Færsluflokkur: Bloggar

Kínverjar kaupa Volvo!

Oft hefur verið talað um að ekkert sé sænskara en Volvo. Ekkert kínverskara en núðlur. Ekkert finnskara en Nokía. Ekkert norskara en gönguskíði.

Og ekkert íslenskara en salfiskur.

Og nú hafa Svíar riðið á vaðið - bjarga sér með því að selja Volvo! Já, heimurinn er að breytast - eins og við höfum reyndar verið vitni að sl. mánuði.

Og nú spyr ég - getum við ekki selt kínverjunum eithvað? Hvað varð t.d. um Rafha eldavélarnar - sem urðu þess valdandi að verndartollar voru settir á innfluttning á eldavélum. Og þeir tollar eru ennþá að ég held!

Tja það er vandlifað.

 


Falleg sjón á erfiðum tímum - limafagrir menn leika listir sínar fyrir Vestan.

Nú er útlitið dökkt. Kalt er úti - kalt er í sinni. Aðstæður erfiðar og fátt um úrbætur. En maður vonar að einhvertíma muni sólin skína á nú - bjart verði úti og vindar vonar leiki um vanga.

Og svo gerðist nokkuð í dag. Ég varð vitni að miklum glæsileik í fasi og tignarlegum hreyfingum.  Ég var ekki staddur á heimsfrægri kynbótastöð veðhlaupahesta - nei ég var nú bara staddur í Torfunesi  á Ísafirði. Á æfingu hjá knattspyrnufélaginu "Feitafélaginu".

Og þó af nafninu megi draga þá ályktun að hér fari menn frjálslegir í holdum - þá er það af og frá. Hér eru stæltir menn með lága fituprósentu - fagran limaburð og mikla knattleikni. 

Hópnum stýrir Páll nokkur Hólm - hagmæltur og ákveðinn - sanngjarn og drenglyndur - hýr og glaður. Honum til aðstoðar eru nokkrir vel valdir sveinar - sem allir eiga það sammerkt  að hafa barist um stöðu sína á væng formannsins.

Svo er almenningurinn - það eru við hinir - okkur sem dreymir um að formaðurinn virði okkur viðlits og líti jafnvel á okkur sem jafningja - einhvern daginn.

Það er okkar draumur.

Auðvitað leika menn sínar stöður - en svo góðir eru félagarnir í knattleikninni að segja má að menn séu jafnvígir á allar leikstöður. 

Sem dæmi má nefna Heimi - sem leikur sér jafnt fremst sem aftast - af einstakri næmni skorar hann falleg mörk. Gísli Jón Kristjánsson ber af hvað varðar líkamsstyrk og ákveðni - í spánýjum Arsenalbúning á hann það til að þenja markmöskvana - og svo að stundum sér á leikmönnum sem fyrir boltanum verða.

Nafni hans Gísli Jón Hjaltason er okkar Ian Rush - lipur og baneitraður - hlaupagikkur þindarlaus - og skorar grimmt.

Og svo er það skóhornið - verðlaunaður safnamaður og fyrrum landsliðsmaður. Ákaflega tilfinninganæmur leikmaður - sem leikur með hjartanu - sneggri en flestir og á það til að þjóta upp völlinn og skora stórglæsilega. 

Ef dæs heyrist eða fuss - má ganga að því vísu að um sé að ræða Jóhann nokkurn - Jóa á ísvélinni. Sá er einkar útsjónasamur - svo mjög að jafnvel samspilarar hans skilja ekki á stundum. 

Svo eru það vinstrimennirnir - Siggi og Kiddi. Sigurður Pétursson - sanngjarn og vinstrisinnaður í knattspyrnunni - aldrei, aldrei skal horfið á hægri vænginn - aldrei skal hægri fóturinn notaður. Bara prinsipp mál.  Kiddi er opnari - en ætlar sér stundum um of - líkt og vinstrimönnum er títt. Á sennilega enga framtíð hjá formanninum sem er maður Framsóknar. En sjáum til.

Og fleiri leikmenn mætti tína til - sem þó verða að bíða betri tíma. En ekki ætla ég að fjölyrða um það hér - ekki nefna mig sjálfan sem enn er í aðlögun - leikmaður í þjálfun.

Já maður finnur til vonar - og trúir á betri tíð þegar maður leikur knattspyrnu með þessum hóp. 

Það er þó rétt að nefna að  Feitafélagið æfir á bakvið luktar dyr. En þeir sem vilja fá að hitta okkur er bent á Pál Hólm - hann getur leyft heimsóknir - undir vissum kringumstæðum þó.


Hvaða tilgangi þjónar að stokka upp?

Mikið er fjallað um að sjálfstæðisflokkurinn sé að skipta inná - í hálfleik. Að Björn kveðji og Bjarni taki við.

Til hvers?

Er ekki deginum ljósara að ríkisstjórnin hefur ekkert umboð frá þjóðinni í raun? Auðvitað tæknilegt og lögfræðilegt umboð - en ekki vilja þjóðarinnar og velvild.

Hví eru flokkarnir þá að standa í þessum hrókeringum?

Væri ekki nær fyrir ungu og efnilegu stjórnmálamennina að krefjast þess að efnt verði til kosninga á þessu ári. Svo að þeir geti í raun látið til sín taka! Eða er hræðslan við flokksagann svo mikil að ef þeir spila ekki með - þá er þeim hent út? 

Getur það verið?

Nei - það hlýtur að vera flestum ljóst - flokksbundnum sem óflokksbundnum að mikilvægt er að alvöru hreinsun eigi sér stað - að við sem byggjum þetta land fáum stjórnarskrár bundinn rétt til að velja í embættin.

Á nýja Íslandi.


Stjórnarformaður N1...eða fyrrum....í bóli Bjarnar. Farsinn endalausi.

Dæmalaust. Næsti dóms-og kirkjumálaráðherra kemur beint úr grautarpottinum. Ekki það að hér sé ekki um vel gefinn og kekk strák að ræða - alls ekki. Nei - hér er bara lýsandi dæmi um hvernig þetta er í íslenskri pólitík.

Á bullandi siglingu í bisness - allt fer til fjandans og almenningur hrópar slagorð - og jafnvel örlar á því að ráðamenn viðurkenni spillingu í kerfinu. Þá skyndilega "finnur stjórnarformaður N1 fyrir því að hann ætti kannski bara að hætta sem slíkur" (VB.is 10.des 08).

Og verður þar með algjörlega hvítþveginn af tengslum við atvinnulífið sem auðvitað eru óheppileg - óþolandi - og í raun ættu ekki að eiga sér stað. En það þurfti skilaboð úr innsta hring flokksins svo að stjórnarformaðurinn segði sig úr embætti. 

Ekki aðstæður í landinu - heldur loforð um ráðherraembætti.

Þessi endaleysa heldur áfram og eina leiðin til að stokka þetta almennilega upp eru kosningar.

 

Ég vil svo þakka RUV fyrir frábært skemmtiatriði sl. föstudag. En það var að sjá Gísla Martein mættan til leiks á ný að verja félaga sína. Alveg stórkostlegt að hlusta á hann verja Árna Matt. Takk fyrir það. Gísli á framtíðina fyrir sér í "kómedíunni". Stúdentinn sem lætur borgarbúa borga námið - að vísu hefur hann líklegast fengið tiltal frá toppunum - og nú fer hann í frí - í námsfrí!! 

Kómedía af hæsta gæðaflokki.

Laddi hvað....


Pétur Blöndal drullar yfir þjóðina með hreint ótrúlegri yfirlýsingu.

Arkitektinn að frjálshyggjupeningastefnubullibankanna hann Pétur Blöndal - sem persónulega réð Bjarna Ármannsson inn í bankakerfið - kennir íslensku þjóðinni um fall bankann og þjóðarinnar allrar í kjölfarið!

Og það í ohf. fyrirtækinu RUV!

Já þarna skeit ekki Pétur bara á sjálfan sig - heldur hreinlega drullaði yfir þjóðina alla. 

 

Jæja Pési litli - taktu nú pokann þinn og heimsóttu landsbyggðina - skoðaðu óráðsíuna sem þar er allsráðandi.......

Það ætti að rassskella þig duglega fyrir svona bull.


Þá vantaði ekki gorgeirinn og loforðin hreinlega runnu út um munnvikin.

Það eru dapurlegar fréttir að vart er hægt að halda úti sinfóníuhljómsveit. Nú er jafnvel hugsanlegt að niðurskurður  verði í hljómsveitinni - vonandi endar hún ekki sem kvintett.

En ekki er langt síðan þjóðarsynirnir Hannes og Björgólfur stóðu uppá sviði - böðuðu sig í ljómanum og nutu sín innan um listafólkið. 

Hvar eru þeir nú?

Já það eru margir sem gjalda fyrir heimsku þeirra og flónskuhátt - svo ekki taki maður sér orðið kriminalitet í munn.

Þó að ég hafi aldrei á minni æfi farið á tónleika með Sinfó - eins og hún er víst kölluð til að persónugera fyrirbærið - þá held ég okkur beri að standa vörð um þessa tegund menningar.

En á meðan fréttir berast af erfiðu ástandi þjóðar - þá búa þessir kallar í húsum sem kosta hundruð milljónir - og eiga önnur til skiptanna - hér og í útlöndum.

Manni verður flökurt.

Best að setja Sinfó á fóninn og reyna að jafna sig.


Af því að pabbi segir það.

Lítil stúlka sló í gegn í dag.

Stúlkan sú kom vel fyrir sig orði og hafði bara ágætan talanda. Hinsvegar finnst mér heldur dapurt að senda börnin sín upp á palla að halda ræðu um efni sem pabbi skrifaði. Með því er verið að beita fyrir sig börnunum í málefni sem ætti að leysa án þess að skapa áhyggjur og hræðslu barna. 

Lítil stúlka á ekki að fara upp á pall að tala um eitthvað sem hún skilur ekki.

Pabbinn ætti því frekar að beita sjálfum sér meira - tala sjálfir og segja þá kannski bara frá því að hann hafi áhyggjur af áhrifum kreppunnar á börnin.

það er mín skoðun.


Hvert erum við að stefna?

Mér fannst ánægjulegt að sjá frétt um skynsamlegar rannsóknir sem verið er að stunda á Tálknafirði. þar er verið að rannsaka hvort ekki sé gott að ala saman bláskel og þorsk.

Þetta er að vísu ekkert nýtt.

Sameldi eða fjöleldi hefur verið stundað víða um heim í einhverju mæli - og ýmsum tegundum. Ég hef átt samtöl og umræður við fjölda vísindamanna um þessi mál - bæði evrópska og vestanhafs. Við höfum jafnvel gerst svo djarfir nafnarnir - ég og Þorleifur Eiríksson hjá Náttúrustofu Vestfjarða að skrifa umsóknir - já, fleiri en eina - til að þess að reyna að afla peninga til slíkra rannsókna. Rannsókna sem skilgreina mikilvægi og möguleika á að nota eina tegund (bláskel) til að minnka lífræna mengun frá þorskeldiskvíum.

En ávalt hefur þessum umsóknum verið hafnað - ekki talin vera þörf á umhverfisrannsóknum á Íslandi. Að slíkar rannsóknir auki ekki verðmæti íslensks sjávarfangs.

Þvert ofan í mat erlendra sérfræðinga sem þó hafa verið meðhöfundar á slíkum umsóknum. En nei - umhverfismálin eru bara eitthvað sem engu skilar. Því miður. 

Og manni hefur liðið eins og don kíkóti sem barðist við vindmyllur.

Ég hef því oft spurt mig þeirrar spurningar - hví erum við Íslendingar svona áhugalausir um umhverfismál - um það að nýta náttúruna á sem næst því sjálfbæran hátt?

Ósjaldan hef ég rætt þessi mál við ráðamenn - þingmenn - þá sem eitthvað geta gert í málinu. Allir er sammála um ágæti þessa. En enginn gerir nokkurn skapaðan hlut. Við erum ennþá í sömu sporum og við vorum fyrir mörgum árum hvað þetta varðar.

En hvert ætlum við að stefna á eldi - í nýtingu sjávar og náttúru?

Hvert eigum við að stefna?

Er ekki tíminn núna - tíminn til að sýna ábyrgð og hafa framtíðarsýn sem við getum verið stolt af - bera ábyrgð á auðlindum okkar og framtíð!?


Auðmýktin er í beitningaskúr fyrir Vestan.

Það voru tveir vandræðalegir menn sem fluttu okkur ávarp um þessir áramót. Sammerkt eiga þeir að að skilja í raun ekki um hvað þeir rembdust við að segja - eða telja okkur trú um - og það er AUÐMÝKT.

Ekkert er þessum mönnum fjær.

Skaupið hið seinna var mun slappara en það fyrra. En í skaupinu hinu fyrra var fjallað um innlenda viðburði ársins  - með skemmtilegum innskotum - sem voru viðtöl við forystumenn þjóðarinnar og spesíalista á fjármálasviði. Þar komu þeir fram og bulluðu þessi lifandi ósköp og slíkum fábjánaskap að þeir hljóta að þiggja góð laun fyrir - í það minnsta góð eftirlaun.....

Skaupið hið seinna var ekki nema daufur ómur af raunverulegu skaupi þjóðarinnar.

En auðmýktina var að finna í gær.

Hana fann ég í beitningaskúrnum dumbrauða fyrir Vestan. Þar var litið yfir farinn veg og dómur felldur yfir fjölmörgum málefnum.

Óli frá Gjögri var bæði meir og uppfullur af auðmýkt. Hann sagðist aldrei hafa farið með rangt mál - aldrei sagt skemmtisögu um nokkurn mann nema sagan væri kórrétt - og ef svo hefði ekki verið þá væri ekki við hann að sakast - hann hefði bara haft hana eftir öðrum.Hann hefur þó sér til málsbóta að segja alltaf ríflega sannleikann til að sannleikurinn komist örugglega allur til skila - slæmt sé mjög ef eftir verður hluti hans ósagður.

Svo var nú það.

Gleðilegt ár og nú skulum við horfa björtum augum til framtíðar. 


Að kjósa mann ársins - undarlegt mat á eiginleikum.

Verið var í sjónvarpinu á stöð tvö (að mig minnir) að kjósa um hver væri maður ársins. Ársins tvö þúsund og átta þegar allt fór til helvítis - og svo voru helvítin sjálf fengin til að hreinsa upp skítinn.

En hvað um það. Ekki ætla ég nú að setjast í dómarasæti. En halló - rætt var þar við leikarann geðþekka Felix Bergsson - og hann kaus Ingibjörgu Sólrúnu. Og af hverju - jú hún gekk í gegnum erfið veikindi - og kom svo sterk til leiks.....hm jamm...jæja.

Hvernig í ósköpunum getur það verið henni til framdráttar að veikjast? Er það eitthvað nýtt? Margir deyja af völdum sjúkdóma á ári hverju - og lítið sem ekkert fjallað um það góða fólk.

Og hvað í ósköpunum hefur Ingibjörg gert til að laga ástandið? Ég bara spyr....hefur hún eitthvað gert? 

Ég bara spyr....hvað hefur hún gert af viti síðustu mánuði...?!!

Frekar en aðrir stjórnarliðar.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband