Hvað mun þetta hræðilega ástand taka mörg líf?

Mér er tjáð að staða fólks sé á stundum orðin svo alvarleg að viðkomandi sjái ekki nokkra vonarglætu og kjósi að enda líf sitt - falla fyrir eigin hendi. Að alda sjálfsvíga ríði nú yfir og þeim eigi eftir að fjölga.

Þetta hlýtur að vera dekksta hlið örlagateningsins. Og undirstrikar ábyrgð ríkisstjórnar og þeirra er fara með málefni okkar almennings. Og okkar hinna sem eigum að styðja við bakið á vinum og vandamönnum sem etv. hafa ratað í ógöngur - sem ekki þeim að kenna og þau gátu ekkert gert í.

Mér finnst nefnilega sjálfum að hálfgert ráðaleysi sé ráðandi - að það vanti festu og ákveðni í að leita leiða - frekar sé verið að bíða eftir því "hvað gerist"!

En eftir stendur að allt of langur tími hefur farið í þref um óþarfa hluti - í stað þess að leita strax eftir nauðsynlegum stuðningi - eða var allan tímann verið að því? Ég fékk aldrei þá tilfinningu þegar ég hlustaði á daglega blaðamannafundi Geirs og Björgvins - mér fannst þeir máttlitlir og ekki til þess fallnir að fylla okkur eldmóð - eitthvað vantaði.

Að vísu létti mér nokkuð að heyra í Geir á fundi þeirra Sjálfstæðismanna - þar var hann röggsamur og ákveðinn - fékk mann næstum til að trúa því að ekki yrði setið þegjandi undir ásökunum og aðgerðum BRETANNA. Það var gott. En kannski er auðveldara að tala við "sitt fólk" - þar sem allir eru sammála - styðja sinn mann.

Við erum lítil þjóð - sem því miður naut lífsins áhyggjulaus án þess að hugsa dæmið til enda - hafði gaman og barði sér á brjóst - launin voru veislur með fína fólkinu í útlöndum - partý á Bessastöðum og VIP miðar á leiki í ensku deildinni. Allt í boði bankans.....og á kostnað þjóðarinnar.

Nú er þetta búið. Búið. Nú þarf að taka til og gera það vel.

Jóhanna - Þinn tími er kominn!! Ég treysti því að þú látir ljós þitt skína - loksins þegar þú hefur tækifæri til!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þetta er dauðans alvara í öllum dýpsta skilningi, því miður. Spakleg varnaðarorð eru ódýr aflausn fyrir þá menn sem bera í dag þunga ábyrgð. Sjálfur hef ég heyrt sögur af sjálfsvígum sem tengjast fjárhagslegum hamförum í lífi fólks þessa dagana en engar þær fréttir hef ég fengið staðfestar. Það hefur stundum þurft minna til í skugga skammdegis en öll þessi ótíðindi sem snerta alla þjóðina og fáir munu þeir vera sem þarna hafa sloppið eða munu sleppa. Því flest okkar munu hafa fjölskyldubönd og þar er samkenndin sterk í öllum áföllum hvers eðlis sem þar um ræðir. En margir eru dofnir ennþá og þegar um sameiginlegt skipbrot svo margra er að ræða vona ég að höggið reynist sársaukaminna en ella væri. Það sem ég óttast líka er sú bylgja reiðinnar sem risið hefur í garð þeirra sem ýmist voru valdir að þessu ellegar sátu aðgerðarlausir meðan hættan magnaðist.

Fari sú reiði úr böndunum-sem ég bið allar góðar vættir að forða,- þá er mikill voði vís. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að til þess að slæva þessa reiði þjóðarinnar væri athugandi að leysa Davíð Oddsson frá störfum. Ég fæ ekki séð að hann hafi orðið fólki til það mikillar gæfu í þessari atburðarás að neinu væri fórnað.

Og ég hef ekki tekið þessa skoðun að láni frá neinum. 

Árni Gunnarsson, 11.10.2008 kl. 23:45

2 identicon

Heill og sæll; Þorleifur, sem aðrir skrifarar og lesendur !

Tek undir; með þér, um leið og ég þakka Árna; einnig, hans athugasemd. Hér er mikil vá fyrir dyrum, hverri stemma verður stigu við.

Ábyrgð stjórnmálamanna er mest; hverra er, að fyrirbyggja hina sjálfvirku uppboða- og nauðungarhyggju kerfisins, meðan á þessum ósköpum stendur, að minnsta kosti, í fjármálaheiminum.

Með beztu kveðjum, sem fyrr /

Óskar Helgi Helgason   

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 11.10.2008 kl. 23:57

3 Smámynd: Guðmundur Eyjólfur Jóelsson

'Eg var að keyra krakka á mánudaginn var norður í land og þau töluðu mikið um það sem var að gerast .Það var á  mánudag 6.okt mikið vatn hefur runnið til sjávar þá og margt hefur breyst síðan þá .Ég hugsaði með mér þá að skólar þyrftu að fræða börnin hvað í rauninni væri að gerast í þjóðfélaginu og foreldrar að setjast niður með börnum sínum og tala um hvað væri að gerast og hvað væri hægt að gera til að spara ,Það er ljóst að margur á við ramman reip að draga .Fjölskyldur þurfa að setjast niður og tala um það sem hægt er að gera og sérstaklega um það sem ekki er hægt að gera en var sjálfsagt .Félagsmálaráðuneyti verður að koma með þjónustustöðvar um landið hið fyrsta svo fólk finni að það geti leitað eitthvert um svör því óvissan er versti óvinurinn ,Við þurfum að hjálpa hvert öðru og leifa fólki að hjálpa okkur draga ögn úr stolti okkar.

Guðmundur Eyjólfur Jóelsson, 12.10.2008 kl. 09:50

4 identicon

 Væri ekki að hafa þessi vísubrot að leiðarljósi á þessum tímamótum

Gulli og perlum að safna sér,
sumir endalaust reyna,
vita ekki að vináttan er,
verðmætust eðalsteina.

Gull á ég ekki að gefa þér
og gimsteina ekki neina.
En viltu muna að vináttan er
verðmætust eðalsteina.

Höf: er Hjálmar Freysteinsson læknir og hagyrðingur á Akureyri


Guðrún Vestfirðingur (IP-tala skráð) 12.10.2008 kl. 12:30

5 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Og þar tek ég undir. Jóhanna er eini stjórnmálamaðurinn sem vit er í. Verst að allt Samfylkingarbatteríið fylgir með henni þannig að mér er ómögulegt að kjósa hana. Allavega eins og staðan er í dag.

Maður verður bara að biðja fyrir þeim sem á brattan þurfa nú að sækja. eins og maður á reyndar alltaf að gera.

Ylfa Mist Helgadóttir, 12.10.2008 kl. 15:24

6 Smámynd: María Richter

Góður pistill.  Er reyndar ekki sammála um máttleysi þeirra Geirs og Björgvins.  Er ekki alveg að sjá hvernig þeir hefðu átt að vera öðruvísi.  Get heldur ekki tekið undir með að Jóhanna Sigurðardóttir sé eini stjórnmálamaðurinn með einhverju viti.  Eru allir virkilega búnir að gleyma hver kom á húsbréfakerfinu á sínum tíma, sem kom mörgun heimilum í landinu í djúpa klípu?

María Richter, 12.10.2008 kl. 16:56

7 identicon

Þessi sjálfsvígsalda er víst ekki til staðar, merkilegt nokk. Ekki hingað til a.m.k. Hef það frá heimildum sem ég treysti sjálfur vel – ég er reyndar ekki góð heimild, einhver nafnlaus gúbbi á bloggi.

N.N. (IP-tala skráð) 14.10.2008 kl. 11:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband