gautaborg bjó ég í lítilli íbúðarblokk skammt frá hinu þekkta sjúkrahúsi Sahlgrenska þar sem ófáir Íslendingar hafa látið setja í sig líffæri eða tvö. Í sama stigagangi og ég bjó gömul kona. Hún var svo sem ekkert ólík öðrum gömlum konum nema fyrir þær sakir að hún var ákaflega vönd að virðingu sinni. Segja má að hún hafi skammast sín fyrir að búa í blokk - og ef ekki væri fyrir að hún væri öldruð ekkja þá byggi hún í einbýli.

Já hún var nefnilega af fínni fjölskyldu og maðurinn hennar sálugi hann hafði verið í góðri stöðu og menn þéruðu hann. Hún sjálf hafði flutt ung til Gautaborgar - gift sig og breyst í fína frú. Ekki hafði til dæmis hvarflað að henni að ferðast um á reiðhjóli - enda alls ekki fararskjóti heldra fólks. Og eitt sinn þegar lögreglumaður hafði ávarpað hana á almannafæri þá var henni allri lokið - hvílík ókurteisi við fína frú. Fólk hefði getað túlkað gjörninginn sem svo að hún væri annarflokks. Fuss sagði hún við mig þegar hún rifjaði upp þessa minningu.

Og auðvitað tók hún eftir glannalegu göngulagi mínu um stigaganginn. Og sat svo eitt sinn fyrir mér þegar ég kom þreyttur heim - þungstígur á kuldaskóm. Trampaði svo óskaplega að heyra mátti inn í nærliggjandi íbúðir. Sú gamla stóð í dyragættinni og heilsaði mér. "Gott kvöld herra Ágústsson" sagði hún. Gott kvöld sagði ég horfði upp í loftið. En sú gamla var nefnilega ansi léttklædd. Í næfurþunnum náttkjöl stóð hún þarna í rökkrinu.

"Ég heyri að þú hefur aldrei búið í íbúðarblokk áður", segir hún. Nja, jú reyndar svara ég.  "Mér heyrist að þú sért alinn upp í einbýli" segir hún og ég játa því. "Ég líka" bætir hún við "er hér bara af illri nauðsyn" - "er orðin ekkja - en þegar maðurinn minn sálugi lifði þá bjuggum við í einbýli". Vandræðin ágerðust - og mig langaði að halda áfram heim.

"Heyrðu mig" segir hún svo - "mig langar að fara yfir nokkur atriði með þér". Nú segi ég í forundran - hvað er það? "Jú sjáðu til, það er kúnst að ganga rétt svo maður trufli ekki nágrannana". Nú jæja, ekki vissi ég nú til þess að ég væri þungstígur - eða í það minnsta þungstígari en aðrir. Svo dregur sú gamla fram þrenn skópör af mismunandi gerðum og hefur mikla sýnikennslu í hvernig best sé að stíga til jarðar - auka hraða og hægja á sér - allt eftir gerð hæla og sóla. "Ef maður til að mynda er að flýta sér - þá er gott láta sólana renna létt yfir flötinn og leyfa iljunum að leika við gólfið - ekki skella hælum" segir hún og svífur eftir ganginum á gegnsæjum náttkjólnum. Er ég orðinn klikkaður hugsaði ég þorði ekki að líta á hana.

Svo hélt námskeiðið áfram í dágóða stund. Á endanum dró hún fram fallega loðinniskó og mæltist til að ég fengi mér slíka - færi vel með fætur og nýru.

Hvílíkt námskeið hafði ég aldrei áður fengið - í það að minnsta mér að kostnaðarlausu!

Þegar við kvöddumst spurði hún mig hvað ég væri að mennta mig. Ég sagði henni það og þá fylltist hún lotningu - heilsaði mér ávalt "herra doktor" eftir það - full lotningar.

Ekki veit ég hvort hún er lífs mín ágæta kennslukona - en kennslustundin líður mér seint úr minni. Mér finnst líka konur í dag glannalegar á þessum reiðhjólum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir yndislega sögu. Vinkona mín bjó í Svíþjóð í nokkur ár í blokk. Hún sagði að það hefði verið harðlega bannað að sturta niður í klósettinu eftir miðnætti !

Ína (IP-tala skráð) 14.7.2009 kl. 00:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband