Af yndislegum nágrönnum. Styðjum Isabel, Pablo og Alejandra í baráttunni fyrir áhyggjulausu lífi.

Ég sat með tár í augum og horfði á Kastljós. Ég skammaðist mín fyrir að Íslensk stjórnvöld skuli ekki vera búin að koma því svo fyrir að nágrannar mínir fyrrverandi hér á Ísafirði, Pablo og Isabel skuli ekki fá að ættleiða barnabarn sitt hana Alejandra - og þar með veit henni og þeim það öryggi sem krefst til að lifa frjálsu lífi í frjálsu landi. 

Þegar við fjölskyldan fluttum hingað til Ísafjarðar fyrir réttum 3 árum þá tók þessi fjölskylda á móti okkur opnum örmum - með bros á vör hafa þau boðið góðan dag þrátt fyrir að hafa gengið í gegnum meiri hörmungar en við eigum að venjast í Íslensku þjóðfélagi. Um hver jól hefur Alejandra litla birst í dyragættinni færandi gjöf frá fjölskyldunni - ekki  af því að þau hafa einhverjum skyldum að gegna - nei einfaldlega vegna þess að það þykir sjálfsögð kurteisi á þeirra bæ. Slíkt er nýtt fyrir okkur og því hefur gjörningurinn glatt okkur mjög.

Fyrir fáum dögum fluttu þau í nýtt húsnæði og ekki var að spyrja að því - fallegt bréf og lítil gjöf beið okkar þegar við komum heim úr fríi - með þökk fyrir kynnin og að dyr að heimili þeirra muni standa okkur opin þrátt fyrir að þau flytji í annað hverfi.

Ég skora á Íslensk stjórnvöld að taka á þessu máli og styðja þessa yndislegu fjölskyldu - hjálpar er þörf.


Brúðkaupið og kellingin á móti.

Ég hef alltaf dáðst af nöldrandi kellingum. Fátt er eins tímafrekt og að vera að pirra sig á öllu mögulegu og ómögulegu. Þegar ég tala um kellingu á ég ekkert endilega við kvenkyns persónu - nei ég tek orðið kelling og geri það að lýsingarorði fyrir "nöldrandi persónu sem veit ekkert hvað hún er að tala um". En þetta lýsingarorð notar vinur minn Finnbogi Bernódusar í Bolungarvík og er ég sammála honum.

En aftur að þessum téðum kellingum. Ég er slík á stundum. Já segi það og skrifa - bölvuð kelling - nöldrandi yfir einhverju sem skiptir engu máli. Er svo pollrólegur þegar meira bjátar á - skrítið það. En ég er náttúrlega bar amatör kelling - kann í rauninni ekkert að beita mér - enda hlustar konan yfirleitt ekkert á mig - heyrir þetta ekki.

Sumar kellingar eru hinsvegar miklu meiri kellingar en aðrar - eru sannkallaðar kellingar - með munninn fyrir neðan nefið en því miður minni starfsemi fyrir ofan það. Ég hafði kynni af einni slíkri um sl. helgi - en þá var ég staddur í brúðkaupi suður í henni Reykjavík.

Veðrið var með eindæmum - hreinlega heitt og sólin skein - svo að Snæfellsjökull í fjarska var rósrauður og bleikur - í stíl við stemmninguna. Brúðkaupið var haldið á heimili brúðhjónanna á Seltjarnarnesi. Mikið tjald hafði verið reist á bílastæðinu og rúmaði það á annað hundrað gesti - skemmtileg stemning og fólk í góðu skapi. Allir nema kellingin á móti - hún var auðvitað urrandi ill á bak við tjöldin - enda óþolandi að reist skuli "hús" án hennar leyfis og hvað þá að til stæði að gifta fólk - bara sísona. Nei - hún benti brúgumanum á að "þó hann væri Ásgeir í Tölvulistanum þá væri hann ekkert yfirvald" - þeinkjú verrí möts. Og auðvitað kvartaði kellingin - yfir hávaða og ræðuhöldum - söng og guðsorði. Já hún stóð sína plikt af stakri prýði.

Já - maður fyllist lotningu yfir dugnaðar kellingum líkt og þeirri á móti. Hún kann greinilega til verka. Ég reyndar tel að slíkir eiginleikar séu ákaflega dýrmætir - en vannýttir. Ég sé t.d. að hægt væri að nota svona kellingar til ýmissa "leyniaðgerða - önderkover oppereisjón" - t.d. að planta þeim á tjaldstæði á bíladögum á Akureyri - nú til að dempa lætin og jafnvel svæla liðið heim til sín - nú eða vera með sveit slíkra kellinga sem hægt væri að senda á vettvang til að brjóta upp mótmæli - svo sem hjá Saving Iceland. Svo mætti auðvitað fara í útrás með kellingahópinn - taka að sér að ryðja hús og borgarhluta. Danska lögreglan myndi líklegast þiggja með þökkum að fá hópinn í Kristjaníu - svæla út dópistana - láta þá fá gúmmorren.

Já - nú er ráð að menn geri sér grein fyrir þessari óbeisluðu orku sem felst í nöldrandi kellingum landsins.


Klukkaður af klukkaðri konu fyrir Vestan.

Tja nú versnar í'ðí. Búið er að setja mig upp við vegg og krafist er 10 staðreynda um sjálfan mig. Það er hún Bryndís Friðgeirsdóttir sem lék svo á mig. Ég læt slag standa.

  1. Ég er karlkyns
  2. Ég er Akureyringur
  3. Ég er faðir
  4. Ég á yndislega sambýliskonu
  5. Ég á það til að ýkja "til að vera viss um að segja örugglega satt"
  6. Ég braut rúðu í gamla íþróttahúsinu við Lundargötu árið 1978
  7. Ég bý á Ísafirði og líkar vel
  8. Ég hef verulegar áhyggjur af þróun mála á Vestfjörðum og landsbyggðinni yfirleitt
  9. Ég færi stundum í stílinn á blogginu
  10. Ég er ekki ennþá farinn út að skokka

Já - þungu fargi er af mér létt.......hm.......

Ég ætla að koma þessu klukki áfram og klukka Hannes Hólmstein og systur hans Salvöru. Gaman að sjá hvað kemur út úr því.


Líkleg orsök psoriasis fundin.

Vísindamenn við Karolínsku stofnunina í Stokkhólmi í Svíþjóð telja sig hafa fundið líklega skýringu á psoriasis. Hér er um að ræða mjög mikilvæga uppgötvun sem getur flýtt til muna framleiðslu á lyfi - en ekki er til nein lækning við psoriasis.

Um er að ræða örsmár sameindir sem kallast ör-RNA - en RNA stjórnar myndun próteina sem síðar geta valdið sjúkdómum (ferlið er DNA-RNA-Protein). Hér opnast því möguleiki á að þróa lyf sem virka beint á RNA sameindirnar  og með því koma í veg fyrir próteinframleiðsluna.

Já þetta eru gleðileg tíðindi þó auðvitað verði einhver ár í að lyf komi á markaðinn - líkt og tíðkast í lyfjaþróunarbransanum.

Svo er  nú það.

hér er linkur á fréttina.


Vel varinn maður - það er málið - dörtí víkend fyrir Vestan.

Sumir hafa þörf fyrir að hafa vit fyrir - öðrum og þá sérstaklega maka sínum. Svoleiðis er það oft á mínu heimili - yfirleitt fylgir útskýring að um sé að ræða væntumþykju. Konunni þyki bara svo vænt um mig að hún sé bara að gera það sem er mér fyrir bestu. En nú er ég búinn að fletta ofan af þessu svindlaríi. Málið er í raun ekkert flókið - ég er líklega bara svona einfaldur - ég trúi. Í mörg ár hefur mér ekki tekist að verða brúnn og frúin hefur alltaf sagt við mig að ég verði bara ekkert brúnn - og borið á mig varnarsmyrsl svo ég brenni nú ekki. Með þennan áburð í farteskinu höfum við ferðast til útlanda - til heitu landanna - margoft. Alltaf er hef ég verði smurður áburðinum góða - nú til að ég brenni ekki - og alltaf hef ég haldið mínum íslenska bleik-gráa tón. Það má segja að ég hafi ekkert verið að skipta lit - og bara haldið mínum "tóni". 

Í ljósi þessara staðreyndar - að ég skipti ekki lit - hef ég gjarnan verið til taks fyrir frúna. Hún hefur auðvitað tekið lit þar sem hún liggur og slakar á - nú af því að hún brennur ekki - verður brún. Og auðvitað fylgir slíkum sólbaðslegum gríðarlegur þorsti - hitinn er svo mikill. Og hvað er þá betra en að hafa ólitskiptan mann í skreppið - eða til að passa strákana. Já þetta hefur verið mér óskiljanlegt mál - en hvað veit ég - konan hefur jú vit fyrir mér -og ég brenn segir hún.

En nú gerist það að gróðurhúsaáhrifin koma Vestur og ský dregur vart fyrir sólu. Sumarhitinn er ljómandi og bleikur bregður á leik - kominn á stuttar buxur og ber að ofan. En auðvitað vandast málið - nú maður má náttúrlega ekki brenna - og konan ekki heima. Ég fór því alsendis óhræddur að gramsa í sólarolíuskápnum inni á baði - og komst að hinu sanna. Á flöskunni sem ég hef séð konuna nota við áburðinn stendur - protection number 60 - protection for all radiations - even in space. Hananú hvái ég. Jaháá - það er náttúrlega verið að gera sér leik að einfaldleika mínum - verið að halda mér bleikum svo hægt sé að nota mig til þjónustustarfa. Nei takk, nóg komið - gúdd bæ.

Ég hrifsaði til mín "Tropical sunoil number 0" - löðraði mig hátt og lágt og renndi mér fótskriðu eftir baðherbergisgólfinu út í sólina -  líkt og Skarphéðinn heitinn Njálsson forðum daga - út í garð og í sólbað. Olían svínvirkaði - sólin vermdi og ég fann hvernig litarefnin í húðinni tóku til starfa - súkkulaðilituð slikja fór að myndast. Þetta vakti eftirtekt í götunni - ekki af því að ég lægi eitthvað á glámbekk - nei - tropical olían var með sterkum kókóskeim - ilmandi góð. Svo vel höfðaði hún til flestra að yfir mér sveimaði flugnaský - mér leið eins og nýskitinni kúadellu - eitthvað svo lokkandi - en samt svo dörtí - svona eins og þau fyrir sunnan "dörtí víkend in blú lagún".

Og auðvitað leið ekki á löngu þar til maður var ávarpaður á ensku - svo dökkur varð ég.

Já að vera rétt löðraður gerir gæfumuninn. Nú er bara að fá sér gullkeðju og þá er sigurinn unninn.


Getuleysi Byggðastofnunar - orsökin: Fjárhagsleg gelding.

Já við landsbyggðarlýðurinn megum vera þakklát fyrir aðgang að hjálp - og ekki amalegt þegar til er heil stofnun með starfsfólki í vinnu með að markmiði að eins og segir á heimasíðu Byggðastofnunar:

"Hlutverk

Hlutverk Byggðastofnunar er að vinna að eflingu byggðar og atvinnulífs á landsbyggðinni. Stofnunin undirbýr, skipuleggur og fjármagnar verkefni og veitir lán með það að markmiði að treysta byggð, efla atvinnu og stuðla að nýsköpun í atvinnulífi. Byggðastofnun fylgist einnig með þróun byggðar í landinu.Byggðastofnun vinnur að stefnumótandi byggðaáætlun fyrir allt landið í samráði við iðnaðarráðherra. Í áætluninni skal gerð grein fyrir ástandi og horfum í þróun byggðar í landinu og lýsa markmiðum og stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum. Í samræmi við hlutverk stofnunarinnar veitir hún lán eða annan fjárhagslegan stuðning í því skyni meðal annars að bæta aðstöðu til búsetu í einstökum byggðarlögum og koma í veg fyrir að óæskileg byggðaröskun eigi sér stað eða að lífvænlegar byggðir fari í eyði.Byggðastofnun heyrir undir iðnaðarráðherra sem skipar sjö menn í stjórn stofnunarinnar til eins árs í senn"

Undirstrikanir eru mínar.  En hvað segir svo þegar heimasíðan er skoðuð? jú (http://www.byggdastofnun.is/default/page/fjarmognun_verkefna):

Fjármögnun verkefna Fjármögnun verkefna er þríþætt; lán, styrkir og hlutafé. Hvorki eru veittir styrkir né hlutafé á árinu 2007.

 Já svei mér þá - mikið er nú gott að vita af þessari ágætu stofnun. Er ekki kominn tími til að ríkið taki sig saman í andlitinu og veiti þessari stofnun það fjárhagsumhverfi sem þarf til að það geti sinnt sínu hlutverki.

það er mín skoðun.


Eru bloggarar nýju Neytendasamtökin? Tja mér virðist svo vera.....

Ég hefi á stundum verið að kvarta - kvabba - benda á og jafnvel bulla í blogginu mínu. Mér finnst það á stundum gaman - leiðinlegt og jafnvel fáránlegt. En það er sama hvaða skoðanir fólk hefur á slíkum skrifum - þau eiga fullkomlega rétt á sér - þegar skrifin eru sett fram á skynsaman og ósærandi hátt. Blogg er ekki til þess að vera vondur - nei blogg eiga að vera skrif réttlætis náungans - til frásagnar - fræðslu eða upplifunar fyrir lesandann.

Og nú bar svo við að sl. laugardag í Reykjavík komst ég hvergi inn á smurstöð eða bifreiðaverkstæði - allt lokað - sorrý. Fékk svo úrlausn á vandamálinu í Búðardal - þar sem ágætis piltur greiddi úr vandanum og ég fékk brosið á ný. Um þetta bloggaði ég. Og áhrifin láta ekki á sér standa - síminn hringdi í dag og á hinum enda ímyndaðrar línu var maður frá bifreiðafyrirtæki í Reykjavík sem hafði áhuga á að kynna fyrir mér og öðrum í sömu sporum úrlausnir sem þeir vinna að - það er vel.

Ekki er tímabært að nefna á nafn hver það var sem talaði enda lofaði hann að senda mér tölvupóst til frekari útskýringar sem ég mun auðvitað setja hér á síðuna.

Ég fagna þessu og hlakka til að fá tölvupóstinn sem ég veit að mun kynna bætta þjónustu við bifreiðaeigendur. Ekkert fundarstúss hjá Neytendasamtökunum - engar langar ákvarðanatökur - bara nota gömlu góðu íslensku aðferðina - leysa vandann - redda málinu og allir una glaðir við sitt.

Meira þegar pósturinn bers.


Þjónustulund landsbyggðarfólksins.

Mér finnst líkt og höfuðborgarsvæðið sé taka á sig mynd kvikindis sem kallað er amaba - og ekki nóg með að það gleypi í sig nærliggjandi bæjarfélög og missi sjálfstæði og verði að klaufalegum úthverfum - eiginlega ekki neitt annað en útskot úr borginni - einskonar spenar þar sem fólk á leið út úr og inn í borgina stoppar við til að sjúga í sig og bifreiðarnar orku.

Borgarnes er að virðist slíkt fyrirbæri - í það minnsta undarlegasta sjoppa landsins sem kallast Hyrnan - er einskonar millibilsástand á milli lélegrar matvöruverslunar og matsölustaðar sem er ofvaxinn sjoppa - já og þar beið ég með fjölskylduna næstum klukkutíma eftir að fá í hendurnar kjúklingabita - djúpsteikta úr gamalli feiti að smakkaðist og franskar með. Eins og nærri má geta fór þetta illa ofan í mig - svona þversum.

Svo ókum við sem leið lá Vestur.

En veðrið var fallegt - umferðin silaðist áfram og fólk var yfirfullt af tillitssemi og enginn asi - allir auðvitað að koma úr ferðalagi - flestir greinilega á leið á suðurhornið enda þar sem flestir búa - þökk sé dánarvottorðum landsbyggðarinnar - en við börðumst gegn straumnum og héldum sem leið lá um Dalina á leiðinni Vestur á firði. Já Dalirnir eru fallegir á þessum tíma árs - túnin iðagræn og rollur að stelast í slægjuna. Lífið eithvað svo greinilegt - svo nálægt manni að maður skilur ekki hvernig stendur á því að búskapur skuli eiga undir högg að sækja.

Og til að kóróna sumarkvöldið - slægjuna og ótrúlega fjallasýnina þá tók fulltrúi Búðardælinga á móti okkur - bifvélavirki á smurstöð staðarins - með opnum örmum. Ungi maðurinn hafði átt leið á verkstæðið - á sunnudegi - en þegar ég bar upp spurninguna hvort að hann gæti nokkuð aðstoðað mig við - nokkuð sem höfuðborgarbifvélavirkjarnir neituðu alfarið á laugardegi - þá hló hann og sagði "að sjálfsögðu geri ég það".

Já það var ekki skortur að þjónustulund þessa manns. Og aðstoðaði mig gerði hann svo sannarlega - sem þýddi að það sem eftirlifði ferðina Vestur þá ókum við fjölskyldan í rólegheitum - viss um að allt væri í himnalagi. það var vel.

Ég mæli svo sannarlega með góðri þjónustu þeirra Búðardælinga.


Þjónustudepurð á höfuðborgarsvæðinu.

Það er ekki auðvelt að vera utanbæjarmaður í Reykjavík. Ekki það að ég eigi hér um umferðarómenninguna sem auðvitað batnar ekkert þó bærinn fyllist af mislægum gatnamótum - ég er heldur ekkert að tala um stórkostlegar verslanir sem virðast eiga það eitt sameiginlegt að vera með útsölur sem sífellt fjölgar og teygist úr - skildi það tengjast óeðlilegri álagningu?

Nei ég er að tala um þjónustu sem ferðfólk þarf á að halda - en er því miður ekki til staðar. Í það minnsta gat starfsfólk 118 eða gulu línunnar ekki ráðið bót á vanda mínum - og vandinn var ekkert flókinn, mig vantaði einfaldlega að komast á smurstöð eða bílaverkstæði. Nokkuð sem mjög auðvelt aðgengi er að úti á landsbyggðinni - þar má m.a. sjá merkingar við sveitabæi þar sem boðið er upp á viðgerðarhjálp.

En hvað um það - ekki vantar auglýsingarnar frá N1 - Max 1 og hvað þetta heitir nú allt saman - "opið alla daga og laugardaga líka......" svo kemur maður á staðinn og þá stendur auðvitað "nema í júní ...júlí og ágúst"  ..... hm já - er það ekki sá tími ársins sem í það minnsta við landsbyggðarfólkið fáum flesta gesti - akandi. Ég er ansi hræddur um að landsbyggarðlýðurinn fengi gúmorren frá stórgrósserum Reykjavíkur ef ekki væri hægt að nálgast slíka þjónustu þegar þeir fara í laxinn - þ.e. þeir sem ennþá ferðast akandi - þyrlum fer víst fjölgandi.

En niðurstaðan er semsagt sú að aðgengi að smur- og viðgerðarþjónustu er ekkert - lélegt það.

og hana nú.


Minnkandi þorskveiði - efling rannsókna í þorskeldi. Gerum Vestfirði að miðstöð rannsókna í þorskeldi.

Í ljósi niðurskurðar í þorskkvóta sem kynntur var í morgun þá hafa verið gefnar út fjölmargar yfirlýsingar - bæði af hálfu stjórnvalda og einstaklinga í sjávarútveginum. Það sem er athyglisvert er að allir virðast sammála því að efla rannsóknir á lífríki sjávar og þorskeldi.

Rannsóknir í þorskeldi hafa verið stundaðar um árabil og miklum fjármunum hefur verið varið af fyrirtækjum í landinu á því sviði - sem dæmi má nefna HG í Hnífsdal líkt og forstjóri fyrirtækisins ræðir í viðtali við bb.is í dag.

Það sem etv. veldur mér þó dálitlum ugg í þessu sambandi er hve sterk ítök sjávarútvegsfyrirtæki hafa í þeim rannsóknasjóði sem helst styrkir þorskeldisrannsóknir - AVS rannsóknasjóðnum. Það er nefnilega forsenda góðra rannsókna að ekki sé um hagsmunapot að ræða - að rannsóknasjóðir geti á hlutlausan hátt veitt fjármagn í rannsóknir sem dæmast styrkhæfar af fagmönnum á viðkomandi sviði. Hinsvegar er ákaflega mikilvægt að samstarf ríki milli vísindamanna og hagsmunaaðila í þorskeldisiðnaðinum.

Á Íslandi ríkir sérstaða í þessu máli - sú sérstaða byggir á því að það eru helst fiskveiðifyrirtækin sem stunda þorskeldi - ekki sérstök eldisfyrirtæki líkt og í nágrannalöndunum. Kosturinn felst auðvitað í því að mikil reynsla og þekking á vinnslu og gæðum er innanborðs - sem er vísindamönnum mikilvæg og því samstarf dýrmætt. Hinsvegar eru það ekki forsendur þess að rannsóknum skuli stýrt af fyrirtækjunum - eða hvaða rannsóknum skuli veittur styrkur.

Sjávarútvegsráðherra verður að efla til muna AVS rannsóknasjóðinn - endurskipuleggja styrkveitingar og þau ferli sem umsóknir hljóta þar - í ljósi þeirrar stöðu sem iðnaðurinn er í og sjá til þess að ekki verði um hagsmunaárekstra að ræða. Að öðrum kosti verða rannsóknir í fiskeldi ekkert annað en athuganir sniðnar að hentugleika þeirra sem mest ítök hafa.

Á Vestfjörðum hafa þorskeldisaðilar og vísindamenn áttu gott samstarf um rannsóknir í þorskeldi í sjókvíum - sem athygli hefur vakið langt út fyrir svæðið og hafa m.a. erlendir þorskeldisaðilar gert sér ferð Vestur á firði til að kynna sér rannsóknir og leita eftir samstarfi. Í mínum huga er því ekki spurning að vagga þorskeldisrannsókna í sjókvíum er á Vestfjörðum - þar er aðstaðan, þekkingin og getan.

Ég skora því á Sjávarútvegsráðherrann að nota tækifærið og veita mun meira fé í rannsóknir í þorskeldi á Vestfjörðum. Að með þeim hætti verði styrkum stoðum skotið undir þá uppbyggingu sem þar hefur farið fram svo rísa megi glæsileg aðstaða til fjölbreyttra og mikilvægra rannsókna í þorskeldi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband