Á flestum stöðum þykir það þjónusta að leyfa fólki að stunda sund- eða sauna. En ekki á Ísafirði.

Eitt af af því sem telst til forréttinda á Íslandi er aðgangur að sundlaugum. Nema á Ísafirði. Á vel flestum stöðu er boðið uppá góða sundlaugaraðstöðu - með heitum pottum og sauna. Nema á Ísafirði.

Það eina jákvæða við þessa "sundhöll" er starfsfólkið sem þar starfar - ákaflega yndisleg og veitir manni alla þá nauðsynlegu áfallahjálp sem á er þörf þegar maður mætir í sauna og áttar sig á að um sé að ræða "rangan tíma - eða rangan dag" !!

Að vísu er gömul plastskel úti í horni - heitur pottur - í hinn svonefndu "sundhöll" Ísfirðinga - gömul og barn síns tíma og myndi sjálfsagt vera komin á haugana allstaðar. Nema á Ísafirði.

Og fyrir utan að nafngiftin er brandari - eða barn síns tíma líkt og potturinn - þá er bæjarstjórninni ómögulegt um að hafa opnunartímana á þann veg að þeir henti nokkrum venjulegum manni. Því að á langflestum stöðum á landinu er t.d. hægt að skreppa í sund snemma um helgar - eða jafnvel síðdegis. Nema á Ísafirði.

Sundhöllin er nefnilega lokuð almenningi þegar flestir komast í sund.

Ég minnist þess þegar ég var að alast upp á Akureyri að þá var aðeins sauna fyrir karla 4 sinnum í viku - og þótti allt í lagi - því þá var hægt að sækja þá líkamsrækt allan daginn - frá morgni til kvölds. En á Ísafirði skal passað uppá að hafa nú saunað harðlæst og alls ekki að opna almenningi nema í skamma stund eftir kvöldmat - nú þegar fólk ætti auðvitað alls ekki að sækja sauna - því mjög óhollt er að stunda slíka líkamsrækt eftir góða magafylli. Og hvergi gert. Nema á Ísafirði.

Og ekki vantar nokkuð uppá að nefndin sem þessu stjórnar af samviskusamri fávisku sé fjölmenn - mér telst til að um 10 manna hóp sé að ræða - bæði aðalmenn og varamenn! Gaman væri að vita hvað nefndin hittist oft á ári og hve mikið sé búið að greiða hópnum fyrir þetta "óeigingjarna" starf sitt!?

Og að það sé meira að segja starfsmaður í fullu starfi hjá Ísafjarðarbæ sem hafi loka orðið um slík mál - eða kannski sér hann bara um að halda fólki frá.

Satt best að segja er mér ómögulegt um að skilja hvaða stefnu þetta bæjarfélag hefur í þessum málum ef hún er þá til staðar? Í það minnsta er mér löngu ljóst að ekki fer króna af mínum háu gjöldum til bæjarfélagsins í að halda út mannsæmandi aðstöðu og þjónustu. Nema þessar mínútur sem manni er hleypt inn í "höllina".´

Það styttist í sveitarstjórnarkosningar og líklegast verður maður að taka þetta með í reikninginn þegar maður velur. Því það er í raun ótrúlega dapurt í árferði sem þessu að ekki skuli vera reynt að bæta það sem auðvelt er að bæta - svo sem að taka úr lás aðeins lengur en rétt þessar mínútur á dag.

Ég velti fyrir mér hvort á þessu yrði breyting ef bæjarstjórnin fengi áhuga á sund- eða  sauna iðkun?


Það er gott að vera hluti af þjóðfélagi sem hefur heilbrigðiskerfi sem virkar.

Ekki hefur maður óskað nokkrum að þurfa að horfa upp á alvarleg veikindi barna sinna. Og auðvitað hefur maður aldrei nokkur tíma gert ráð fyrir að þurfa sjálfur að standa í þeim sporum. En svo getur hent og nú er það svo að fóstursonur minn greindist með sykursýki.

Við slíkar aðstæður verður manni ljóst hve dýrmætt það er að hafa heilbrigðiskerfi sem aðstoðar mann og í raun tekur mann upp á sína arma. Það er nefnilega svo að við veikindi barna sinna þá finnst manni ekkert mega vera slakara en fullkomið - og ég fullyrði hér og nú að Barnaspítali Hringsins er stofnun sem við Íslendingar getum og eigum að vera stolt af.

Í heilbrigðiskerfinu má ekki skera niður - það má ekki taka af okkur þetta öryggi - það má ekki skapa óvissu um afdrif þegar erfiðleikar steðja að.

Ég held að við ættum að hafa það í huga þegar við dæmum verk okkar pólitíkusa á morgun.

 Ég kæri mig ekki um að tími "ríkislyfja" komi aftur - líkt og mér sýnis Ögmundur nokkur Vinstri Grænn sé að reyna að koma á.

Nei takk. Mín börn og þín eiga ekkert minna en það besta skilið.


Kveðjustund - ástarsaga í smáum stíl.

Fátt er rómantískara en að ganga um fallega strönd á sumarkvöldi hugsaði hann með sér þegar hann gekk eftir volgum sandinum. Hann hélt þéttingsfast í ástina sína  - sólin speglaðist á haffletinum og mávasöngur var í lofti. Langt út við sjóndeildarhringinn mátti telja píramídalöguð seglin, örsmá minntu þau á fjarlæga fjallstinda. Ástin blómstraði og hann kyssti ástina innilegum og djúpum kossi. Kvöldið var ungt og þó hann vissi að þetta væri í síðasta sinn sem þau myndu njótast þá var hann glaður í sinni. Að njóta ástarinnar með atlotum og heitum kossum sem veittu hjartayl - það var honum efst í huga þetta kvöld. Hann dró ástina þétt að sér - ástina sem hafði fylgt honum og ekki kynnst vörum nokkurs annars manns. Hún var hans.

Sólin var að ganga til viðar - rautt sólarlagið var ægifagurt og hafið var sem rautt eldhaf þar sem það endurkastaði geislum sólar. Hann vafði ástina höndum - kyssti og þrýsti henni að sér. Ekkert fengi þau að skilin - ekkert. En tíminn styttist - tíminn sem þau fengju að vera saman - hann vissi að hún yrði að fara - myndi yfirgefa hann og aldrei koma aftur. En núna var tíminn - tíminn þeirra og hann ætlaði að njóta hverrar mínútu. 

Myrkrið lagðist yfir líkt og svört hula. Hann dró hana þétta að sér - kyssti aftur og aftur - djúpa blauta kossa. Endalok sambandsins voru nærri. Svo féll hann í djúpan svefn með ástina í fanginu.

Sólin kom upp - vermdi vanga og hann opnaði augun. Stundin var runnin upp. Tárin runnu niður kinnar - kveðjustund.

Hann stóð upp - kyssti ástina síðasta kossinn. Horfði yfir hafflötinn. 

Tók nokkur skref aftur á bak - tók síðasta sopann úr flöskunni - og kastaði henni af miklu afli eins lagt og honum var mögulegt út í sjó. 

Horfði á hana mara í kafi í nokkrar mínútur áður en hún sökk.

Hún var farin.


Hinir framliðnu og endurupprisnu.

Aldrei opnar maður dagblöðin svo að ekki sé grein eða tvær frá sérfræðingum í fjármálum. Og flestir eiga þeir það sammerkt að vera fyrrum sérfræðingar bankanna heitinna. Þar störfuðu þeir og tóku þátt í kafsiglingunni margumræddu.

Og nú skrifa þeir ekki lengur undir titlunum "forstöðumenn" greiningadeilda eða hvað það nú allt hét - heldur nota klassíska titla "hagfræðingur" og því um líkt.

Þetta minnir mig um margt á hina framliðnu lækna sem andasérfræðingar leita til eftir lækningu til handa hinum lifandi.

Ekki ætla ég neitt sérstaklega að bera á móti lækningamætti þeirra - hef enga persónulega reynslu af þeim. En eitt þykir mér þó alltaf skondið og það er að í lifanda lífi voru þeir eins og hver annar læknir - en dauðir gera þeir kraftaverk.

Og þetta virðist vera að gerast í bankaheiminum. Fyrrum bankastjórar - sérfræðingar - analystar og guð má vita hvað þeir kölluðu sig - eru orðnir hinir mestu sérfræðingar - ráðgjafar og guð má vita hvað og tjá sig óspart um hrun bankanna og gefa leiðbeiningar um endur upprisuna.

Og ég sem trúi ekkert sérstaklega á mátt andalækna - framliðinna lækna sem hafa fengið "meirapróf" við það eitt að drepast - trúi ekki orði af því sem þessir "upprisnu" sérfræðingar skrifa endalaust á síður dagblaðanna.

Æi greyin mín takið ykkur pásu - þig eigið hana inni eftir að hafa svitnað svona óskaplega við að kafsigla bönkunum.


Kvótinn - sólbrúnir kvótakóngar - vinnandi menn og duglegt fólk. Margar hliðar á sama tenging.

Ég held að það sé mörgum ljóst að kvótakerfið - eða öllu heldur brask með kvóta þarf að uppræta - lagfæra reglugerðir og setja nýjar ef þarf.

En hverjir eiga að gjalda og hverjir eiga að njóta?

Ég átti gott bryggjuspjall um málið við harðduglegan sjóara hér fyrir Vestan. Ungan mann sem þó hefur eytt mörgum árum í að byggja upp útvegsfyrirtæki á sviði fiskveiða og fiskeldis. Maður sem enginn getur sagt að ekki hafi unnið hörðum höndum að uppbyggingu fyrirtækis síns.

Og þessi sami maður hefur áhyggjur af stöðu mála. Hann hefur áhyggjur af því hvernig umræðan snýst eingöngu um að kvóti sé það sama og sukk og svínarí. Að kvóti sé bara í eigu kvótakónga sem ekki róa og lifa lúxuslífi af því að leigja eða selja frá sér aflaheimildir.

Því fer fjarri. Auðvitað er komin heil stétt af kvótasölumönnum sem aka um á dýrum bílum - sólbrúnir af veru sinni í heitari löndum yfir kaldasta tíma ársins - og með nagandi samviskubit yfir því að hafa "þurft" að selja kvótann. Sem þeir sumir reyna síðan að bæta fyrir og kaupa sér sálarró með því að styðja gott málefni í heimabyggðinni - svo framarlega sem það er frádráttarbært frá skatti.

Nei - ég ætla ekki að ræða þessa fugla. ´

Ég ætla að ræða þá sem hafa fjárfest í góðri trú - tekið lán til að taka þátt í lífsbaráttunni - sinna því sem þeir kunna og finnst þeir skila best frá sér. Sjómennskunni.

Þessir aðilar eru flestir skuldsettir langt upp fyrir haus - eða ef við notum viðmið kvótasölukónganna - skuldsettir alla leið á átjándu holu.

Og hvað ætlar VG sér fyrir þessa aðila? Á að gera kvóta þeirra upptækan - taka hann af þeim - og deila út á ný? Og þá til hverra.....? Þeirra sem seldu...og hafa áhuga á að leika sér á handfærum?

Hefur Steingrímur hugsað þetta mál til enda? Ég leyfi mér að efast um það.

Það er nefnilega ömurlegt til þess að hugsa og í reynd óþolandi að þeir sem munu blæða ef vilji VG nær fram að ganga eru þeir sem síst hafa unnið til þess. Nefnilega þeir sem nenna og vilja.

Á meðan ekki kemur skynsamleg lausn á þessum vanda - þá má bara ekki rjúka til og ætla að leika sér að lífsstarfi þorra sjómanna - til þess að ná vinsældum þeirra sem aðeins sjá sólbrúna kvótakónga akandi um á rándýrum bílum í Reykjavík.

Það nær engri átt.

 


Búnir að finna blóraböggla....Nú leita Sjálfstæðismenn að páskaeggjum.

Mikil leit fer fram um þessar mundir í höfuðstöðvum Sjálfstæðisflokksins. Hér er leitað ákaft að blóraböggli - þó á þessum tíma árs séu nú flestir að njóta páska og sumir taki þátt í leiknum "finnum páskaeggið".

Mér er persónulega alveg sama hver gerði hvað - í mínum huga er flokkurinn allur undir. Það er hlýtur að vera ljóst að þegar menn eru kosnir til starfa af sínum flokksfélögum þá eigi að vera hægt að treysta þeim. Því megi í raun segja að allt sem gerist í flokknum endurspegli heildar siðgæði flokksins. 

En samt reynist þeim Sjálfstæðismönnum erfitt að stíga fram og biðjast afsökunar á gjörðum sínum - þeim reynist erfitt að viðurkenna mistök og taka afleiðingunum. Nei - það á að neita og fara undan í flæmingi fram í rauðan dauðann.

Þá stíga fram tveir gallharðir sjálfstæðismenn - fórna sér og segjast bera ábyrgð á því að afla styrkjanna stóru. En málið er bara ekki það - málið snýst í raun um að bera ábyrgð á starfsemi heils flokks - að bera ábyrgð á stjórn landsins. Ef menn geta ekki starfað af heilindum og borið ábyrgð á gjörðum sínum eða aðgerðarleysi þá er þeim ekki treystandi fyrir stjórn mikilvægari mála. Svo einfalt er það.

Og mér finnst með ólíkindum að þessir ágætu menn - forysta Sjálfstæðisflokksins skuli ekki geta viðurkennt mistök sín - borið ábyrgð á gjörðum sínum. Að þeir skuli í staðinn fara undan í flæmingi - bendandi hver á annan og jafnvel notað tækifærið til að koma höggi á andstæðinga innan flokksins - það er mér gjörsamlega hulin ráðgáta. 

Slíkt fólk á ekki heima í landsmálapólitík - og yfir höfuð ekki í pólitík. 

Ég lýsi yfir undrun og hneykslan á þessum siðgæðisskorti og að dónaskap gagnvart fólkinu í landinu.

Geir - Kjartan - Davíð og þið hinir: Við erum ekki fífl og hættið strax að koma fram við okkur sem slík.

 


Fjórðungi bregður til fósturs.

Um aldir hafa Íslendingar leyst vandamál með þögninni. Að ræða málin hefur ekkert verið nein lausn á málum og niðurstaðan verið sú að ef maður þegir nógu lengi þá hverfi vandamálin.

Þeir sem vildu ræða málin og gerðust jafnvel svo djarfir að fara í nám til að læra ýmiskonar tjáskipti og sjálfshjálp - þeir voru stimplaðir furðufuglar - stjórnleysingjar og þaðan af verra. Maður átti bara að halda kjafti og þá væri málið leyst.

Sem betur fer virðast börnin okkar og stór hluti minnar kynslóðar vera farin að opna sig - ræða málin og jafnvel leita lausna. Hætt að halda kjafti og jafnvel farin að tala upphátt um vandamálin - og nú síðast hreinlega hrópa á torgum. 

En því miður er uppeldið ennþá stór hluti af svipgerðinni eða eins og segir í Njálu "fjórðungi bregður til fósturs".

Þetta eru gömul sannindi og ný sem svo afdráttarlaust hafa sést í styrkjaveitingum glæponanna til Sjálfstæðisflokks. Enginn kannast við neitt - sópa átti undir teppi og halda kjafti. Það er nefnilega svo að enginn Íslenskur stjórnmálaflokkur byggir eins mikið á gömlum hefðum og Sjálfstæðisflokkurinn og hollusta við hefðir og foringjann hafa svo sannarlega komið í ljós í aðdraganda bankahruns.

Og litlu strákarnir sem langar svo ósköp að ná langt - þeir gera eins og þeim er kennt - halda kjafti og segja barasta ekki neitt. Reyna svo að bjarga sér sem best getur þegar allt er afhjúpað. Hinir eldri skýla sér á bak við minnisleysi og veikindi - og það að þeir séu hættir.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að ná að krafla sig upp úr haughúsinu þá þurfa þeir hjálp sem heitir heiðarleiki - opin umræða og siðferði.

Og hinir flokkarnir eru ekki undanskildir slíkri björgun heldur.

 


Quislingarnir íslensku.

Ég held að vorið sé komið - eða ég held að sumir haldi það.....Og það merki ég nú ekki á blessaðri náttúrunni - nei hún er söm við sig og frosin föst. Ég merki það á vorboðunum - kvótakóngunum sem seldu og koma heim kaffibrúnir og sællegir eftir vetrarlanga dvöl á golfvöllum suðurlanda. Ég mætti einum slíkum í matvörubúð um daginn sem skildi fólkið sitt svonefnda eftir atvinnulaust á eyrinni. Úti stóð jeppinn í gangi og hélt hitanum - það vill kólna leðrið í þessu frosti og viðkvæmir afturendarnir eru orðnir viðkvæmir eftir setuna í helga steininum.

Já. Lóan er komin í frí - lófarnir loðnu teknir við. En kannski á maður bara að hrósa þeim sem koma þó heim - kaupa sér varning í heimabyggðinni gömlu. 

Því að flestir þessara kóna eru landflótta - eru fastir í auðæfum og fagurgalanum í útlöndunum. Læstir inni í lúxusíbúðum sem flestar eru dýrari en heilu hverfin í heimahögunum. Eru svona Quislingar nútímans - sviku land og þjóð og flúðu - að vísu bara í næsta nágrenni - ekki til suður Ameríku líkt og þeir sem lögðu lönd í rúst í síðari heimstyrjöldinni. 

En ólíkt andspyrnuhreyfingunni Norsku - þá virðist ekki vera nokkur áhugi að ná fram hefndum - ekki refsa - ekki leita réttlætis. Nei þessir menn fá að ganga frjálsir - og eyða þeim peningum sem þeir stálu frá landinu og þjóðinni sem ól þá - þeir voru að virðist búnir að greiða tryggingu í flokkskerfið.

Við Íslendingar erum nefnilega á byrjunarreit í þessum málum - og sem bersýnilega kemur í ljós þegar bókhald D er skoðað - bókhald sem komið var réttu megin við núllið með hjálp glæpasamtakkanna FL Grúpp og Landsbankans. 

Og auðvitað kannast enginn neitt við neitt - skyndilega var bara kominn monnýpeningur inn á reikninginn og hókus pókus skyndilega láku frumvörpin um REI og ræ í gegn líkt og laxeraðar hægðir. Ógeðið hreinlega lak af hverju strái - og var kallað smjör til fegrunar.

Já vorboðarnir eru komnir - en vetur mun því miður ekki slaka á klónni fyrr en hreinsað verður til í ranni þessara glæpamanna.

Þessara Quislingar.

(http://en.wikipedia.org/wiki/Vidkun_Quisling)


William Wallace endurborinn - hinn sanni ICEHEART!

Það er að renna betur og betur upp fyrir mér að við Íslendingar erum að upplifa það sem frændur okkar Skotar upplifðu margt fyrir löngu. Og sem var tilefni til fallegs minnisvarða við bæinn Stirling. Hér á ég við Braveheart sjálfan - hann William Wallace sem barði á Bretum.

Hver sá er skoðar myndina hér að neðan hlýtur að sjá að hér er auðvitað William endurfæddur sem steingímur - svo líkir eru þeir - og svo ekki sé minnst á aðal áhugamálið sem er að bjarga löndum sínum úr klóm Breta.....

200px-william_wallace.jpg


Sem betur fer var um Jón forseta að ræða....

Því ef hann hefði heitið Ólafur forseti Ragnar þá hefði hann farið á bólakaf .....

 


mbl.is Hrönn ÍS sökk í Ísafjarðarhöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband