Föstudagur, 6. júlí 2007
Þetta hlýtur að skapa vandamál - ekki bara þjóðfélagsleg - heldur veiðitæknileg.
Og hér á ég við veiðitæknina. Með þeim veiðarfærum sem notuð eru er og verður vanamálið meðaflinn. Hvernig á að vernda þorsk þegar vitað er að hann er meðafli þegar verið er að veiða ýsu!
Nú hlýtur ráðherra að efla veiðarfærarannsóknir til muna - og allt sem snýr að fiski og fiskeldisrannsóknum. Við hér fyrir Vestan erum tilbúin að taka það verkefni.
![]() |
Þorskkvótinn verður 130 þúsund tonn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 6. júlí 2007
Ný uppgötvun í læknavísindum - erum við að hafa sigur í baráttunni við krabbamein?
Vísindamenn í Umea í Svíþjóð birtu nýja uppgötvun í nýjasta hefti tímaritsins Science. Hér er um gríðarlega mikilvæga uppgötvun að ræða sem m.a. getur haft í för með sér að ráðgátan um hvað veldur stökkbreytingum í frumum sem leiða af sér krabbamein.
Þessi uppgötvun þýðir á mannamáli að skilningur á því hvernig DNA (erfðaefnið) afritast - þ.e. býr til nýtt DNA sem er nákvæm eftirmynd. Lengi hefur verið vitað að ákveðið ensím (ensím er hvati sem örvar efnahvörf frumanna) hvetur afritun annars tveggja strengjanna sem mynda DNA - en þá er bara hálf sagan sögð því vísindamenn hafa ekki verið sammála um hvaða ensím hvetur afritun hins strengsins. En nú eru vísindamennirnir semsagt búnir að komast að þessum mikilvægu upplýsingum - ensímið er fundið og skilgreint. Fékk það fína nafn polymerasi Ypsilon.....hitt heitir jú polymerasi delta.
En hvaða máli skiptir þetta? Jú, þetta ensím er ekki aðeins nauðsynlegt til að mynda nýtt DNA - heldur er hér um að ræða ensím sem tekur þátt í að lagfæra skemmt DNA. Þetta þýðir því að skilningur á því hvað veldur stökkbreytingum sem síðar leiða til krabbameins eykst til muna - og verður til þess að hægt verður að þróa mun öflugri krabbameinslyf - lyf sem stöðva vöxt krabbameinsfruma.
Já þetta er ákaflega ánægjuleg tíðindi og ég sofna í nótt með þá von að þetta muni skila sér fljótt til okkar.
Fimmtudagur, 5. júlí 2007
Í ljósblárri stuttermaskyrtu, drapplitum kakíbuxum og dönskum lakkskóm að skoða olíuhreinsistöðvar. Hópferð Vestfirskra sveitarstjórnarmanna.
Ég hef alltaf haft gaman af því þegar íslenskir sveitarstjórnarmenn fara í hópum út um heim að skoða. Óborganlegar ferðir sem auðvitað skila engu öðru en sólbrúnku, timburmönnum og dagpeningum í vasann.
Nú er hópurinn haldinn af stað - út í heim. Nú á að skoða olíuhreinsistöðvar - berja dýrðina með eigin augum - sannfærast af hreinleikanum og grænu svæðunum allt um kring. Allir í nýjum fötum - glansandi dönsku lakkskórnir virðast mattir samanborið við glæsilega strompa og glitrandi rör og pípur. Engin mengunarlykt nema kaupstaðarlyktin af sveitamönnunum sem hafa aldrei áður séð annað eins. Slá sér á lær og hvá. Sumt er auðvitað eins og heima - eða líkt og maðurinn sagði í sinni fyrstu ferð til útlanda "þetta er alveg eins og heima - bara öðruvísi".
Og ég spyr: Hverju á þessi ferð að skila? Mér vitanlega er enginn sérfræðingur með í ferðinni - enginn til að leggja faglegt mat á það sem fyrir augum ber - ENGINN.
Ég hef verið því fylgjandi að rannsaka þá möguleika að hefja slíka vinnslu hér - RANNSAKA. Það þýðir auðvitað ekki að ég ætli sjálfur að leigja mér spóluna með Steven Seagall þar sem hann berst við glæpona í olíuhreinsistöð í Alaska - nei það þýðir að fá til þess bæra einstaklinga - sem kunna að vega og meta - matreiða niðurstöður fyrir sveitarstjórnarmennina sem eru í þessum orðum skrifuðum í stuttermaskyrtum og kakíbuxum að skoða olíuhreinsistöðvar í útlöndum. Fá fram faglegt mat sem hægt er að vinna eftir. Ég veit að það er markmið þeirra sem kynntu þetta fyrir Vestfirðingum - þeir vilja vinna þetta fyrir opnum tjöldum.
Til að leggja okkar af mörkum þá höfðum við Ólína Þorvarðardóttir, sem sitjum í stjórn Vestfjarða akademíunnar, samband við fagaðila í olíuiðnaðinum í því markmiði að fá þá hingað til að ræða um málið - á ólhlutdrægan hátt. Niðurstaðan var sú að við vorum búin að fá jákvætt svar frá þessum aðilum - og svarið fylgir hér með.
Ég tel að í stað tilgangslausra ferða til útlanda - nokkuð sem er úrelt fyrirbæri og marklaust að mínum dómi þá væri nær að vera með opinn fund fyrir íbúa svæðisins - enda hefur bæjarstjórinn gefið út þá Hafnfirsku yfirlýsingu að um íbúakosningu verði að ræða. Nokkurskonar "Hafnafjarðaheilkenni" - guð forði mér frá því að taka óupplýstur ákvörðun af þessu mikilvægi.
Hér kemur afrit af tölvupósti frá Hafsteini Ágústssyni olíuverkfræðingi hjá Statoil:
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Miðvikudagur, 4. júlí 2007
Af hetju.
Nú þegar veðurkortin hafa sýnt heiðríkju og veðursæld má ætla að lífið leiki við okkur flest. Það er á slíkum dögum sem við gleymum þeim sem glíma við vandamál og sjúkdóma. Ég hefði verið einn af þeim ef ekki væri fyrir að minn góði vinur Kristján er að berjast fyrir lífi sínu - með eina ráðinu sem hann kann - lífsviljanum. Hann er líklegast ekkert frábrugðinn öðrum í svipuðum aðstæðum - en hann er frábrugðinn okkur sem höfum heilsu því að hann veit að hver dagur gjöf sem við eigum að fara vel með.
Í gærkveldi þegar ég heimsótti Kristján lá hann fyrir, enda kraftar litlir. Ekki var um annað að ræða en að fá hann lagðan inn á spítala til að aðstoða hann við að koma sér út úr þeim vítahring sem listarleysi og þreyta er - ekki skrítið eftir erfiðar geislameðferðir og lyfjainntöku.
Fyrir mér er hann hetja að gefast ekki upp. Fyrir honum er það ekki valkostur - lífið er það eina sem gildir. Það voru því blendnar tilfinningar fyrir hann og þá sem honum standa næst þegar sjúkrabíllinn sótti vin minn í gærkveldi til að flytja á sjúkrahúsið á Ísafirði.
Og auðvitað mætti mér brosandi maður á sjúkraherberginu í hádeginu í dag þegar ég leit við. Kristján orðinn sjálfum sér líkur - að vísu veikburða en brosandi og glettinn. Hvílíkur léttir - hvílík gleði - ég fann til þakklætis og ánægju að sjá hve hálfur sólarhringur í réttum höndum fagfólks hafði skilað sér. Og í fyrsta sinn þær tvær vikur frá því að hann kom Vestur eftir erfiða geislameðferð skelltum við okkur út í góða veðrið og í bíltúr. Ánægjuleg samvera og ekki síður þegar við óvænt litum í heimsókn til góðra vina Kristjáns - þá var ekki laust við að tár sæist á hvarmi. Til þess eru vinir.
Já - það er eitthvað svo miklu ánægjulegra að upplifa sumarið þegar maður veit að þeir sem eiga um sárt að binda sjá loks sólina - sólina sem við hin tökum yfirleitt sem sjálfsögðum hlut.
Kristján er búinn að sína af sér meiri hetjuskap en ég hef áður kynnst og það eru sönn forréttindi að eiga slíkan vin.
Hann er hetja.
Þriðjudagur, 3. júlí 2007
Grásleppufeðgar.
Það eru ljómandi góðir feðgar á Ísafirði og ýmislegt gera þeir sér til dundurs. Ég kýs að kalla þá grásleppufeðga - þeir keyptu sér nefnilega bát um daginn og hugsuðu sér gott til glóðarinnar. Nú átti að fylla tunnur af dýrindis hrognum - verða vellauðugir útgerðarmenn. Auður er málið eins og maður les í blöðunum - enginn er maður með mönnum í dag nema að geta selt hlut uppá milljarða.
Ég átti svo leið um Óshlíð í kvöld. Sólin lék við hafsflötinn og Grænahlíðin og Riturinn risu hátt við gylltan sjóndeildarhringinn. Stórkostlegt veðrið og Óshlíðin græn og blá af lúpínu. Það var eitthvað svo dásamlegt við þetta allt saman. Ég stöðvaði bifreiðina úti í vegkanti - steig út og opnaði skottið fyrir Sölku. Salvör Valgerður nafna hennar hefur líklegast ekki séð sjávarplássið Bolungarvík í sama ljóma - ef það er þá sögusviðið í Sölku Völku. En hvað um það - Salka stakk sér niður í flæðarmálið og öldurnar skullu á ströndinni taktfast af stóískri ró. Innlögnin var hverfa - það var að lygna.
Rétt undan ströndinni voru þeir feðgar að draga net - grásleppunet sem þeir höfðu lagt undir hlíðinni. Í rauðum göllunum voru þeir tignarlegir á dekkinu. Ég tók upp kíkinn og mundaði - aflinn var að mér sýndist ekki mikill - grásleppa og skötuselur í bland. Þetta var skemmtileg sjón - feðgar að draga fisk úr sjó í veðri sem passar landslaginu svo vel fyrir Vestan. Ég fékk vatn í munninn við tilhugsunina um grillaðan skötusel - fátt betra. Yndislegt á sumarkveldi.
Já í öllu tali um meðafla - niðurskurð og brottkast er gaman að sjá grásleppukarla við vinnu - draga net og björg í bú - engu kastað.
Hvað verður um þorskinn sem kemur með í trollunum þegar ýsan - ufsinn og steinbíturinn er veiddur - þorskurinn sem verið er að vernda. Kemur hann í land eða verður honum kastað? Er hægt að vernda eina tegund en ekki aðra - þegar veiðarfærin gera vart upp á milli tegundanna?
tja, ekki veit ég - ég er ekki fiskifræðingur.
Þriðjudagur, 3. júlí 2007
Er einhver sýnilegur hluti Pamelu orðinn fertugur?
Ytra byrðið - húðin - endurnýjast hratt. Restin af sýnilegum líkama Pamelu er keyptur. Já lífið hjá stjörnunum er stórkostlegt og Tommy geislaði af skarpleika þegar hann dæmdi í keppninni hjá Borgfirðingnum Eystri.
Svo er nú það.
![]() |
Pamela Anderson fertug |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 2. júlí 2007
Fréttastofa Stöðvar 2 lengi að taka við sér - en vaknaði þó!
Loksins lásu fréttamenn Stöðvar 2 bloggið mitt um verðmun á flatskjám í Svíþjóð og Íslandi. Loksins.
Hér er bloggið http://tolliagustar.blog.is/blog/tolliagustar/entry/183932/
Glæsileg vinnubrögð. En ég spyr - af hverju eru Neytendasamtökin ekki að vinna í málinu?? tja ég spyr. Skyldi vera að Neytendasamtökin íslensku séu gjörsamlega geld og mátlaus með öllu?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Föstudagur, 29. júní 2007
Glæfralegur akstur bíls frá STRANDAFRAKT í Hólmavík veldur stórtjóni og setur fólk í lífshættu. Gefum svona kónum "time out".
Í gær las ég það í fréttum að Sniglarnir hafi rekið einn af sínum félögum fyrir glæfraakstur. Það er vel. Nú gerist það í dag að eigandi og bílstjóri Strandafraktar í Hólmavík ekur flutningabíl sínum með þeim hætti að hann setur bílstjóra í tveim bílum í bráða lífshættu og veldur milljóna tjóni á bifreiðum. Já og til að bæta gráu ofan á svart þá stakk hann af - líkt og ótýndur glæpamaður sem flýr af vettvangi.
Já þetta var ömurlegur endir á stuttu ferðalagi foreldra minna - fólks sem komið er á eftirlaun og hafði notið veðurblíðunnar á suðurlandi í fellihýsinu sínu - sem þau hafa yndi af að draga landshorna á milli.
Á norðurleiðinni óku þau sem leið lá Borgarfjörðinn - þó nokkur umferð var enda föstudagur. Skyndilega taka þau eftir því að upp að hlið þeirra mjakast flutningabíll með tengivagn sem þrátt fyrir að foreldrar mínir væru á um 80 km hraða taldi sig þurfa að komast fram úr - algjört dómgreindarleysi og hálfvitaskapur - það er ljóst. Auðvitað mátti búast við bifreið á móti - sem og gerðist því skyndilega sveigir flutningabíllinn fyrir foreldra mína og þvingar þau út í vegkantinn. Með snarræði nær móðir mín að koma bílnum upp á veg aftur en með þeim afleiðingum að fellihýsið snýst á veginum og bifreið úr gagnstæðri átt lendir auðvitað á fellihýsinu. Mikil mildi varð að ekki varð slys á fólki en bíll og fellihýsi gjöreyðilögðust.
En bílstjóri flutningabílsins lét sig hverfa.
Af þessum ósköpum voru vitni sem gefið hafa skýrslu til lögreglu. En bifreiðastjórinn hafði leikið þann leik skömmu áður að fara glæfralega fram úr fólksbifreiðum á leið sinni til Hólmavíkur - væntanlega.
ER EKKI NÓG KOMIÐ AF SLÍKUM LÚÐUM Á VEGUM LANDSINS - ER EKKI KOMINN TÍMI Á AÐ FETA Í FÓTSPOR SNIGLANNA OG REKA ÞESSA MENN ÚR FÉLAGSSKAPNUM. SNIÐGÖNGUM FYRIRTÆKI AF ÞESSARI TEGUND SEM ERU LÍFSHÆTTULEGIR Í UMFERÐINNI.
ÞAÐ MUN ÉG GERA - OG SEM MEIRA ER ÉG MUN AÐ SJÁLFSÖGÐU FYLGJAST MEÐ NIÐURSTÖÐU ÞESSA MÁLS OG GERA MITT TIL AÐ ÖKUMAÐURINN FÁ "TIME OUT".
Fimmtudagur, 21. júní 2007
Hvar er Fjalla Eyvindur þegar við þörfnumst hans mest.
Fjölskyldan var búin að ákveða fyrir margt löngu að fara norður til Akureyrar um sl. helgi - konan ætlaði að halda upp á 20 ára stúdents afmæli frá MA - skemmta sér ærlega og rifja upp gamla tíma - vel það.
Til að gera bílferðina skemmtilega var búið að plana stopp á leiðinni - fara út fyrir þjóðveginn og skoða staði sem við annars höfðum aðeins séð nöfnin á - á skiltum við þjóðvegi númer eitt. Vorum sem sagt ekkert að flýta okkur og gáfum okkur tíma. Aðal stoppstaðurinn og þar sem við vorum búin að ákveða að snæða kvöldverði úti í náttúrunni var við stað sem við líkt og flestir íslendingar höfum ekið framhjá án þess að svo mikið sem hægja á okkur - Borgarvirki í Vesturhópi - skammt frá Blönduósi.
Veðrið var fremur leiðinlegt - rigning á köflum og okkur leist svosem ekkert sérstaklega vel á það að sitja úti og borða ljúffengt nestið. En þegar við komum í Hópið þá auðvitað glennti sólin sig og bauð okkur velkomin - bjartviðri - hlýtt og notalegt. Við brunuðum sem leið lá í átt að Borgarvirkinu - staðnum sem engar heimildir eru til um tilurð á en prófessor Haraldur Bessason tjáði föður mínum að hann teldi einna helst að þetta væri frá tímum Tyrkjaránsins - en fólk var hrætt á þeim tíma og vildi verjast - fróðlegt væri ef einhver lumaði á frekari skýringum.
Þegar við komum upp að Borgarvirkinu - hálf manngerðu virki sem stendur á hæsta hólnum í Hópinu var útsýnið gríðarlegt - stórkostlegt. Þýskur ferðabíll - búinn öllum þægindum stóð við staðinn þar sem búið var að koma upp borði fyrir fólk eins og okkur að borða nesti - og við því auðvitað ekkert að segja. En þegar við nálguðumst þá varð okkur ljóst að ekki var um fólk að ræða sem ætlaði að borða sitt nesti og halda svo áfram ferðinni - nei ekki aldeilis - hér var um þýska ferðamenn að ræða sem auðvitað nýttu sér ókeypis aðstöðu og voru búnir að planta sér þarna niður og ætluðu að dvelja um nóttina - voru búin að koma sér þægilega fyrir á stoppstaðnum - og sátu og drukku bjór - við nestisborðið.
Mikið er það leiðinlegt að fólk sem aldrei myndi gera slíkt hið sama í sínu heimalandi - skuli ekki kunna að virða þær reglur sem gilda - svona svæði eru ekki tjaldstæði - nei, þetta eru staðir til að stoppa á - njóta útivistar og halda svo sína leið. Og þetta var ekki eina tilfellið í þessari ferð - nei ekki aldeilis - á mörgum sambærilegum stöðum stóðu ekki bara einn heldur á stundum margir erlendir ferðabílar.
Er ekki kominn tími til að setja upp skilti til að benda fólki á þetta. Í heimalandi þessa fólks myndi enginn gera þetta - einfaldlega af því að það er ekki öruggt - ræningjar og þaðan af verri lýður rænir nefnilega svona fólk.
Já hvar Fjalla Eyvindur þegar maður þarf á honum að halda - gerum fólkinu grein fyrir að íslenskir útilegumenn séu á sveimi og enginn vill verða á þeirra vegi......né stoppstað.
Miðvikudagur, 20. júní 2007
Lokun aldrei auglýst - sjómaður í fullum rétti!
![]() |
Staðnir að ólöglegum veiðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |