Miðvikudagur, 7. mars 2007
Atkins, Ásmundur og Hollývúddpíurnar höfðu rétt fyrir sér!
Ný rannsókn sýnir að Atkinskúrinn er besta leiðin til að grenna sig. Úrtakið var 311 feitar kellur í Kaliforníu sem voru settar á mismunandi megrunarkúra. Nákvæmlega var fylgst með kellum og að lokum voru þær viktaðar. Reyndar fylgir ekki sögunni hvort að notast var við vog frá Marel?
Og viti menn, Ásmundur hafði rétt fyrir sér Atkins kúrinn reyndist best, já svo mikið að þær léttust tvöfalt meira en hinar bollurnar! Urðu semsagt helmingi mjórri...
Þetta má lesa í Journal of the American Medical Association og rannsóknin var framkvæmd við Stanford háskóla þessum fræga.
En hvað fengu þá hinar? Jú, þær átu skv. því sem góðir næringafræðingar leggja til: færri hitaeiningar og stunduðu meiri hreyfing.
Spurningin er kannski sú hvort sú staðreynd að Catherine Zeta-Jones, Sarah Jessica Parker og Ásmundur eru á Atkins hafi spilað inní tja ekki veit ég.
En út á hvað gengur Atkins kúrinn? Jú, að éta vel af próteinum og fitu sleppa nánast allveg kolvetnum. Með því móti neyðist líkaminn til að brenna fitu. Hvers vegna kann einhver að spyrja? Jú, þegar við reynum á okkur þá byrjum við á að brenna þeirri orku sem auðveldast er að brenna, nefninlega kolvetnunum síðan þegar þau eru uppurin þá byrjar maður að brenna fitu og svo að lokum brennir maður próteinunum, vöðvunum. Semsagt, ef maður fær engin kolvetni þá gengur maður á spikið. Svo er nú það.
En, vandamálið sem þessu fylgir er sú staðreynd að heilinn sem er mjög orkufrekur brennir eingöngu kolvetnum og því getur að sjálfsögðu verið stórhættulegt að hætta allri kolvetnaneyslu. Það getur endað með ósköpum.
En hvaða kúrar eru í boði fyrir utan Atkins?
Ornish: Hámark 10% orkunnar skal koma úr fitu.
Learn: Byggir á Amerískum ráðleggingum um næringarþörf. Mikil hreyfing. 55-60% orkunnar skal vera á formi kolvetna. Hámark 10% úr mettaðri fitu.
Zone: Borða 40 % kolvetni, 40 % fitu
og 30 % prótein.
Og svo er það þessi gamla góða íslenska. Borða hollan og góðan íslenskan mat og labba í vinnuna í kulda og trekki það segir Guðni, ekki er hann nú feitur. Og ég er sammála því. Langbest er að borða fjölbreytt stunda hreyfingu og síðast en ekki síst, kaupa íslenskt enda er ég þvengmjór og þreklega vaxinn.
Það er mín skoðun. Núna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 5. mars 2007
Íslenskar beljur fyrir kröfuharða íslendinga.
Þegar ég var að alast upp heimsótti ég fjöldann allan af sveitabæjum með föður mínum sem var hérðasdýralæknir í Eyjafirði. Á þeim tíma skiptu bæirnir tugum í Eyjafjarðarsveit og pabbi sagði mér að þetta væri líklegast besta landbúnaðarhérað landsins. Þar voru kúabúin stór og fjárbúin líka. Það var ævintýri líkast að aka um í fallegri sveit á fallegu sumarkveldi - kýrnar á beit í haga og hrossastóð á bökkum Eyjafjarðarár. Sannkölluð sveitarómantík sem líður manni ekki úr minni.
En þegar farið er um fallegar sveitir Eyjafjarðar í dag þá verður manni ljóst að eithvað mikið hefur breyst - sveitabæirnir standa að vísu margir en útihúsin eru víðast tóm. Endurnýjun í stéttinni er nánast engin - meira að segja KEA sagði upp forstjóranum að mér er sagt vegna þess að hann var farinn að fjárfesta of mikið í bújörðum - og er að ég held bóndi í dag - er mér sagt.
En hvað er að gerast með íslensku þjóðina. Á sama tíma og 94% landsmanna vilja að hér sé landbúnaður standa gjöfular bújarðir tómar og sumstaðar eru réttir án þess að ein einasta rolla sjáist á ferli - varla eru þeir að draga framliðnar rollur í dilka? Það er eithvað skrítið við þessa niðurstöðu skoðanakönnunarinnar - nema náttúrlega að þessi 6% ráði öllu - séu þeir sem telja okkur fyrir bestu að lítill sem enginn búskapur sé í landinu - kannski eru það þeir sem frekar leggja uppúr lágu verði á innfluttum matvælum - ekki veit ég?
Og til að gera dæmið ennþá undarlegra þá er meira en helmingur þjóðarinnar tilbúinn til að greiða meira fyrir íslenska landbúnaðarframleiðslu en innflutta! Tja, nú er maður allveg að missa þráðinn. Og flestir segja gæði íslensku landbúnaðarvaranna miklu meiri en þessara svokölluðu útlendu landbúnaðarvara - og að það sé bændunum alls ekkert að kenna að verðið sé eins hátt og raun ber vitni.
Er ekki bara málið að opna landið fyrir óheftum innfluttningi á landbúnaðarvörum? það hlýtur að vera niðurstaða þessarar könnunar sem Bændasamtökin létu gera að innfluttningurinn muni hvort eð er detta upp fyrir - deyja. Einfaldlega vegna þess að yfir 90% landsmanna vilja hafa íslenskan landbúnað - yfir 60% landsmanna séu tilbúnir að greiða meira fyrir íslenskar landbúnaðarvörur sem eru svo miklu betri en þessar útlensku - varla ljúga yfir 80% þjóðarinnar sem segja að þær íslensku séu af meiri gæðum en þær útlendu. Spurningin sem vaknar hjá mér er sú hve stór hluti þeirra sem spurðir voru hafa yfir höfuð komið út fyrir landsteinana? Og hvort valið hafi verið af handahófi af skráðum félögum í Framsóknarflokknum. Tja, maður spyr sig!
Ég bjó í mörg ár í útlöndum og borðaði þarf af leiðandi útlendan mat - nema náttúrlega séríslensku framleiðsluna: kæsta skötu og Vestfirskan hákarl. En ég fann aldrei neinn mun á matnum þar en hér - ég er í það minnsta ennþá lifandi. Mjólkin var góð, kjötmetið ágætt og osturinn ljómandi. Og allt kostaði þetta svo miklu minna en hér heima. Af hverju þurfum við á íslandi signt og heilagt að láta segja okkur að vegna íslenskrar sérstöðu og íslenskra gæða þá þurfi hitt og þetta að kosta svo og svo mikið meira - af hverju segjum við ekki bara hingað og ekki lengra. Það hlýtur öllum að vera ljóst að t.d. kjúklingarækt getur varla gengið á Íslandi - flytja korn til landsins til að ala kjúkling - sem síðan er svo margfalt dýrari en í útlöndum. Hvers vegna að stunda svínarækt þegar svínakjöt er eitt ódýrasta kjöt sem fáanlegt er t.d. í Svíþjóð og Danmörku og hægt væri að flytja það til landsins margfalt ódýrara - burt séð frá því að við Íslendinga stöndum langt að baki frændum vorum Dönum og Svíum í að hantera svín? Og nautgriparæktin - Argentína er jú þekkt fyrir hágæða nautakjöt og ekki er nokkur tuddi þar smitaður af nautariðunni stórhættulegu - bara til að nefna nokkur dæmi.
Ég segi: eflum séríslenska framleiðslu - t.d. framleiðslu á íslensku lambakjöti og mjólkvörum. Íslenska mjólkin hefur eiginleika sem eru eftirsóknarverðir út frá heilsufarslegu sjónarmiði - það hafa íslenskar rannsóknir t.d. Dr. Bryndísar Evu Birgisdóttur og Dr. Braga Líndal Ólafssonar sýnt.
þetta er í það minnsta mín skoðun.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 2. mars 2007
1500 manns missa vinnuna í Reykjavík!
Já svona myndi væntanlega fyrirsögnin vera á forsíðu dagblaðanna á höfuðborgarsvæðinu ef Vestfjarðaástandið tæki sig upp þar! Það misstu nefninlega 35 fjölskyldur fyrirvinnu á Ísafirði í liðinni viku. Og hlutfallið væri líklegast um 1500 manns ef þetta væri fyrir sunnan - á Reykjavíkursvæðinu þar sem allt var vitlaust út af klámi sem þó aldrei var og trjám sem hurfu úr Heiðmörk.
Og stærsta ákvörðunin var tekin fyrir sunnan. Það er svo óhagkvæmt að vera með rekstur fyrir Vestan. Þó að reksturinn skili hagnaði. Það er bara ekki nægur hagnaður - líklegast af því að hann er ekki talinn í milljörðum líkt og hjá þeim stóru fyrir sunnan.
En hjá okkur fyrir Vestan voru góðir gestir - vísindamenn frá Stirling háskólanum í Skotlandi - einum af þessum stóru og frægu. Vísindamenn sem sækjast eftir því að vinna með okkur að rannsóknum í þorskeldi. Af hverju? Ekki af því að við eigum svo mikið af peningum, nei - af því að við erum að gera góða hluti, af því að við erum með gott starfsfólk og af því að við höfum framtíðarsýn og áherslur sem eru eftirsóknarverðar. Og hverjir koma að þessum rannsóknum - jú vísindamenn hjá Matís og Vestfirskir fiskeldismenn ásamt fleirum góðum innlendum aðilum.
En við viljum fleira - við viljum meira og við getum meira - svo miklu meira. EN, því miður er það svo að það er bara svo erfitt að berjast og vinna sigra ef sú þróun sem nú virðist vera í gangi er ekki stöðvuð og aðgerðir settar í gang til að efla frekar en hefta. Við þurfum nefninlega sterkt samfélag til að hið jákvæða og öfluga geti þrifist - því af nógu er að taka - það sem er tekið þarf bara að lenda á réttum stað - til uppbyggingar á landsbyggðinni frekar en í endalausum mokstir undir fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu sem ekki þurfa á því að halda.
Það er mín skoðun.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 24. febrúar 2007
Staðið úti á hlaði.
Í Syðridal er ákaflega fallegt. Ég stóð þar úti á hlaði hjá vini mínum sem þar er bóndi. Það blés norðan kaldi og gekk á með éljum - ekki ósvipað ástatt þar og í pólítíkinni.
Þar blæs hann reyndar meira frá vinstri og að vísu ekki alvega eins kallt, í það minnsta hélt Steingrímur opnunarræðuna húfulaus.
En í sveitinni var nú aðallega verið að spá í búskapinn - Dranga-Kóngur var að sækja hey og við þurftum að koma rúllu á kerru.
Rollurnar verða að fá sitt hey hvað sem stóriðjuframkvæmdum líður - já og vegalagning framhjá æfingahúsi Sigur-rósar og þrátt fyrir að hún Bryndís, sú góða kona, sitji grátandi á skurðarbarmi og Jón þrumi yfir lýðnum.
Ekki var rætt eitt orð um umhverfismál þar sem við stóðum á hlaðinu. Að vísu heyrðist jarm úr útihúsum en ég veit ekkert hvað þar var rætt.
Mikið ósköp held ég að Steingrímur hafi verið búinn að bíða lengi eftir að Íslendingar vöknuðu af þessum væra blundi sakleysingjans sem hefur engar áhyggjur af súru regni eða eyðingu lands.
Reyndar var öllum á Íslandi nákvæmlega sama og er mörgum sjálfsagt enn.
Í það minnsta var umhverfisfræði sem slík ekki til í líffræðinámi við HÍ fyrr en í kringum 1990. Ég held að ég hafi setið eitt af fyrstu námskeiðunum sem kennt var í umhverfisfræði við líffræðiskor HÍ.
Og þá var ekkert sérstaklega verið að spá í umhverfismál á Íslandi - ég lærði að mig minnir mest um Tjernobyl slysið í Rússlandi - kannski var bara ekkert umhverfi til að fjalla um á Íslandi.
Eða var kannski vandamálið bara það að Steingrímur var ennþá að spá í hvernig best væri að klekkja á kapítalismanum með ræðum um allt aðra hluti og hreinlega ekki búinn að átta sig á því að umhverfismálin eru miklu vinsælli. Miklu líklegri til árangurs í atkvæðaveiðum.
Að vísu voru vinstri grænir til í Þýskalandi á þessum tíma - að mig minnir. Mig minnir líka að þeir hafi verið að spá í þetta súra regn - en við höfum engin tré - ekkert sem súra regnið skilur eftir sig ummerki á. En það er ekkert að marka, þeir búa svo miklu nær kjarnorkunni og kolanámunum - eða bjuggu í það minnsta nær þeim þegar þetta var.
Í dag er þetta allt orðið svo glóbalt - hnattlægt - að okkur kemur svo sannarlega við hvað aðrir gera við skítinn frá sér. Við eigum meira að segja kvóta á formi koltvíildis - eða ónotaðan kvóta. Og menn eru víst eithvað farnir að braska með hann.
Ég vil bara hafa það á hreinu að ég hef ekkert á móti umhverfismálum og vernd almennt - enda um gríðarlega mikilvægan málaflokk að ræða.
Mér finnst bara skipta máli að sú umræða sé á skynsamlegum nótum - og sé glóbal - hnattlæg.
Ég hef heldur ekkert á móti dýravernd - er mjög fylgjandi henni.
Mér þótti það bara ekki dýravernd þegar dýraverndunarsinnar brutust inn í dýrageymslurnar hjá okkur við Gautaborgarháskóla og slepptu út kanínum og rottum. Bara af því að þau eiga ekkert að vera í búrum.
Síðan týndum við upp hræin næstu daga - sem lágu á víð og dreif um nærliggjandi hverfi.
Það er ekki dýravernd.
Það verður spennandi að fylgjast með aðdraganda kosninga. Hvað ætla flokkarnir að gera í umhverfismálunum? Snýst ekki umhverfisvernd dálítið mikið um forvarnarstarf?
Er ekki réttast að flokkarnir sameini krafta sína í að finna farveg fyrir umhverfisvernd sem hentar Íslandi og þeim er þar búa? Að við göngum út frá 0 púnkti sem er NÚNA! - Að við horfum fram á veginn í stað þess að skammast yfir því sem þegar er gert.
Eða hvað vill fólkið í landinu? - Ekki veit ég það - mér sýnist fólk í það minnsta styðja bæði hægri og vinstri flokka þrátt fyrir að mér heyrist Steingrímur haldi því fram að hægri flokkar fari ránshendi um landið - ræni Íslendinga náttúrunni - náttúru sem stundum er talað um að við eigum ekkert í - hún sé í eigu komandi kynslóða.
Ég veit það nú ekki allveg - kannski skil ég þetta bara ekki. Ég bý hér núna og veit satt að segja ekkert um hvar ég verð eftir að ég drepst!
Væri ekki rétt að þessir ágætu forystumenn flokkana kæmu sér saman um ákveðin atriði sem skipta okkur íslendinga máli í umhverfismálum - horfi til framtíðar. Komi á þjóðarsátt um málið.
Það er mín skoðun.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 24. febrúar 2007
Marel, ekki bara Marel!
Ég sat og spjallaði við vinnufélaga minn í gær. Sérfræðimenntaðan vinnufélaga sem starfar EKKI hjá Marel en kemur málið svo sannarlega við - þ.e. uppsögn starfsmanna Marels á Ísafirði. Það er nefninlega svo að eiginmaðurinn starfar hjá Marel. Eða eigum við að segja starfaði...það er jú alltaf dálítið sérstakt að vinna á uppsagnarfresti.
Og málið er nefninlega það að þessi gjörningur Marels er ekkert einkamál þess fyrirtækis - þetta hefur mikið meiri áhrif heldur en bara uppsögn starfsmanna fyrirtækisins - önnur fyrirtæki þar sem makarnir starfa sitja líka í súpunni. Ekki ætlast stjórnendur Marels til þess að fólk taki upp búskaparformið "fjarbúð"?
Það er nefninlega svo - bara þessum ágætu mönnum til fróðleiks - að margfeldi áhrif slíks gjörnings eru gríðarleg, ekki síst í sveitarfélögum þar sem birt er forsíðufrétt í bæjarblaðinu þegar nýtt fólk flytur í bæinn.
Og við vorum að kaupa rándýra vog - framleidda hjá Marel á Ísafirði... löbbuðum bara yfir og ræddum kosti og galla vogarinnar áður en við létum slag standa. Nú er það búið. Ætli ég geti skilað voginni? Í það minnsta vona ég að hún bili ekki því það gæti tekið tímana tvenna að senda vogina suður - í það minnsta ef maður metur fjarlægðina á sama hátt og háu herrarnir fyrir sunnan sem stundum tala um Vestfirði "sem hluta af annarri plánetu...þar þarf enginn að búa - það er svo fjandi langt þangað...í það minnsta fyrir okkur hérna fyrir sunnan...."
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 23. febrúar 2007
Klám utan fengitíma...ómögulegt segir framvarðasveit bænda.
Það eru í gangi tvær sápuóperur sem virðast báðar ætla að verða álíka langlífar og meðalgóð Braselísk sería um daglegt líf ungrar ambáttar.
Og hverjar eru þær? Jú, "Jón Bónus fer í fjörurnar fyrir Westan" og svo "Anna N. Smith hinumegin".
Ég náttúrlega fylgist spenntur með báðum - þó finnst mér mun meira spennandi að fylgjast með því hvað er að gerast hjá henni Önnu látinni - þar er nefninlega allt sýnt í beinni....!
Ég sá t.d. að sjálfur dómarinn hágrét í morgun - en magnað að maskarinn sem hann var greinilega með haggaðist ekki!
Nú er bara að fá útsendingar úr réttarsalnum í Baugsmálinu - sjá hvort dómarinn brotni ekki saman við þessar óvægu lýsingar á því þegar Jón fór í fjörurnar við eiginkonu annars manns í partýi útí Ameríku um árið.
Slíkt gæti auðvitað aldrei gerst hér enda klám og dónaskapur bannaður með öllu á Íslandi.
Ég er líka að spá í hvort að klámráðstefnan hefði fengið húsaskjól hjá Bændunum ef það hefði átt að halda hana á fengitímanum? Þeir eru nefninlega svo fastir í hefðum þarna hjá Framsóknarflokknum, hef ég heyrt.
Svo var nú það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 23. febrúar 2007
klám.. Marel.. Köben.. í þessari röð.
Ekki er nú öll vitleysan eins.
Ég settist niður í gærkveldi eftir langan vinnudag og ætlaði að horfa á fréttir á Ruv'inu. Og viti menn, fyrsta fréttin var af klámráðstefnunni sem þó varð ekki þökk sé Bændasamtökunum sem gripu í taumana og stöðvuðu þennan ósóma. En hvað er málið í raun - það átti semsagt að banna eithvað sem ekki var ljóst hvort yrði ólöglegt - bara af því að á íslandi gerir maður ekki svoleiðis.
Ég er allveg sammála því að klám á ekkert heima hér - ekki nema þá bara þetta löglega sem fólk stundar og skv. lögum hefur rétt á - bara að það fari ekki "úr böndunum" einsog stundum getur gerst. En að vera með fyrirbyggjandi aðgerðir "af því bara" er varla vænlegur kostur....hvað verður næst?
.....síðan komu fleiri fréttir. En loks kom frétt, frétt númer 8, sem virkilega skipti máli og hefur raunveruleg áhrif á heilu fjölskyldurnar og sveitarfélagið sem það býr í. Jú hið stórkostlega fyrirtæki sem við höfum hampað fyrir tækni og vísindi reynist vera nákvæmlega einsog öll önnur stórfyrirtæki. Þeir ætla að loka starfstöðinni á Ísafirði. Þetta er jú bara starfstöð, tja líklega einsog sú á fjórðu hæðinni fyrir sunnan - þar sem strákarnir sitja - þarna lengst inni á ganginum......
Nei ekki aldeilis - þetta eru störf - ATVINNA - fjölmargra aðila sem eiga sér fjölskyldur og búa á stað þar sem maður hleypur ekki yfir götuna til að vinna hjá einhverjum öðrum. Hér erum við að tala um ábyrgð. Og þetta viku eftir stórglæsilega árshátíð fyrirtækisins þar sem yfirmennirnir höfðu ekki undan við að hæla Vestfirsku undirmönnunum! Hvað er eiginlega að gerast í þessu þjóðfélagi - mér þætti gaman að vita hvað veldur - eru það samgöngurnar? Almenn leti starfsmanna fyrir Vestan eða er málið kannski það að þetta hafi alltaf verið ætlunin eftir að Marel keypti rótgróið fjölskyldufyrirtæki...Póls? Ja maður spyr sig. Líklegast fara þeir að skipta yfir í Evruna.
Og svo var það ENN EINN Kastljós þátturinn þar sem fjallað var um landeyðuna hann Harald í Köben. Sem er þannig af guði gerður að honum finnst flott og kúl að vera aumingi í Köben. Í það minnsta skil ég þannig þessa annars gjörsamlega tilgangslausu umfjöllun um þennan bjálfa. Hvað varðar það okkur hér heima þó að hann langi að búa (athugið LANGI ekki ÞURFI) á götunni í Köben? Mér gjörsamlega óskiljanlegt. PENINGA OG TÍMAEYÐSLA að fjalla um mál þessa ræfils drengs.
Væri ekki nær að fjalla um það sem virkilega skiptir máli: Svo sem Að Marel segi upp 20 fjölskyldum á Ísafirði. Að fórnarlömb Birgisins fá ekki þá hjálp sem þau þurfa. Að drengirnir í Breiðuvík fá ekki þá hjálp sem þeir þurfa. Slæma stöðu aldraðra og sjúkra á Íslandi....og svo má lengi telja.
Gefum kláminu sem aldrei kom og Haraldi í köben frí.
það er mín skoðun.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 22. febrúar 2007
I strongly believe that man and fish can live together in peace!
Svo byrjar tilvitnun í orð bandaríkjaforsetann Bush sem hann viðhafði einhverju sinni....er mér sagt.
Og afhverju ekki að hafa titilinn á ensku - í ljósi þess að nú stendur yfir Food and Fun....þar sem fiskur er væntanlega borinn fram.
En það er nú samt ljóst að við þetta getum við ekki staðið - enda er málið ekkert flóknara en að við römbum á barmi ofveiði - í það minnsta á þorski.
Það er því ákaflega jákvætt hvað stjórnvöld hafa verið dugleg að leggja fé í uppbyggingu á þorskeldi á landinu - einkum og sér í lagi með tilkomu 500 tonna kvóta til áframeldis á þorski sem Sjávarútvegsráðherra veitir.
Tilhvers kann einhver að spyrja - svarið er einfalt, með þessu móti hafa ýmsir aðilar fengið kvóta til eldis og skapað ómetanlega þekkingu á sviði þorskeldis.
Ég var staddur á ráðstefnu um þorskeldi í Björgvin í Noregi í síðustu viku og þá varð mér ljóst hve vel við Íslendingar stöndum í þekkingu á eldi og vinnslu. Við erum á réttri leið og það þrátt fyrir að margfallt minna fjármagni sé veitt í rannsóknir hér en í Noregi.
En hver er ástæðan? Í mínum huga er hún sú að samvinna fyrirtækja í fiskiðnaði og rannsóknastofnana hefur verið með ágætum og má sem dæmi nefna samstarf Hraðfrystihúss Gunnvarar í Hnífsdal og Matís ohf. (áður Rf).
Við höfum nefninlega skilið mikilvægi þess að starfa saman - starfa saman að sameiginlegum vandamálum!
Ég legg til að fólk kynni sér þetta - smakki eldisþorskinn sem ég fullyrði að sé besti fiskur í heimi - hætti að bera hann saman við villtan þorsk því þetta er allt önnur vara - þetta er eldisþorskur sem skal borða sem slíkan - og njóta!
Fimmtudagur, 22. febrúar 2007
Fyrirtæki %u2013 Menntun %u2013 Háskólasetur: Möguleikar landsbyggðarinnar.
- Hverjar eru þarfir fyrirtækja á landsbyggðinni?
- Hvernig er hægt að gera landsbyggðina að spennandi kosti fyrir nemendur á háskólastigi?
- Hvernig gerum við menntafólki kleift að fara til starfa út á landsbyggðina?

Miðvikudagur, 21. febrúar 2007
Ánægja Bolvíkinga, atriði úr Amerískri fangelsismynd
Það er ákaflega ánægjulegt að loks skuli eiga að gera göng milli Bolungarvíkur og umheimsins. Ég er þess fullviss að göngin eigi eftir að skila sínu - vonandi bara í rétta átt.
Mér datt hinsvegar í hug atriði úr Amerískri fangelsismynd þegar ljós var að Sturla ætlaði að láta til skara skríða - og fögnuður Bolvíkinga varð mikill. Það er nefninlega svo að Bolvíkingar eru búnir að bíða og bíða, já bíða og bíða og bíða eftir þessum göngum - sem síðan verða gerð, á stað sem vart er hægt að tala um sem besta kost. En af því að Bolvíkingar eru búnir að bíða svo lengi þá þyggja þeir það sem þeim er fært.
Og hér komum við að fangelsismyndinni - jú, jafnvel harðsvíruðustu og kynvissustu kallarnir fá sér stundum á broddinn á kostnað minni samfanga - ekki af því að þeir séu kynvilltir - nei bara af því að það er næstbesti kosturinn - Besti kosturinn er bara ekkert í boði. Það sama á við um göngin til Bolungarvíkur.
Það er mín túlkun á stöðunni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.2.2007 kl. 10:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)