Vinur.

Á lífsleiðinni kynnist maður mörgum. Oft er það svo að þeir sem maður kynnist fyrst og eyðir uppvextinum í samneiti við eru þeir sem maður kallar bestu vini sína. Það er auðvitað í mörgum tilfellum rétt. En á stundum kynnist maður einhverjum sem maður tengir vel við og úr verður vinskapur sem þrátt fyrir tiltölulega stutt kynni er djúpstæður.

Kristján vinur minn er slíkur vinur. Við kynntumst hér fyrir Vestan og höfum haft mikil samskipti æ síðan. Það eru ekki margir sem eru gæddir þeim hæfileika að láta sig aðra varða - hag þeirra og heilsu. Kristján er einn af þeim. Af þeim sökum finnst mér gott að geta kallað hann vin minn. Vin sem hefur reynst mér vel.

Mig langar að deila með ykkur einstökum manni sem glímir við erfiðleika sem maður vill engum manni þurfa að upplifa  - og það gerir hann af æðruleysi og einstökum lífsvilja - enda einstakur maður.

Ég hef í nokkrum bloggum minnst á að hann Kristján  sem greindist fyrir að verða ári síðan með illkynja heilaæxli. Á þeim tíma sem liðinn er hefur Kristján vinur minn gengið í gegnum erfiðari meðferðir og aðgerðir en nokkur á að þurfa að gera - aldrei. Sá styrkur og það æðruleysi sem Kristján hefur sýnt á þessum erfiðu tímum er mér óskiljanlegt.

Aldrei bíður hann svo góðan daginn án þess að spyrja um leið hvernig ég og fjölskyldan höfum það - aldrei kvartar hann þó á stundum sé heilsan svo slæm að hann getur vart reist höfuð frá kodda - óskapleg þreyta og sjónin léleg. Aldrei. Kristján er bara ekki þannig gerður - fyrir honum er það mikilvægt að fólk hafi það gott - að ekkert ami að og mér er það minnisstætt nú fyrir skemmstu er ég sat á sjúkrabeði Kristjáns og hann sagði við mig "Tolli, ef það er eitthvað sem ég get gert fyrir þig láttu mig þá vita". Já svona er Kristján og ég er stoltur að þekkja hann.

Í dag keyrði ég hann á spítalann en honum fannst ómögulegt að vera að ræsa út sjúkrabíl - svo mikið vesen. Ég á ekki von á öðru en ég þurfi að keyra hann heim aftur - kannski ekki á morgun en vonandi fljótlega. Og það mun ég svo sannarlega gera með bros á vör því Kristján ætlar sér að kenna mér að kasta flugu - og ég verð að láta hann standa við það loforð!

Fyrir mér er Kristján holdgerfingur góðs vinar - vinar sem ég bið að fái að komast heim sem fyrst í faðm fjölskyldunnar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Það er Guðsþakkarvert, ða fá að upplifa vináttu.

Vináttu sem ekki þarf að skýra.

Vináttu sem ekki þarf orð.

Þegar ekki þarf að ljúka setningu, -vinurinn veit niðurlagið.

Þegar, eftir langa fjarvistir (mislangar í tíma), verður allt sem áður, á þeirri stund sem þið hittist, -oftast án orða.

Vinur sem gott er að þegja með.

ÞAkkaðu Forsjóninni.

Mðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 24.7.2007 kl. 08:58

2 identicon

Falleg færsla um fallegt hugtak. Vináttan er ómetanleg, ósýnileg en meðvituð. 

Ég óska Kristjáni alls hins besta, og samgleðst ykkur báðum fyrir að eiga hvorn annann að.  

Guðrún B. (IP-tala skráð) 24.7.2007 kl. 11:47

3 identicon

Falleg skrif og þörf. Við gleymum því stundum að þakka þá vináttu sem við eigum og höfum, hún er ekki sjálgefin og hana ber að þakka. 

Vinir eru mjög sjaldgæfir dýrgripir. Bestu vinir eru þeir sem að þú getur setið með, án þess að segja orð, og svo gengið i burtu og fundist sem að þú hafir aldrei átt betri samræður

Linda Ósk Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 24.7.2007 kl. 13:54

4 Smámynd: Sigríður Sigurðardóttir

  Vinur þinn er þér allt.

  Hann er akur sálarinnar, þar sem samúð

  þinni er sáð og gleði þín uppskorin.

  Hann er brauð þitt og arineldur.

  Þú kemur til hans svangur og í leit af friði

                                 Spámaðurinn

                                  (Kahlil Gibran)

  Komu þessi fallegu orð úr Spámanninum mér í hug, þegar ég las pistilinn þinn.

  Kveðja S.

Sigríður Sigurðardóttir, 24.7.2007 kl. 16:29

5 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Virkilega falleg færsla...

Gunnar Helgi Eysteinsson, 24.7.2007 kl. 19:39

6 Smámynd: Guðrún Stella Gissurardóttir

Sendi hlýjar hugsanir til ykkar vinanna - Kv. G. Stella

Guðrún Stella Gissurardóttir, 24.7.2007 kl. 22:12

7 Smámynd: Þorleifur Ágústsson

Takk fyrir inlegg. Þetta eru erfiðir tímar og ekki síst fyrir fjölskyldu Kristjáns.

Þorleifur Ágústsson, 24.7.2007 kl. 22:32

8 Smámynd: Annetta Rut Kristjánsdóttir

Þegar mest á reynir sér maður hverjir vinir manns eru.

Hann pabbi á hér góðan vin

Annetta Rut Kristjánsdóttir, 25.7.2007 kl. 01:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband