Færsluflokkur: Bloggar
Laugardagur, 10. mars 2007
Gatið á Þuríði - klámstefnan tekin á Bolungarvík.
Það verður að segjast eins og er að klám-doktorinn fyrir sunnan gaf mér nýja sýn á umhverfisvandann - sem ég hlýt að kalla umhverfisklám.
Það var nefnilega þannig að ég keyrði fósturson minn og vin hans á fótboltaæfingu í morgun - líkt og ég geri yfirleitt á laugardagsmorgnum. Nú, það hefði ekkert verið sérstaklega merkilegt um síðustu helgi en núna er ég svo uppfræddur um klám og hve lævís klámiðnaðurinn er. Þegar ég ætlaði að gera mig líklegan til að beygja inn á bílastæði íþróttahússins við Torfnes á Ísafirði þá blasa þar við skilti sem á var letrað stórum stöfum "INN" og "ÚT" - bara sí svona! En sem betur fer tókst mér að beina athygli drengjanna frá þessari beinskeittu tilvísun í algenga lýsingu úr hrárri klámmynd.
Nú, ég náttúrulega gat ómögulega dvalið þarna nema um skamma hríð og ákvað að leita ásjár og útskýringa hjá góðum vini og framsóknarmanni í Syðridal - enda eru framsóknarmenn alræmdir klámhundabanar eins og frægt er orðið. En það var þegar vesturíslenskum klámhundi var meinaður aðgangur að bændahöllinni - sem er víst ekkert pútnahús. En þegar ég ek mína leið, virðist ég taka klámstefnuna út Hnífsdalsveg því að þegar mér verður litið út um austurglugga bifreiðarinnar þá sé ég hvernig Hnífsdalsbryggjan stendur kolsvört og grjóthörð, böðuð sjávarlöðri og beinist beint inní Ísafjarðardjúpið - sem í geislum morgunsólarinnar var með eindæmum lokkandi. Ég átti satt að segja erfitt með að hreinlega stöðva ekki bifreiðina og taka þátt í leiknum - en áfram varð ég að halda til leita aðstoðar framsóknarmannsins.
Og brátt var mér öllum lokið. Jú, Óshlíðin hefur aldrei þótt neitt sérstaklega blíð þó æsandi geti verið - sérstaklega þegar úr henni rennur flóð. Mér varð nefnilega litið rétt sí svona upp frá akstrinum og þar var hún, seiðandi þar sem hún bar við himin - stórfengleg og íturvaxin með gatið gapandi og mér fannst hún segja við mig "komdu,já vertu velkominn í Víkina". Já hún Þuríður er ekkert annað en umhverfisdóni af verstu gerð - sannkölluð klámdrottning þar sem hún gín yfir vegfarendum á leið til Bolungarvíkur. Þetta verður að stöðva - og það áður en aumingjans fermingarbörnin hljóta skaða af - nóg er nú samt að lesa um kaldranaleg örlög reykvískra unglinga sem leiðast út á klámbraut fermingargjafa í ömurlegum stellingum.
Og þarna lauk ferðinni. Ég gat ekki haldið áfram á þessari braut - hægði ferðina, stöðvaði bílinn og steig út. Horfði á Þuríði um stund, hugsaði málið. Horfði fram veginn og hugsaði minn gang. Hvað átti ég til bragðs að taka. Þá gerði ég mér grein fyrir því að ég var ekki sá fyrsti sem hafði fengið þessa opinberun Þuríðar - það hafði greinilega verið annar á undan mér - líklegast einhverjum öldum áður því sá hinn sami var steinrunninn, orðinn að vita - sjófarendum til leiðsagnar. Hann stóð þarna beinstífur og benti upp í gatið á Þuríði - en eitthvað var hann nú samt ámátlegur greyið - eitthvað svo stuttur, í raun bara hálf-viti. Kannski ekkert skrítið eftir að hafa staðið þarna í kuldanum áratugum saman - skroppinn saman og mátti muna sinn fífil fegurri. Örlög dónans sem fetar þröngt einstigi klámsins. Það voru ekki örlög sem ég vildi hljóta og fór því heim.
Já, svo var nú það. Þetta klám er stórhættulegt og gott til þess að vita að maður býr í samfélagi sem ekki leyfir slíkt.
það er mín skoðun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 9. mars 2007
Kosningaskrif - nokkrum árum of sein á ferðinni...
- Samstarf: Nú þegar er myndaður öflugur hópur innlendra og erlendra vísinda- og eldismanna. Þessir aðilar hittast reglulega, síðast í Björgvin í Noregi og verður næsti fundur haldinn á Ísafirði í Maí. Sem dæmi um þátttkendur í því samstarfi má nefna: Matís ohf., Hraðfrystihúsið Gunnvör hf., Alfsfell ehf., Hafrannsóknastofnunin, Náttúrustofa Vestfjarða, Háskólinn á Hólum, Háskólinn á Akureyri, Háskóli Íslands, Landbúnaðarháskóli Íslands, Vaki-DNG, Stirling háskóli í Skotlandi, Gautaborarháskóli í Svíþjóð, Landbúnanaðarháskólinn í Uppsala í Svþjóð, Hafrannsóknastofnunin í Björgvin í Noregi, Intravision Group í Oslo í Noregi og svo mætti lengi, lengi telja. Fyrirhugaður fundur er á Ísafirði árið 2009 í einu af mörgum rannsóknaverkefnum sem Matís ohf., á Ísafirði tekur þátt í áætlaður fjöldi fundargesta er hátt í 200 enda um gríðarlega stórt verkefni að ræða með heildarveltu um 120 milljón evrur.
- Rannsóknir. Fjölmargar rannsóknir eru þegar farnar af stað og allar eiga þær sammerkt að tengjast Vestfjörðum. Þessar rannsóknir eru flestar til lengri tíma yfirleitt 3-5 ár sem er sá tími sem rannsóknasjóðir miða yfirleitt við.
- Áherslur. Þær áherslur sem eru í rannsóknum á fiskeldi í sjó tengjast flestar því sem talið er nauðsynlegt á hverjum tíma. Ekki er um geðþótta ákvarðanir að ræða heldur er gengið út frá vísindalegum rökum og þörfum fiskeldisiðnaðarins. Sem dæmi um áherslur í rannsóknum sem þegar er byrjað að vinna eru: Líf- og lífeðlisfræði þorsks í eldi, sameindalíffræðilegar rannsóknir á þorski með tilliti til vaxtar, gæða og kynþroska hjá þorski í eldi, áhrif sjókvíaeldis á umhverfi, samspil eðlisfræðilegra umhverfisþátta og sjókvíaeldis, velferð fiska í eldi.
Niðurstaðan og staðreynd málsins er því sú að uppbygging er þegar hafin og mun halda áfram með þátttöku aðila úr vísinda og atvinnulífinu. Sú uppbygging mun hinsvegar þurfa allan þann stuðning sem ríki og sveitarfélög geta veitt og talsmenn slíkrar uppbyggingar eru þeir sem landinu stjórna og kosnir til starfans af fólkinu öllu. Ég á því ekki von á öðru en að Sólborg og hennar fólk komi hingað Vestur og heimsæki okkur sem að uppbyggingunni vinna og skrifi nýja grein um hve vel henni hafi litist á allt saman og hvað þau hlakki til að stiðja við bakið á þeim hugmyndum verkefnum og tækifærum sem hér eru.
Það er mín skoðun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 8. mars 2007
Tryggingafélögin - alltaf er verið að mjólka....
Allveg er þetta magnað með tryggingafélögin og hve flink þau eru að blóðmjólka okkur bjálfana sem látum allt yfir okkur ganga.
Ég lenti í snjóflóði. Ekki þessum stóru sem valda manntjóni heldur einu af þessum pirrandi sem koma fram af húsþökum. Bílrúðan splundraðist og ég hafði sambandi við TM. Ekkert mál - talaðu við bílaverkstæðið - engar skýrslur og engin áhrif á bónusinn. Flott hugsaði ég - frábær þjónusta. Svo kom reikningurinn, og viti menn - mér var gert að greiða 10 prósent af heildarverði. Jahá, hljómar kannski ekki svo mikið - en í mínu tilfelli var heildarverðið tæpar 80 þúsund krónur. Og ekki nóg með það, bílaverkstæðinu var gert að rukka mig um þessi 10 prósent fyrir hönd TM....og ekki nóg með það heldur......þetta lækkaði ekkert VSK af reikningnum - hann var sem áður tæpar 80 þúsund. Þannig að dæmið lítur þannig út að ég borga inná þessar tæpar 80 þúsund, tæpar 8 þúsund (þ.e. 10 prósentin) en TM getur tekið VSK óskertan inní reksturinn - og fengið hann endurgreiddann?
Hvað á þetta að þýða? Maður spyr sig. Er ekki ráð að þetta sé skoðað eða er öllum skítsama um málið - ekki veit ég. Mér finnst í það minnsta óþolandi hvernig signt og heilagt er verið að naga af okkur meðaljónunum úti í bæ....Ekki keyri ég um á framrúðulausum bíl - í það minnsta hér fyrir Vestan þar enginn meðbyr virðist vera!
Það er mín skoðun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 7. mars 2007
Krökkum kennt að fikta - í beinni í Kastljósi.
Mér gjörsamlega ofbauð sá hluti Kastljós þáttarins þegar eðlisfræðingur var fenginn til að kenna krökkunum að fikta með örbylgjuofn. Ýmislegt spennandi er hægt að gera og mikið var ég glaður að svo ábyrg umræða skuli eiga sér stað - eða EKKI!
Hvað á þessi endemis vitleysa að þýða - er nú ekki nóg að þessir krakkar sprengi af sér útlimi á gamlárskvöld þó við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að þau byrji að dunda sér við tilraunir í eldhúsinu líka? Ég bara spyr. Og tala ég af reynslu - þótti uppátækjasamur - en fékk nú samt aldrei eins flotta kennslu og þá er var í Kastljósinu í kvöld.
Maður er hálf feginn að hundurinn kemst ekki í öllarann......látum poppkornið nægja.
það er mín skoðun.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 7. mars 2007
Atkins, Ásmundur og Hollývúddpíurnar höfðu rétt fyrir sér!
Ný rannsókn sýnir að Atkinskúrinn er besta leiðin til að grenna sig. Úrtakið var 311 feitar kellur í Kaliforníu sem voru settar á mismunandi megrunarkúra. Nákvæmlega var fylgst með kellum og að lokum voru þær viktaðar. Reyndar fylgir ekki sögunni hvort að notast var við vog frá Marel?
Og viti menn, Ásmundur hafði rétt fyrir sér Atkins kúrinn reyndist best, já svo mikið að þær léttust tvöfalt meira en hinar bollurnar! Urðu semsagt helmingi mjórri...
Þetta má lesa í Journal of the American Medical Association og rannsóknin var framkvæmd við Stanford háskóla þessum fræga.
En hvað fengu þá hinar? Jú, þær átu skv. því sem góðir næringafræðingar leggja til: færri hitaeiningar og stunduðu meiri hreyfing.
Spurningin er kannski sú hvort sú staðreynd að Catherine Zeta-Jones, Sarah Jessica Parker og Ásmundur eru á Atkins hafi spilað inní tja ekki veit ég.
En út á hvað gengur Atkins kúrinn? Jú, að éta vel af próteinum og fitu sleppa nánast allveg kolvetnum. Með því móti neyðist líkaminn til að brenna fitu. Hvers vegna kann einhver að spyrja? Jú, þegar við reynum á okkur þá byrjum við á að brenna þeirri orku sem auðveldast er að brenna, nefninlega kolvetnunum síðan þegar þau eru uppurin þá byrjar maður að brenna fitu og svo að lokum brennir maður próteinunum, vöðvunum. Semsagt, ef maður fær engin kolvetni þá gengur maður á spikið. Svo er nú það.
En, vandamálið sem þessu fylgir er sú staðreynd að heilinn sem er mjög orkufrekur brennir eingöngu kolvetnum og því getur að sjálfsögðu verið stórhættulegt að hætta allri kolvetnaneyslu. Það getur endað með ósköpum.
En hvaða kúrar eru í boði fyrir utan Atkins?
Ornish: Hámark 10% orkunnar skal koma úr fitu.
Learn: Byggir á Amerískum ráðleggingum um næringarþörf. Mikil hreyfing. 55-60% orkunnar skal vera á formi kolvetna. Hámark 10% úr mettaðri fitu.
Zone: Borða 40 % kolvetni, 40 % fitu
og 30 % prótein.
Og svo er það þessi gamla góða íslenska. Borða hollan og góðan íslenskan mat og labba í vinnuna í kulda og trekki það segir Guðni, ekki er hann nú feitur. Og ég er sammála því. Langbest er að borða fjölbreytt stunda hreyfingu og síðast en ekki síst, kaupa íslenskt enda er ég þvengmjór og þreklega vaxinn.
Það er mín skoðun. Núna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 5. mars 2007
Íslenskar beljur fyrir kröfuharða íslendinga.
Þegar ég var að alast upp heimsótti ég fjöldann allan af sveitabæjum með föður mínum sem var hérðasdýralæknir í Eyjafirði. Á þeim tíma skiptu bæirnir tugum í Eyjafjarðarsveit og pabbi sagði mér að þetta væri líklegast besta landbúnaðarhérað landsins. Þar voru kúabúin stór og fjárbúin líka. Það var ævintýri líkast að aka um í fallegri sveit á fallegu sumarkveldi - kýrnar á beit í haga og hrossastóð á bökkum Eyjafjarðarár. Sannkölluð sveitarómantík sem líður manni ekki úr minni.
En þegar farið er um fallegar sveitir Eyjafjarðar í dag þá verður manni ljóst að eithvað mikið hefur breyst - sveitabæirnir standa að vísu margir en útihúsin eru víðast tóm. Endurnýjun í stéttinni er nánast engin - meira að segja KEA sagði upp forstjóranum að mér er sagt vegna þess að hann var farinn að fjárfesta of mikið í bújörðum - og er að ég held bóndi í dag - er mér sagt.
En hvað er að gerast með íslensku þjóðina. Á sama tíma og 94% landsmanna vilja að hér sé landbúnaður standa gjöfular bújarðir tómar og sumstaðar eru réttir án þess að ein einasta rolla sjáist á ferli - varla eru þeir að draga framliðnar rollur í dilka? Það er eithvað skrítið við þessa niðurstöðu skoðanakönnunarinnar - nema náttúrlega að þessi 6% ráði öllu - séu þeir sem telja okkur fyrir bestu að lítill sem enginn búskapur sé í landinu - kannski eru það þeir sem frekar leggja uppúr lágu verði á innfluttum matvælum - ekki veit ég?
Og til að gera dæmið ennþá undarlegra þá er meira en helmingur þjóðarinnar tilbúinn til að greiða meira fyrir íslenska landbúnaðarframleiðslu en innflutta! Tja, nú er maður allveg að missa þráðinn. Og flestir segja gæði íslensku landbúnaðarvaranna miklu meiri en þessara svokölluðu útlendu landbúnaðarvara - og að það sé bændunum alls ekkert að kenna að verðið sé eins hátt og raun ber vitni.
Er ekki bara málið að opna landið fyrir óheftum innfluttningi á landbúnaðarvörum? það hlýtur að vera niðurstaða þessarar könnunar sem Bændasamtökin létu gera að innfluttningurinn muni hvort eð er detta upp fyrir - deyja. Einfaldlega vegna þess að yfir 90% landsmanna vilja hafa íslenskan landbúnað - yfir 60% landsmanna séu tilbúnir að greiða meira fyrir íslenskar landbúnaðarvörur sem eru svo miklu betri en þessar útlensku - varla ljúga yfir 80% þjóðarinnar sem segja að þær íslensku séu af meiri gæðum en þær útlendu. Spurningin sem vaknar hjá mér er sú hve stór hluti þeirra sem spurðir voru hafa yfir höfuð komið út fyrir landsteinana? Og hvort valið hafi verið af handahófi af skráðum félögum í Framsóknarflokknum. Tja, maður spyr sig!
Ég bjó í mörg ár í útlöndum og borðaði þarf af leiðandi útlendan mat - nema náttúrlega séríslensku framleiðsluna: kæsta skötu og Vestfirskan hákarl. En ég fann aldrei neinn mun á matnum þar en hér - ég er í það minnsta ennþá lifandi. Mjólkin var góð, kjötmetið ágætt og osturinn ljómandi. Og allt kostaði þetta svo miklu minna en hér heima. Af hverju þurfum við á íslandi signt og heilagt að láta segja okkur að vegna íslenskrar sérstöðu og íslenskra gæða þá þurfi hitt og þetta að kosta svo og svo mikið meira - af hverju segjum við ekki bara hingað og ekki lengra. Það hlýtur öllum að vera ljóst að t.d. kjúklingarækt getur varla gengið á Íslandi - flytja korn til landsins til að ala kjúkling - sem síðan er svo margfalt dýrari en í útlöndum. Hvers vegna að stunda svínarækt þegar svínakjöt er eitt ódýrasta kjöt sem fáanlegt er t.d. í Svíþjóð og Danmörku og hægt væri að flytja það til landsins margfalt ódýrara - burt séð frá því að við Íslendinga stöndum langt að baki frændum vorum Dönum og Svíum í að hantera svín? Og nautgriparæktin - Argentína er jú þekkt fyrir hágæða nautakjöt og ekki er nokkur tuddi þar smitaður af nautariðunni stórhættulegu - bara til að nefna nokkur dæmi.
Ég segi: eflum séríslenska framleiðslu - t.d. framleiðslu á íslensku lambakjöti og mjólkvörum. Íslenska mjólkin hefur eiginleika sem eru eftirsóknarverðir út frá heilsufarslegu sjónarmiði - það hafa íslenskar rannsóknir t.d. Dr. Bryndísar Evu Birgisdóttur og Dr. Braga Líndal Ólafssonar sýnt.
þetta er í það minnsta mín skoðun.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 23. febrúar 2007
Klám utan fengitíma...ómögulegt segir framvarðasveit bænda.
Það eru í gangi tvær sápuóperur sem virðast báðar ætla að verða álíka langlífar og meðalgóð Braselísk sería um daglegt líf ungrar ambáttar.
Og hverjar eru þær? Jú, "Jón Bónus fer í fjörurnar fyrir Westan" og svo "Anna N. Smith hinumegin".
Ég náttúrlega fylgist spenntur með báðum - þó finnst mér mun meira spennandi að fylgjast með því hvað er að gerast hjá henni Önnu látinni - þar er nefninlega allt sýnt í beinni....!
Ég sá t.d. að sjálfur dómarinn hágrét í morgun - en magnað að maskarinn sem hann var greinilega með haggaðist ekki!
Nú er bara að fá útsendingar úr réttarsalnum í Baugsmálinu - sjá hvort dómarinn brotni ekki saman við þessar óvægu lýsingar á því þegar Jón fór í fjörurnar við eiginkonu annars manns í partýi útí Ameríku um árið.
Slíkt gæti auðvitað aldrei gerst hér enda klám og dónaskapur bannaður með öllu á Íslandi.
Ég er líka að spá í hvort að klámráðstefnan hefði fengið húsaskjól hjá Bændunum ef það hefði átt að halda hana á fengitímanum? Þeir eru nefninlega svo fastir í hefðum þarna hjá Framsóknarflokknum, hef ég heyrt.
Svo var nú það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 23. febrúar 2007
klám.. Marel.. Köben.. í þessari röð.
Ekki er nú öll vitleysan eins.
Ég settist niður í gærkveldi eftir langan vinnudag og ætlaði að horfa á fréttir á Ruv'inu. Og viti menn, fyrsta fréttin var af klámráðstefnunni sem þó varð ekki þökk sé Bændasamtökunum sem gripu í taumana og stöðvuðu þennan ósóma. En hvað er málið í raun - það átti semsagt að banna eithvað sem ekki var ljóst hvort yrði ólöglegt - bara af því að á íslandi gerir maður ekki svoleiðis.
Ég er allveg sammála því að klám á ekkert heima hér - ekki nema þá bara þetta löglega sem fólk stundar og skv. lögum hefur rétt á - bara að það fari ekki "úr böndunum" einsog stundum getur gerst. En að vera með fyrirbyggjandi aðgerðir "af því bara" er varla vænlegur kostur....hvað verður næst?
.....síðan komu fleiri fréttir. En loks kom frétt, frétt númer 8, sem virkilega skipti máli og hefur raunveruleg áhrif á heilu fjölskyldurnar og sveitarfélagið sem það býr í. Jú hið stórkostlega fyrirtæki sem við höfum hampað fyrir tækni og vísindi reynist vera nákvæmlega einsog öll önnur stórfyrirtæki. Þeir ætla að loka starfstöðinni á Ísafirði. Þetta er jú bara starfstöð, tja líklega einsog sú á fjórðu hæðinni fyrir sunnan - þar sem strákarnir sitja - þarna lengst inni á ganginum......
Nei ekki aldeilis - þetta eru störf - ATVINNA - fjölmargra aðila sem eiga sér fjölskyldur og búa á stað þar sem maður hleypur ekki yfir götuna til að vinna hjá einhverjum öðrum. Hér erum við að tala um ábyrgð. Og þetta viku eftir stórglæsilega árshátíð fyrirtækisins þar sem yfirmennirnir höfðu ekki undan við að hæla Vestfirsku undirmönnunum! Hvað er eiginlega að gerast í þessu þjóðfélagi - mér þætti gaman að vita hvað veldur - eru það samgöngurnar? Almenn leti starfsmanna fyrir Vestan eða er málið kannski það að þetta hafi alltaf verið ætlunin eftir að Marel keypti rótgróið fjölskyldufyrirtæki...Póls? Ja maður spyr sig. Líklegast fara þeir að skipta yfir í Evruna.
Og svo var það ENN EINN Kastljós þátturinn þar sem fjallað var um landeyðuna hann Harald í Köben. Sem er þannig af guði gerður að honum finnst flott og kúl að vera aumingi í Köben. Í það minnsta skil ég þannig þessa annars gjörsamlega tilgangslausu umfjöllun um þennan bjálfa. Hvað varðar það okkur hér heima þó að hann langi að búa (athugið LANGI ekki ÞURFI) á götunni í Köben? Mér gjörsamlega óskiljanlegt. PENINGA OG TÍMAEYÐSLA að fjalla um mál þessa ræfils drengs.
Væri ekki nær að fjalla um það sem virkilega skiptir máli: Svo sem Að Marel segi upp 20 fjölskyldum á Ísafirði. Að fórnarlömb Birgisins fá ekki þá hjálp sem þau þurfa. Að drengirnir í Breiðuvík fá ekki þá hjálp sem þeir þurfa. Slæma stöðu aldraðra og sjúkra á Íslandi....og svo má lengi telja.
Gefum kláminu sem aldrei kom og Haraldi í köben frí.
það er mín skoðun.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 21. febrúar 2007
Ánægja Bolvíkinga, atriði úr Amerískri fangelsismynd
Það er ákaflega ánægjulegt að loks skuli eiga að gera göng milli Bolungarvíkur og umheimsins. Ég er þess fullviss að göngin eigi eftir að skila sínu - vonandi bara í rétta átt.
Mér datt hinsvegar í hug atriði úr Amerískri fangelsismynd þegar ljós var að Sturla ætlaði að láta til skara skríða - og fögnuður Bolvíkinga varð mikill. Það er nefninlega svo að Bolvíkingar eru búnir að bíða og bíða, já bíða og bíða og bíða eftir þessum göngum - sem síðan verða gerð, á stað sem vart er hægt að tala um sem besta kost. En af því að Bolvíkingar eru búnir að bíða svo lengi þá þyggja þeir það sem þeim er fært.
Og hér komum við að fangelsismyndinni - jú, jafnvel harðsvíruðustu og kynvissustu kallarnir fá sér stundum á broddinn á kostnað minni samfanga - ekki af því að þeir séu kynvilltir - nei bara af því að það er næstbesti kosturinn - Besti kosturinn er bara ekkert í boði. Það sama á við um göngin til Bolungarvíkur.
Það er mín túlkun á stöðunni.
Bloggar | Breytt 22.2.2007 kl. 10:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)