Færsluflokkur: Bloggar

Hvað mun þetta hræðilega ástand taka mörg líf?

Mér er tjáð að staða fólks sé á stundum orðin svo alvarleg að viðkomandi sjái ekki nokkra vonarglætu og kjósi að enda líf sitt - falla fyrir eigin hendi. Að alda sjálfsvíga ríði nú yfir og þeim eigi eftir að fjölga.

Þetta hlýtur að vera dekksta hlið örlagateningsins. Og undirstrikar ábyrgð ríkisstjórnar og þeirra er fara með málefni okkar almennings. Og okkar hinna sem eigum að styðja við bakið á vinum og vandamönnum sem etv. hafa ratað í ógöngur - sem ekki þeim að kenna og þau gátu ekkert gert í.

Mér finnst nefnilega sjálfum að hálfgert ráðaleysi sé ráðandi - að það vanti festu og ákveðni í að leita leiða - frekar sé verið að bíða eftir því "hvað gerist"!

En eftir stendur að allt of langur tími hefur farið í þref um óþarfa hluti - í stað þess að leita strax eftir nauðsynlegum stuðningi - eða var allan tímann verið að því? Ég fékk aldrei þá tilfinningu þegar ég hlustaði á daglega blaðamannafundi Geirs og Björgvins - mér fannst þeir máttlitlir og ekki til þess fallnir að fylla okkur eldmóð - eitthvað vantaði.

Að vísu létti mér nokkuð að heyra í Geir á fundi þeirra Sjálfstæðismanna - þar var hann röggsamur og ákveðinn - fékk mann næstum til að trúa því að ekki yrði setið þegjandi undir ásökunum og aðgerðum BRETANNA. Það var gott. En kannski er auðveldara að tala við "sitt fólk" - þar sem allir eru sammála - styðja sinn mann.

Við erum lítil þjóð - sem því miður naut lífsins áhyggjulaus án þess að hugsa dæmið til enda - hafði gaman og barði sér á brjóst - launin voru veislur með fína fólkinu í útlöndum - partý á Bessastöðum og VIP miðar á leiki í ensku deildinni. Allt í boði bankans.....og á kostnað þjóðarinnar.

Nú er þetta búið. Búið. Nú þarf að taka til og gera það vel.

Jóhanna - Þinn tími er kominn!! Ég treysti því að þú látir ljós þitt skína - loksins þegar þú hefur tækifæri til!


Er þetta nóg?

Ég bara spyr...eru 4 milljarðar evra nægir peningar til að standa skil á þeim skuldahala sem útrásarmennirnir klipptu af sér og hentu um borð þjóðarskútuna?

Ef við á annað borð þurfum að leita hjálpar er þá ekki ráð að sú hjálp sé nægileg. Fyrir utan það að nú hlýtur að þurfa að taka til í stjórnkerfinu - duglega!

Það hlýtur að vera okkur Íslendingum ljóst að aldrei fyrr hefur verið eins augljóst að við verðum að styðja betur við grunninn í íslensku þjóðfélagi - sveitarfélögin þar sem fólk hefur unnið sína vinnu - án þess að taka þátt í geðveikislegu kapphlaupi Reykjavíkurbúa - bisnessmannanna!

Nú þarf að styðja við innlenda framleiðslu - íslenskan iðnað og þau fyrirtæki sem hann stunda og styðja - byggja upp á þeim grunni sem við höfum - á því sem við kunnum - styðja sjómenn - útgerð - landbúnað og ferðaþjónustu!

Er ekki tímabært að okkar ágæti sjávarútvegsráðherra taki af skarið og leggi verulega fjármuni í uppbyggingu og stuðning við þorskeldi í landinu - veiti verulega fjármuni til þeirrar uppbyggingu sem hefur farið fram úti á landsbyggðinni - þar sem fyrirtækin hafa lagt sig fram um að skapa ný tækifæri - án þess að þyggja fyrir ofurlaun og einkaþotur - án gylliboða og loforða - án skýjaborga....

Við verðum að byggja framtíðina á þeirri þekkingu og reynslu sem við höfum - nú er tækifæri og ég vona að ráðamenn missi ekki af því!

Tökum til og verum skynsöm.


mbl.is Rússar og IMF sameinist um lán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"í lóðréttri kúlnahríð"

Mér fannst alltaf hjákátlegt málfarið hjá spekingunum sem í öllum uppganginum hættu að tala um milljónir en töluðu heldur um "kúlur". Við þessir óbreyttu skildum þetta vart og ég veit í raun ekki ennþá hvort ein kúla væri jafnt og ein milljón eða hundrað! Sem auðvitað segir sitt um málfarið hjá spekingunum.

Nú hinsvegar talar enginn um tapið í kúlum - nei nú tala allir um milljónir!! Og þessar milljónir eiga víst að greiðast af þeim sem aldrei skildu eða áttu kúlur!

 

Ja maður spyr sig. Það er slæmt að standa í "kúlnahríðinni" sem fellur lóðrétt á íbúa Íslands.


Góður framburður tungumáls skiptir öllu máli!

Já nú held ég að eitthvað hljóti að hafa skolast til í framburði Árna. Kannski er það ekki skrítið þar sem hann lærði jú í Skotlandi - og ekki eru Skotarnir sjálfir auðskiljanlegir - hvað þá há-norræn-skoska í öllu sínu veldi!

En þetta undirstrikar það sem ég lærði í Barnaskóla Íslands á Akureyri - hjá honum Björgvini Jörgens heitnum. En hann lagði ofuráherslu á að við töluðum rétt - fallega og rétt. Hann sagði okkur eftirfarandi sögu því til stuðnings: Eitt sinn vann hann sem ungur maður í byggingaiðnaði - var við steypuvinnu. Svo gerist það eitt sinni að Björgvin lendir undir fallandi járnfötu fullri af steypu. Höggið var gríðarlegt og hreinlega klauf höfuð Björgvins - sem þó hélt lífi og var fluttur þungt haldinn á spítala og fluttur með flugi til Kaupmannahafnar.

Og þá segist honum svo frá: "nú, þarna ligg ég með opið höfuðið aftur í sjúkrabílnum sem átti að hraða sér með mig á militær hospitalet" - "eftir skamma hríð spyr bílstjórinn konu mína hvert hafi nú aftur átt að fara með mig....og hún svarar á mjög bjagaðri dönsku - Nú, ég er þarna liggjandi með opið höfuðið en sé nú samt að bílstjórinn er að fara einhverja bölvaða vitleysu - og því reysi ég mig upp og segi á fullkominni dönsku unskyld....jæg skal paa miltær hospitalet!! og þá auðvitað rataði bílstjórinn rétta leið - og það varð mér til lífs...!

já svona skiptir nú framburðurinn miklu máli!!"

Já - Árni hefði betur æft sig í enskunni!!


mbl.is Samtal við Árna réð úrslitum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Danir rétta okkur hjálparhönd á erfiðum tímum!

Á erfiðum tímum taka frændur vorir höndum saman og aðstoða okkur Íslendinga.

Dæmi nú hver fyrir sig.

 


Kommúnistinn bjargar kapítalismanum...

Áhugaverð er umræðan um hverjum sé um að kenna að Ísland sé nú á barmi gjaldþrots. Í umræðunni lærir maður ýmislegt nýtt - ný hugtök líta dagsins ljós. Hér á ég við t.d. hugtakið "árangurstengd laun" eða "árangurstengdar greiðslur" sem eru svo vinsælar hjá stjórunum. Ég í einfeldni minni hélt að hér væri um að ræða eitthvað sem tengdist árangri í þá átt að efla viðkomandi fyrirtæki?!

En svo virðist ekki vera. Ekki í bisness heimum.

Svo er það pólitíkin. Nú hefur Hannes Hólmsteinn útskýrt fyrir mér að kapítalismi og kapítalistar séu tvennt ólíkt - líklegast eins og "bíll og bílstjóri". Íslenska þjóðin er þá "bíllinn" en bankagaurarnir - ofurlaunaliðið "bílstjórarnir". Svo klessa þeir á og allt fer í steik. Þá eru þeir semsagt búnir að stórlaska bílinn.

Nú, ég sé ekki betur en að með því að leita til Rússanna þá séu við að leita okkur að nýjum "bílstjórum" - semsagt að "kommúnistarnir ætli að bjarga kapítalismanum" -

Er þetta ekki dálítið öfugsnúið? Monnípeningarnir koma frá "samyrkjubúunum" til að smyrja vélar "auðvaldsins".

Tja - kannski er maður bara svona vitlaus. Hvað veit ég - ég hafði aldrei "vit" á að fjárfesta í hlutabréfum.....

ps. næst þegar ég fæ gluggapóst frá Glitni og Landsbankanum þá ætla ég beint upp í næsta útibú og segja sisona "hurru góði - gerðu bara sjálfur upp þínar skuldir áður en þú rukkar mig"..... eða þannig WinkWhistling

 


Stjórnarformaður Kaupþings túrverðugur í Kastljósi!

schimpans448

NOT!!!


Úlfúð - barist um bitana

Ég var að tala við danskan mann um daginn. Ýmislegt bar á góma en það sem mér þótti merkilegt var að hann sagði mér frá því að hann sæi um að útvega dýragörðum mat ofan í ljónin!

Og þar duga sko engir smá bitar samkvæmt evrópuþingsstöðlum - nó þeinkjú - ljónin líta ekki við neinu nema vænum bitum og helst á beini. Og þegar verið er að fóðra þau þá urra þau og líta hvert annað hornauga - passa upp á bitana og ekki er gott að vera með fingurna nálægt.

Þau stærstu og frekustu fá sér fyrst - urra á hina og láta engan komast upp með að næla sér í bita. Á stundum gerast leikar svo svakalegir að stór sér á þeim minni.

Þetta þótti mér merkilegt spjall og sá fyrir mér lætin í ljónagryfjunni. Betra fyrir dýrahirðinn að fara varlega - úff.

Á leiðinni heim ákvað ég að líta við í smiðju einni hér í bæ - kanna hvort ennþá væri heitt á könnunni. Þegar ég var sestur og búinn að heilsa köllunum bar að góðan gest. Það var Úlfar í Hamraborg og bar hann poka einn í annarri hendinni. 

Kliður fór um borðið - kurraði í mönnum og þeir færðu sig framar á stólana. Nú var nefnilega Úlfar kominn með samlokur sem ennþá voru í góðu lagi þó þeir taki þær úr sölu í Hamraborg - þar er ekkert boðið uppá nema nýsmurt.

Kallarnir iðuðu - spennan magnaðist - Úlfur hálf henti pokanum á borðið og kippti að sér hendinni. Sá stærsti í hópnum - eða ætti maður að segja sá æðsti - Garðar - lét hendur skipta - nældi sér í loku og munaði minnstu að hann fingurbryti Óla frá Gjögri sem auðvitað var minni og átti að bíða - vera ekki með þessa frekju - þegar aðal átti að velja fyrst! Hinir biðu átekta - mynduðu hálfhring um fenginn og sleiktu útum....svo fengu þeir sér. Eina hljóðið sem heyrðist næstu mínúturnar var kjamsið í körlunum - mér fannst ég meira að segja heyra mal.

Ég sat um stund og hugsaði: Þetta minnir mig á eitthvað....ég bara kom því ekki fyrir mig - mér fannst ég hafa upplifað þetta áður?!

Á leiðinni heim mundi ég það..... - já mannskepnan er skammt á veg komin þegar góðar samlokur eru annarsvegar!!


Stefnumót við óvissuna

Ég sagði frá því í færslu í fyrra þegar ég gekk Óshlíðina alræmdu með bóndanum á Hanhól. Þá sór ég þess eið að gera það ekki aftur.

Nú hef ég brotið þann eið - ég gekk á ný. Átti stefnumót við óvissuna.

Það var myrkur þegar er ég leit út um gluggann - laugardaginn 13.september. Ég var þreyttur - enda sofið illa - dreymdi fyrri göngur með bóndanum og sá mig falla fram af björgum og brúnum - niður skriður og enda óþekkjanlegur í fjöruborðinu.

Í morgun kulinu keyrðum við Harpa Grímsdóttir á vit örlaganna - hittum fyrir bóndann í Óshlíðinni skammt norðan Kálfadals - þar sem hægt var að leggja bílunum. Harpa fór ásamt Ásgeiri upp ófærur sunnar í Óshlíðinni og áttu að reka fé sem leið lá norður hlíðina og koma til móts við okkur í Kálfadal. Líkur hér þætti Hörpu og Ásgeirs í frásögn þessari.

Við bóndinn héldum sem leið lá upp frá veginum neðan Kálfadals - með hjálp kaðalspotta gátum við auðveldað leið okkar upp bratta hlíðina þó grjóthrun skapaði hættu fyrir þann er á eftir kom. Bóndinn var á eftir - ennþá hafði ég þolið í lagi.

Í Kálfadalnum er umgjörðin hrikaleg - dalverpi umlukið bröttum hlíðum sem enda í þverhníptum hömrum - dalurinn fullur af grjóti sem einhvertíma féllu úr hamraveggjunum. Mjög mikilvægt er á þessum slóðum að vara sig á grjótskriðum og lausum steinum sem liggja á berginu og með það í huga hlýddi ég bóndanum þegar hann rak mig upp brattann - ég átti að standa fyrir ofarlega til að missa ekki féð upp á víðsjárverðar syllur. Ég dæsti - skrefin voru þung - brattinn mikill. Ekki gat ég séð á bóndanum að hann blési úr nös - gekk með mikinn staf - og notaði hann til styðja sig í brattanum - með honum gekk smalahundurinn og vissi vel hvað stóð til.

joi_me_staf.jpg

Útsýnið var stórfenglegt inn djúpið  og sólin glennti sig yfir Sæfjallaströndinni. En ekki dugði að kvarta - kindum verður að smala.

 

 13092008_001.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Segja má að slíkar ferðir séu ekki fyrir lofthrædda og á stundum þegar litið var niður þá var ekki laust við að um mann færi hrollur -

 13092008_010.jpg

 

betra að fara sér hægt og horfa beint fram veginn. En þegar horft var fram veginn þá auðvitað skánaði það lítið - framundan voru hrikalegir klettar - skriður og það hlaut að vera hverjum manni ljósara að slíka leið færi enginn ótilneyddur! Ertu hræddur bjálfinn? spurði bóndinn. Ha ég, svaraði ég og þóttist vera ískaldur og rólegur!

13092008_009.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Já - nú skipti sköpum að halda ró sinni -eða eins og bóndinn sagði við mig í síðustu göngum - og sem áttu að verða mínar síðustu...."úr þessu er ekki hægt að snúa við....vertu rólegur"!!

Við settumst niður - bóndinn fylgdist með gangnamönnum í fjarska og gaf skipanir í talstöð -

13092008_011_679792.jpgBetra að fylgjast vel með öllu til að féð rjúki nú ekki í ógöngur.

13092008_012.jpg

 

 Já - þarna sat hann á toppnum - gaf skipanir niður hlíðina og hjá sátu smalahundarnir Salka og Píla - tilbúnar að hlaupa fyrir féð ef það reyndi eitthvað fyrir sér - væri með útúrsnúninga.

 

 

 

 

En áfram skildi haldið - ekki var okkur til setunnar boðið - á Ósi var beðið eftir okkur og við urðum að vera komnir með féð fyrir Óshyrnu ekki síðar en 8. 

Skriðurnar biðu - syllurnar virtust hrikalegar og mér fannst ég lítill og tilgangslaus - svo hrikaleg var náttúran þennan morgun.

13092008_013_679795.jpgHvern fjandann voru þessar rollur að vilja á þennan stað? Þessar heimsku Vestfirsku rollur.

Eða voru þær svo vitlausar...kannski var það mannskepnan sem í heimsku sinn elti þær um kletta og skriður?

 

Þá var gott að hafa tryggan vin - sem fylgdi manni um hvert fótmál og hljóp uppi fé sem ekki fylgdi settum reglum - kannski ekki alltaf - en stundum!

Já henni Sölku fannst það nú ekkert mál að hlaupa upp og niður skriðurnar - feta sig eftir syllum.

13092008_006.jpg13092008_007.jpgRollunum varð ná heim - um annað var ekkert að ræða.

 

 

 

 

 

Já smölun í Óshlíð er ekkert gamanmál - þó auðvitað maður finni til sín - daginn eftir!

Í einni alverstu skriðunni - rétt undir henni Þuríði sjálfri komust nokkrar ær upp bratt gil. Bóndinn sigaði mér yfir háls fyrir ofan gilið - brattinn var slíkur að ég þurfti að reka niður göngustafinn til að renna ekki af stað og enda fyrir björg. Ég var þreyttur - blóðbragð í munni og helvítis rollunum hugsaði ég gott til glóðarinnar. Þegar ég loks hafði mig upp á hálsinn gerði ég mér grein fyrir því að fyrir neðan mig var klettabelti - og skriðan var hrikaleg handan við hálsinn. Ég sá nánast svart - þreytan var slík að ég hugsaði með mér að bráðum gæfist ég upp - myndi sjálfsagt enda í grjótgirðingunni niður við veg!

En yfir hálsinn klöngraðist ég - og sá rollu fjandana - ær með tvö lömb - að mér sýndist - en svitinn blindaði mig þó þrjóskan ræki mig áfram. Rollunum skildi ég ná. Í talstöðinni brakaði "hvar ertu...drífðu þig nú"...helv...bóndinn hugsaði ég - helv...rollurnar!!

Þær störðu á mig - glottu að mér sýndist - tóku svo á rás og upp skriðuna....hver andskotinn er að þessum skepnum hugsaði ég - vita þær ekki að leiðin er niður!! Ég hafði mig af stað - við hvert skref leið mér eins og nú væri ég allur - enda gjörsamlega búinn. Í talstöðina brakaði "komdu bara niður - við náum ekki þessum" - ha...var bóndinn hættur við - búinn að siga mér upp í efstu gljúfur - og þegar ég loks kemst þangað ódauður þá á ég að koma niður.....djöfuls....hugsaði ég.

En að fara niður reyndist ekki skárra - skriðan var laus í sér og fór auðveldlega af stað - með mig. Hruflaður - skítugur og sveittur komst ég loks niður - rollulaus! Blótandi og hinn versti  - aldrei skyldi ég fara aftur í slíka ferð - aldrei.

Ég sofnaði þreyttur þetta kvöld.

Snemma morguninn eftir hringir síminn. "Góðan daginn" segir glaðleg og kunnugleg rödd í símanum - þetta var bóndinn - ég svaraði ekki - þagði - en að lokum bauð ég góðan dag.

"Segðu mér" hélt hann áfram, "þessar rollur sem þú skaust eftir þarna upp brekkuna í gær - sástu ekki örugglega markið á þeim?!"

Ég þagði - svo lagði ég símann á og hélt áfram að sofa.

Síminn hringdi aftur. Ég svaraði. Aftur var það bóndinn - "ég ætla að líta eftir þeim - ná þeim niður og var að velta fyrir mér hvort þú myndir ekki skjótast með mér". 

Ég lagði á - tók símann úr sambandi og sofnaði.


"Sértu velkominn heim...yfir hafið og heim"

Það ómuðu tónar úr smiðjunni í gær. Fagrir tónar flæddu úr kaffistofunni þó ekki væri þar mann að sjá. Þegar litið var innum gættina mátti sjá hvaðan tónaflóðið kom - í ein horninu var eldri kona við þrif - lá á hnjánum og skrúbbaði gólf - með höfuðklút og svuntu!

Ekki passaði þó hvellur tenórinn við útlit skúringarkonunnar - enda kom í ljós þegar skúringarkonan varð gestsins vör að hér var engin kona á ferð - heldur var það Maggút sjálfur mættur - í múnderingu með skúringargræjurnar - kominn til að þrífa og lá vel á honum. Hann ætlaði að taka á móti Braga með pompi og prakt - þegar Bragi kæmi heim úr siglingunni - á mánudaginn næstkomandi. Og upphóf hann nú raust sína "sértu velkominn heim...yfir hafið og heim"....

Þó var eitt vandamál sem Maggút glímdi við - hversu mörg kerti hann ætti að hafa á kaffiborðinu....eitt..tvö...nú eða fleiri....

Gesturinn kímdi - sagði svo Maggút að Bragi kæmi ekki heim fyrr en á þriðjudag. Maggút þusti á fætur, reif af sér svuntuna og gúmmíhanskana  - tætti af sér hárklútinn og blótaði hressilega. Gat nú verið að Bragi léti bíða eftir sér... kannski væri bara  eins gott að hann kæmi ekki neitt....andskotinn hafiða.

Þegar gesturinn kvaddi og hélt heim á leið mátti heyra hvellri röddu í kaffistofunni "ertu kominn aftur, landsins forni fjandi".....og blótgusa fylgdi í kjölfarið....

Já, það er eftirvænting í loftinu á loftinu hjá Braga.

Og ég tek mér orð Maggúts í munn þegar ég segi "sagan er sönn, Óli frá Gjögri sagði mér hana...ekki lýgur hann....".


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband