Veit ekki vandinn að lausnin er löngu fundin?

Mér finnst áhugavert að búa á litlum stað fyrir Vestan. Ekki vegna þess að stutt er í allar áttir. Nei af því að þar kemst maður í kynni við kalla sem kunna sko að leysa vandann.

Ef ég til dæmis fæ mér göngutúr niður á bryggju og er svo heppinn að hitta kall eða tvo sem eru að landa eða gera sig klára í róður - nú þá er ekki að spyrja að því - þeir eru með lausnina á vandanum sem steðjar að í sjávarútveginum. Með þetta alveg á hreinu og eru bit á þekkingarleysi vitringanna með diplómun á Hafró - svo ég tali nú ekki um ekkisens vitleysuna í ráðherranum að hlusta á slíkt bull sem prentað er í metravís og kallast veiðiráðgjöf. Ja svei mér þá segja þeir og slá sér á lær.

Nú, svo þegar ég er búinn að fá lausn vandans í hafinu og held áfram göngunni uppi á yfirborðinu þá getur vel verið að ég fái mér kaffisopa í vélsmiðju einni hér í bæ  - og þar er ekki bara verið að leysa fiskveiðivandann - nei þar er allt leyst - yfir heitum kaffibolla og meððí. Já - vegleysurnar og kílómetrarnir suður styttast svo skiptir tugum kílómetra - fjöll eru boruð - firðir þveraðir - nýjasta tækni og tól hönnuð til verksins og ég varla kominn niður í hálfan bolla. Og ekki þarf maður að óttast að kaffið kólni því hitinn er slíkur í mannskapnum að það liggur við að allt sjóði uppúr.

Já og klukkan er ekki orðin hádegi. Ég í sumarfríi og luma orðið á lausnum sem bjargað geta heilli þjóð.

Nú auðvitað held ég göngunni áfram - dagurinn vart hálfnaður og ég orðinn verulega spenntur - hafði ekki hugmynd um hve auðvelt og augljóst þetta væri allt - nú maður hefur jú aldrei mígið í saltan sjó eða fjöruna sopið - hvað þá að hafa fest bílinn uppi á alvöru Vestfirskri heiði um miðjan vetur - svona maður eins og ég "aungra manna að norðan" eins og einn kallinn benti mér á þegar ég sagði honum að ég ætti engar ættir að rekja Vestur.

Og áfram labba ég - kem við hjá fleiri köllum - fæ mér auðvitað annan kaffibolla og heyri hvað þeir hafa til málanna að leggja. Auðvitað berst talið að því sem skiptir máli - að eiga góða konu. Mér er bent á að konur geti verið varasamar og sumar auðvitað meira en aðrar - að allir séu þeir húsbændur á sínum heimilum og sko tilbúnir til að kenna mér trikk eða tvö til að konan sé ánægð.

Best að hafa þessar elskur ánægðar - það er boðorð dagsins.

Kallar með allt á hreinu. Eru samt eitthvað svo miklu málglaðari þegar ég heimsæki þá í vinnuna en þegar ég mæti þeim með frúnni í Bónus - hafa kannski bara meiri tíma til að tala  í vinnunni - eða kannski er konan bara ekkert ánægð þegar ég mæti þeim í Bónus - hvað veit ég - ekki kann ég öll trikkin sem þeir nota.

Já maður lærir margt á því að búa í litlu samfélagi - eitthvað svo langt frá orsök vandans en svo nálægt lausninni. Kannski er það bara svo að vandinn og lausnin eiga ekki heima á sama stað - vandinn fyrir sunnan og lausnin fyrir Vestan - og samskiptin föst á heiðinni?..

tja hver veit... en eitt er víst að "margt drífur á daga manns á einum degi fyrir Vestan".

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Torfi Jóhannsson - Framtíðin er okkar.

já, Tolli og þetta kallast "bara venjulegur" dagur fyrir vestan.  Það er alltaf gaman þegar nýbúar* komast í tæri við þennan venjuleika okkar hér fyrir vestan.

*Skilgreining höfundar: einhver sem hefur búið það stutta að geta ekki kallað sig Ísfirðing, þú nálgast óðum þann stað og sérstaklega með þessari miklu reynslu sem þú ert að öðlast í fríinu.

Torfi Jóhannsson - Framtíðin er okkar., 31.7.2007 kl. 05:45

2 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Minn kæri.

Það þarf ekkert að vera mep tón útí karlana fyrir Vestan.  Þeir hafa neffnilega innistæður fyrir þessu öllu saman.

Pólsstrákarnir fyndu upp og smíðuðu vogir, vinnslulínur, sem jakkalakkar að sunnan tóku af þeim með penignalegum klækjum.

Maggi í Tungu fann upp línudráttar rennurnar og endurbætti verulega, þannig að varð nothæfur afdráttarkarlinn á netum (netaborðinu.

Skuttogarasniðið er ættað úr haus vestfirsks verkfræðings.

Svona mætti lengi telja.

Hnífsdælingar og sumar ættir í Önundafirði, voru og eru orðlagðir stærðfræðingar, bæði þeir sem þarna ólust uppog þeir hinir sem tóku þessi gen með sér hingað suður.

Ættmenni mín ,,fyrir Vestan eða HEIMA", eiga sko inneign fyri röllu þ´vi hóli sem á þá er hægt að hlaða.

Miðbæjaríhaldið

fyrrum Tálknafjarðaríhald

Bjarni Kjartansson, 31.7.2007 kl. 11:16

3 Smámynd: Þorleifur Ágústsson

Sæll Íhaldsmaður - ekki er ég með neikvæðan tón í garð þeirra enda engin ástæða til - en gamansamur tónn bætir geð og lengir líf. Kynni mín af köllum hér eru skemmtileg enda hafði ég kynnst svona köllum á Akureyri þegar ég sem strákur fór oft með föður mínum í slíkar heimsóknir - þeir eru því miður flestir farnir þar.

Þorleifur Ágústsson, 31.7.2007 kl. 11:35

4 Smámynd: Einar Hafberg

Góður, þetta rann ljúflega niður með fyrsta kaffibolla dagsins.

Einar Hafberg, 31.7.2007 kl. 12:26

5 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Jú jú minn kæri.

Svo er það, að mikil speki er eða var, vía um land og búum við að þeim auð lengi.

Hitt er jafn víst, að mér óar við spekileka sem knúinn er með  lagasmíðum fávísra manna.  Öngvir vilja horfast í augu við mennskuna og þær eindir, sem þar ráða.

Reglurnar eru settar af þeim, sem hyggjast safna aurum á hendur fárra vildarvina.

Hér er til að taka Kvótakerfið, Verðtryggingu og svo hefur nú einkavæðingar-bröltið ekki farið sem til stóð í það minnsta í hugum okkar Eðal-íhaldsmanna.

Í fyrra innleggi mínu rakti ég nokkrar þekktar uppfinningar sem urðu til úti á landi.  Listinn er, eins og þú ættir að vita,-miklu miklu lengri.

Það er hvað sorglegast við þetta allt saman, að fégráðugir menn, og slyngir, komu málum þannig, að jafnvel ,,patentin" urðu að andlagi veða, vegna lána frá OPINBERUM SJÓÐUM.

Síðan varð það einhvern vegin svo, að vildarvinir  ,,eignuðust" patentin og settu í framleiðslu.

Þetta veist þú að er rétt og satt.

Framkvæmdasjóður, Byggðastofnun og hvað þetta béfaða bix allt annars heitir, haf ALDREI orðið hinum dreyfðu byggðum til láns.

Sjóðurinn hjá Sjávarútvegsráðherra, man ekki nafnið í svipin, er kvað skárstur, hann veitir styrki og ætlast síður til endurgreiðslu en hinir.  ÞEssvegna eru hinir gírugu fjærri þeim sjóð.

Með þökk fyrir giska skemmtilega pistla ,,að heiman"

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 1.8.2007 kl. 09:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband