Kvótinn - sólbrúnir kvótakóngar - vinnandi menn og duglegt fólk. Margar hliðar á sama tenging.

Ég held að það sé mörgum ljóst að kvótakerfið - eða öllu heldur brask með kvóta þarf að uppræta - lagfæra reglugerðir og setja nýjar ef þarf.

En hverjir eiga að gjalda og hverjir eiga að njóta?

Ég átti gott bryggjuspjall um málið við harðduglegan sjóara hér fyrir Vestan. Ungan mann sem þó hefur eytt mörgum árum í að byggja upp útvegsfyrirtæki á sviði fiskveiða og fiskeldis. Maður sem enginn getur sagt að ekki hafi unnið hörðum höndum að uppbyggingu fyrirtækis síns.

Og þessi sami maður hefur áhyggjur af stöðu mála. Hann hefur áhyggjur af því hvernig umræðan snýst eingöngu um að kvóti sé það sama og sukk og svínarí. Að kvóti sé bara í eigu kvótakónga sem ekki róa og lifa lúxuslífi af því að leigja eða selja frá sér aflaheimildir.

Því fer fjarri. Auðvitað er komin heil stétt af kvótasölumönnum sem aka um á dýrum bílum - sólbrúnir af veru sinni í heitari löndum yfir kaldasta tíma ársins - og með nagandi samviskubit yfir því að hafa "þurft" að selja kvótann. Sem þeir sumir reyna síðan að bæta fyrir og kaupa sér sálarró með því að styðja gott málefni í heimabyggðinni - svo framarlega sem það er frádráttarbært frá skatti.

Nei - ég ætla ekki að ræða þessa fugla. ´

Ég ætla að ræða þá sem hafa fjárfest í góðri trú - tekið lán til að taka þátt í lífsbaráttunni - sinna því sem þeir kunna og finnst þeir skila best frá sér. Sjómennskunni.

Þessir aðilar eru flestir skuldsettir langt upp fyrir haus - eða ef við notum viðmið kvótasölukónganna - skuldsettir alla leið á átjándu holu.

Og hvað ætlar VG sér fyrir þessa aðila? Á að gera kvóta þeirra upptækan - taka hann af þeim - og deila út á ný? Og þá til hverra.....? Þeirra sem seldu...og hafa áhuga á að leika sér á handfærum?

Hefur Steingrímur hugsað þetta mál til enda? Ég leyfi mér að efast um það.

Það er nefnilega ömurlegt til þess að hugsa og í reynd óþolandi að þeir sem munu blæða ef vilji VG nær fram að ganga eru þeir sem síst hafa unnið til þess. Nefnilega þeir sem nenna og vilja.

Á meðan ekki kemur skynsamleg lausn á þessum vanda - þá má bara ekki rjúka til og ætla að leika sér að lífsstarfi þorra sjómanna - til þess að ná vinsældum þeirra sem aðeins sjá sólbrúna kvótakónga akandi um á rándýrum bílum í Reykjavík.

Það nær engri átt.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur H Þorleifsson

Tolli.

Ekki gleyma Samfylkingunni. Þeir eru harðastir með því að fyrna kvótann á 20 árum 5% á ári. Með þeirri aðferð tekur ekki nema 5-6 ár að setja öflug útgerðarfyrirtæki á hausinn.

Gefðu 5% af laununum þínum frá þér og taktu lán í staðinn, sjáðu svo hvað þú verður mörg ár að fara á hausinn. 

Ingólfur H Þorleifsson, 18.4.2009 kl. 17:45

2 Smámynd: Sigurður Jón Hreinsson

Ekki dettur mér í hug að tala fyrir stefnu Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum og þar af síður stefnu Sjálfstæðismanna.  Hinsvegar hljóta allir skynsamir einstaklingar að sjá að núverandi kerfi verður að breita.  M.a.s. treystir Golli sér ekki til að svara því hver framtíðarsýn Sjálfstæðisflokksins sé í sjávarútvegsmálum.

  • Er það áframhaldandi samþjöppun veiðiheimilda? 
  • Er það áframhaldandi skuldaaukning sjávarútvegsfyrirtækja?
  • Er það áframhaldandi byggðareyðingarstefna?
  • Einhver mesta blekking sem þó er haldið á lofti er að kvótakerfið hafi skilað einhverju hagræði fyrir greinina.  Hvernig getur beinn kostnaður upp á 200 kr/kg af óveiddum fiski skilað hagræðingu ??? Það er mögulegt með markaðseinokun. En svo er því staðfastlega haldið á lofti að fækkun starfa í sjávarútvegi sé að verulegu leiti vegna tækniþróunnar !! 

    Staðreyndin er sú að hagræðingar í greininni eru fyrst og fremst vegna tækninýjunga.

    En hafi menn einhvern vilja að horfa til framtíðar er sóknarmark eina raunhæfa lausnin í stjórnun fiskveiða.  Óframseljanlegir sóknardagar koma í veg fyrir kostnaðarmyndun á óveiddann fisk.  Og þegar á allt er litið er kvóti ekkert annað en réttur til að nýta auðlindina, sá réttur er sambærilegur í hvoru kerfinu sem er.

    En að skattleggja sjávarútveginn í upphafi virðiskeðjunnar er svo víðáttuvitlaust að það nær engri átt...

Sigurður Jón Hreinsson, 18.4.2009 kl. 22:21

3 Smámynd: Einar Karl

Svo þegar þessi duglegu trillukarlar eru búnir að fiska í 30 ár geta þeir leigt kvótann til æviloka og hafi það notalegt á Kanarí. Svo fáerfingjarnir hann og geta selt fyrir Landcrúserum.

Ertu ekki annars að mæla með óbreyttu kerfi?

Mér finnst viss grundvallar rökvilla í gagnrýni á fyrningaleið, menn tala eins og 5% in sem hverfa bara, sé stungið niðrí kjallara í stjórnarráðinu. Heildarkvótinn minnkar ekki við fyrningaleið, og duglegir menn - þeir sem fiska -ættu væntanlega að hafa greiðan aðgang að þeim potti sem 5%-in renna í, en þeir sem nýta ekki sinn kvóta ekki.

Einar Karl, 19.4.2009 kl. 12:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband