Kórstýrurnar kunna sitt fag.

Líklegast verða foreldrar mínir að teljast daprir fjárfestar. Ekki það að þau hafi fjárfest í bönkunum eða díkód - nei ekki aldeilis. En lélega fjárfestu þau samt - og það kemur æ betur í ljós.

Mamma og pabbi sendu mig nefnilega í dansskóla. Og það margoft - að mig minnir. Í gamla Allanum á Akureyri. Þar mætti maður á sínum terlínbuxum og spánýjum lakkskóm og þóttist vera að læra að dansa.

Svo kemur bara í ljós að ég virðist ekkert hafa lært að dansa. Lét bara eins og fífl í dansskólanum - tók ekki eftir neinu og man rétt eftir einhverju sem kallað var "hliðar saman hliðar".

Bara að ég hefði nú kunnað betur með þessa fjárfestingu foreldra minna að fara. En ég hegðaði mér eins og bankastjórar nútímans - lét eins og fífl og er svo með allt niður um mig á dansgólfinu. Konan löngu hætt að nenna að tjónka við mér og trúir mér þegar ég segi "nei elskan - ég nenni ekki að dansa".

En í kvöld komst ég í hann krappann. Fór í Edinborgarhúsið í saltfiskveislu Byggðasafns Vestfjarða. Ágætis kvöld - meðalaldurinn dálítið í takt við titilinn á veisluhaldaranum - svona safnaútlit á fólki. En hvað um það - ég glerfínn á lakkskóm líkt og forðum.

Sat auðvitað mest við borðið og spjallaði gáfulega um daginn og veginn við þá sem nenntu við mig að ræða. Við og við spurði frúin hvort ég vildi taka snúning en ég veifaði því frá mér og sagðist ekki kunna að dansa. Sagði bara nei.

En ekki var Adam lengi í paradís - frekar en Björgólfur í icesave. Aðvífandi kom fyrri af tveimur kórstjórum bæjarins sem kann að telja í taktinn og tók ekkert mark á mér þegar ég sagði nei. Svona konur láta ekkert lærling eins og mig segja sér fyrir verkum og á dansgólfið var ég drifinn. Svo taldi hún í - og ég fylgdi. Og það var eins og við manninn mælt - hræðslan og hlýðnin var slík að ég sveif um gólfið líkt íslenska krónan í fljótandi gengi. Að mér fannst í það minnsta - man voða lítið eftir laginu - fannst það hljóma mest sem "1,2...1,2,3...koma svo".

Það var þreyttur og nokkuð sáttur maður sem settist við borðið aftur. Dró djúpt andann og vonaði að enginn hefði slasast - maður sveiflaðist jú töluvert.

Og viti menn - þá birtist hinn kórstjórinn - eða kórstýran. Og það var eins og við manninn mælt - ég var skyndilega kominn í slíka sveiflu að við lá að maður yrði að skjóta á sig sjóveikistöflu......

Já - það gaf á bátinn í salfiskveislunni. Stórkostleg upplifun og mér líður sem aðeins eitt lag hafi verið sungið undir suðrænni sveiflu ...1,2....1,2,3...og koma svo!!

Já kórstýrurnar kunna sitt fag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjördís Þráinsdóttir

Það eru nú fleiri en tveir kórstjórar í bænum, er það ekki? Sunnukórstjórinn, Valkyrju-kórstjórinn, Kammerkórstjórinn, karlakórstjórinn, kirkjukórstjórinn...

Voða leiðinlegt komment hjá mér, e.t.v., en skemmtilegt blogg engu að síður.

Hjördís Þráinsdóttir, 5.7.2009 kl. 02:47

2 identicon

Flott og skemmtilet blogg hjá þér. Konur eru góðar að stjórna ykkur körlunum. En afhverju varstu að láta undan kórstjórunum, en ekki þinni konu? Vonandi hefur þú tekið snúning við hana á eftir stjórunum. En hvað um það þetta fannst mér góð saga um fjárfestingu, og maður brosir út í annað og rifjar upp sína eigin danskennslu.

inga (IP-tala skráð) 5.7.2009 kl. 13:05

3 Smámynd: Þorleifur Ágústsson

hahaha...jújú - nú verður fólk að giska hvaða stýrur þetta voru

Þorleifur Ágústsson, 5.7.2009 kl. 14:08

4 identicon

Þarf ég sem sagt að stofna kór til að geta dansað við manninn minn? Nei nú verður bætt úr þessu sluksi forðum daga hjá Heiðari Ástvalds, við mætum hjá Evu í vetur og svo dansarðu við MIG á næstu saltfiskveislu!!! 

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 5.7.2009 kl. 14:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband