Þjónustulund landsbyggðarfólksins.

Mér finnst líkt og höfuðborgarsvæðið sé taka á sig mynd kvikindis sem kallað er amaba - og ekki nóg með að það gleypi í sig nærliggjandi bæjarfélög og missi sjálfstæði og verði að klaufalegum úthverfum - eiginlega ekki neitt annað en útskot úr borginni - einskonar spenar þar sem fólk á leið út úr og inn í borgina stoppar við til að sjúga í sig og bifreiðarnar orku.

Borgarnes er að virðist slíkt fyrirbæri - í það minnsta undarlegasta sjoppa landsins sem kallast Hyrnan - er einskonar millibilsástand á milli lélegrar matvöruverslunar og matsölustaðar sem er ofvaxinn sjoppa - já og þar beið ég með fjölskylduna næstum klukkutíma eftir að fá í hendurnar kjúklingabita - djúpsteikta úr gamalli feiti að smakkaðist og franskar með. Eins og nærri má geta fór þetta illa ofan í mig - svona þversum.

Svo ókum við sem leið lá Vestur.

En veðrið var fallegt - umferðin silaðist áfram og fólk var yfirfullt af tillitssemi og enginn asi - allir auðvitað að koma úr ferðalagi - flestir greinilega á leið á suðurhornið enda þar sem flestir búa - þökk sé dánarvottorðum landsbyggðarinnar - en við börðumst gegn straumnum og héldum sem leið lá um Dalina á leiðinni Vestur á firði. Já Dalirnir eru fallegir á þessum tíma árs - túnin iðagræn og rollur að stelast í slægjuna. Lífið eithvað svo greinilegt - svo nálægt manni að maður skilur ekki hvernig stendur á því að búskapur skuli eiga undir högg að sækja.

Og til að kóróna sumarkvöldið - slægjuna og ótrúlega fjallasýnina þá tók fulltrúi Búðardælinga á móti okkur - bifvélavirki á smurstöð staðarins - með opnum örmum. Ungi maðurinn hafði átt leið á verkstæðið - á sunnudegi - en þegar ég bar upp spurninguna hvort að hann gæti nokkuð aðstoðað mig við - nokkuð sem höfuðborgarbifvélavirkjarnir neituðu alfarið á laugardegi - þá hló hann og sagði "að sjálfsögðu geri ég það".

Já það var ekki skortur að þjónustulund þessa manns. Og aðstoðaði mig gerði hann svo sannarlega - sem þýddi að það sem eftirlifði ferðina Vestur þá ókum við fjölskyldan í rólegheitum - viss um að allt væri í himnalagi. það var vel.

Ég mæli svo sannarlega með góðri þjónustu þeirra Búðardælinga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

Þetta er akkúrat það sem landsbyggðin bíður upp á vinskap,hjálpsemi og mannlíf þar sem menn eru ekki bara kennitölur á blaði.

Einar Bragi Bragason., 8.7.2007 kl. 23:57

2 Smámynd: Sædís Ósk Harðardóttir

Það er þetta sem er sjarminn og notalegheitin við að búa úti á landi, hjálpsemi, vinátta og fallegt umhverfi.

Sædís Ósk Harðardóttir, 9.7.2007 kl. 09:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband